Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Suðursveit

Sveitin er 50 km löng strandræma milli Vatnajökuls og Atlantshafsins. 

Á bæjum gáfu sauðkindin tekjur á heimilið. Þar sem haglendi sveitarinnar var hrjóstrugt var erfitt að fjölga þeim nema með því að fórna fallþunga. Fáar kýr og afurðalitlar. Smjör og mjólk var til heimilisnota. Á fráfærudaginn var stundum tilbreyting í mat og þá hafður rúsínuvellingur eða kaffi og sætabrauð.

Byggðin notfærði sér margs konar hlunnindi eins og fisk- og hvalreka, eggjatöku, fuglaveiði, silungsveiði í ám og vötnum, lúruveiði við ósa og fiskveiði á sjó.

Svo lengi sem menn muna hafa sjóróðrar verið stundaðir í Suðursveit enda stutt í góð fiskimið. Mörg bú voru lítil svo þröngt var um matbjörg á mörgum heimilum ef veiði brást. Á sumrin var silungsveiði og kríueggjaleit. Á veturna voru rjúpur veiddar ef þær komu niður á láglendi.

Allir bændur áttu hlut í skipi sem var mikil björg í bú þegar vel áraði, einnig gat fiskreki hjálpað og sílahlaup á land. Fyrir aldamót 20. aldar voru hákarlaveiðar stór þáttur í sjósókn í sveitinni. Konur unnu að aflanum, slægðu og flöttu fisk. Harðfiskur var borðaður flesta daga á árinu og einnig hákarl meðan hann var veiddur. Hann var talinn mjög heilsusamlegur.