Falleg náttúra á Suðurlandi sem gaman er að heimsækja!
Skaftafell
Þingstaður, býli og nú þjóðgarður í Öræfum. Við Skaftafell eru kennd Skaftafellsþing og Skaftafellssýslur en ekkert er nú kunnugt um þinghaldið og vettvang þess. Fyrst er staðarins getið í Njáls sögu. Þar býr þá Þorgeir, bróðir Flosa í Svínafelli. Kunnugt er að allt til þessa dags hefur sama ættin búið þar frá því um 1400 að minnsta kosti.Á 15. öld virðast hafa verið samgöngur milli Skaftafells og Möðrudals á Fjöllum. Heimildir verða ekki með öllu véfengdar enda hefur fundist skeifa og birkiklyfjar á leiðinni, í fjöllum með botni Morsárdals, og jafnvel hlaðinn vegarkafli. En skógarhögg átti Möðrudalur í Skaftafelli samkvæmt þessum heimildum, gegn hagbeit fyrir hross, og sendimenn áttu rúm hvor í annars skála. Jöklar eiga að hafa lokað þessari leið á 16. öld.Þrjú býli voru í Skaftafelli síðustu áratugina. Þau hétu Sel, Hæðir og Bölti. Fram eftir öldum munu Skaftafellsbæirnir hafa staðið neðan við brekkurnar, en um 1830 er farið að flytja þá upp í brekkurnar. Fyrst er byggt í Seli, síðan í Hæðum og að lokum er svo gamli bærinn fluttur, árið 1849, vestur fyrir Bæjargil og heitir þar Bölti (= hóll í brekku). Þá hafði Skeiðará tekið af allt undirlendi, hlaðið á það framburði sínum í hinum stóru hlaupum úr Grímsvötnum, svo að metrum skiptir á þykkt eða jafnvel tugum metra. Dæmi blasir við augum niðri við sand, neðst í Gömlutúnum, þar sem enn sést á rústir sem Skeiðará hefur sleikt og urið. Þetta mun vera stafn hlöðunnar við gamla bæinn sem 1814 stóð “á hæðarbrún”. Aðrar heimildir sýna að síðan um 1900 hefur sandurinn hækkað um nokkra metra.
Bærinn í Seli, frá 2. áratug aldarinnar (fjósbaðstofa), var endurbyggður fyrir 1980 í umsjá Þjóðminjasafns Íslands og í þágu þjóðgarðsins en búskap lauk þar árið 1946.
Svo fór, að frumkvæði dr. Sigurðar Þórarinssonar jarðfræðings og Ragnars Stefánssonar bónda og síðar þjóðgarðsvarðar, að Skaftafell varð þjóðgarður, hinn annar í landinu og næstur á eftir Þingvöllum. Hinn 13. maí 1966 var gengið frá kaupum á jörðinni, þ.e. hálendi öllu en láglendi aðeins að ákveðinni línu (Hafrafell-Lómagnúpur), með tilstyrk World Wildlife Fund, og var jörðin formlega afhent ríkinu 15. september 1967. Nú liðu nokkur ár en þegar vegurinn yfir Skeiðarársand, og þar með hringvegur um Ísland, var formlega opnaður 14. júlí 1974, má segja að þjóðgarðurinn í Skaftafelli hafi raunverulega verið opnaður almenningi.
Um útsýn frá Skaftafelli segir prófessor Hans Wilhelmsson Ahlmann (sem skrifaði sig Hans W:son Ahlmann) svo í bók sinni, Í ríki Vatnajökuls: “Var fallegt þar? Þeirri spurningu er afar erfitt að svara, því að útsýnið hringinn í kringum okkur var gjörólíkt öllu sem ég hef séð í öðrum löndum og líka einsdæmi á Íslandi. Hvergi í veröldinni býst ég við að neitt sambærilegt sé til, og það var ekki unnt að bera það saman við neitt, sem menn eru orðnir vanir að kalla fallegt eða ljótt. Það var einhvern veginn öldungis einstætt án þess að gera þyrfti neina tilraun til þess að tengja það þekktum minningamyndum af því, sem menning og smekkur er búin að ætla ákveðið fegurðargildi. Náttúran ein talaði sínu sterka, einfalda máli.”
View
Þingvallavatn
Stærsta stöðuvatn á Íslandi, talið um 12000 ára gamalt, 83,7 km² að meðtöldum eyjunum, sem eru 0,5 km² að stærð. Þær eru þrjár og heita Sandey, Nesjaey og Heiðarbæjarhólmi. Þar sem vatnið er notað sem miðlunarlón fyrir raforkustöðvar er vatnsborðshæð örlítið mismunandi, en um 101 m y.s. að meðaltali. Mesta dýpi er um 114 m. Meðaldýpt er um 34 m.
Þingvallavatn hefur myndast við landsig og hraunstíflu. Það er á Atlantshafshryggnum, einmitt þar sem gliðnun hans fer fram. Út í vatnið liggja sprungur og gjár. Víða neðan vatns eru hrikalegir hamraveggir, einkum utan Hestvíkur í Hnúkadjúpi norðvestur af Nesjaey og í Sandeyjardjúpi, norð-norðvestur af Sandey. Þar er vatnið dýpst.
Sog fellur úr Þingvallavatni. Á yfirborði rennur í vatnið rösklega 1/10 hluti af vatnsmagninu í Soginu, en það er Öxará að norðan og nokkrar smáár og lækir sunnan frá Grafningsfjöllunum. En innrennslið er að öðrum hluta neðanjarðar. Undan Þingvallahrauni streymir mikið lindavatn (kaldavermsl) á Vellankötlusvæðinu og úr gjánum á Þingvöllum. Einnig kemur mikið vatn neðanjarðar af Hengilssvæðinu, einkum undir Nesjahrauni. Nú þykir fullsannað að vatnasvið Þingvallavatns nái allt til Langjökuls.
Í venjulegu árferði leggur Þingvallavatn þegar líða tekur á vetur og er jafnan ísilagt í febrúar og mars. Áður fyrr var ísinn mikil samgöngubót og óspart notaður til skautaferða og flutninga á vörum úr kaupstað eða milli bæja. Nærri Nesjaey, að vestanverðu, er svæði sem nefnt er Nesjaeyjaropna. Þar leggur vatnið síðast og ísa leysir fyrst. Annars leynast víða vakir á ísnum, einkum þar sem kaldavermsl eru. Ættu ókunnugir sem þar eru á ferð að gæta fyllstu varúðar.
Mikil veiði er í Þingvallavatni. Gefur það af sér árlega allt að 10 kg af fiski á hektara. Þar þekkjast einar 8 fisktegundir og afbrigði þeirra.
Mikill gróður er í vatninu og hafa rannsóknir sýnt að 1/3 hluti botnsins er þakinn gróðri.
Þingvallavatn er þekkt fyrir snögg veðrabrigði. Á örskömmum tíma getur spegilsléttur vatnsflöturinn breyst í úfið, ólgandi haf með hvítfyssandi, kröppum öldum. Þá er smábátum hætt.
Saga Þingvallavatns nær aftur á ísöld og hefur vatnið mátt þola miklar sviptingar. Í lok ísaldar var það jökullón sem jökull, er lá að Dráttarhlíð og Grafningshálsum, stíflaði. Jöklarnir hörfuðu og vatnsborðið stóð fáeinum metrum neðar en nú. Hægt en stöðugt seig landið í sigdalnum norður frá Hengli og vatnið dýpkaði. Jökulár runnu líklega frá Langjökli um dal suður til Þingvallavatns og gerðu vatnið jökulgruggugt. Stórgos varð í dalnum norðan við vatnið fyrir tæplega 10.000 árum. Skjaldbreiður myndaðist og sendi hraun suður í vatnið er þrengdu að því. Annað stórgos varð tiltölulega skömmu síðar, eða fyrir um 9.000 árum norðaustur af Hrafnabjörgum. Hraun frá þessu gosi runnu yfir Skjaldbreiðarhraunið neðan vatnsins og út í vatnið svo að það minnkaði til muna. Þetta hraun rann einnig suður með austurjaðri vatnsins og stíflaði það við Sog. Við þetta hækkaði í vatninu um 12-13 m en Sogið gróf sig síðan niður og lækkaði vatnið á ný um 7-8 m. Síðan hefur vatnið sífellt verið að stækka til norðurs í sigdældinni austur frá Þingvöllum. Fyrir 2000-3000 árum gaus í vatninu og þá myndaðist Sandey, sem er stærsta eyja í stöðuvatni hér á landi.
Árið 1959 var útfall Sogsins stíflað. Frá þeim tíma hefur rennsli vatns og vatnshæð verið stjórnað af mönnum.
Landnámabók nefnir vatnið Ölfusvatn.
Heimild: Íslandshandbókin útgáfa 1.0. Námsgagnastofnun 1995.
View
Dyrhólaey
Dyrhólaey er friðland. Á friðlýstum svæðum þarf að gæta að verndun samhliða því að tryggja almannarétt. Sum svæði eru lokuð hluta úr ári til verndunar dýralífi, önnur eru lokuð allt árið vegna viðkvæmra náttúruminja, umferð um sum svæði er takmörkuð þannig að fólk þarf að tilkynna sig inn á svæði og enn önnur opin allt árið um kring.
Ítarlegri upplýsingar um DyrhólaeyHöfði (um 110 m y.s.) með þverhníptu standbergi í sjó fram, en aflíðandi brekka er landmegin. Suður úr Dyrhólaey gengur mjór klettatangi, Tóin. Gegnum hana er gat og geta bátar siglt gegnum það þegar sjór er ládauður. Lítilli flugvél hefur verið flogið í gegnum gatið.
Af Dyrhólaey er mikil útsýn. Vesturhluti hennar, Háey, er úr móbergi en austurhlutinn úr grágrýti. Talið er að Dyrhólaey hafi myndast á hlýskeiði seint á ísöld við gos í sjó og hafi gosið hagað sér líkt og Surtseyjargosið. Viti var reistur á höfðanum 1910 en endurbyggður 1927. Dyrhólaey var friðlýst 1978.
Útræði var áður frá Dyrhólaey en er löngu aflagt. Komið hefur til orða að gera höfn við Dyrhólaey og hafa verið gerðar þar frumrannsóknir. Norðan og austan við eyna er allstórt lón, Dyrhólaós, útfall gegnum Eiði er austan við eyjarhornið. Þegar útfallið teppist, sem stundum verður í stórbrimum, flæðir vatn yfir engjar og þarf þá stundum að moka ósinn út.
Í sjónum úti fyrir Dyrhólaey eru nokkrir klettadrangar, Dyrhóladrangar. Bæði þar og í Dyrhólaeyjarbjargi er mikið af fugli og mikið varp. Hæstur þessara dranga er Háidrangur (56 m y.s.). Hjalti Jónsson kleif hann árið 1893 og þótti sýna við það mikla dirfsku og fræknleik. Dyrhólaey er gjarnan nefnd Portland af sjómönnum og breskir togarasjómenn nefndu hana Blow Hole. Byggðin norðvestur af Dyrhólaey nefnist Dyrhólahverfi.
View
Gjáin í Þjórsárdal
Austasti dalur Árnessýslu. Liggur hann norðan Gaukshöfða, milli Hagafjalls og Búrfells. Fyrir innan Hagafjall eru Skriðufell og Dímon og innar Heljarkinn og Fossalda fyrir botni dalsins. Inn af Búrfelli er lágur fjallarani og eru á honum Sámsstaðamúli og Skeljafell og Stangarfjall innst. Þjórsárdalur var að mestu leyti samfelld sandauðn. Skógur er við Ásólfsstaði og Skriðufell (Vatnsás, Selhöfðar) og í Búrfellshálsi. Skógrækt ríkisins friðaði land Skriðufells árið 1938 og hefur verið gróðursettur þar víðlendur nýskógur. Í dalnum eru tveir bæir, Ásólfsstaðir og Skriðufell.Í dalnum er hraun og á það upptök sín á Tungnaáröræfum. Sérkennandi fyrir hraunið eru hólarnir (gervigígarnir) í dalbotninum innanverðum. Hefur hraunið komið þar niður farveg Rauðár og runnið yfir mýrlendi eða grunnt vatn.Fjórar ár falla um Þjórsárdal, Fossá, Rauðá, Sandá og Grjótá, en Þjórsá fellur fyrir dalsmynnið, fyrir framan Búrfell og upp að Hagafjalli. Í dalnum eru fossarnir Háifoss (122 m) og Hjálparfoss í Fossá og Gjárfoss í Rauðá.Blómleg byggð var í Þjórsárdal á þjóðveldisöld og var dalurinn þá algróinn. Árið 1939 grófu norrænir fornleifafræðingar upp nokkra af bæjunum í dalnum, þar á meðal á Stöng. Gjóskurannsóknir dr. Sigurðar Þórarinssonar leiddu í ljós að byggðin hafði eyðst í Heklugosinu árið 1104.Á síðari árum hefur dalurinn tekið miklum stakkaskiptum. Árið 1970 tók Búrfellsvirkjun til starfa. Stöðvarhúsið stendur í dalnum suðaustanverðum, undir Sámsstaðamúla. Milli Hjálparfoss og Sámsstaðamúla hefur risið dálítið þorp í tengslum við virkjunina og Landsvirkjun hefur byggt sundlaug við heitar uppsprettur hjá Reykholti. Einnig hefur Landsvirkjun látið sá grasfræi í nágrenni virkjunarinnar til að hefta sandfok og hefur dalurinn breytt mjög um svip af þeim sökum.Þjórsárdalur þykir fagur og sérstæður og er hann fjölsóttur af ferðamönnum. Tjaldstæði eru við Sandá niður undan Ásólfsstöðum.Forn megineldstöð (nálægt tveggja milljón ára gömul) er í innanverðum Þjórsárdal. Finnst súrt berg þar á nokkrum stöðum og mjög mikið ummyndað, grænt móberg, skorið af hallandi berggöngum, er við Fossá, nokkru neðan við Háafoss.Gjáin í ÞjórsárdalSérkennilegt gljúfur í Þjórsárdal innanverðum, skammt frá Stöng, og fellur Rauðá í snotrum fossi niður í það. Heitir hann Gjárfoss. Þjórsá hefur sennilega myndað Gjána í öndverðu, á löngum tíma. Síðar hljóp hún þar oft fram í vatnavöxtum, en til að varna því var gerður stíflugarður úr Sandafelli og suður til Skeljafells. Kvísl úr einu af hinum yngri Tungnaárhraunum hefur fallið fram úr Gjánni og skil
View
Skaftáreldahraun
Hraunflóð það hið mikla sem rann úr Lakagígum á Síðumannaafrétti er Síðueldur brann árið 1783, oft nefnt Eldhraun af heimamönnum. Skaftáreldahraun er talið 565 km² en rúmtak þess er um 12 km³. Lengd fram í Meðalland er um 60 km. Gígaröðin, Lakagígar, er um 25 km á lengd. Gefa þessar tölur þó fremur óljósa mynd af því hversu feikilegt hraunflóð þetta var. Er það talið hið mesta sem runnið hefur á jörðinni í einu gosi síðan sögur hófust. En auk hraunflóðsins kom upp allmikil gjóska. Barst askan um mikinn hluta landsins en öskulag varð hvergi þykkt, jafnvel ekki í nærsveitum. Öskuryk barst yfir til meginlands Evrópu og mistur sást í lofti austur til Altaifjalla í Asíu. Hér á landi fylgdi eitur og ólyfjan öskufallinu svo að gróður sölnaði og varð eitraður. Brennisteinsfýlu svo mikla lagði af gosmekkinum að illvært varð úti.
Skaftáreldahraun breiddist út um mikið svæði uppi á Síðumannaafrétti, umhverfis eldstöðvarnar, en féll síðan í tveimur meginstraumum til byggða. Vestari kvíslin, Ytra-Eldhraunið, kom úr gígum sunnan Laka og féll niður farveg Skaftár. Fyllti hraunflóðið djúpt gljúfur er Skaftá rann í milli Síðu og Skaftártungu. Talið hefur verið að gljúfrið væri 37 km langt og 150-200 m djúpt. Síðan rann hraunið hlíða á milli í dal þeim er verður milli Skálarfjalls og Skaftártunguhálsa og breiddi úr sér á láglendinu til suðurs og austurs. Alls tók hraunflóðið af nær 20 býli í Skaftártungu, á Út-Síðu, í Landbroti og Meðallandi. Flest þeirra byggðust aftur en stórlega skert.
Mjög góður staður til að horfa yfir Skaftáreldahraunið er stuttu áður en komið er austur að Kirkjubæjarklaustri. Þar eru bílastæði og upplýsingaskilti.
View
Brúarhlöð
Brúarhlöð nefnist efsti hluti af 10 km löngum gljúfrum í Hvítá. Áin hefur grafið farveg sinn í þursaberg og í því eru ýmsar klettamyndanir og skessukatlar.
Í ánni eru tveir þursabergsdrangar sem kallast Karl og Kerling.
Trébrú yfir Brúarhlöð var fyrst byggð árið 1906 tilefni af heimsókn Friðriks VIII Danakonungs til Íslands 1907, en þá var dýrasti vegur Íslandssögunnar Kóngsvegur lagður um Uppsveitir Árnessýslu. Konungur ásamt föruneyti reið yfir brúna við Brúarhlöð.
View
Fjaran á milli Stokkseyrar og Eyrarbakka
Fjaran á Eyrum neðst í Flóa, milli Ölfusár og Loftsstaða, er stærsta hraunfjara landsins, endi hins mikla Þjórsárhrauns, sem rann fyrir 8000 árum og er mesta hraun sem runnið hefur á jörðinni eftir ísöld. Ofan fjörunnar eru ótal tjarnir og vötn, aðallega við Stokkseyri. Fjölbreytt fuglalíf er þar allt árið um kring og er svæðið sérstaklega mikilvægt fyrir farfugla, eins og rauðbrysting, lóuþræl, sanderlu, tildru, margæs, rauðhöfðaönd og fleiri endur. Stórt kríuvarp er á svæðinu og nokkur hundruð álftir fella þar flugfjaðrir síðsumars.
Svæðið er hluti af ferðaleiðinni Vitaleiðin sem nær frá Knarrarósvita í austri að Selvogsvita í vestri. Malbikaður göngu- oghjólastígur liggur á milli Stokkseyrar og Eyrarbakka.
View
Fimmvörðuháls
Fimmvörðuháls nefnist svæðið milli Eyjafjallajökuls og Mýrdalsjökuls. Leiðin yfir hálsinn frá Skógum yfir í Þórsmörk er ein allra vinsælasta gönguleið landsins, en hún er um 22km löng og hækkun um 1000m. Á hálsinum er skáli ferðafélagsins Útivistar sem er glæsilegur og vandaður. Rétt sunnan við hálsinn er Baldvinsskáli, en hann er í mun verra ásigkomulagi en mikið notaður af göngufólki sem áningarstaður. Leiðin er sérstaklega fögur ef gengið er frá suðri til norðurs enda óvanalega mikið af vatnsföllum í Skógá og útsýn falleg niður í Þórsmörk þegar komið er yfir hálsinn. Jöklarnir ná saman á hálsinum svo gengið er að nokkru leyti í snjó. Ásamt kjarrlendi Þórsmerkur og grösugum heiðunum sunnan til gerir það að verkum að leiðin er mjög fjölbreytt, en getur þó einnig verið varasöm því skjótt skipast veður í lofti í nálægð við jökla.
Eldgosið á Fimmvörðuhálsi hófst aðfaranótt 21. mars 2010 og stóð til 12. apríl 2010. Þá bárust fregnir af upphafi eldgoss með tilheyrandi öskufalli í eða við Eyjafjallajökul og komu upplýsingarnar frá Lögreglunni á Hvolsvelli. Gosið var norðarlega í Fimmvörðuhálsi, rétt austan við Eyjafjallajökul. Gos þetta flokkast sem hraungos. Hraunrennslið úr gossprungunni myndaði hæsta hraunfoss í heimi sem rennur niður í gil í grennd við gossprunguna. Hraunfossinn var um 200 metra hár.
View
Lómagnúpur
Lómagnúpur er 688 m hátt standberg sem gnæfir yfir suður úr Birninum vestan Núpsvatna á Skeiðarársandi. Vestan við hann stendur bærinn Núpsstaður. Stórbrotið umhverfi Núpsstaðar og Lómagnúps er vel þekkt. Svæðið nær frá sjó og svörtum söndum og allt til Vatnajökuls. Eldgos, jöklar og vötn hafa mótað umhverfið auk þess að skapa fjölbreyttar og einstakar jarðmyndanir. Lómagnúpur tilheyrir landi Núpsstaðar, sem allt er á náttúruminjaskrá.
View
Háifoss og Granni
Háifoss í Fossá í Þjórsárdal er staðsettur nálægt eldfjallinu Heklu. Hann er 122 m hár og er þriðji hæsti foss landsins. Lengi vel var fossinn nafnlaus, en árið 1912 tók Dr. Helgi Pétursson jarðfræðingur sig til og nefndi hann.
Rétt austan Háafoss er annar foss, litlu lægri, Granni. Léttasta leiðin að fossinum er frá línuveginum milli Tungufells og Sandafells. Þaðan þarf aðeins að ganga stuttan spöl niður í mót, en fara verður gætilega á brúnum gilsins.
Einnig er hægt að ganga inn Fossárdalinn, þar er merkt gönguleið frá Stöng og upp að Háafossi, með fram Fossá. Gönguleiðin er vinsæl bæði sem gönguleið og hjólaleið og hægt að gera hring með því að fara svo frá Háafossi og um Gjánna líka. Frá Stöng og að Háafossi eru um 6 km. ganga.
View
Ófærufoss - Nyrðri Ófæra
Ófærufoss er einstaklega fallegur foss í ánni Nyrðri-Ófæru og fellur í tveimur fossum ofan í Eldgjá. Yfir neðri fossinum var steinbogi til ársins 1993 en hann hrundi þá í ána í vorleysingum en áin fellur um gjána. Af Fjallabaksleið nyrðri er hægt að aka nokkurn spöl inn í Eldgjá og ganga þaðan að Ófærufossi en vegurinn liggur upp á austurbarm Eldgjár. Til að komast þangað þarf að aka Nyrðri-Ófæru á vaði, sem getur verið varasamt. Óhætt er að mæla með göngu upp á Gjátind, þaðan sem útsýni er frábært yfir Eldgjá, til fjalla við Langasjó og Síðuafrétt með Lakagígum.
Ófærufoss fellur ofan í Eldgjá á Skaftártunguafrétti. Eldgjá er u.þ.b. 40 km löng gossprunga, breidd hennar er víða um 600 m og dýptin nær allt að 200 m. Þegar hún myndaðist hefur líklega gosið í henni endilangri, sennilega í kringum árið 934.Talið er að gossprungan nái undir Mýrdalsjökul. Úr Eldgjá hafa runnið mikil hraun niður um Landbrot og Meðalland og til sjávar við Alviðruhamra í Álftaveri. Hraunin, sem runnu frá henni, eru talin þekja 700 km² sem er mesta flatarmál hrauns á sögulegum tíma á jörðinni, þ.e. eftir síðustu ísöld.
Eldgjá er talin tilheyra sama eldstöðvarkerfi og Katla. Eldgjá er einstakt náttúrufyrirbæri og er á náttúrminjaskrá. Fyrirhugað er að Eldgjá og nærliggjandi svæði verði hluti af Vatnajökulsþjóðgarði.
Nú hafa komið fram kenningar um að afleiðingar þessa goss hafi ekki síður gætt í Evrópu en gossins í Lakagígum. Samkvæmt nýfundnum heimildum urðu á tíma gossins uppskerubrestir, pestir og hörmungar bæði í Evrópu og Miðausturlöndum. Þá eru líkur leiddar að því að þetta gos hafi valdið meira tjóni en Lakagígagosið.
View
Haukadalsskógur
Haukadalsskógur er einn stærsti þjóðskógur Suðurlands og sá sem mest hefur verið gróðursett í af þjóðskógum Íslands. Aðstaða til útivistar er góð. Meðal annars er sérhannaður stígur fyrir hjólastóla í skóginum sem unninn hefur verið í góðri samvinnu við Sjálfsbjörgu á Suðurlandi.
View
Skógræktin í Skagaási
Skógræktin í Skagaási er gróskumikill trjálundur Skógræktarfélags Villingarholtshrepps. Skjólsæll unaðsreitur með ágætu aðgengi. Fólk er vinsamlegast beðið um að virða gönguleiðir og ganga vel um. Einungis er leyfilegt að grilla á merktum grillstað vegna eldhættu.
View
Gönguleiðir um Hellu
Vinsælasta gönguleiðin á Hellu liggur meðfram Rangá að Ægissíðufossi. Hún er nokkuð greiðfær en stígurinn getur verið blautur á köflum. Því er gott að vera í góðum skóm og fara að öllu með gát. Einnig er gaman að rölta um þorpið sem er einkar gróið og vinalegt. Upplýsingaskiltum um sögu þorpsins hefur verið komið upp á nokkrum stöðum.
Í snjallforritum á borð við Wikiloc má finna trakkaðar gönguleiðir um svæðið frá einstaklingum en þær eru ekki á ábyrgð sveitarfélagsins.
View
Ljótipollur
Sprengigígur á Landmannaafrétti norðaustur frá Frostastaðavatni. Er gígurinn á eldsprungu þeirri sem mótaði Veiðivötn og hefur orðið til á sögulegum tíma svo sem sprungan öll. Allmikil hæð hefur hlaðist upp kringum gígskálina sem að innan er skreytt rauðum, grænum og dökkum litum en kalt, grænleitt vatn er í botni hennar. Það er 0,43 km² og dýpst 14 m. Greiðfær bílaslóð liggur að Ljótapolli og upp á gígbarminn. Í vatninu er nokkur veiði enda þótt það hafi ætíð verið að- og afrennslislaust.
Heimild: Íslandshandbókin útgáfa 1995.
View
Kvernufoss
Kvernufoss er í gili rétt austan við Skógafoss. Fossinn sést vel frá þjóðveginum, en betra er að ganga að honum frá Skógum. Göngustígur er að fossinum frá bílastæði Samgöngusafnsins að Skógum og er tilvalið að skella sér á Skógasafn í leiðinni.
Fyrir frekari upplýsingar um fossa, jarðvætti og gistingu er hægt að kíkja inn á www.katlageopark.is
View
Fláajökull
Fláajökull er jökultunga Vatnajökuls sem auðvelt er að nálgast. Svæðið býður upp á mikilfenglegt útsýni yfir jökulinn sem hopað hefur um 2 km á síðustu hundrað árum og skilið eftir sig jökullón. Svæðið er kjörinn áfangastaður fyrir g alla sem eru áhugasamir um hvernig hreyfing jökulsins hefur áhrif á nærliggjandi umhverfi.
Merkt gönguleið tengir svæðið framan við Fláajökul við skógræktarsvæðið í Haukafelli.
View
Timburhóll - Skógrækt
Skógræktarreitur Ungmennafélagsins Samhygðar. Grillaðstaða og gróskumikill skógur. Hér er minnisvarði um hjónin í Vorsabæ, Guðfinnu Guðmundsdóttur og Stefán Jasonarson. Þau hjónin voru bændur í Vorsabæ í hálfa öld og Stefán var frumherji í störfum fyrir samtök sunnlenskra bænda, ungmennafélagshreyfinguna, umferðaröryggi og varðveislu þjóðlegra verðmæta. Auk þess er hér minnismerki um Ásgrím Jónsson listmálara. Gestir eru beðnir um að ganga vel um.
View
Reynisfjara, Reynisfjall og Reynisdrangar
Reynisfjall (340 m y.s.) stendur vestan Víkur í Mýrdal. Reynisfjall er móbergsfjall sem myndast hefur við eldgos undi rjökli á kuldaskeiði Ísaldar. Í Reynisfjalli má finna óregluleg lög móbergs, bólstrabergs ásamt stuðluðum innskotslögum og bergæðum. Hamrarnir eru þverhníptir en víða grónir hvönn og öðrum þroskamiklum gróðri.Upp á Reynisfjall liggur akvegur sem hernámsliðið gerði upphaflega á heimsstyrjaldarárunum en var endurbættur seinna. Hann mun vera einn brattasti fjallvegur á Íslandi. Á Reynisfjalli var starfrækt lóranstöð um skeið. Sunnan í Reynisfjalli að vestan eru sérkennilegar stuðlabergsmyndanir og hellar, Hálsanefshellir. Ekið er að þeim suður Reynishverfi.
Reynisdrangar eru bergdrangar sem rísa 66 metra upp fyrir sjávarmál. Við Reynisfjöru er Hálsanefshellir ásamt mjög fögrum stuðlabergsmyndum. Gæta skal varúðar við Reynisfjöru þar sem öldurnar geta verið varasamar og auðveldlega gengið langt inn á land og hrifsað með sér fólk út á sjó.
View
Höfðabrekkuheiði, Þakgil
Höfðabrekka er austasti bær vestan Mýrdalssands. Höfðabrekka er gamalt höfðuból, kirkjustaður og stórbýli til forna. Í Kötluhlaupi árið 1660 tók bæinn af og var hann þá fluttur upp á heiðina og var hann ekki fluttur niður aftur fyrr en 1964. Vegfarendur sem eru á ferð um Mýrdalshrepp ættu ekki að láta það fara framhjá sér að aka inn Höfðabrekkuheiðar. Þetta var þjóðleiðin austur að Mýrdalssandi í um það bil 20 ár, þangað til Jónsmessuhlaupið í Múlakvísl árið 1955 rauf hana.
View
Ölfusá
Ölfusá er vatnsmesta á landsins þar sem meðalrennsli árinnar er 423 m³/sek. Upprunni Ölfusár er á milli Grímsness og Hraungerðishrepp þar sem Sogið og Hvítá falla saman og er 25 km long og fellur niður að ósum Eyrarbakka austanverðu. Ölfusá rennur með vesturjaðri Þjórsárhrauns.
Áin rennur jökulituð í gegnum Selfoss í gegnum djúpa gjá sem er 9m djúp. Þrátt fyrir að áinn sé jökullituð er þó nokkuð af lindarvatni þannig að á veturnar í kuldatíð á hún til með að vera allt að því tær. Áin myndar stórt stöðuvatn eða sjávarlón í Ölfusinu áður en hún rennur út í sjóinn austan við Óseyri. Þetta lón nefnist Ölfusárós.
View
Haukafell
Haukafell er skógræktar verkefni stofnað 1985. Síðan hefur skógurinn vaxið og dafnað og veitir nú gott skjól fyrir lægri gróður sem prýðir svæðið, aðallega berjarunna sem bera ávöxt í ágústmánuði.
Svæðið er staðsett austan við Fláájökul og er vinsæll útiveru staður meðal heimamanna. Umhverfið í Haukafelli er stórbrotið og eru margar gönguleiðir í boði til þess að njóta þess sem allra best.
Frá Haukafelli má finna merkta gönguleið að Fláajökli þar sem gengið er yfir nýja göngubrú yfir Kolgrafardalsá. Þar að auki er einnig vel útbúið tjaldsvæði í fallegu umhverfi í Haukafelli.
View
Laufskálavarða
Laufskálavarða er hraunhryggur með vörðuþyrpingum umhverfis, milli Hólmsár og Skálmar, við þjóðveginn norðan byggðar í Álftaveri. Hver sá sem fór í fyrsta sinn um Mýrdalssand skyldi hlaða vörðu sér til fararheilla.
Við Laufskálavörðu er útsýnispallur uppi á þaki lítils þjónustuhúss þar sem sést vel til Mýrdalsjökuls og eldstöðvarinnar Kötlu.
View
Hellarnir að Hellum
Á Hellum eru þrír hellar sem bærinn dregur nafn sitt af. Hellar þessir eru manngerðir, höggnir í sandstein, og er sá stærsti þeirra lengsti manngerði hellir á Íslandi. Ekki er vitað nákvæmlega hve gamlir þessir hellar eru en talið er að þeir séu mögulega frá því fyrir eiginlegt landnám Íslands og hafi verið gerðir af Pöpum þ.e.a.s. írskum munkum sem tóku sér bólfestu hér á landi fyrir tíma víkinganna (um 900).Hinsvegar er hægt að segja með fullri vissu að hellarnir séu að minnsta kosti jafngamlir bæjarnafninu Hellar enda harla ólíklegt að nefna bæinn þetta ef engir væru hellarnir á staðnum. Fyrstu ritaðar heimildir um bæinn Hella í Landsveit eru frá árinu 1332 og því eru hellarnir að minnsta kosti 600 ára gamlir þótt hugsanlegt sé að þeir séu jafnvel enn eldri.Hellarnir á Hellum eru friðlýstir af Minjastofnun Íslands.
View
Ytri Rangá
Ytri-Rangá rennur um Hellu, en áin á upptök sín norður af Heklu, í Rangárbotnum á Landmannaafrétti þar sem hún kemur upp á nokkrum stöðum undan vikrinum. Áin er 55 kílómetra löng og ein gjöfulasta laxveiðiá landsins. Áin er dragá og bergvatnsá.
Í ánni eru nokkrir fossar, Fossabrekkur, Gutlfoss, Árbæjarfoss og Ægissíðufoss. Um 10 kílómetrum neðan við Hellu rennur Þverá saman við ána og eftir það heitir hún Hólmsá þangað til hún rennur til sjávar.
Mikil fiskirækt hefur verið stunduð í ánni til margra ára og hefur það skilað því að áin er oftar en ekki efst á listanum yfir laxveiðiár landsins og er hún afar vinsæl sem slík, en ræktun í ánni er í höndum Veiðifélags Ytri-Rangár.
View
Fjallsárlón
Fjallsárlón er jökullón innan Vatnajökulsþjóðgarðs í um 10 km fjarlægð vestan við Jökulsárlón. Fjallsjökull skríður þar niður brattan úr meginjöklinum og út í um 4 km2 stórt jökullónið hvar njóta má friðsældar og ósnortinnar náttúru. Á lóninu er boðið upp á bátsferðir og veitingasala er á svæðinu.
View
Geysir
Þessi frægasti goshver heims er talinn hafa myndast við mikla jarðskjálftahrinu í lok 13. aldar. Oddaverjaannáll segir um árið 1274, að í Eyrarfjalli (Laugarfjalli) hjá Haukadal komu upp hverir stórir; en sumir hurfu þeir, sem áður voru. Kísilúrfellingar hafa myndað talsverðan hól umhverfis hverinn.
Skál hans er u.þ.b. 18 m í þvermál og niður úr henni gengur 18 m djúp hola, sem er 2 m í þvermál. Öldum saman gaus Geysir og laðaði til sín ferðamenn. Upp úr aldamótunum 1900 dró mjög af honum og síðan 1916 hefur hann ekki gert meira en að pusa upp vatni óreglulega, þó jókst kraftur hans að nýju eftir jarðskjálftahrinu á Suðurlandi árið 2000.
Hæstu gosin voru á milli 40 og 80 m. Tugir hvera eru á svæðinu, sumir goshverir eins og Geysir. Þeirra helstir eru Strokkur, sem gýs reglulega með 3-5 mínútna millibili, og Smiður, sem lætur lítið á sér bera. Hverasvæðið er afgirt og friðlýst.
View
Hjálparfoss
Hjálparfoss er tvöfaldur foss neðst í Fossá í Þjórsárdal, rétt áður en hún sameinast Þjórsá. Svæðið umhverfis hann heitir Hjálp og er tiltölulega gróið. Það ber þó merki um stöðugar ásóknir Heklu gömlu í gegnum aldirnar.
Blágrýtismyndarnirnar umhverfis fossinn eru fallegur rammi um hvítfyssandi vatnið. Nafnið Hjálp varð til í munni þeirra, sem komu úr erfiðum ferðum yfir Sprengisand og fundu þar snapir fyrir hestana. Landsvirkjun hefur látið græða mikið land í Þjórsárdalnum og ekki sízt vestan Sámstaðamúla.
View
Urriðafoss
Urriðafoss er vatnsmesti foss landsins. Hér fellur Þjórsá fram af jaðri hins mikla Þjórsárhrauns (360 m 3/sek) í fögru og friðsælu umhverfi. Fallhæð fossins er 6 metrar þar sem hann er hæstur. Þjórsárhraun, sem er eitt mesta hraun sem runnið hefur á jörðinni í einu gosi frá því að ísöld lauk, má sjá við Urriðafoss, þar sem fossinn steypist fram af austurbrún hraunsins. Lax gengur upp Þjórsá að fossinum og nokkuð upp fyrir hann. Urriðafoss er náttúrudjásn rétt utan þjóðvegs 1.
View
Landmannalaugar
Landmannalaugar draga nafn sitt af heitri laug sem kemur undan Laugahrauninu. Landmannalaugar hafa verið áningastaður fólks um aldir og þar hafa fjallmenn á Landmannaafrétti hafst við í leitum svo lengi sem heimildir eru til um slíkar ferðir.
Frá Landmannalaugum má sjá mörg falleg fjöll; Barm, Bláhnúk, Brennisteinsöldu, Suðurnám og Norðurnám. Mikið er um líparít, hrafntinnu og líparíthraun á svæðinu og eru Landmannalaugar rómaðar fyrir litafegurð og einstaka náttúru.
Upphaf einnar vinsælustu gönguleiðar landsins, Laugavegarins, eru í Landmannalaugum og liggur leiðin þaðan um Hrafntinnusker, Álftavatn, Hvanngil, Emstrur og loks í Þórsmörk.
Í Landmannalaugum er aðstaða fyrir ferðamenn, sturtur og gisting rekin af Ferðafélagi Íslands, en auk þess er á svæðinu rekin hestaleiga á sumrin og lítið kaffihús.
Gjöld:Umhverfisstofnun mun taka upp bókunarkerfi fyrir bílastæði í Landmannalaugum fyrir sumarið 2024. Þá verður nauðsynlegt að bóka bílastæði fyrir komu á svæðið og greiða fyrir það þjónustugjald.
Fyrirkomulagið verður í gildi frá 20. júní til 15. september, alla daga vikunnar. Nánar upplýsingar hér.
View
Kirkjugólf
Kirkjugólfið er í túninu rétt austan Kirkjubæjarklausturs. Þetta er u.þ.b. 80 m² jökul- og brimsorfinn stuðlabergsflötur, þar sem sést ofan á lóðréttar blágrýtissúlur. Þarna hefur aldrei staðið kirkja en það er engu öðru líkara en flöturinn hafi verið lagður af manna höndum.
Stuðlaberg myndast vegna samdráttar í kólnandi efni, þegar basaltbráð kólnar smám saman eftir fullstorknun þannig að bergið dregst saman og klofnar í stuðla sem oftast eru sexstrendir. Stuðlar standa ávallt hornrétt á kólnunarflötinn. Kirkjugólf er friðlýst náttúruvætti.
View
Fossabrekkur
Efsti foss í Ytri-Rangá nefnist Fossabrekkur og er hann rétt fyrir neðan vestari upptök árinnar skömmu eftir að komið er inn fyrir afréttarmörk Landmannaafréttar.
Fossabrekkur eru gróðursæl vin í vikurauðninni sem þar er að finna og þarf að keyra að staðnum til að sjá hann, enda vel falinn. Í Fossabrekkum er einstök fegurð þar sem vestari kvísl Ytri-Rangár í Rangárbotnum steypist fram af klöppum ofan í eystri kvíslina og eftir það rennur áin í einni kvísl langleiðina til sjávar.
View
Skógafoss
Skógafoss (60m) er talinn meðal fegurstu fossa landsins. Í Skógaá, ofan Skógafoss, eru a.m.k. 20 aðrir fossar, margir fallegir, og það er auðgengt meðfram ánni og gljúfrum hennar. Þrasi Þórólfsson var landnámsmaður að Skógum. Hann nam land milli Jökulsár og Kaldaklofsár og var sagður fróður og forn í lund.
Sagt er, að hann hafi fólgið gullkistu í helli bak við Skógafoss og að það glitri í gull Þrasa gegnum vatnsúðann, þegar sólin skín á fossinn. Margir hafa reynt að finna kistuna og einu sinni tókst að koma bandi á hring hennar, en aðeins hringurinn kom, þegar togað var í. Þessi hringur var notaður á kirkjuhurðina í Skógum og er nú meðal dýrgripa Skógasafns.
View
Systrastapi
Árið 1186 var sett nunnuklaustur í Kirkjubæ á Síðu sem síðar var nefnt Kirkjubæjarklaustur og eru örnefnin Systrastapi og Systrafoss tengd þeim tíma. Systrastapi er klettastapi vestan við Klaustur.
Þjóðsaga segir að uppi á stapanum sé legstaður tveggja klaustursystra í klaustrinu sem hafi verið brenndar á báli fyrir brot á siðareglum. Önnur hafði selt sig fjandanum, gengið með vígt brauð fyrir náðhúsdyr og lagst með karlmönnum. Hin hafði talað óguðlega um páfann. Eftir siðaskiptin var seinni nunnan talin saklaus og á leiði hennar óx fagur gróður en á leiði hinnar seku var gróðurlaust.
Klifra má upp á stapann en þaðan er mikið útsýni með jöklasýn.
View
Þingvellir Þjóðgarður
Saga Íslands og íslensku þjóðarinnar kemur hvergi betur fram á einum stað en á Þingvöllum við Öxará. Þar var Alþingi stofnað um árið 930 og kom það saman á Þingvöllum allt fram til ársins 1798. Meginviðburðir Íslandssögunnar hafa gerst þar og því skipa Þingvellir sérstakan sess í hugum allra Íslendinga. Þingvellir eru í dag friðlýstur helgistaður Íslendinga. Í lögum segir að hið friðlýsta land skuli ævinlega vera eign íslensku þjóðarinnar og undir vernd Alþingis.
Lögberg og Lögrétta Alþingi á Þingvelli fór með æðsta löggjafar- og dómsvald á Íslandi frá stofnun þess um 930 og alla þjóðveldisöldina fram til áranna 1262-64. Þá var Lögberg miðdepill þinghaldsins. Lögrétta var æðsta stofnun Alþingis á þjóðveldisöld og fór með löggjafarvald. Starfsvið Lögréttu var margþætt en hún skar úr lagaþrætum, setti ný lög og veitti undanþágur frá lögum. Á þjóðveldisöld var Lögrétta staðsett austan við Öxará.
Þinghald Um tveggja vikna skeið á hverju sumri hverju reis lítið samfélag á Þingvöllum. Þangað streymdi fólk allsstaðar að, fólk sem vildi taka þátt í samkomu sem átti engan sinn líka á Íslandi. Orðatiltækið „nú er þröng á þingi“ má líklega rekja til þingsins, þar sem fjölmennt var þegar hæst stóð. Samkvæmt talningu Gissurar biskups Ísleifssonar voru þingfararkaupsbændur um 4000 talsins við lok 11. aldar. Alþingi var lagt niður á Þingvöllum árið 1800, en endurreist í Reykjavík 1845.
Þjóðgarður og heimsminjaskrá UNESCO Þjóðgarðurinn á Þingvöllum var stofnaður með lögum á þúsund ára afmæli Alþingis árið 1930 og Þingvellir voru samþykktir á heimsminjaskrá Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, árið 2004. Með samþykktinni eru Þingvellir meðal rúmlega 1000 menningar- og náttúruminjastaða á heimsminjaskránni sem taldir eru hafa einstakt gildi fyrir alla heimsbyggðina. Stærstu hátíðir og atburðir þjóðarinnar hafa verið haldnir á þingvöllum undanfarin 150 ár.
JarðsaganÁ undanförnum áratugum hafa rannsóknir leitt í ljós að Þingvellir eru náttúruundur á heimsvísu þar sem jarðsagan og vistkerfi Þingvallavatns mynda einstaka heild. Það eru gríðarleg verðmæti og náttúruundur að geta fylgst með þróun og myndum nýrra tegunda á einum stað eins og í Þingvallavatni. Þingvallasvæðið er hluti flekaskila Atlantshafshryggjarins sem liggja um Ísland. Þar má sjá afleiðingar gliðnunar jarðskorpunnar í gjám og sprungum svæðisins.Í lögunum um Þjóðgarðinn á Þingvöllum segir, að Þingvellir við Öxará skuli vera friðlýstur helgistaður allra Íslendinga. Í þjóðgörðunum voru stór, óbyggð svæði tekin frá og friðuð og fólki hvorki leyft að nema þar land né nýta náttúruna á annan hátt en að ferðast um landið og njóta þess.
View
Svartifoss
Svartifoss er einn af einstöku fossunum sem suðurlandið hefur að geyma. Fossinn er staðsettur í Skaftafelli, sem er hluti af Vatnajökulsþjóðgarði. Svartifoss er 20 metra hár.
Sitthvoru megin við fossinn eru háir svartir basalt veggir sem gera fossinn að einstakri sjón og er hann sannkölluð náttúruperla.
Gangan að Svartafossi hefst við upplýsinga miðstöðina í Skaftafelli og er um 1.9 km eða 45 mínútur hvora leið.
Gestastofa og upplýsingamiðstöð Vatnajökulsþjóðgarðs í Skaftafelli, Skaftafellsstofa
View
Vatnajökull
Vatnajökull er stærsti jökull Íslands, sem og stærsti jökull í rúmmáli í allri Evrópu. Vatnajökull þekur tæp 8 prósent Íslands en hann nær yfir 7700 ferkílómetra (2021) og er meðalþykkt hans 400 metrar. Hæsti punktur jökulsins, Hvannadalshnúkur mælist 2,110 metra (6,921 ft). Frá jöklahettu Vatnajökuls liggja um 30 jökultungur sem allar bera heiti; allir jöklar og jökultungur á Íslandi bera heiti sem endar á „jökull“.
Vatnajökull er í umsjá Vatnajökulsþjóðgarðs sem einnig nær yfir stórt svæði umhverfis jökulinn. Þjóðgarðurinn hefur upp á margvíslega áhugaverða staði að bjóða og er garðurinn skyldu stopp fyrir hvern þann sem hefur áhuga á jarðfræði og fögru landslagi.
View
Öræfajökull
Hæsta fjall landsins (2110 m y.s.), suður úr Vatnajökli miðjum, eldkeila. Innan Vatnajökulsþjóðgarðs. Fyrir ofan 1000 m hæð er fjallið jökli hulið nema nokkrir klettaveggir í tindum, neðar bungar það út í meira og minna sjálfstæð randfjöll og verður því mikið um sig. Er það og annað stærsta virka eldfjall í Evrópu, næst Etnu á Sikiley, þvermál við rætur yfir 20 km og grunnflötur nær 400 km² en rúmtak nálægt 370 km³.
Öræfi og Öræfajökull eru nöfn sem urðu til eftir eyðingu byggðar af völdum goss í fjallinu 1362 er áður hét Knappafell. Fer það nafn því vel, dregið af tindum þeim sem sitja á barmi öskjunnar í kolli þess og mest ber á frá suðri en tveir þeirra heita Knappar og þar af leiðir bæjarnafnið Hnappavellir. Hvannadalshnjúkur á vesturbrún öskjunnar er hæstur allra tindanna og rís um 300 m yfir marflata hjarnsléttu öskjunnar. Hann er úr líparíti.
Mikill gígur eða ketilsig er í kolli fjallsins, sporöskjulaga, nær 5 km á lengri veginn og um 12 km² að flatarmáli. Að sjálfsögðu er hún full svo að flóir út af enda bætist á jökulinn allt að 10 m af snjó árlega sem samsvarar yfir 4000 mm ársúrkomu og er hún hvergi meiri hér á landi. Um dýpstu skörðin í börmum öskjunnar skríður jökullinn án afláts og myndar skriðjökla, sem falla úr 1800 m hæð alla leið niður á láglendið. Í bröttum hlíðum verða réttnefndir jökulfossar og heitir Falljökull einn hinn mesti þeirra. Aðrir stórjöklar utan í fjallinu eru Kvíárjökull og Fjallsjökull til suðausturs og hinn mikli Svínafellsjökull sem fellur til vesturs frá Hvannadalshnúki.
Öræfajökull hefur gosið tvisvar eftir landnám, árin 1362 og 1727. Fyrra gosið er mesta vikurgos sem orðið hefur hér á landi síðan um 800 f.Kr., gjóska áætluð um 10 km³. Gosinu fylgdi ógurlegt vatnsflóð með jakaburði og tók af marga bæi en byggð lagðist í auðn um sinn.
Seinna gosið stóð nærfellt í ár, ákafast fyrstu 3 dagana með öskufalli og myrkri svo að vart sá skil dags og nætur. Drengur fórst og konur tvær sem voru í seli frá Sandfelli, einnig fórst margt búfjár en ekki tók af bæi. Mikið hlaup lagðist þó í fyrstu heim að Sandfelli og austur með Hofi og er þar enn ummerki að sjá, til dæmis báðum megin Kotár, Háöldu að vestan, með stóru, friðlýstu jakafari, og Svartajökul og Grasjökul að austan.
Engin sögn er um ferð á Öræfajökul fyrr en 11. Ágúst 1794 er Sveinn Pálsson gekk á jökulinn frá Kvískerjum. Í þeirri ferð mun hann einna fyrstur manna í heiminum hafa gert sér grein fyrir að skriðjöklar hreyfast eins og seigfljótandi efni sem hnígur undan eigin þunga. Þarna hafði hann góða yfirsýn, meðal annars yfir Fjallsjökul, veitti athygli “árhringum” skriðjökulsins, svigðum eða skárum, og dró réttar ályktanir af því sem hann sá.
Fyrstur til að ganga á Hvannadalshnjúk varð norskur landmælingamaður, Hans Frisak, ásamt Jóni Árnasyni, hreppstjóra á Fagurhólsmýri, sem hann fékk til fylgdar 19. Júlí 1813. Svo leið fram undir aldamót að enginn lék þetta eftir þar til F.W. Howell gekk á Hvannadalshnjúk 1891 ásamt tveim fylgdarmönnum frá Svínafelli. Úr því fór ferðum að fjölga og þykir það nú ekki lengur tíðindum sæta að ganga á hæsta tind Íslands.
Skaftafellsstofa
View
Friðland að Fjallabaki
Friðland að Fjallabaki var friðlýst árið 1979. Megin einkenni svæðisins eru fjölbreytt landslag og landslagsheildir, mikill breytileiki jarðminja og jarðhitafyrirbæra, sérstakt en viðkvæmt lífríki, víðerni, kyrrð og litadýrð. Markmið friðlýsingarinnar er að vernda þessar sérstæðu jarðminjar, landslag, lífríki og ósnortin víðerni svæðisins. Friðlandið er 446,24 km2 að stærð og innan þess eru Landmannalaugar þar sem er upphaf margra vinsæla gönguleiða, þar á meðal Laugavegurinn.
Nánari upplýsingar um svæðið má finna á vef Umhverfisstofnunar .
View
Þjófafoss
Þjófafoss er í Þjórsá, austan við Merkurhraun. Fossinn dregur nafn sitt af því að þar hafi þjófum áður verið drekkt. Fossinn er einn af aðalfossum Þjórsár, en áin skilur að Rangárvallasýslu og Árnessýslu og er lengsta á landsins.
Þjófafoss er sunnan við Búrfell, skammt frá Búrfellsvirkjun og nokkru neðan við Tröllkonuhlaup í Þjórsá. Rennsli Þjófafoss er fremur lítið yfir vetrartímann en nokkru meira yfir sumartímann og stafar það af virkjunum í ánni, en vatninu er að mestu veitt framhjá fossinum. Áin er stífluð við Sultartanga með Sultartangalóni og vatninu fyrst veitt í gegnum Sultartangavirkjun og síðan inn í Bjarnarlón og í gegnum Búrfellsvirkjun. Það er því fyrst og fremst þegar Sultartangalón er orðið fullt síðsumars sem umframvatn er látið renna um Þjófafoss.
Með tilkomu Búrfellsvirkjunar 2 hefu vatnsrennsli um Þjófafoss minnka enn frekar, hvort sem er sumar eða vetur.
View
Skálafell – Hjallanes
Skálafell er staðsett á milli Jökulsárlóns og Hafnar í Hornafirði. Skálafell býður upp á glæsilegar merktar gönguleiðir í kringum svæðið, þar á meðal einungis 45 mínútna göngu að brún Vatnajökuls. Einnig hefur ný göngubrú verið reist yfir ánna Kolgrímu sem gefur möguleika á göngu um Heinaberg frá Skálafelli. Svæðið er gríðarlega vinsæll áfangastaður þegar skoða á jökulinn og náttúruna í kring.
View
Langisjór, Fögrufjöll, Grænifjallgarður
Stöðuvatn innan Vatnajökulsþjóðgarðs suðvestan undir Vatnajökli, rúmlega 20 km langt og 2 km á breidd þar sem breiðast er. Hæð yfir sjó er 670 m, mesta dýpi 73,5 m og flatarmál 25,7 km². Langisjór liggur frá norðaustri til suðvesturs, aðkrepptur af háum fjöllum, Tungnaárfjöllum að norðvestan en Fögrufjöllum að suðaustan. Ganga fjöllin víða með þverhníptum klettahöfðum fram í vatnið sem er allvogskorið. Norðaustan að Langasjó er Vatnajökull en Sveinstindur fyrir suðvesturenda vatnsins.
Svo má kalla að allt í kringum Langasjó séu gróðurlaus öræfi og var hann því öllum ókunnur fram á seinni hluta 19. aldar. Þorvaldur Thoroddsen lýsti fyrstur manna Langasjó til hlítar en hann kom þangað fyrst 1889 og aftur 1893 og gaf honum nafnið sem við hann hefur fest. Þá gekk skriðjökull niður í efri enda vatnsins en nú er drjúgur spölur frá jökulröndinni að vatnsendanum.
Í Langasjó eru margar eyjar. Landslag er þar allt stórbrotið og fagurt í formum. Afrennsli Langasjávar er um Útfall, rúma 3 km frá innri vatnsenda og fellur það úr vatninu í fossi og síðan fram í Skaftá. Hvergi sér til Langasjávar fyrr en komið er að honum. Útfallið er einnig torfundið. Fannst það fyrst árið 1894 er Fögrufjöll voru smöluð fyrsta sinni.
Fært er fjallabílum að Langasjó á sumrin og er þá farið af Fjallabaksvegi nyrðri við Herðubreið. Fagurt útsýni gefst yfir Langasjó frá Sveinstindi.
View
Frostastaðavatn
Stöðuvatn á Landmannaafrétti, við Landmannaleið. Að Frostastaðavatni liggja hraun, Dómadalshraun að vestan, Námshraun, líparíthraun með miklum hraunfossi, að sunnan og Frostastaðahraun að norðan. Austan að því liggur Frostastaðaháls.
Gróðurlítið er við vatnið nema helst að norðan. Í því er lítill, mosagróinnn hólmi. Sögn hermir að bær hafi verið hér fyrrum og heitið Frostastaðir. Sagt er að fólkið þar hafi dáið af öfuguggaáti. Lagðist byggðin niður og veiði hvarf úr vatninu. Önnur sögn hermir að veiði hafi horfið úr Frostastaðavatni vegna þess að stúlka nokkur, sem þjónaði veiðimönnum, náði í loðsilung og gaf hann að eta einum mannanna, sem hún lagði hug á en sem ekki vildi þýðast hana.
View
Vatnajökulsþjóðgarður
Vatnajökulsþjóðgarður, stofnaður 7. júní 2008, nær yfir um 14 prósent af flatarmáli landsins (14.701 ferkílómetrar) og er þar með næst stærsti þjóðgarður Evrópu. Landssvæði þjóðgarðsins er einstakt á heimsvísu. Þar er að finna síkvikt samspil jökla og eldvirkni, jökulhlaupa, eldgosa og jarðhita. Jarðfræðileg fjölbreytni er óvenjulega mikil og innan væntanlegra þjóðgarðsmarka er að finna afar sjaldgæfar landslagsheildir, m.a ósnortin víðerni. Með stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs réðust Íslendingar í stærsta náttúruverndarverkefni þjóðarinnar frá upphafi. Stofnun þjóðgarðsins er einnig eitt stærsta atvinnusköpunar- og byggðaþróunarverkefni sem stjórnvöld hafa tekist á hendur í þessum hluta landsins.
Vatnajökulsþjóðgarður var tilnefndur og skráður á heimsminjaskrá 2019 fyrir náttúruminjar undir áttunda viðmiði (criteria viii) sem kallar á að viðkomandi staður sé einstakt dæmi um mikilvægt stig í þróun jarðarinnar. Svæðið er því viðurkennt sem einstakt á heimsvísu vegna samspils elds og íss sem hefur leitt til stórbrotinnar náttúru og fjölbreyttra fyrirbæra.
Vatnajökull er stærsti jökull Evrópu. Flatarmál hans er um 7.780 km2 og ísinn víðast 400–600 m þykkur en mest um 950 m. Undir jökulísnum leynast fjöll, dalir og hásléttur. Þar eru líka virkar megineldstöðvar. Bárðarbunga er stærst þeirra en Grímsvötn sú virkasta. Hæst nær jökulhettan rúma 2.000 m yfir sjó en jökulbotninn fer lægst 300 m niður fyrir sjávarmál. Að frátöldum Mýrdalsjökli er úrkoma hvergi meiri á Íslandi en á sunnanverðum Vatnajökli né afrennsli meira til sjávar. Svo mikill vatnsforði er bundinn í Vatnajökli að það tæki vatnsmestu á Íslands, Ölfusá, rúm 200 ár að bera hann fram.
Landslag umhverfis Vatnajökul er fjölbreytilegt. Norðan hans er háslétta afmörkuð af vatnsmiklum jökulám. Yfir henni gnæfa eldstöðvarnar Askja, Kverkfjöll og Snæfell og móbergsstapinn Herðubreið, drottning íslenskra fjalla. Í fyrndinni skáru mikil hamfarahlaup Jökulsárgljúfur í norðanverða hásléttuna. Efst í gljúfrunum dunar nú hinn kraftmikli Dettifoss en utar má finna formfagra Hljóðakletta og hamraskeifuna Ásbyrgi. Víðfeðm heiðalönd og votlendi einkenna svæðið við Snæfell næst jöklinum austanverðum. Þar eru mikilvæg búsvæði hreindýra og heiðagæsa.
Sunnan Vatnajökuls eru háir og tignarlegir fjallgarðar einkennandi og milli þeirra fellur fjöldi skriðjökla niður á láglendið. Syðst trónir megineldstöðin Öræfajökull og hæsti tindur landsins, Hvannadalshnjúkur. Í skjóli jökulsins er gróðurvinin Skaftafell og þar vestur af svartur Skeiðarársandur, sem tíð eldgos og jökulhlaup úr Grímsvötnum hafa skapað. Vestan Vatnajökuls einkennist landslag líka af mikilli eldvirkni. Þar urðu tvö af stærstu sprungu- og hraungosum jarðar á sögulegum tíma, Eldgjárgosið 934 og Skaftáreldar í Lakagígum 1783–1784. Norðvestan jökuls liggur Vonarskarð, litríkt háhitasvæði og vatnaskil Norður- og Suðurlands.
Vatnajökulsþjóðgarður Skaftárstofa Skaftafellsstofa
View
Álftavatn á Rangárvallaafrétti
Í Álftavatni er skálasvæði og þar er bleikjuveiði í vatninu. Stutt er frá Álftavatni í náttúruperlur á borð við Grashaga, Torfafit, Ljósártungur, Jökultungur, Ófæruhöfða, Útigönguhöfða, Hvanngilshnausa, Torfatind, Sátu, Brattháls og Hvanngil.
Álftavatnsskálasvæðið er á Laugaveginum, einni vinsælustu gönguleið landsins frá Landmannalaugum í Þórsmörk.
View
Fuglafriðland í Flóa
Friðlandið í Flóa og Ölfusforir Á ósasvæði Ölfusár eru tvö stór votlendi, Friðland Fuglaverndar í Flóa austan og Ölfusforir vestan ár. Þetta eru miklar flæðisléttur með tjörnum og vötnum. Engjarnar hafa jafnt gildi á fartíma og sem varpstaður. Lómur er einkennisfugl Friðlandsins og lóuþræll og jaðrakan eru óvíða algengari. Á veturna er mikið fuglalíf í Ölfusforum, stórir hópar af urtöndum, stokköndum og gulöndum halda þar til, og jafnframt stærsti hópur gráhegra á landinu.
View
Reykjafoss
Lystigarðurinn í Hveragerði er í miðju bæjarins og markast af Breiðumörk, Skólamörk og Varmá. Ræktun garðsins hófst þar árið 1983 og er þar nú fallegur gróður með leiksvæði, bekkjum og borðum sem ferðamenn geta nýtt sér til útivistar.
Í ánni Varmá rennur Reykjafoss. Á bakka Varmár neðan við Reykjafoss má sjá leifar af gömlum húsgrunni. Grunnurinn markar upphaf byggðar í Hveragerði því þar var ullarverksmiðja sem reist var árið 1902 og nýtti fallorku fossins.
Innar í Varmárgilinu eru uppistandandi veggir rafstöðvar sem gerð var árið 1929. Þaðan má rekja undirstöður fallstokksins að heillegri stíflunni neðan Hverahvamms.
View
Efra-Hvolshellar
Í landi Efra-Hvols eru þrír manngerðir hellar sem kallast einu nafni Efra-Hvolshellar. Hellarnir eru grafnir í fremur gróft þursaberg sem líklega er jökulberg að uppruna. Neðan til er bergið fínna, gert úr lagskiptum, víxllaga og skálaga sandsteini. Tveir hellanna eru samtengdir með göngum og nefnast þeir Efsti hellir og Miðhellir. Sá þriðji stendur stakur 20-30 metrum sunnar og nefnist Stóri hellir. Hann er um 42 metrar á lengd, og er talinn næstlengsti manngerði hellir á Íslandi. Ekki hafa fundist ummerki mannvistar í hellunum en það hefur ekki enn verið rannsakað með fornleifafræðilegum aðferðum. Síðast voru hellarnir notaðir sem fjárhús og hlaða en hafa staðið auðir og ónotaðir síðan 1943.
Loftop Stóra hellis hefur að hluta til hrunið og mold fyllt göngin. Búið er að moka út úr hellunum að hluta í samráði við Minjastofnun Íslands. Ekki er talin hætta af frekara hruni en þó skyldi fólk sýna aðgát. Hellarnir hafa verið friðlýstir síðan árið 1929 sem menningarminjar.
Upplýsingar um fleiri staði í nágrenninu: www.katlageopark.is
View
Landbrotshólar
Í Landbroti, rétt hjá Kirkjubæjarklaustri, eru Landbrotshólar, eitt víðáttumesta gervigígasvæði á Íslandi um 50 ferkílómetrar að flatarmáli og mynduðust þegar Elgjárhraunið rann um 934 - 940.
Hólarnir eru óteljandi og fjölbreytilegir að lögun og útliti. Gervigígar myndast þegar glóandi hraunkvika rennur yfir ár, stöðuvötn eða vatnsrík setlög. Þegar heitt hraunið rennur yfir vatnsósa undirlag verða miklar gufusprengingin í hraunrásinni. Við það þeytist gjóska upp í loftið og miklir hólar hlaðast upp.
Skemmtileg, auðveld 9 km gönguleið er um Landbrotshólana og byrjar við Skaftárbrúna. Leiðin liggur að Hæðargarðsvatni og þaðan inn í hólana.
View
Núpsstaðarskógar
Núpsstaðarskógar
Núpsstaðarskógar eru í landi Núpsstaðar en Núpsstaður er austasti bærinn í Skaftárhreppi og stendurvið Lómagnúp. Á Núpsstað standa einkar merkileg gömul bæjarhús sem talin eru dæmigerð fyrir bæi á Íslandi á síðustu öldum. Þeirra merkast er bænhúsið sem er ein af örfáum torfkirkjum sem enn eru til á landinu. Fegurð umhverfisins við Núpsstað er vel þekkt. Svæðið nær frá sjó og svörtum söndum og allt tilVatnajökuls. Eldgos, jöklar og vötn hafa mótað umhverfið auk þess að skapa fjölbreyttar og einstakar jarðmyndanir.
Núpsstaðarskógar eru sérlega fagurt kjarrlendi sem vex í hlíðum Eystrafjalls, vestan Skeiðarárjökuls og sunnan Grænalóns. Þarna vex fjölbreyttur gróður og gaman er að ganga um svæðið. Þarna er margt að sjá og landslag á svæðinu er víða mikilúðlegt og verður minnisstætt þeim sem á annað borð leggja á sig ferð þangað. Leiðin inn í Núpsstaðarskóga liggur nú austan Núpsvatna og það þarf ekki lengur að fara yfir jökulár en slóðinn er þó aðeins fær jeppum. Til fróðleiks má geta þess að í Núpsstaðarskógum gekk úti villifé á 19. öld.
View
Stóri Dímon
Dímon, Stóri- og Litli- á Markarfljótsaurum. Stóri-Dímon er stórt, grasi gróið fell (178 m y.s.) í mynni Markarfljótsdals, að mestu úr móbergi. Koma saman í því mörk Austur-Landeyja, Fljótshlíðar og Vestur-Eyjafjalla.
Í fellinu var talið að væri 50-60 kinda beit vetur og sumar. Örnefnið Rauðaskriða er í Stóra-Dímon. Frá því er sagt í Njáls sögu að Njálssynir sátu fyrir Þráni Sigfússyni í Rauðaskriðum er Skarphéðinn vó hann og hljóp “tólf álna yfir Markarfljót “ milli höfuðísa. Í Njáls sögu segir einnig frá því að Gunnar á Hlíðarenda og Njáll á Bergþórshvoli áttu skóg í Dímon og gerðu til kola. Þar vó Kolur, verkstjóri Gunnars, Svart, húskarl Njáls; þegar hann var við kolagerð. Var það fyrsta vígið sem unnið var í deilum þeirra Hallgerðar og Bergþóru.
Litli-Dímon er sunnan við eystri brúarsporð gömlu Markarfljótsbrúar. Fell, hæðir eða háar eyjar, er nefnast Díma eða Dímon, eru á nokkrum stöðum á landinu. Eru þær venjulega tvær saman. Nafnið er talið merkja tvífjall og er komið úr latínu “dimontes”. Í Færeyjum eru til sams konar örnefni.
View
Fjaðrárgljúfur
Fjaðrárgljúfur er 6 kílómetra frá þjóðvegi 1, beygt er inn á veg F206. Fært er á fólksbílum að Fjaðrárgljúfri allt árið. Fjaðrárgljúfur er stórbrotið og hrikalegt, um 100 metra djúpt og um tveir kílómetrar að lengd. Gljúfrið er veggbratt, örlítið hlykkjótt og þröngt. Berggrunnurinn í Fjaðrárgljúfri er að mestu móberg frá kuldaskeiðum ísaldar og telst um tveggja milljóna ára gamalt. Fjaðrá á upptök sín í Geirlandshrauni og fellur fram af heiðarbrúninni í þessu mikilfenglega gljúfri þar til hún skilar sér niður í Skaftá. Fjaðrá er bergvatnsá og ljóst er aðhún hefur breyst mikið í tímans rás. Fjaðrárgljúfur er á náttúruminjaskrá.
Myndun FjaðrárgljúfursTalið er að Fjaðrárgljúfur hafi myndast við lok síðasta jökulskeiðs eða fyrir um níu þúsund árum. Þegar jökullinn hörfaði myndaðist lón í dalnum á bak við bergþröskuld en afrennslisvatn úr lóninu rann þar sem nú er Fjaðrárgljúfur. Jökulár frá jaðri jökulsins báru fram mikið af seti í lónið en áin sem rann frá því gróf sig niður í þröskuldinn og ofan í móbergið framan við hann. Þegar vatnsfallið var sem stærst var það öflugt við gljúfurgröftinn. Að því kom að stöðuvatnið fylltist af framburði jökulvatnanna og afl árinnar dvínaði. Þegar stöðuvatnið var orðið fullt hóf áin að grafa sig í setlögin sem hún hafði áður skilið eftir sig í dalnum. Malarhjallar beggja vegna í dalnum segja til um upphaflegu hæð og staðsetningu stöðuvatnsins og djúp rás í móberginu ber þögult vitni um afl náttúrunnar.
Örnefnið Fjaðrá hefur oft vafist fyrir mönnum en telja sumir að hér hafi eitt sinn verið fjörður og hafi áin borið nafnið Fjarðará í upphafi. Á þessu eru skiptar skoðanir og kannski búa ferðalangar yfir betri útskýringu á nafninu?
Upplýsingar um fleiri staði í nágrenninu: www.katlageopark.is
View
Mýrdalsjökull og Katla
Jökulhvel (1493 m y.s.) norður af austasta hluta Rangárvallasýslu og vestasta hluta Vestur-Skaftafellssýslu. Mýrdalsjökull er um 595 km². Frá honum teygjast ýmsir skriðjöklar og sá sem gengur lengst niður og liggur syðst er Sólheimajökull en til austurs er Kötlujökull mestur. (Oft ranglega nefndur Höfðabrekkujökull). Undan Mýrdalsjökli falla ýmis meiri háttar jökulvötn, þar á meðal ýmsar þverár Markarfljóts, ennfremur Jökulsá á Sólheimasandi, Múlakvísl og Hólmsá (Leirá). Í Mýrdalsjökli suðaustanverðum eru eldstöðvar Kötlu. Nýjustu rannsóknir þykja benda til að undir jöklinum hafi verið eldkeila sem fallið hefur í sjálfa sig og þá myndast geysimikið ketilsig, um 10 km í þvermál, líkt og Askja í Dyngjufjöllum. Talið er að Katla sé ekki ein gosstöð heldur séu fleiri gosstöðvar, jafnvel sprungur í sigkatlinum og að Kötlugjá sé dýpsta skarðið út úr katlinum.
View
Hallskot - Skógræktarfélag Eyrarbakka
Stórbrotið útivistarsvæði norðan við Eyrarbakka í átt að Fuglafriðlandinu í Flóa. Hallskot hefur verið í umsjá Skógræktarfélags Eyrarbakka frá 2015.
Hallskot bíður uppá ótal möguleika og eru reglulega haldnir viðburðir, bæði úti og í bragganum. Svæðið er kjörið til að nýta sem áningarstað, skjólsælt með bekkjum og borðum.
HEIMILISFANG: 820 EYRARBAKKI / SÍMI: (+354) 660 6130, (+354) 847 5028 SKOGRAEKTARFELAGEYRARBAKKA@GMAIL.COM
View
Brúarfoss
Brúarfoss er fallegur foss í Bláskógabyggð á Suðurlandi. Hann er þekktur fyrir sína einstöku tæru bláu lit sem stafar af því hvernig ljósið endurkastast af fíngerðu setbergi í vatninu. Brúarfoss er hluti af Brúará sem rennur í gegnum gróskumikið landsvæði og myndar fossinn þar sem áin þrengir sig í gegnum mjó gil.
Fossinn er ekki sá hæsti né breiðasti á Íslandi, en hann er einstaklega fallegur og hefur skapað sérstakan stað í hjörtum ferðalanga og ljósmyndara víða um heim vegna sérkennilegs litasamspils vatnsins. Brúarfoss er tiltölulega ósnortinn af ferðamönnum sem gerir hann að kjörnum áfangastað fyrir þá sem leita friðsældar og náttúrufegurðar án mikilla mannmergða.
Leiðin að Brúarfossi getur verið ævintýri í sjálfu sér. Þótt hann sé ekki langt frá þjóðvegi 1 þarf að ganga um stíga sem liggja í gegnum fallegt landslag. Gönguferðin býður upp á möguleika til að njóta kyrrðar í íslenskri náttúru og er vel þess virði fyrir þá sem kjósa að leggja leið sína þangað.
Á svæðinu er ekki bara Brúarfoss heldur einnig nokkrir minni fossar. Ferðamenn geta notið þess að ganga meðfram ánni og upplifa mismunandi sjónarhorn af vatnsfallinu.
Það sem gerir Brúarfoss sérstaklega heillandi er hvernig hreint og tært vatn árinnar blandast við grænan mosann og basalthamrana í landslaginu. Þessi náttúrufegurð, ásamt tiltölulega auðveldra aðgengi gerir Brúarfoss að must-see áfangastað fyrir alla þá sem heimsækja Ísland hvort sem þeir eru innlendir eða erlendir og vilja upplifa einstaka fegurð landsins án þess að þurfa að fara langt frá helstu ferðamannastöðum svæðisins.
View
Heinaberg
Heinaberg er fallegt landsvæði innan Vatnajökulsþjóðgarðs þar sem bæði er að finna Heinabergsjökull og jökullónið Heinabergslón. Á sumrin er í boði að sigla á kajak innan um ísjakana í skipulögðum ferðum undir leiðsögn.
Hægt er að komast að Heinabergslón á bíl og er lónið oftar en ekki skreytt stórum ísjökum sem brotnað hafa af Heinabergsjökli. Á svæðinu eru kjöraðstæður fyrir göngufólk þar sem þar eru margar áhugaverðar gönguleiðir þar sem bjóða gestum upp á að ganga fram á fram á fossa, gil, storkuberg, og jafnvel sjá hreindýr.
Malarvegurinn að svæðinu er ekki í þjónustu yfir veturinn og miða þarf aðgengi að svæðinu á þeim tíma við aðstæður hverju sinni.
View
Mýrdalssandur
Mýrdalssandur takmarkast af Höfðabrekkuheiði að vestan, Mýrdalsjökli að norðan og Skaftártungu og Álftaveri að austan en hafi að sunnan. Hann er talinn um 700 km². Suðuroddi hans, Kötlutangi, er syðsti tangi Íslands og þar gengur landið fram af framburði jökulánna og þó sér í lagi Kötluhlaupa en sjávargangur vinnur á móti.
Vestan til er Mýrdalssandur samfelld, gróðurlaus auðn en lítils háttar grasgróður er á honum austanverðum og heita þar Loðinsvíkur. Í fornum sögum segir að skógur hafi verið á honum sunnanverðum, hjá Hjörleifshöfða.
Um Mýrdalssand flæmast nokkur jökulvötn sem koma undan Mýrdalsjökli. Mest þeirra eru Múlakvísl, Skálm og Hólmsá. Stundum hafa þau gert verulegan óskunda, einkum að því er tekur til samgangna og brotið brýr og vegi. Sandurinn er víða mjög fíngerður. Í hvassviðri verður vegurinn yfir sandinn oft ófær sökum sandfoks og hafa margir bíleigendur orðið fyrir stórtjóni vegna þess. 1988 var vegurinn um Mýrdalssand færður sunnar og liggur nú nærri Hjörleifshöfða og lægra en áður. Þarna er snjóléttara en á vegstæðinu ofar á sandinum en í hlákuköflum að vetrinum hefur vatn gert mikinn óskunda á veginum.
View
Langjökull
Langjökull er næststærsti jökull landsins. Aðgengi að jöklinum er með því besta sem gerist, en þó ætti enginn að reyna að aka upp á jökul á eigin vegum. Ferðaþjónustufyrirtæki bjóða upp á ferðir þar sem ekið er upp á jökulinn á sérútbúnum bílum og reyndir jöklaleiðsögumenn eru alltaf með í för. Í boði eru ökuferðir, gönguferðir og snjósleðaferðir.
View
Systrafoss
Systrafoss heitir fossinn þar sem Fossá fellur úr Systravatni fram af fjallsbrúninni fyrir ofan Kirkjubæjarklaustur. Neðarlega í gilinu er gríðarstór steinn, Fossasteinn, sem hrapaði úr fjallinu í miklu þrumuveðri um 1830. Falleg gönguleið er upp á brúnina og þar er hægt að ganga 5 km hringleið, Ástarbrautina. Gengið er uppi á fjallsbrúninni til austurs, niður af heiðinni og að Kirkjugólfinu. Uppi á fjallinu er er stórbrotið útsýni. Þar er líka listaverkið Gullmolinn sem minnir okkur á litlu heimarafstöðvarnar sem gáfu fólki ljós og yl á tuttugustu öldinni.
Skógurinn við Systrafoss er frá því 1945. Skógarstígurinn er hringleið í skóginum þar sem einn viðkomustaðurinn er Sönghellir. Við skógarstíginn er merkt hæsta tré á Íslandi, sitkagreni sem er nærri því að verða 30 metra hátt.
View
Kerlingarfjöll
Stórbrotinn og svipfagur fjallaklasi, um 150 km², suðvestan undir Hofsjökli. Draga þau nafn af drang einum miklum og dökkum, úr móbergi, um 25 m háum, sem Kerling heitir og stendur upp úr ljósri líparítskriðu sunnan í Tindi (Kerlingartindi) í vestanverðum fjöllunum. Björn Gunnlaugsson kallar Kerlingarfjöll Illviðrahnjúka en það nafn er nú gleymt, hafi það nokkurn tíma orðið fast við þau. Tindar Kerlingarfjalla eru um 800-1500 m y.s. og rísa furðubrattir upp af 600-700 m hásléttu. Fjöllin eru mjög mótuð af sprungum og meginstefna þeirra er frá norðaustri til suðvesturs en í þeim norðanverðum er þó þver sprungustefna, frá suðaustri til norðvesturs. Kalla má að Kerlingarfjöllum sé deilt í tvennt af Hveradölum sem ganga inn í fjöllin frá vestri. Norðaustan við Hveradali heita Austurfjöll. Þau eru hæsti og hrikalegasti hluti Kerlingarfjalla og þar eru hæstu tindar þeirra, Snækollur (1482 m y.s.) og Loðmundur (1429 m y.s.). Kerlingarfjöll eru að langmestu leyti úr líparíti, ljósbrúnu að lit, en randfjöll þeirra úr móbergi. Víða er hrafntinna. Talið er að þau hafi orðið til á síðari hluta ísaldar. Jarðhiti er geysimikill í Kerlingarfjöllum, mestur í Hveradölum en einnig er jarðhiti í austanverðum Botnafjöllum og í Hverabotni suðaustan undir Mæni. Jöklar eru allmargir í skörðum og slökkum í um 1150-1300 m hæð en skriðjöklar ganga niður undir 800 m hæð. Fara jöklar þessir minnkandi sem annars staðar. Alls eru jöklarnir um 8 km². Samfelldur gróður er sáralítill í Kerlingarfjöllum nema smáblettir í Innra- og Fremra-Árskarði og Kisubotnum. Meira að segja eru jarðhitasvæðin gróðurlaus að heita má en þó er lítils háttar gróður, sefbrúða og dúnurtir, í dýjavolgrum. Þorvaldur Thoroddsen kannaði Kerlingarfjöll fyrstur manna og gaf þar ýmis nöfn, til dæmis nafnið Ögmund eftir Ögmundi Sigurðssyni, fylgdarmanni sínum. Frá árinu 1961 var skíðaskóli starfræktur í Árskarði í Kerlingarfjöllum, en nú ferðaþjónusta.
View
Þjórsárdalsskógur
Náttúrleg umgjörð skógarins fylgir fjölbreyttu landslagi þar sem mætast miklar andstæður, allt frá blómlegum skógum að ógrónum öskuflákum úr Heklu. Skógurinn er að mestu birkikjarr, auk blandskóga af greni, furu og lerki. Kjörinn staður til útivistar, enda er í skóginum fjöldi merktra og ómerktra stíga og skógarvega.
Þjórsárdalsskógur liggur vestan við þjóðveg 32 þar sem hann sveigir til austurs í átt að Búrfellsvirkjun. Hægt er að komast í skóginn af afleggjaranum að Ásólfsstöðum og einnig um göngubrú yfir Sandá spölkorn innar í dalnum. Tjaldsvæðið í Þjórsárdal er þar á milli og er vel merkt.
Í Þjórsárdal teygir skógur sig langt upp í hlíðar, landslag er fagurt, fjölbreytt og sannkallaður ævintýrabragur er á því. Í skóginum eru fjölmargir merktir og ómerktir stígar og slóðar til umferðar fyrir ferðalanga og göngugarpa, ár til að sulla í og hraun til að skoða. Á svæðinu eru stígar færir hjólastólum, góð tjaldstæði og sundlaug er í Árnesi um 15 kílómetrum neðar í sveitinni.
Heimild: skoraekt.is
View
Veiðivötn
Vatnaklasi á Landmannaafrétti, norðan Tungnaár. Veiðivötn liggja í lægð með norðaustur-suðvesturstefnu milli Snjóöldufjallgarðs að suðaustan og Vatnaöldugígaraðarinnar að norðvestan. Vatnasvæðið er um 5 km breitt og 20 km langt frá norðaustri til suðvesturs. Svæðið er mjög eldbrunnið, þakið gjósku, gígum eða hrauni. Mikið eldgos um 1480 myndaði gígaröð um Veiðivötn og suður að Landmannalaugum. Mörg vatnanna eru gígvötn í gígum sem ná niður í jarðvatnsborðið. Fullyrða má að í þessu gosi hafi Veiðivötn fengið sína núverandi mynd og e.t.v. að um leið hafi hinn forni Stórisjór horfið. Stærstu gígarnir eru myndaðir úr gjósku, þ.e. við gos þar sem vatn hefur haft áhrif á kvikuna. Smærri gígarnir eru úr hraunkleprum og sumir þeirra eru fallegar eldborgir. Þeir eru oft í botni stóru gjóskugíganna og smáhraunbleðill umhverfis.
Segja má að Veiðivötn liggi í tveimur röðum. Helstu vötnin í austari röðinni eru Snjóölduvatn, Ónýtavatn, Grænavatn (13 m djúpt) og Litlisjór. Í vestari röðinni liggja vötnin í gígaröðinni frá 1480. Þau eru fleiri og yfirleitt smærri. Helst þeirra eru Nýjavatn, Breiðavatn, Eskivatn sem er dýpsta vatnið (36 m), Langavatn, Skálavatn, Tjaldvatn og Litla- og Stóra-Fossvatn (18 og 15 m djúp). Fossvatnakvísl fellur úr Litla-Fossvatni. Hún fellur í Vatnakvísl sem er stór lindá er rennur suðvestur með Vatnaöldum til Tungnaár. Mörg vötnin hafa neðanjarðarafrennsli enda er berggrunnurinn mjög sprunginn og lekur. Nyrst og austast eru svo Hraunvötn sem einnig eru gígvötn. Alls eru vötn og pollar á þessu svæði um 50 talsins.
Gróðurvinjar eru við sum vötnin, til dæmis við Litla- og Stóra-Fossvatn, en stærstu gróðurlendin eru þó Kvíslar milli Grænavatns og Ónýtavatns og Breiðaver við Breiðavatn. Gróðurlendi við Veiðivötn er sérlega viðkvæmt og verður að gæta ýtrustu varkárni í allri umgengni þar.
Eins og nafnið bendir til er mikil veiði í Veiðivötnum. Svo var einnig frá fornu fari og nefndust vötnin fyrrum Fiskivötn. Áður veiddist eingöngu urriði en eftir að bleikju var sleppt í vötn annars staðar á vatnasviði Tungnaár hefur hennar orðið vart þar. Veiðivötn teljast til Landmannaafréttar. Nú á dögum er veiðiréttur í höndum Veiðifélagsins á afréttinum og eru almenningi seld veiðileyfi (stöng) yfir sumartímann en handhafar veiðiréttarins stunda þar netaveiðar á haustin. Árið 1880 var gerð tilraun til búskapar við Veiðivötn er Arnbjörn Guðbrandsson af Landi flutti þangað með konu sinni og gerði sér þar bústað en búskapurinn varð skammvinnur (sjá Tjaldvatn).
Fyrrum fóru fáir til Veiðivatna aðrir en “Vatnakarlar” en nú eru þau fjölsótt af ferðamönnum á sumrin. Veiðifélagið á allmörg hús við Tjaldvatn og nágrenni. Gamall veiðimannakofi er þar. Hann er nú friðlýstur.
Fyrstir til að rannsaka Veiðivatnasvæðið og skrifa um það voru Sveinn Pálsson 1793 og Þorvaldur Thoroddsen 1889. Nýlegar rannsóknir sýna meðal annars að þar gaus síðast um 1480. Mikið gjóskulag myndaðist í gosinu og lagði mökkinn aðallega til norðurs og norðausturs. Eru sandauðnir Tungnaáröræfa aðallega klæddar gjósku úr Veiðivatnagosinu, en einnig Vatnaöldugosinu. Hringsjá er á Miðmorgunsöldu norðaustur frá Tjaldvatni.
Heimild: Íslandshandbókin útgáfa 1995.
View
Katla Jarðvangur
Katla JarðvangurÍ Kötlu jarðvangi eru margar merkilegar jarðminjar, sumar á heimsvísu. Yfir 150 eldgos hafa verið skráð þar frá landnámi. Eldvirknin hefur mótað landið og haft áhrif á búsetu manna eins og öskugosin í Eyjafjallajökli 2010 og Grímsvötnum 2011 sanna. Einstaklega kvik og síbreytileg náttúra hefur mótað sögu og mannlíf jarðvangsins í aldanna rás.
Katla jarðvangur nær yfir land þriggja sveitarfélaga, Rangárþings eystra, Mýrdalshrepps og Skaftárhrepps. Flatarmál hans er 9542 km2 eða rúm 9% af heildarflatarmáli Íslands. Íbúafjöldi er um 2700 manns. Kvikfjárrækt hefur verið megin atvinnuvegur svæðisins en síðustu ár hefur kornrækt aukist. Hvolsvöllur, Vík og Kirkjubæjarklaustur eru helstu þjónustukjarnar fyrir sveitirnar. Undanfarin ár hefur mikilvægi ferðaþjónustu aukist gríðarlega í atvinnulífi svæðisins.
Jarðfræði Ísland er á Mið-Atlantshafshryggnum þar sem tveir jarðskorpuflekar gliðna í sundur á svokölluðu rekbelti. Auk þess er möttulstrókur undir landinu með miðju undir Vatnajökli. Samspil rekbeltis og möttulstróks veldur flókinni og fjölbreyttri eldvirkni á Suðurlandi.
Sérstaða Kötlu jarðvangsins felst í þessari eldvirkni og víðfeðmum áhrifum hennar á landmótun og náttúrufar. Einkennandi eru megineldstöðvar, gígar og gossprungur, gervigígar, hraunbreiður, móbergsfjöll og móbergshryggir sem hafa sömu stefnu og rekbeltið. Eldstöðvakerfin Hekla, Katla, Grímsvötn og Bárðarbunga eru virkust við landmótunina.
Jöklar eru einnig áberandi í landslagi þar sem þeir þekja hæstu eldfjöll. Frá þeim falla skriðjöklar og jökulár. Jökulgarðar og jökullón eru einnig áberandi. Hamfaraflóð vegna eldgosa undir jökli mynduðu sandana á láglendi.
Elsta bergið er um 2,5 milljón ára gamalt og finnst við rætur Lómagnúps sem er gamall sjávarhamar og eitt hæsta standberg landsins (671 m). Aðrar áhugaverðar myndanir í jarðvanginum eru steingervingar í hnyðlingum og gjóskulög sem hafa reynst vel við aldursákvarðanir.
Finna má frekari upplýsingar á www.katlageopark.is
View
Þórsmörk
Þórsmörk er einstök náttúruperla norðan Eyjafjallajökuls og vestan Mýrdalsjökuls. Þórsmörk afmarkast af Mýrdalsjökli í austri, Krossá í suðri og Markarfljóti og Þröngá í norðri. Þórsmerkursvæðið er mjög giljótt, kjarri vaxið upp í brekkur og er gróðurfar og landslag mjög fjölbreytilegt. Áður fyrr ráku bændur úr Fljótshlíð og undan Eyjafjöllum fé sitt í Þórsmörk til beitar bæði sumar og vetur og stunduðu þeir einnig skógarhögg á svæðinu.
Í kjölfar Kötlugossins 1918 var Þórsmörk beitarfriðuð og falin Skógrækt ríkisins til umsjónar. Ótalmargir áhugaverðir staðir eru á þessu svæði s.s. Snorraríki, Sóttarhellir, Álfakirkja, Stakkholtsgjá og steinbogi í Stóra-Enda. Ekki er fært í Þórsmörk nema á stórum jeppum eða rútum og hafa skal í huga að litlar sakleysislegar ár, geta breyst í stórfljót á nokkrum klukkutímum.
View
Gluggafoss
Merkjárfossar eru í Fljótshlíð um 21 km frá Hvolsvelli. Í ánni Merkjá eru nokkrir fossar og þeirra þekktastur er Gluggafoss en hann er um 40 m hár. Efri hluti klettanna sem hann fellur um er móberg en neðri stallurinn er úr blágrýti. Nafn sitt dregur fossinn af því að vatnið hefur sorfið mjúkt móbergið og myndað göng, vatnið spýtist svo út um gangnaopin, „gluggana“ í fossinum neðanverðum. Efst í fossinum fellur hluti vatnsins undir steinboga.
Þar sem bergið er mjúkt breytist fossinn nokkuð á einum mannsaldri. Um 1947 sást til að mynda lítið af efri hluta fossins því þar féll hann í göngum og var því að mestu hulinn bergi. Bergið var með þremur opum eða gluggum hverju upp af öðru og sást í hvítan vatnsflauminn í gegn um þessa glugga. Um neðsta gluggann bunaði svo vatnið út í fallegum boga en í vatnavöxtum fossaði vatnið út úr öllum þremur gluggunum. Miklar breytingar urðu á Gluggafossi í kjölfar Heklugossins 1947. Var það talið vera vegna þess að um 20 cm lag af vikri féll hér í gosinu, vikurinn barst í ána og hefur að líkindum sorfið klettana hraðar niður en ella. Hurfu göngin að mestu en eru nú óðum að ná fyrri reisn.
Gluggafoss er friðlýstur sem náttúruvætti. Á flötinni fyrir neðan fossinn héldu Rangæingar upp á 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar árið 1974. Nálægt eru uppeldisstaðir tveggja af merkustu skáldum landsins, þeirra Bjarna Thorarensen og Þorsteins Erlingssonar.
Upplýsingar um fleiri staðir í nágrenninu: www.katlageopark.is
View
Hvalnes
Hvalnes er lítill skagi með svartri smásteina strönd sem nær nokkra kílómetra. Á enda Hvalness prýðir gamall, gulur viti, tilvalinn til myndatöku með stórbrotinni náttúrunni, sem og gamall torfbær sem ber sama nafn, Hvalnes.
Ströndin nær nokkra kílómetra og er tilvalin til þess að fara létta göngu eða bara til þess að slappa af á ströndinni og njóta útsýnisins. Hvalnes er kjörinn staður til fuglaskoðunar og ljósmyndunar.
View
Þjórsárhraun
Þjórsárhraun er stærsta hraunbreyða landsins hvort sem er um að ræða að flatarmáli eða á rúmmáli. Einnig er Þjórsárhraun stæðsta hraunbreyða sem runnið hefur á jörðinni síðan lok síðustu ísaldar en það staðnaði við öldur Atlantshafsins frá 6700 f. krist. Áætlað er flatarmálið sé 974 km² og þykktin 15-20m að meðaltali en þar sem hraunið er þykkast er um 40m. Þjórsárhraun er helluhraun og úr dílabasalti ásamt ljósir feldspatdílar sem sitja í dökkum fínkorna grúnnmassa.
Upphaf eldstöðvarinnar er á Veiðivatnasvæðinu og er horfið undir yngri gosmyndanir sem liggja um 70 km niður eftir Tungná og Þjórsá. Meðfram jöðrum hraunsins liggur Þjórsáin og Hvítá sem er einnig Ölfusá en á 17 öld fluttist Ölfusársós um 2-3 km í austur átt.
Selfoss, Eyrarbakki og Stokkseyri eru byggð á Þjórsárhrauninu. Sést vel á sjávargörðum Stokkseyrar sjávarhluti Þjórsárhrauns og þar sést hvar aldan skellur á hraunjaðrinum úti í sjónum en á sjálfri ströndinni eru álar og rásir í hraunskerjunum.
View
Landmannahellir
Landmannahellir er áfangastaður á Landmannaafrétti. Þar hefur verið áfangastaður ferðamanna um svæðið til langs tíma og dregur staðurinn nafn sitt af helli sem þar er og var nýttur um aldir fyrir bæði menn og hross.
Í dag er þar vinsælt skálasvæði þar sem gönguhópar og hestahópar gista gjarnan á sumrin í ferðum sínum en á staðnum er einnig tjaldstæði. Rekstur svæðisins er í höndum Hellismanna ehf. og á félagið mörg hús á svæðinu, en Veiðifélag Landmannaafréttar á einnig fjallaskála þar sem og einkaaðilar.
Þekkt gönguleið, Hellismannaleið, liggur um svæðið og hefur nú verið stikuð frá Rjúpnavöllum um Áfangagil í Landmannahelli og þaðan í Landmannalaugar. Til að komast í Landmannahelli þarf að fara um Dómadalsleið (F225) og eru um 80 km frá Landvegamótum í Landmannahelli.
View
Ósland
Ósland er eyja staðsett nokkrum skrefum frá bryggjusvæðinu á Höfn. Eitt sinn þurfti að sigla út í Ósland en núna er hægt að ganga þangað þökk sé manngerðri landbrú. Ósland er verndað svæði og er vinsæl gönguleið í kringum Óslandstjörn og með fram sjónum. Þar er ríkt fuglalíf og er æðarkollan ríkjandi á varptíma.
Á Óslandshæðinni er minningarvarði sjómanna sem fórust við vinnu sína og upplýsingaskilti um umlykjandi umhverfi. Frá Óslandi er hægt að ganga stíg sem er prýddur sólarkerfinu í réttum hlutföllum. Einnig eru sjáanleg för eftir tré í basalt steinum á svæðinu; tré sem urðu umlukin hrauni fyrir allmörgum árum.
View
Þjórsá
Þjórsá er jökulá að uppruna sem á meginupptök sín í Hofsjökli. Hún er lengsta á landsins eða 230 km löng og hefur mesta vatnasviðið um 8000 km². Vatnsmagn hennar er svipað og Ölfusár, 370 m³/sek, og kemur að mestu undan Hofsjökli og Vatnajökli. Aurframburðurinn er gífurlegur, um 4,5 milljónir tonna á ári.
Á veturna getur áin safnað í sig gífurlegu magni af ís sem sest til neðan til. Stórfenglegt er að koma að gljúfrum Þjórsár neðan við Urriðafoss á vorin þegar íshrönnin er að bresta og áin að ryðja sig.
Hægt er að ganga með gljúfrum og liggur vegurinn samsíða þeim stutt frá.
View
Hekla
Eldfjallið Hekla er eitt frægasta eldfjall Íslands og það sem gosið hefur einna oftast í seinni tíð. Hekla er 1.491 m.y.s. og sést víðast hvar af á Suðurlandi. Hekla hefur um langt árabil haft viðurnefnið Drottning íslenskra eldfjalla og er fjallið þekkt víða um heim.
Mikil hjátrú hefur tengst Heklu og sú frægasta líklega sú að þar væri fordyri helvítis að finna og jafnvel helvíti sjálft. Fyrsta vitneskja af fjallgöngu á Heklu er frá 1750 þegar náttúrufræðingarnir Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson gengu á fjallið. Nokkuð vinsælt er að ganga á Heklu en mikilvægt er að göngumenn viti af þeirri hættu sem getur myndast ef til eldgoss kemur. Yfirleitt er gengið frá Skjólkvíum.
Hekla stendur á jarðskorpu þar sem Suðurlandsbrotabeltið og Suðurlandsgosbeltið mætast og skýrir það að miklu leiti tíð eldgos í fjallinu. En frá því að land byggðist hefur Hekla gosið árin; 1104, 1158, 1206, 1222, 1300, 1341, 1389, 1501, 1597, 1636, 1693, 1766, 1845, 1947, 1970, 1980, 1981, 1991 og 2000. Jarðfræðingar hafa marg ítrekað á undanförnum árum að Hekla sé tilbúin til að gjósa og geti gosið hvenær sem er, en fjallið gefur að jafnaði um klukkutíma fyrirvara á eldgosum.
View
Kerið
Kerið var áður talið sprengigígur en núna er talið að það sé niðurfall eftir hrun gjallgígs. Kerið er um 3000 ára gamall, nyrst í hólaþyrpingu sem nefnist Tjarnarhólar. Kerið er sporbaugslaga, um 270 m langt og breiðast 170 m. Dýpt gígsins er 55 m en í botni hans er tjörn sem er breytileg að dýpt, 7-14 m. Það er gömul sögn að þegar vatnsborð hækkar í Kerinu lækki að sama skapi í tjörninni uppi á Búrfelli í Grímsnesi og öfugt. Sumarið 1987 voru haldnir útitónleikar í Kerinu. Voru listamennirnir úti á tjörninni í gúmmíbátum.
View
Skeiðarársandur
Skeiðarársandur er stórt svæði þakið svörtum sandi sem nær frá Skeiðarárjökli og niður að sjó.
Sandurinn þekur 1300 ferkílómetra svæði og myndaðist þegar jökulár í nágrenninu báru jarðveg að sjónum. Árnar bera með sér jarðveg sem komst upp á yfirborðið við jökulhlaup frá Vatnajökli. Við jökulinn er jarðvegurinn malarborin og jafnvel grýttur, en þegar farið er nær sjónum er hann orðinn að sandi og leir. Forðum var lítið um gróður við Skeiðarársand en á síðasta áratug hafa birkitré sprottið á sandinum og er skógurinn staðsettur miðsvæðis þar sem trén vaxa og dafna. Á Skeiðarársandi er einnig stórt varpsvæði skúmsins.
Skeiðarárbrú Brúin yfir Skeiðará á Skeiðarársandi heitir Skeiðarárbrú. Vígsla hennar árið 1974 markaði opnun hringvegsins í kringum Ísland. Skeiðarárbrú er einbreiðbrú gerð úr sérstaklega unnum stál burðargrindum. Árið 1996 varð eldgos í Grímsvötnum í Skeiðarárjökli sem olli miklum flóðum og bráðnun jökulsins. Miklar skemmdir urðu á brúnni vegna flóðanna og ísjaka á stærð við einbýlishús sem skullu á brúnni. Í dag eru einu ummerki upprunalegu brúnnar tveir beyglaðir stálbitar sem sjá má frá nýja veginum. Þeir mynda einstakan minnisvarða um fallegu en öflugu náttúruna sem einkennir Íslenskt landslag. Ný brú hefur verið reist vegna breytinga á vatnsfalli undan jöklinum. Áin sem rennur undir nýju brúna er Morsá.
View
Foss á Síðu
Foss á Síðu er stórbrotið bæjarstæði um 10 km fyrir austan Kirkjubæjarklaustur. Fallegur foss fellur ofan af klettunum ofan við bæinn, úr vatni sem nefnist Þórutjörn. Þetta stórkostlega sjónarspil fangar athygli allra sem leið eiga um. Greiðfær gönguleið er upp að Þórutjörn og þaðan er fallegt útsýni yfir Síðu. Skammt frá Fossi á Síðu eru einnig Dverghamrar. Dverghamrar eru sérkennilegar og fagurlega formaðar stuðlabergs klettaborgir úr blágrýti.
View
Reykjadalur
Reykjadalur er án efa vinsælasta útivistarsvæðið í Ölfusi. Þar er að finna margar merktar gönguleiðir um stórbrotið háhitasvæðið og hægt er að baða sig í heitri á í dalnum. Orkuveita Reykjavíkur hefur merkt gönguleiðir í dalnum sem og á Hengilssvæðinu öllu. Hægt er að finna göngukort á vef þeirra.
Stundum eru gönguleiðirnar í Reykjadal lokaðar og er því gott að athuga það áður en farið er. Hægt er að sjá það á Safetravel.is hvort það sé opið eða loka. Þeir sem hyggjast heimsækja dalinn það er afar mikilvægt að reglur svæðisins séu virtar og að ekki sé gengið utan stíga.
View
Eyjafjallajökull
Eyjafjallajökull er í röð hærri jökla landsins (1651 m y.s.). Eyjafjallajökull er eldkeila, gerð úr hraun- og gosmalarlögum á víxl og liggur norður af Eyjafjöllum. Fjalllendið eða eldkeilan, sem Eyjafjallajökull hvílir á, hefur verið að hlaðast upp frá miðri ísöld og fram á nútíma. Í toppi keilunnar er sigketill, 3-4 km í þvermál. Raðast hæstu tindar fjallsins á barma ketilsins sem opinn er til norðurs og þar flæðir Gígjökull fram úr katlinum allt niður á láglendi í dal Markarfljóts. Hæsti tindurinn er nefndur Hámundur. Goðasteinn heitir klettur á skálarbarminum sunnanverðum. Eyjafjallajökull er um 100 km² og því sjötti stærsti jökull hér á landi. Tveir skriðjöklar falla úr Eyjafjallajökli að norðanverðu, niður á jafnsléttu. Er hinn fremri (vestari) Gígjökull eða Falljökull en hinn innri nefnist Steinsholtsjökull. Lón eru við jökulsporðana og heitir Jökullón við Gígjökul en Steinsholtslón við Steinsholtsjökul. Eyjafjallajökull gaus 1821-1823. Þá braust flóð fram undan skriðjökli úr norðanverðum jöklinum. Það stóð aðeins yfir í þrjár klukkustundir en var ægilegt meðan á því stóð. Flæddi það yfir allt láglendi hlíða á milli þannig að hvergi örlaði á steini milli Eyjafjalla og Fljótshlíðar. Um miðjan janúar 1967 hrundi samfelld bergspilda úr austurhlið Innstahauss í Steinsholti niður á Steinsholtsjökul. Bergspildan var um 15 milljónir m³ og mesta hæð brotstálsi.Megineldstöðin Eyjafjallajökull hefur verið tiltölulega virk á nútíma eða síðustu 8000 ár. Síðast gaus í eldstöðinni árið 2010 en þá mynduðust u.þ.b. 0,27 km3 af gjósku og 0,023 km3 af hrauni. Eyjafjallajökull er 1651 m hár og er hann á Austurgosbeltinu og telst megineldstöðin vera sjálfstætt eldstöðvakerfi. Efst í fjallinu er 2,5 km breið, ísfyllt askja. Efri hluti megineldstöðvarinnar er að mestu hulin jökli sem er allt að 200 m þykkur.
Gosmökkurinn í gosinu 2010 var úr svo fíngerðri ösku, að hann gat haft slæm áhrif á þotuhreyfla og var flugleiðum og flugvöllum um stóran hluta Evrópu lokað í um vikutíma uppúr miðjum apríl. Þó var flogið frá Keflavík til Ameríku á þessum tíma. Þetta voru mestu takmarkanir á flugi í heiminum frá seinna stríði.
View
Úlfljótsvatn
Úlfljótsvatn er fjölskyldutjaldsvæði sem er rekið af Bandalagi íslenskra skáta og hefur verið heimili skátastarfs síðan 1941.
Á Úlfljótsvatni fá tjaldstæðagestir tækifæri til þess að tjalda með heillandi útsýni yfir vatnið og möguleika á allskyns afþreyingu eins og klifri í klifurturni, kajak siglingum, bogfimi og fjölmörgum gönguleiðum í nágrenninu.
Úlfljótsvatn er staðsett steinsnar frá þjóðgarðinum á Þingvöllum. Það er því er stutt að fara í bíltúr að helstu gullmolum Íslands eins og Þingvelli, Gullfoss og Geysi á innan við klukkustund og Kerið er í um 15 mínútna akstursfjarlægð.
Úlfljótsvatn er frábær fyrsti viðkomustaður á suðurströnd Íslands með margar nátttúru perlur innan seilingar.
View
Jökulsárlón
Jöklsárlón er sennilega eitt af kennileitum Suðausturlands, enda einstök náttúrusmíð. Svæðið er einnig aðgengilegt allt árið enda liggur þjóðvegur 1 um Breiðamerkursand og framhjá lónínu. Jökulsárlón hefur verið hluti af Vatnajökulsþjóðgarði frá árinu 2017.
Jöklsárlón fór fyrst að koma í ljós upp úr 1930, í kjölfar hopunar Breiðamerkurjökuls. Jökulinn var í mestri útbreiðslu (frá landnámi) við lok 19. aldar. Jökulgarðar sunnan við Jökulsárlón eru eftirstandandi sönnunarmerki um hvar jökulsporðurinn lá fyrir meira en 100 árum. Lónið sjálft er afleiðing af greftri Breiðamerkurjökuls, en skriðjöklar geta grafið sig býsna djúpt niður og þegar þeir hopa safnast vatn í dældina sem þeir hafa grafið. Fyrir miðja 20. öld rann Jökulsá á Breiðamerkursandi beint undan jökli u.þ.b. 1½ km leið til sjávar. Síðan hefur jökullinn hörfað og sístækkandi lón myndast. Nú eru amk 8 km frá jökuljaðri og að fjöru. Meðalrennsli árinnar er 250-300 m³/sek. og stórir ísjakar brotna af jökuljaðrinum og eru þeir á floti á vatninu. Lónið er feikidjúpt, a.m.k. 190 m. Áin styttist stöðugt vegna brimrofs og árið 1998 var hún varla meira en 500 m. Farvegur árinnar grefst stöðugt niður, þannig að það gætir sjávarfalla í lóninu. Það þýðir einfaldlega, að hlýrra vatn streymir inn í það á flóði og ísinn bráðnar mun hraðar en fyrrum. Bæði loðna og síld ganga inn í lónið og selurinn eltir ætið.
Víða má sjá æðarfugl syndandi milli jakanna. Það er ógleymanlegt að sigla með bátunum um lónið og virða fyrir sér litaskipti íssins og ótrúlegar höggmyndir náttúrunnar. Þar er rekin bátaútgerð fyrir ferðamenn og þar er lítið veitingahús. Áætlunarbifreiðar haf viðkomu við lónið á hverjum degi á sumrin,
Yfir sumarið er boðið uppá fræðslugöngur með landvörðum. Upplýsingar um göngurnar má finna á auglýsingaskilti á aðalbílastæði nálægt kaffiteríu eða á vefsíðu þjóðgarðsins.
Vatnajökulsþjóðgarður
View
Eldgjá
Eldgjá er u.þ.b. 70 km löng gossprunga, breidd hennar er víða um 600 m og dýptin allt að 200 m. Síðast gaus á henni skömmu eftir landnám, í kringum árið 934. Talið að gossprungan nái innundir Mýrdalsjökul og austur á móts við Lambavatn skammt vestan við Laka. Úr Eldgjá hafa runnið mikil hraun niður um Landbrot og Meðalland og til sjávar við Alviðruhamra í Álftaveri. Hraunin eru talin þekja 800 km² og er það mesta flatarmál hrauns á sögulegum tíma á jörðinni, þ.e. eftir síðustu ísöld.
Ófærufoss er einstaklega fallegur foss í ánni Nyrðri-Ófæru og fellur í tveimur fossum ofan í Eldgjá. Yfir neðri fossinum var steinbogi til ársins 1993 en hann hrundi þá í ána í vorleysingum en áin fellur um gjána.
Eldgjá er innan Vatnajökulsþjóðgarðs. Yfir sumarið bjóða landverðir upp á fræðslugöngur á svæðinu. Upplýsingar um göngurnar má finna á vefsíðu þjóðgarðsins, á samfélagsmiðlum og í gestastofum.
Vegir að Eldgjá eru fjallvegir sem aðeins eru færir fjórhjóladrifnum bílum og sumir aðeins breyttum jeppum. Víða er lausamöl og grýttir eða holóttir kaflar og sums staðar þarf að fara yfir dragár eða jafnvel jökulár sem geta vaxið fyrirvaralítið og orðið varhugaverðar eða ófærar.
Svæðið er opið ferðamönnum allan ársins hring en það ræðst af snjóalögum og veðurfari hversu lengi vegir eru opnir. Venjulega eru þeir opnir upp úr miðjum júní og eitthvað fram eftir hausti. Aðeins má aka þá vegi sem merktir eru á kortum þjóðgarðsins, aðrir vegir og slóðar á svæðinu eru lokaðir fyrir almennum akstri. Hér sem annars staðar er stranglega bannað að aka utan vega.
View
Lakagígar og Laki
Gígaröð á Síðumannaafrétti, um 25 km á lengd. Liggur hún frá móbergsfjallinu Hnútu til norðausturs og endar uppi í Vatnajökli. Gígaröðin dregur nafn af móbergsfjallinu Laka sem slítur hana sundur nálægt miðju.
Svæðið er innan Vatnajökulsþjóðgarðs og opið ferðamönnum allan ársins hring en það ræðst af snjóalögum og veðurfari hversu lengi vegir eru opnir. Venjulega eru þeir opnir upp úr miðjum júní og eitthvað fram eftir hausti. Aðeins má aka þá vegi sem merktir eru á kortum þjóðgarðsins, aðrir vegir og slóðar á svæðinu eru lokaðir fyrir almennum akstri. Hér sem annars staðar er stranglega bannað að aka utan vega.
Yfir sumarið bjóða landverðir upp á fræðslugöngur á svæðinu. Upplýsingar um göngurnar má finna á vefsíðu þjóðgarðsins, á samfélagsmiðlum og í gestastofum.
Lakagígar gusu árið 1783 hinu mesta hraungosi er sögur fara af á jörðinni. Kallaðist það Síðueldur eða Skaftáreldar. Gosið hófst hinn 8. júní. Gaus fyrst úr suðurhluta sprungunnar, sunnan Laka, þar sem hét Varmárdalur. Var hann þá algróinn. Varmárdalur er nú fullur af hrauni. Hraunflóðið féll niður gljúfur Skaftár og fyllti það en rann síðan austur með Síðuheiðum og breiddist svo út á láglendinu. Annar hraunstraumur féll austur í farveg Hverfisfljóts og rann niður í Fljótshverfi.
Gígaröðin við Hnútu er í um 500 m hæð y.s. en um 650 m hæð y.s. nyrst. Alls eru gígaopin talin vera um 100. Gígarnir eru af margvíslegri gerð og lögun. Sumir eru þeir kringlóttir, aðrir aflangir, stundum meira eða minna brotnir. Í barmi flestra þeirra er skarð sem hraunið hefur runnið út úr. Víða standa gígarnir svo þétt að hver grípur í annan en annars staðar verður alllangur spölur milli þeirra. Lakagígar eru það sem kallað er gjallgígaröð. Efni gíganna er svart og rautt gjall eða þeir eru úr hraunkleprum eða jafnvel eldborgir úr samfelldri hraunsteypu. Stærð þeirra er einnig misjöfn. Hinir hæstu eru um 100 m háir en langflestir milli 20 og 50 m en nokkrir þó enn lægri. Nú eru flestir þeirra að meira eða minna leyti þaktir þykkri breiðu af grámosa og hinir fegurstu tilsýndar. Ganga ber um þá með gætni því að mosinn er afar viðkvæmur. Lakagígar eru, hvernig sem á þá er litið, ein stórfelldasta furðusmíð í náttúru landsins. Þeir voru friðlýstir árið 1971.
Margir vísindamenn hafa kannað Lakagíga. Fyrstur á þessar slóðir varð Magnús Stephensen konferensráð, árið 1784. Samdi hann hina fyrstu ritgerð um gosið og ferð sína til eldstöðvanna. Næstur var Sveinn Pálsson læknir árið 1794 og gerði hann fyrstu nákvæmu lýsinguna af hluta eldstöðvanna og umhverfi þeirra.
LakiKollóttur móbergshnjúkur (818 m y.s.) á Síðumannaafrétti. Laki liggur í gígaröðinni miklu sem við hann er kennd. Eldsprungan gengur gegnum fjallið og sér hennar greinileg merki. Auk aðalsprungunnar eru þar smásprungur er lítils háttar hraunspýjur hafa fallið frá. Af Laka er gott að glöggva sig á allri gígaröðinni bæði norður og suður svo og á landslagi afréttarins.
View
Ægissíðufoss
Ægissíðufoss í Ytri-Rangá er nokkrum kílómetrum neðar en þorpið Hella sem byggst hefur upp á árbakkanum. Fossinn er þekktur veiðistaður í ánni og í honum er laxastigi. Fossinn er tignarlegur allt árið um kring og rennsli í honum er nokkuð jafnt allt árið, enda Ytri-Rangá bergvatnsá og helst að vöxtur komi í ána í leysingum á vorin.
Þegar farið var að huga að brúarstæði yfir Ytri-Rangá kannaði Jón Þorláksson, þáverandi landsverkfræðingur og síðar forsætisráðherra, með brúarstæði rétt ofan við Ægissíðufoss og leist einna best á þann stað. Af þeirri smíði varð þó ekki og brúarstæðinu á endanum valinn staður þar sem Helluþorp stendur í dag.
Vinsæl gönguleið liggur frá Hellu niður að Ægissíðufossi meðfram Ytri-Rangá og er hún mikið notuð jafnt af heimamönnum og ferðamönnum.
View
Sólheimasandur
Sandflæmi austan Jökulsár og sunnan og suðvestan Sólheima í Mýrdal. Talið er að sandur þessi hafi myndast í jökulhlaupum á landnámsöld og 13. öld, en fornar sagnir eru til um myndun hans. Á síðustu árum hafa Sólheimabændur ræktað allmikil tún á sandinum. (Heimild: Íslandshandbókin útgáfa 1.0. Námsgagnastofnun 1995.)
Árið 1973 lenti bandarísk herflugvél af gerðinni DC-3 á sandinum eftir að hafa orðið eldsneytislaus. Allir lifðu lendinguna af og varð flakið eftir á sandinum sem nú er orðið að vinsælum ferðamannastað. Ekki er leyfilegt að keyra að flakinu en gott bílastæði er við Þjóðveg 1 og hægt að ganga þaðan að flakinu sem tekur um tæpa klukkustund hvor leið fyrir sig.
View
Ingólfsfjall
Ingólfsfjall í Ölfusi er 551m. Ingólfsfjall er hömrum girt á þrjá vegu og mjög hlíðabratt. Þegar sjávarstaða var hæst í ísaldarlok hefur það verið sæbrattur höfði sem brimið braut niður og skapaði þá hinar bröttu hlíðar. Það er tengt Grafningsfjöllum með Grafningshálsi. Ingólfsfjall er einkum gert úr móbergi með hraunlögum inn á milli einkum að neðan og í kolli. Ingólfsfjall hefur orðið til um miðja ísöld. Suður úr vesturhorni fjallsins skagar grár klettamúli Silfurberg sem er úr móbergi með ljósum holufyllingum sem aðallega eru geislasteinaútfellingar. Þar suður af er Kögunarhóll og liggur þjóðvegurinn á milli. Ingólfsfjall er kennt við landnámsmanninn Ingólf Arnarson. Uppi á fjallinu er grágrýtishæð sem heitir Inghóll og segja munnmæli að þar sé Ingólfur heygður. Undir Ingólfsfjalli sunnanverðu er Fjallstún.
Í Landnámabók segir að þar hafi Ingólfur Arnarson haft vetursetu hinn þriðja vetur sinn hér á landi á leið sinni til Reykjavíkur. Síðar reis þar stórbýli sem hét Fjall og fór í eyði á 18. öld. Enn sjást leifar fornra mannvirkja á staðnum og eru nú friðlýstar.
Hinn 29. mai 2008 voru upptök Suðurlandsskjálfa að stærðinni 6,3 á richter kvarða undir Ingólfsfjalli.
View
Fagrifoss
Fagrifoss í Geirlandsá er tilkomumikill foss og ber hann nafn með rentu. Hann er á leiðinni í Laka, en aka þarf yfir vöð á leiðinni sem geta verið erfið litlum bílum og árnar geta auk þess orðið skyndilega ófærar í vatnavöxtum.
Útsýni að fossinum er best austan megin við fossinn en ganga þarf lítinn spöl til að fá stórkostlega sýn að fossinum.
View
Hafursey
Hafursey er einstaklega fagurt móbergsfell á norðanverðum Mýrdalssandi. Það skiptist um Klofgil og vesturhlutinn er nefndur Skálarfjall (582m) og hæst ber Kistufell (513m) á austurhlutanum. Þarna er mikið fýlavarp og undirhlíðarnar eru vaxnar kjarri, en þar var skógur áður fyrr.
Eyjan var nýtt til beitar og bændur í Hjörleifshöfða létu fé sitt ganga þar sjálfala allt árið og höfði í seli á sumrin til 1854. Selið í Hafursey er ein af hinum merku söguminjum Íslands en í Kötlugosinu 1755 höfðust þar við sex menn á meðan á goshlaupinu stóð. Þeir rituðu dagsetningu, ártal og fangamörk sín skýru letri í bergvegginn sem blasa við þegar inn er litið.
View
Flóaáveitan
Flóaáveitan eru skurðir sem liggja um gjörvallan Flóa eða allt frá Ölfusá í vestri að Þjórsá í austri. Þetta stórvirki síns tíma samanstóð af 300 km löngum skurðum sem að mestu voru handgrafnir- og 900 km af flóðvarnargörðum. Flóaáveitan mun hafa náð yfir 12 þúsund hektara land og með tilkomu hennar urðu mikil umskipti í búskap og atvinnuháttum á svæðinu. Framkvæmdir við áveituna hófust 1922 og var flóðgáttin tekin í notkunn árið 1927 þegar Flóaáveitan tók til starfa. Enn þann dag í dag gegnir hún viðamiklu hlutverki í vatnsmiðlun í sveitafélaginu. Inntak áveitunnar er við Hvítá, þar er upplýsingaskilti með ítarlegum upplýsingum um Flóaáveituna. Til austurs frá inntakinu er merkt gönguleið (um 4,4 km ganga, aðra leið).
View
Gljúfrabúi
Gljúfrabúi, sem er um 40 metra hár, er í landi eyðijarðarinnar Hamragarða sem Skógræktarfélag Rangæinga fékk að gjöf árið 1962 og er nú í eigu Rangárþings eystra. Ákveðin dulúð er yfir fossinum þar sem hann fellur ofan í djúpa gjá en framan við fossinn er mikill hamraveggur úr móbergi sem lokar fossinn af svo aðeins sést rétt efst í hann. Kletturinn sem lokar fossinn af kallast Franskanef. Áður fyrr töldu menn að hann og hamrarnir í kring væru bústaðir huldufólks. Hægt að fara úr skónum og vaða ána inn gilið og er það mögnuð upplifun. Hafa skal varann á þegar farið er inn gilið því hætta er á grjóthruni. Fyrir neðan Franskanef er gömul baðþró og inn af þrónni er lítill hellir sem heitir Ömpuhellir eftir einsetukonu sem þar á að hafa búið. Fyrir ofan Ömpuhelli eru tvær hvilftir inn í bergið sem nefnast Efra og Neðra ból. Í Neðra bóli var fyrr á tímum þurrkaður þvottur en í Efra bóli voru þurrkuð reipi og má enn sjá snaga í berginu í báðum þessum bólum. Gljúfrabúi er friðlýstur sem náttúruvætti.
Töluvert sunnan við Gljúfrabúa er lítið gil í hamraveggnum þar sem hægt er að fara upp á heiðina fyrir ofan og virða fyrir sér útsýnið yfir héraðið. Talað var um að fara upp Stíginn og lækurinn í gilinu nefndur Stígslækur. Stígurinn er enn nokkuð skýr, hálfgerðar tröppur eru upp þar sem er brattast. Rétt fyrir ofan brúnina eru leifar gamalla fjárhúsa frá Hamragörðum.
Gljúfrabúi, gamli foss!
gilið mitt í klettaþröngum!
góða skarð með grasahnoss!
gljúfrabúi, hvítur foss!
verið hefur vel með oss,
verða mun það enn þá löngum;
gljúfrabúi, gamli foss!
gilið mitt í klettaþröngum!
Úr „Dalvísu“ eftir Jónas Hallgrímsson
View
Ingólfshöfði
Ingólfshöfði er einangruð eyja milli svartra sanda suðurstrandar Íslands og Norður-Atlantshafsins. Höfðinn er á milli Skaftafells og Jökulsárlóns. Staðsetning hans veldur því að þar blómstrar fuglalíf og er höfðinn heimili þúsunda fugla. Þar má nefna lunda, álku, fýl, langvíu og skúm auk margra annarra tegunda.
Ingólfshöfði er 76 metra hár og nefndur eftir Ingólfi Arnarsyni, fyrsta landnámsmanninum að talið er, en hann kom þar að landi með fjölskyldu sinni og eyddi fyrsta vetri sínum þar.
Frábært útsýni er úr höfðanum en til að komast þangað þarf að fara með reyndum leiðsögumönnum þar sem hættulegt er að aka á blautum sandinum auk þess sem höfðinn er á einkalandi.
View
Surtsey
Surtsey, á heimsminjaskrá UNESCO frá júlí 2008Yngsta eyja við Ísland, syðst Vestmannaeyja og önnur að stærð, um 1,9 km². Að morgni 15. nóvember 1963 örlaði fyrir eyju þar sem Surtsey er nú, en árla morguns daginn áður urðu menn varir við stórkostleg eldsumbrot úr hafinu þar sem áður hafði verið um 130 m dýpi. Sprengigosin úr gígnum fyrstu mánuðina voru stórkostleg á að líta og í kröftugustu sprengingunum náði grjótflugið úr gígnum allt að 2500 m hæð en gosmökkurinn komst mest í 9 km hæð. Í aprílbyrjun 1964 hættu sprengigosin en hraungos hófst og stóð óslitið til vors 1965. Mestri hæð náði Surtsey 174 m y.s. Surtseyjargosið er mest allra sjávargosa sem orðið hafa við Íslandsstrendur frá því er sögur hófust en sagnir eða heimildir eru til um 10-20 slík gos. Í maí 1965 hófst síðan gos í sjó 600 m austar og hlóðst þar smám saman upp eyja, Syrtlingur. Hún var í september 1965 um 70 m há og 650 m á lengd en brotnaði niður í brimi í október og er þar nú neðansjávarhryggur sem eyjan var áður. Á jólunum 1965 tók síðan að gjósa um 900 m suðvestan Surtseyjar og hlóðst þar upp eyja sem kölluð var Jólnir. Gos hætti í Jólni í ágúst 1966 og í lok október 1966 var eyjan horfin. Hinn 19. ágúst 1966 opnaðist gossprunga á Surtsey og flæddi hraun úr henni í sjó. Þessu gosi lauk í júní 1967 og var Surtseyjargosinu þar með lokið.
Jafnskjótt og gosið hófst tóku vísindamenn að kanna það, hegðun þess og áhrif. Síðan gosinu lauk hefur rannsóknum verið haldið áfram í eyjunni, bæði til að kanna hversu fer um jarðlög eyjarinnar sjálfrar en ekki síður á landnámi lífvera, dýra og plantna, og hvernig þær hafast við. Bann við ferðum manna, annarra en vísindamanna, var sett til að hægt væri að fylgjast með því hvernig náttúran sjálf annast landnám lífveranna og hversu þær dafna á nýju og lífvana landi. Hafa vísindamenn dvalið þar tíma og tíma og var hús reist á eyjunni í því skyni árið 1965. Stofnað var Surtseyjarfélag til að hafa stjórn á og annast rannsóknir í Surtsey. Hefur það gefið út skýrslur um rannsóknirnar auk þess sem einstakir fræðimenn hafa skrifað fjölda ritgerða um þær.
View
Álftaversgígar
Álftaver er víðáttumikil sveit sem afmarkast af Kúðafljóti að austan og Blautukvísl að vestan. Sveitin dregur nafn sitt af gróðursælu votlendi sem einkennir svæðið. Ofan og vestan við byggðina eru miklar þyrpingar gervigíga sem kallast Álftaversgígar. Álftaversgígar hafa verndað byggðina að verulegu leyti fyrir jökulhlaupum samfara Kötlugosum.Álftaversgígar eru friðlýst náttúruvætti.
View
Sólheimajökull
Sólheimajökull er skriðjökull sem skríður frá norðvestanverðum Mýrdalsjökli. Jökullin er mjög næmur fyrir veðurfarsbreytingum og breytist jökulsporðurinn fljótt í kjölfar veðurbreytinga. Frá jöklinum rennur Jökulsá á Sólheimasandi, sem var ein mannskæðasta á landsins á fyrr öldum. Jökullinn er vinsæll viðkomustaður ferðamanna til að skoða fallegt umhverfi hans eða prófa jöklagöngu og ísklifur.
Miklar og örar breytingar hafa orðið á skriðjöklinum síðustu ár og eitt skýrt dæmi um það er hin aukna vegalengd sem stíga þarf til að nálgast jökulsporðinn.
Sólheimajökull hefur lengi verið rannóknarefni jöklafræðinga en jöklarannsóknir geta sagt okkur mikið um loftslag og loftslagsbreytingar í gegnum aldirnar, en jökulsaga Sólheimajökuls er um margt óvanaleg þegar borið er saman við aðra íslenska jökla.
Fyrir rúmum hundrað árum lá jökulsporður Sólheimajökuls töluvert framan við núverandi bílastæðin
View
Drangurinn í Drangshlíð
Drangurinn er mjög sérstök náttúrusmíð úr móbergi, þar sem hann stendur einn sér fyrir neðan bæina í Drangshlíð undir Eyjafjöllum.
Þjóðsagan segir að Grettir Ásmundsson hafi verið að sýna krafta sína og hrundið þessum kletti úr Hrútafelli og eftir standi skarðið sem er fyrir ofan Skarðshlíð. Undir þessum kletti eru hellar og skútar sem byggt hefur verið fyrir framan í gegnum aldirnar og standa þau flest enn. Þessi hús eru gott dæmi um fornmannahús, enda hafa þar verið tekin upp atriði og kvikmyndir eins og “Hrafninn flýgur”.
Drangurinn og næsta nágrenni hans er friðlýstur.
View
Vestrahorn
Eitt fyrsta landnámsbýli Íslands var Horn, byggt af Hrollaugi, syni Rögnvalds Jarls af Møre í Noregi. Sveitarfélagið Hornafjörður og ýmis önnur svæði eru nefnd eftir landnámsbýlinu. Svæðið er í um það bil 10 mínútna ökufæri frá Höfn. Horn er staðsett fyrir neðan Vestra-Horn, 454 metra háu fjalli og er það áhugaverður jarðfræðilegur staður myndaður úr ólagskiptum djúpbergsstein, aðallega gabbró en einnig granófýr. Austan við fjallið er óvanalega löguð opna sem kallast
Brunnhorn sem nær út að sjó. Selir eiga það til að slaka á á strandlengjunni, þannig ef heppnin er með þér nærðu flottri mynd af sel í slökun ef þú gerir þér ferð að Horni.
Í seinni heimsstyrjöld var Horn herstöð Breskra hermanna og seinna setti NATO upp ratsjárstöð á Stokksnesi, sunnan við Horn. Á Stokksnesi má virða fyrir sér öflugt Atlantshafið þar sem öldurnar skella á grýttri ströndinni af miklu afli.
View
Hoffell
Hoffell, landnámsjörð innst í Nesjum og innan Vatnajökulsþjóðgarðs. Landslag umhverfis Hoffell er fjölbreytilegt og fagurt, skriðjöklar, fjallstindar, ár og aurar. Fundist hefur heitt vatn á Hoffelli og eru þar heitar laugar í náttúrulegu umhverfi.
Landsvæðið einkennist af Hoffellsjökli, stórri jökultungu og gabbró grýti. Upprunalega finnst gabbró grýti djúpt neðanjarðar en það finnst á svæðinu vegna landriss og jökulrofs. Grýtið gefur umhverfinu grænan blæ meðal dökku steinanna.
Svæðið er varðveitt til útivistar, enda mikill gróður, dýralíf og ýmis jarðfræðileg undur. Það er úr mörgum gönguleiðum að velja sem leiða göngufólk um stórbrotið umhverfið.
View
Dynkur
Dynkur er foss, um 38 m hár, í Þjórsá, suðaustan undir Kóngsási á Gnúpverjaafrétt. Áin fellur þar fram af mörgum stöllum í smáfossum sem til samans mynda eitt fossakerfi. Eru þar fögur form en mestu skiptir þó að furðulega fagrir og margbreytilegir regnbogar verða til í fossum þessum svo að mest líkist litagosi yfir fossinum þegar sól skín á hann. Holtamenn kalla hann Búðarhálsfoss en Gnúpverjar kalla hann Dynk. Best er að skoða fossin frá eystri bakka Þjórsár og aka þá inn Búðarháls frá brúnni á Tungnaá við Hald.
View
Selvogsviti
Selvogsviti var byggður árið 1919 og endurbyggður árið 1931. Ljóshæð yfir sjó er 20 m. Árið 1919 var 15 metra há járngrind reist á Selvogstanga. Á hana var látið 3,3 metra hátt ljóshús og 200°díoptrísk1000 mm linsa og gas-ljóstæki.
Vitinn var sömu gerðar og Stokksnesviti sem reistur var árið 1922. Eftir aðeins 10 ár var vitinn orðinn svo ryðbrunninn að nauðsynlegt reyndist að byggja nýjan vita og 1930 var byggður 15,8 m hár vitaturn úr steinsteypu. Ári síðar voru sett á hann ljóshús, linsa og gasljóstæki járngrindarvitans og hinn nýi Selvogsviti tekinn í notkun. Árið 1987 voru veggir ljóshúss endurnýjaðir. Vitinn var raflýstur ári síðar og settur á hann radarvari. Nú er ljós látið loga á vitanum af öryggisástæðum en radíósendir efst á honum er þó það sem mestu máli skiptir nú orðið.
Selvogsviti er hluti af Vitaleiðinni, en hægt er að lesa meira um hana hér .
View
Dælarétt
Dælarétt, er ævaforn fjárrétt stutt sunnan við Suðurlandsveg. Hún er talin elsta rétt landsins og var helsta skilarétt svæðisins. Réttin er í landi eyðibýlisins Heiðabæjar. Þar var síðast réttað haustið 1970 og hefur réttin nú verið friðlýst. Dælarétt er hlaðin úr grjóti úr hinu stórdílótta Þjórsárhrauni. Skammt frá eru sprungur eftir Suðurlandsskjálftann árið 2000. Sýnið VARÚÐ.
View
Almannaskarð
Almannaskarð er gamall fjallavegur um 10 km austan við Höfn. Vegurinn er nú lokaður fyrir bílaumferð en árið 2005 opnuðu 1300 km löng göng sem sveigist undir fjallinu. Síðan þá hefur Skarðið verið vinsælt meðal heimamanna enda skemmtileg ganga sem er verðlaunuð með mögnuðu útsýni yfir Hornafjörð og Vatnajökul þegar á toppinn er komið. Almannaskarð er tilvalið stopp fyrir þá sem kunna að meta kyrrðina og fegurðina sem sveitin hefur upp á að bjóða.
View
Breiðamerkursandur - Fellsfjara
Við hliðina á Jökulsárlóni í Vatnajökulsþjóðgarði er staður sem færri kannast við, Fellsfjara (Eystri- og Vestri-Fellsfjara), austan og vestan megin Jökulsár á Breiðamerkursandi. Hann saman stendur af sandfjörum sem eru oft skreyttar með ísjökum sem borist hafa með Jökulsá á Breiðamerkursandi að sjónum og skola svo aftur upp á sandinn með öldunum. Ísjakarnir sem minna á demanta ásamt þokunni sem leggst yfir ströndina skapa töfrandi andrúmsloft.
Ísjakarnir bjóða upp á enn stórfenglegri sjón yfir vetrarmánuðina þegar sólin rís og baðar ströndina fallegri lýsingu sem endurspeglast á ísjökunum. Að láta sig hafa biðina í myrkrinu fyrir sólarupprás er vel þess virði, þrátt fyrir nístingskulda íslensku næturinnar.
View
Bláhnúkur í Landmannalaugum
Líparítfjall (943 m y.s.) við Landmannalaugar. Bláhnúkur er litfagur, venjulega með fannarblesu. Talið er að hann hafi orðið til við gos undir jökli. Í honum ber mikið á svörtum, stuðluðum biksteinseitlum og grænum og gráum glersalla. Nafnið gaf Pálmi Hannesson.
View
Seljalandsfoss
Foss í Seljalandsá þar sem hún steypist fram af hömrum Vestur-Eyjafjalla norðan við Seljaland.Seljalandsfoss er á mörkum milli Seljalands og Hamragarða, einn af hæstu fossum landsins og horfir vel við á leið austur um Landeyjar. Gengt er á bak við fossinn. Mörgum þykir fossinn fegurstur í síðdegissól.
View
Hungurfit á Rangárvallaafrétti
Í Hungurfiti hefur verið skálaaðstaða frá árinu 1963 þegar þar var byggður fjallskáli sem var veruleg bót fyrir fjallmenn sem áður höfðu gist í tjöldum. Það hús tekur um 20 manns í gistingu. Árið 2013 var nýtt skálahús tekið í notkun á Hungurfitjum og það hús tekur 50 manns og er einn af nútímalegustu fjallaskálum á Íslandi, með rennandi vatni, vatnssalerni og rafmagni.
Á Hungurfitjum er einstök náttúrufegurð og hentar svæðið jafnt fyrir göngufólk, jeppafólk og hestamenn, en þaðan eru góðar reiðleiðir hvort sem er inn Rangárbotna, áfram inn á Sultarfit, inn með Faxa og yfir í Hvanngil eða niður á Fljótshlíðarafrétt. Þá er góð dagleið á hrossum frá Hungurfit niður að Fossi á Rangárvöllum. Upptök Hvítmögu eru á Hungurfitjum og er hvorttveggja í senn afar fallegt að ríða niður með Hvítmögu eða fara þar gangandi.
Ofan við fjallaskálana eru Skyggnishlíðar og liggja þar inn að fjallinu Skyggni. Vinsælt er að ganga þar upp og inn Skyggnishlíðar, en þaðan er einstakt útsýni á góðum degi. Þá er ekki síður fallegt að ganga eða ríða inn á Sultarfit, inn í Gimbragil og Hrútagil eða inn í Jökulskarð.
View
Lónsöræfi
Upp frá Lóni, austan Vatnajökuls gengur fjallahringur, dalir og öræfi er nefnast Stafafellsfjöll, Lónsöræfi eru nýrra heiti á sama svæði og nær yfir svæðið sem liggur á milli Snæfells og Stafafellsfjalla. Svæðið er þekkt fyrir falleg og litrík fjöll ásamt fjölbreyttum gönguleiðum. Víða eru grónir balar og ekki ólíklegt að menn rekist á hreindýr á ferð sinni um öræfin. Stafafellslandið er stórkostlegt gönguland fyrir þá sem unna fögrum jarðmyndunum.
View
Hellisskógur
Hellisskógur er skógræktarsvæði rétt utan við Selfoss. Lagðir hafa verið akvegir og göngustígar um svæðið, settir bekkir og borð og Hellirinn grafinn út og útbúinn sem áningarstaður þar sem fólk getur sest niður og fundið sér skjól fyrir veðri og vindum. Hellisskógur hefur smám saman orðið eitt helsta útivistarsvæði Selfyssinga.
Stóri-Hellir í Hellisskógi myndaðist við lok jökulskeiðs á ísöld þegar brim svarf klettinn. Ummerki um hærra sjávarborð og sjávarrof sést á fjölmörgum stöðum í hellinum sem myndaðist í 0,7-3,1 milljón ára gömlu basalti. Innst í hellinum var áður geymt hey en fjárhús var staðsett við hellismunnann að framanverðu. Telja sumir að reimt sé í hellinum, af draug með bláan trefil.
Hér má sjá kort af Hellisskógi
View
Gullfoss
Gullfoss er í raun tveir fossar, efri fossinn er 11 metrar og neðri fossinn 20 metrar. Sigríður Tómasdóttir var fædd í Brattholti 1871, bærinn var þá afskekktur en þangað komu þó gjarnan ferðamenn. Sigríður fylgdi oft ferðamönnum að fossinum og lagði ásamt systrum sínum fyrsta stíginn að fossinum. Þegar menn fóru að sækjast eftir yfirráðum fallvatna til virkjanaframkvæmda um aldamótin 1900 háði Sigríður harða baráttu gegn því að Gullfoss yrði virkjaður.
Stundum eru gönguleiðirnar hjá Gullfossi lokaðar og er því gott að athuga það áður en farið er. Hægt er að sjá það á Safetravel.is hvort það sé opið eða lokað.
View
Hjörleifshöfði
Hjörleifshöfði er 221 metra hár móbergsstapi á suðvestanverðum Mýrdalssandi. Talið er að stapinn hafi myndast hefur í síðasta kuldaskeiði ísaldar þegar gosið hefur undir ísaldarjöklinum. Líklega hefur hann verið eyja í sjó á fyrri tíðum en orðin landfastur á landnámsöld með fjörð er nefndist Kerlingarfjörður sem fór inn með höfðanum. Í dag er hann hringaður af svörtum söndum sem borist hafa með endurteknum Kötluhlaupum.
Sunnan við Hjörleifshöfða er tangi kenndur við Kötlu og nefnist Kötlutangi. Sá myndaðist úr stóru gosi árið 1918 þar sem gífurlegt magn setefnis barst með stóru jökulhlaupi frá Kötlu. Tanginn er syðsti punktur meginlandsins Íslands þar sem fyrir gos átti Dyrhólaey þann heiður.
Hjörleifshöfði fær nafn sitt frá landnámsmanninum Hjörleifi Hróðmarssyni, fóstbróður Ingólfs Arnarsonar. Fóru þeir tvískipa á leið sinni til Íslands en urðu viðskila þar sem Ingólfur hafði vetursetu við Ingólfshöfða en fóstbróðirinn á Hjörleifshöfða. Lífið elti Hjörleif ekki á dvöl sinni, en hann var drepinn ásamt mönnum sínum af írskum þrælum sem fylgdu þeim til landsins. Flúðu þeir til Vestmannaeyja með konurnar þar sem Ingólfur fann þá og drap. Á höfðanum er haugur einn og hleðsla þar sem Hjörleifur er talinn grafinn.
Búið var á Hjörleifshöfða fram að árinu 1936 á bæ staðsettum upp á syðri hluta höfðans, en sá var fluttur þangað eftir gosið í Kötlu 1721 sem eyddi gamla bænum. Gamla bæjarstæðið er staðsett við áfangastað Kötlu Jarðvangs þegar komið er að Hjörleifshöfða vestan megin.
View
Dverghamrar
Dverghamrar eru skammt austan við Foss á Síðu. Þetta eru sérkennilegir og fagurlega formaðir stuðlabergshamrar úr blágrýti. Ofan á stuðlunum er víða það sem kallast kubbaberg.
Landslagið er talið hafa fengið á sig þessa mynd við lok ísaldar. Þá var sjávarmál hærra og er talið að brimsvörfun hafi valdið þessu sérkennilega útliti hamrana. Dverghamrar eru friðlýst náttúruvætti.
Stuðlaberg myndast vegna samdráttar í kólnandi efni þegar basaltbráð kólnar smám saman eftir fullstorknun þannig að bergið dregst saman og klofnar í stuðla sem oftast eru sexstrendir. Stuðlar standa ávallt hornrétt á kólnunarflötinn.
View