Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Það er að mörgu að huga þegar kemur að því að byggja upp og viðhalda góðum áfangastað. Hér eru nokkur verkfæri sem hægt er að glugga í þegar unnið er að undirbúningi, skipulagi og uppbyggingu staða.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða

Hlutverk sjóðsins

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða er í vörslu Ferðamálastofu. Samkvæmt lögum nr. 75/2011 um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða er markmið og hlutverk sjóðsins að stuðla að uppbyggingu, viðhaldi og verndun ferðamannastaða og ferðamannaleiða um land allt og styðja með því við þróun ferðaþjónustu sem mikilvægrar og sjálfbærrar stoðar í íslensku atvinnulífi. Það er jafnframt markmið sjóðsins að stuðla að jafnari dreifingu ferðamanna um landið og styðja við svæðisbundna þróun.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða fjármagnar framkvæmdir á ferðamannastöðum og ferðamannaleiðum í eigu eða umsjón sveitarfélaga og einkaaðila. Heimilt er að fjármagna framkvæmdir sem snúa að öryggi ferðamanna, náttúruvernd og uppbyggingu, viðhaldi og vernd mannvirkja.

Upplýsingasíða um umsóknir

Á henni má finna upplýsingar um hvenær umsóknarfrestur er hverju sinni, hvaða verkefni eru styrkhæf, hlekk á umsóknareyðublað og ýmsar aðrar ábendingar til umsækjenda.

Næsti umsóknarfrestur er frá 27. september til kl. 13 þriðjudaginn 26. október 2021.

Varða - Merkisstaðir Íslands - heildstæð nálgun áfangastaðastjórnunar

Varða er samstarfsverkefni á vegum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Vörður eru merkisstaðir á Íslandi sem teljast einstakir á lands- eða heimsvísu. Meginaðdráttarafl þeirra eru náttúrufyrirbæri og/eða menningarsögulegar minjar sem mynda sérstætt landslag eða landslagsheildir.

Vörður eru vel þekktar og eru hluti af ímynd landsins. Þær eru fjölsóttir áfangastaðir sem ferðamenn sækja allt árið um kring. Við umsjón þeirra er unnið að sjálfbærni á öllum sviðum, umhverfislegri, samfélagslegri og efnahagslegri. Staðirnir þurfa að sýna fram á langtímaskuldbindingu til þess að framfylgja skilgreindum viðmiðum við stjórnun og skipulagningu m.a. hvað varðar hönnun innviða, aðgengi, fræðslu, öryggi, álagsstýringu, stafræna innviði o.fl.

Fyrstu áfangastaðirnir sem eru í ferli til að verða Vörður eru Þingvallaþjóðgarður, Geysir, Gullfoss og Jökulsárlón.

Þessir staðir eiga það sameiginlegt að vera í eigu og umsjá ríkisins. Stefnt er að því að á árinu 2022 verði opnað á að fleiri staðir um landið m.a. í eigu einkaaðila geti sótt um aðild að kerfinu.

Hér má skoða stefnuskjal Vörðu

Í september 2021 voru haldnar vinnustofur um þessa fjóra áfangastaði þar sem franskir ráðgjafar verkefnisins heimsóttu staðina ásamt fulltrúum ráðuneytanna, umsjónaraðilum staðanna og öðrum hagsmunaaðilum. Markmið vinnustofanna var að máta áfangastaðina við hugmyndafræði og viðmið Vörðu og að fá utanaðkomandi álit ráðgjafanna á ástand og þróun staðanna með hliðsjón af reynslunni í Frakklandi (í Grand Sites de France).

Niðurstöður og tillögur ráðgjafanna eru nú aðgengilegar á vef stjórnarráðsins.

Ýmislegt efni sem getur komið að gagni við undirbúning, skipulag og uppbyggingu áfangastaða