Fara í efni

Íslenski hesturinn er heimsfrægur fyrir sínar fimm gangtegundir, þrautseigju og gott geðslag. Íslenski hesturinn er vinnuþjarkur sem er í senn traustur vinur Íslendinga og helsta hjálparhella undanfarinna árhundruða. Ósjaldan hefur íslenski hesturinn gert gæfumuninn í öllum okkar störfum og var hið mesta þarfaþing til sveitar og bæja hér á landi. Í mörg hundruð ár var íslenski hesturinn okkar helsta samgöngutæki því ekki var hér um annað að ræða hvað samgöngur viðkom, utan að fara um fjöll og firnindi á tveimur jafnfljótum.

Afþreying í tengslum við íslenska hestinn er afar vinsæl og hvergi annars staðar á Íslandi er að finna jafn fjölbreytta hestatengda afþreyingu eins og í Rangárþingi ytra. Gestkomandi geta valið um langar og stuttar hestaferðir, hestasýningar og heimsóknir í hesthús. Allt er þetta í boði allan ársins hring. Það er fátt í heimi hér sem jafnast á við að njóta og upplifa magnaða íslenska náttúru á hestbaki!