Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Bestu jarðhitasvæðin á Suðurlandi.

Kerlingarfjöll
Stórbrotinn og svipfagur fjallaklasi, um 150 km², suðvestan undir Hofsjökli. Draga þau nafn af drang einum miklum og dökkum, úr móbergi, um 25 m háum, sem Kerling heitir og stendur upp úr ljósri líparítskriðu sunnan í Tindi (Kerlingartindi) í vestanverðum fjöllunum. Björn Gunnlaugsson kallar Kerlingarfjöll Illviðrahnjúka en það nafn er nú gleymt, hafi það nokkurn tíma orðið fast við þau. Tindar Kerlingarfjalla eru um 800-1500 m y.s. og rísa furðubrattir upp af 600-700 m hásléttu. Fjöllin eru mjög mótuð af sprungum og meginstefna þeirra er frá norðaustri til suðvesturs en í þeim norðanverðum er þó þver sprungustefna, frá suðaustri til norðvesturs. Kalla má að Kerlingarfjöllum sé deilt í tvennt af Hveradölum sem ganga inn í fjöllin frá vestri. Norðaustan við Hveradali heita Austurfjöll. Þau eru hæsti og hrikalegasti hluti Kerlingarfjalla og þar eru hæstu tindar þeirra, Snækollur (1482 m y.s.) og Loðmundur (1429 m y.s.). Kerlingarfjöll eru að langmestu leyti úr líparíti, ljósbrúnu að lit, en randfjöll þeirra úr móbergi. Víða er hrafntinna. Talið er að þau hafi orðið til á síðari hluta ísaldar. Jarðhiti er geysimikill í Kerlingarfjöllum, mestur í Hveradölum en einnig er jarðhiti í austanverðum Botnafjöllum og í Hverabotni suðaustan undir Mæni. Jöklar eru allmargir í skörðum og slökkum í um 1150-1300 m hæð en skriðjöklar ganga niður undir 800 m hæð. Fara jöklar þessir minnkandi sem annars staðar. Alls eru jöklarnir um 8 km². Samfelldur gróður er sáralítill í Kerlingarfjöllum nema smáblettir í Innra- og Fremra-Árskarði og Kisubotnum. Meira að segja eru jarðhitasvæðin gróðurlaus að heita má en þó er lítils háttar gróður, sefbrúða og dúnurtir, í dýjavolgrum. Þorvaldur Thoroddsen kannaði Kerlingarfjöll fyrstur manna og gaf þar ýmis nöfn, til dæmis nafnið Ögmund eftir Ögmundi Sigurðssyni, fylgdarmanni sínum. Frá árinu 1961 var skíðaskóli starfræktur í Árskarði í Kerlingarfjöllum, en nú ferðaþjónusta.
Reykjadalur
Reykjadalur er án efa vinsælasta útivistarsvæðið í Ölfusi. Þar er að finna margar merktar gönguleiðir um stórbrotið háhitasvæðið og hægt er að baða sig í heitri á í dalnum. Orkuveita Reykjavíkur hefur merkt gönguleiðir í dalnum sem og á Hengilssvæðinu öllu. Hægt er að finna göngukort á vef þeirra. Stundum eru gönguleiðirnar í Reykjadal lokaðar og er því gott að athuga það áður en farið er. Hægt er að sjá það á Safetravel.is hvort það sé opið eða loka. Þeir sem hyggjast heimsækja dalinn það er afar mikilvægt að reglur svæðisins séu virtar og að ekki sé gengið utan stíga.
Geysir
Þessi frægasti goshver heims er talinn hafa myndast við mikla jarðskjálftahrinu í lok 13. aldar. Oddaverjaannáll segir um árið 1274, að í Eyrarfjalli (Laugarfjalli) hjá Haukadal komu upp hverir stórir; en sumir hurfu þeir, sem áður voru. Kísilúrfellingar hafa myndað talsverðan hól umhverfis hverinn. Skál hans er u.þ.b. 18 m í þvermál og niður úr henni gengur 18 m djúp hola, sem er 2 m í þvermál. Öldum saman gaus Geysir og laðaði til sín ferðamenn. Upp úr aldamótunum 1900 dró mjög af honum og síðan 1916 hefur hann ekki gert meira en að pusa upp vatni óreglulega, þó jókst kraftur hans að nýju eftir jarðskjálftahrinu á Suðurlandi árið 2000. Hæstu gosin voru á milli 40 og 80 m. Tugir hvera eru á svæðinu, sumir goshverir eins og Geysir. Þeirra helstir eru Strokkur, sem gýs reglulega með 3-5 mínútna millibili, og Smiður, sem lætur lítið á sér bera. Hverasvæðið er afgirt og friðlýst.