Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Þykkvibær

Þykkvibær er elsti þéttbýliskjarni á Íslandi og á sér mikla matarsögu og menningu. Þykkvabæjarþorpið mun hafa risið upp vegna þess, að útræði var gott úr Rangárósi og einnig hafa góð hlunnindi haft áhrif á sókn fólks þangað. Af hlunnindum má nefna sel, silungsveiði og reka. Þykkbæingar voru þekktir fyrir að borða hrossakjöt sem þótti hneykslanlegt og ókirkjuhæft en nágrannabændur ráku stóð til slátrunar í Þykkvabæ og fengu heimamenn að hirða kjötið. Oft var svo mikið af kjöti að ekki var nóg salt til að geyma það svo að ýldulykt var í kotunum en fólk át kjötið eins lengi og það hafði einhverja lyst á því.

Alltaf var erfitt að stunda sjó frá Þykkvabæ vegna opins hafsins en síðast var farið þaðan á árabát árið 1955. Þykkbæingar notuðu melinn og bjuggu til þykkan graut úr því sem þeir kölluðu deig. Það kom í staðinn fyrir brauð, var sett á disk og smjör yfir. Var talið ljúffengt, saðsamt og hollt.

Þykkvibær er nú þekktastur fyrir kartöfluræktunina. Hún hófst árið 1934 og tók seinna við af öðrum búskap. Bændur bjuggu sér til heimasmíðuð verkfæri til niðursetningar. Tunna var tekin og tréstautar festir á með jöfnu millibili og ekið um akurinn eins og með hjólbörur. Má segja að kartöfluræktunin sé helsti menningararfur Þykkbæinga. Sendni jarðvegurinn og flatlendið hentar vel til kartöfluræktunar. Einnig eru minni líkur á næturfrosti vegna hærri lofthita við strandlengjuna. Auk þess hentar vel að vera ekki fjarri höfuðborgarsvæðinu og helsta markaðnum. Kartöfluverksmiðja Þykkvabæjar var stofnuð 1981 og var leið til að nýta kartöflur sem annars hefði verið hent vegna offramleiðslu. Dreifing og sala fer fram í Garðabæ en verksmiðjan starfar enn í Þykkvabæ og er nú í eigu Sóma ehf. Í Þykkvabænum eru framleiddar skræður úr þurrkuðu hrossakjöti.

Álfur brugghús er staðsett í Kópavogi en bruggar bjór úr íslensku kartöfluhýði og byggi. Um helmingur hráefnisins er hýði frá Þykkvabæjarkartöflum.

Frá árinu 2005 hafa Þykkbæingar haldið Kartöfluballi sem kom til í kjölfar þess að fella varð niður þorrablót á staðnum vegna lítillar þátttöku.