Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Afþreying fyrir fjölskylduna

Í Rangárþingi ytra er ýmislegt að gera fyrir alla fjölskylduna og hægt er að finna eitthvað áhugavert fyrir alla aldurshópa. Til að mynda er hægt að bjóða fjölskyldunni á hestbak, kíkja á ærslabelginn og í frisbígolf á Hellu í góðu veðri, bóka golfhring á Strandarvelli, njóta hálendisins á sumrin, skella sér í sund og svo mætti lengi telja.

Áhugaverðir staðir og afþreying

Hjá Icelandic Horse World á Skeiðvöllum er boðið upp á fjölbreytta afþreyingu sem sannir áhugamenn um íslenska hestinn mega alls ekki láta framhjá sér fara. Á Keldum á Rangárvöllum er elsti torfbær á Íslandi og þar má skoða áhugaverða sýningu yfir sumartímann, frá 1. júní til 31. ágúst. Fjölskylduhátíðin Töðugjöld eru haldin þriðju helgina í ágúst ár hvert á Hellu og þar er margt við að vera fyrir fólk á öllum aldri.

Sundlaugar

Sundlaugarnar á Íslandi eru mikil perla sem hefur verið okkur heilsubót í áratugi. Í Rangárþingi ytra eru tvær sundlaugar sem gott er að heimsækja til að hvíla lúin bein eftir erfiðan ferðadag og leyfa börnunum að leika sér í heilsusamlegu vatninu. Laugarnar eru staðsettar á Hellu og að Laugalandi í Holtum.

Sundlaugin Hellu
Sundlaugin á Hellu er 25 x 11 metrar og er lögleg sem keppnislaug. Við laugina eru 5 heitir pottar; 1 nuddpottur, 2 heitir pottar og 2 vaðlaugar. Við laugina eru einnig 3 rennibrautir; 2 stórar og 1 lítil. Eimbað er við laugina. Sundlaugin er sambyggð við íþróttahúsið og myndar skemmtilega heild fyrir margvíslegar íþróttagreinar.
Sundlaugin Laugalandi
Sundlaugin að Laugalandi er 8x16 m. Við sundlaugina eru tveir heitir pottar og rennibraut.  Opnunartímar eru á vefsíðu.