Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Surtsey
Surtsey, á heimsminjaskrá UNESCO frá júlí 2008Yngsta eyja við Ísland, syðst Vestmannaeyja og önnur að stærð, um 1,9 km². Að morgni 15. nóvember 1963 örlaði fyrir eyju þar sem Surtsey er nú, en árla morguns daginn áður urðu menn varir við stórkostleg eldsumbrot úr hafinu þar sem áður hafði verið um 130 m dýpi. Sprengigosin úr gígnum fyrstu mánuðina voru stórkostleg á að líta og í kröftugustu sprengingunum náði grjótflugið úr gígnum allt að 2500 m hæð en gosmökkurinn komst mest í 9 km hæð. Í aprílbyrjun 1964 hættu sprengigosin en hraungos hófst og stóð óslitið til vors 1965. Mestri hæð náði Surtsey 174 m y.s. Surtseyjargosið er mest allra sjávargosa sem orðið hafa við Íslandsstrendur frá því er sögur hófust en sagnir eða heimildir eru til um 10-20 slík gos. Í maí 1965 hófst síðan gos í sjó 600 m austar og hlóðst þar smám saman upp eyja, Syrtlingur. Hún var í september 1965 um 70 m há og 650 m á lengd en brotnaði niður í brimi í október og er þar nú neðansjávarhryggur sem eyjan var áður. Á jólunum 1965 tók síðan að gjósa um 900 m suðvestan Surtseyjar og hlóðst þar upp eyja sem kölluð var Jólnir. Gos hætti í Jólni í ágúst 1966 og í lok október 1966 var eyjan horfin. Hinn 19. ágúst 1966 opnaðist gossprunga á Surtsey og flæddi hraun úr henni í sjó. Þessu gosi lauk í júní 1967 og var Surtseyjargosinu þar með lokið.  Jafnskjótt og gosið hófst tóku vísindamenn að kanna það, hegðun þess og áhrif. Síðan gosinu lauk hefur rannsóknum verið haldið áfram í eyjunni, bæði til að kanna hversu fer um jarðlög eyjarinnar sjálfrar en ekki síður á landnámi lífvera, dýra og plantna, og hvernig þær hafast við. Bann við ferðum manna, annarra en vísindamanna, var sett til að hægt væri að fylgjast með því hvernig náttúran sjálf annast landnám lífveranna og hversu þær dafna á nýju og lífvana landi. Hafa vísindamenn dvalið þar tíma og tíma og var hús reist á eyjunni í því skyni árið 1965. Stofnað var Surtseyjarfélag til að hafa stjórn á og annast rannsóknir í Surtsey. Hefur það gefið út skýrslur um rannsóknirnar auk þess sem einstakir fræðimenn hafa skrifað fjölda ritgerða um þær.