Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Fallegu fossarnir sem hægt er að finna á Suðurlandi. 

Urriðafoss
Urriðafoss er vatnsmesti foss landsins. Hér fellur Þjórsá fram af jaðri hins mikla Þjórsárhrauns (360 m 3/sek) í fögru og friðsælu umhverfi. Fallhæð fossins er 6 metrar þar sem hann er hæstur. Þjórsárhraun, sem er eitt mesta hraun sem runnið hefur á jörðinni í einu gosi frá því að ísöld lauk, má sjá við Urriðafoss, þar sem fossinn steypist fram af austurbrún hraunsins. Lax gengur upp Þjórsá að fossinum og nokkuð upp fyrir hann. Urriðafoss er náttúrudjásn rétt utan þjóðvegs 1.
Kvernufoss
Kvernufoss er í gili rétt austan við Skógafoss. Fossinn sést vel frá þjóðveginum, en betra er að ganga að honum frá Skógum. Göngustígur er að fossinum frá bílastæði Samgöngusafnsins að Skógum og er tilvalið að skella sér á Skógasafn í leiðinni.   Fyrir frekari upplýsingar um fossa, jarðvætti og gistingu er hægt að kíkja inn á www.katlageopark.is  
Gluggafoss
Merkjárfossar eru í Fljótshlíð um 21 km frá Hvolsvelli. Í ánni Merkjá eru nokkrir fossar og þeirra þekktastur er Gluggafoss en hann er um 40 m hár. Efri hluti klettanna sem hann fellur um er móberg en neðri stallurinn er úr blágrýti. Nafn sitt dregur fossinn af því að vatnið hefur sorfið mjúkt móbergið og myndað göng, vatnið spýtist svo út um gangnaopin, „gluggana“ í fossinum neðanverðum. Efst í fossinum fellur hluti vatnsins undir steinboga. Þar sem bergið er mjúkt breytist fossinn nokkuð á einum mannsaldri. Um 1947 sást til að mynda lítið af efri hluta fossins því þar féll hann í göngum og var því að mestu hulinn bergi. Bergið var með þremur opum eða gluggum hverju upp af öðru og sást í hvítan vatnsflauminn í gegn um þessa glugga. Um neðsta gluggann bunaði svo vatnið út í fallegum boga en í vatnavöxtum fossaði vatnið út úr öllum þremur gluggunum. Miklar breytingar urðu á Gluggafossi í kjölfar Heklugossins 1947. Var það talið vera vegna þess að um 20 cm lag af vikri féll hér í gosinu, vikurinn barst í ána og hefur að líkindum sorfið klettana hraðar niður en ella. Hurfu göngin að mestu en eru nú óðum að ná fyrri reisn. Gluggafoss er friðlýstur sem náttúruvætti. Á flötinni fyrir neðan fossinn héldu Rangæingar upp á 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar árið 1974. Nálægt eru uppeldisstaðir tveggja af merkustu skáldum landsins, þeirra Bjarna Thorarensen og Þorsteins Erlingssonar. Upplýsingar um fleiri staðir í nágrenninu: www.katlageopark.is
Dynkur
Dynkur er foss, um 38 m hár, í Þjórsá, suðaustan undir Kóngsási á Gnúpverjaafrétt. Áin fellur þar fram af mörgum stöllum í smáfossum sem til samans mynda eitt fossakerfi. Eru þar fögur form en mestu skiptir þó að furðulega fagrir og margbreytilegir regnbogar verða til í fossum þessum svo að mest líkist litagosi yfir fossinum þegar sól skín á hann. Holtamenn kalla hann Búðarhálsfoss en Gnúpverjar kalla hann Dynk. Best er að skoða fossin frá eystri bakka Þjórsár og aka þá inn Búðarháls frá brúnni á Tungnaá við Hald.
Systrafoss
Systrafoss heitir fossinn þar sem Fossá fellur úr Systravatni fram af fjallsbrúninni fyrir ofan Kirkjubæjarklaustur. Neðarlega í gilinu er gríðarstór steinn, Fossasteinn, sem hrapaði úr fjallinu í miklu þrumuveðri um 1830. Falleg gönguleið er upp á brúnina og þar er hægt að ganga 5 km hringleið, Ástarbrautina. Gengið er uppi á fjallsbrúninni til austurs, niður af heiðinni og að Kirkjugólfinu. Uppi á fjallinu er er stórbrotið útsýni. Þar er líka listaverkið Gullmolinn sem minnir okkur á litlu heimarafstöðvarnar sem gáfu fólki ljós og yl á tuttugustu öldinni.  Skógurinn við Systrafoss er frá því 1945. Skógarstígurinn er hringleið í skóginum þar sem einn viðkomustaðurinn er Sönghellir. Við skógarstíginn er merkt hæsta tré á Íslandi, sitkagreni sem er nærri því að verða 30 metra hátt. 
Seljalandsfoss
Foss í Seljalandsá þar sem hún steypist fram af hömrum Vestur-Eyjafjalla norðan við Seljaland.Seljalandsfoss er á mörkum milli Seljalands og Hamragarða, einn af hæstu fossum landsins og horfir vel við á leið austur um Landeyjar. Gengt er á bak við fossinn. Mörgum þykir fossinn fegurstur í síðdegissól.
Gullfoss
Gullfoss er í raun tveir fossar, efri fossinn er 11 metrar og neðri fossinn 20 metrar. Sigríður Tómasdóttir var fædd í Brattholti 1871, bærinn var þá afskekktur en þangað komu þó gjarnan ferðamenn. Sigríður fylgdi oft ferðamönnum að fossinum og lagði ásamt systrum sínum fyrsta stíginn að fossinum. Þegar menn fóru að sækjast eftir yfirráðum fallvatna til virkjanaframkvæmda um aldamótin 1900 háði Sigríður harða baráttu gegn því að Gullfoss yrði virkjaður. Stundum eru gönguleiðirnar hjá Gullfossi lokaðar og er því gott að athuga það áður en farið er. Hægt er að sjá það á Safetravel.is hvort það sé opið eða lokað.  
Reykjafoss
Lystigarðurinn í Hveragerði er í miðju bæjarins og markast af Breiðumörk, Skólamörk og Varmá. Ræktun garðsins hófst þar árið 1983 og er þar nú fallegur gróður með leiksvæði, bekkjum og borðum sem ferðamenn geta nýtt sér til útivistar. Í ánni Varmá rennur Reykjafoss. Á bakka Varmár neðan við Reykjafoss má sjá leifar af gömlum húsgrunni. Grunnurinn markar upphaf byggðar í Hveragerði því þar var ullarverksmiðja sem reist var árið 1902 og nýtti fallorku fossins.  Innar í Varmárgilinu eru uppistandandi veggir rafstöðvar sem gerð var árið 1929. Þaðan má rekja undirstöður fallstokksins að heillegri stíflunni neðan Hverahvamms.  
Foss á Síðu
Foss á Síðu er stórbrotið bæjarstæði um 10 km fyrir austan Kirkjubæjarklaustur. Fallegur foss fellur ofan af klettunum ofan við bæinn, úr vatni sem nefnist Þórutjörn. Þetta stórkostlega sjónarspil fangar athygli allra sem leið eiga um. Greiðfær gönguleið er upp að Þórutjörn og þaðan er fallegt útsýni yfir Síðu. Skammt frá Fossi á Síðu eru einnig Dverghamrar. Dverghamrar eru sérkennilegar og fagurlega formaðar stuðlabergs klettaborgir úr blágrýti.
Gljúfrabúi
Gljúfrabúi, sem er um 40 metra hár, er í landi eyðijarðarinnar Hamragarða sem Skógræktarfélag Rangæinga fékk að gjöf árið 1962 og er nú í eigu Rangárþings eystra. Ákveðin dulúð er yfir fossinum þar sem hann fellur ofan í djúpa gjá en framan við fossinn er mikill hamraveggur úr móbergi sem lokar fossinn af svo aðeins sést rétt efst í hann. Kletturinn sem lokar fossinn af kallast Franskanef. Áður fyrr töldu menn að hann og hamrarnir í kring væru bústaðir huldufólks. Hægt að fara úr skónum og vaða ána inn gilið og er það mögnuð upplifun. Hafa skal varann á þegar farið er inn gilið því hætta er á grjóthruni. Fyrir neðan Franskanef er gömul baðþró og inn af þrónni er lítill hellir sem heitir Ömpuhellir eftir einsetukonu sem þar á að hafa búið. Fyrir ofan Ömpuhelli eru tvær hvilftir inn í bergið sem nefnast Efra og Neðra ból. Í Neðra bóli var fyrr á tímum þurrkaður þvottur en í Efra bóli voru þurrkuð reipi og má enn sjá snaga í berginu í báðum þessum bólum. Gljúfrabúi er friðlýstur sem náttúruvætti. Töluvert sunnan við Gljúfrabúa er lítið gil í hamraveggnum þar sem hægt er að fara upp á heiðina fyrir ofan og virða fyrir sér útsýnið yfir héraðið. Talað var um að fara upp Stíginn og lækurinn í gilinu nefndur Stígslækur. Stígurinn er enn nokkuð skýr, hálfgerðar tröppur eru upp þar sem er brattast. Rétt fyrir ofan brúnina eru leifar gamalla fjárhúsa frá Hamragörðum. Gljúfrabúi, gamli foss! gilið mitt í klettaþröngum! góða skarð með grasahnoss! gljúfrabúi, hvítur foss! verið hefur vel með oss, verða mun það enn þá löngum; gljúfrabúi, gamli foss! gilið mitt í klettaþröngum! Úr „Dalvísu“ eftir Jónas Hallgrímsson 
Gjáin í Þjórsárdal
Austasti dalur Árnessýslu. Liggur hann norðan Gaukshöfða, milli Hagafjalls og Búrfells. Fyrir innan Hagafjall eru Skriðufell og Dímon og innar Heljarkinn og Fossalda fyrir botni dalsins. Inn af Búrfelli er lágur fjallarani og eru á honum Sámsstaðamúli og Skeljafell og Stangarfjall innst. Þjórsárdalur var að mestu leyti samfelld sandauðn. Skógur er við Ásólfsstaði og Skriðufell (Vatnsás, Selhöfðar) og í Búrfellshálsi. Skógrækt ríkisins friðaði land Skriðufells árið 1938 og hefur verið gróðursettur þar víðlendur nýskógur. Í dalnum eru tveir bæir, Ásólfsstaðir og Skriðufell.Í dalnum er hraun og á það upptök sín á Tungnaáröræfum. Sérkennandi fyrir hraunið eru hólarnir (gervigígarnir) í dalbotninum innanverðum. Hefur hraunið komið þar niður farveg Rauðár og runnið yfir mýrlendi eða grunnt vatn.Fjórar ár falla um Þjórsárdal, Fossá, Rauðá, Sandá og Grjótá, en Þjórsá fellur fyrir dalsmynnið, fyrir framan Búrfell og upp að Hagafjalli. Í dalnum eru fossarnir Háifoss (122 m) og Hjálparfoss í Fossá og Gjárfoss í Rauðá.Blómleg byggð var í Þjórsárdal á þjóðveldisöld og var dalurinn þá algróinn. Árið 1939 grófu norrænir fornleifafræðingar upp nokkra af bæjunum í dalnum, þar á meðal á Stöng. Gjóskurannsóknir dr. Sigurðar Þórarinssonar leiddu í ljós að byggðin hafði eyðst í Heklugosinu árið 1104.Á síðari árum hefur dalurinn tekið miklum stakkaskiptum. Árið 1970 tók Búrfellsvirkjun til starfa. Stöðvarhúsið stendur í dalnum suðaustanverðum, undir Sámsstaðamúla. Milli Hjálparfoss og Sámsstaðamúla hefur risið dálítið þorp í tengslum við virkjunina og Landsvirkjun hefur byggt sundlaug við heitar uppsprettur hjá Reykholti. Einnig hefur Landsvirkjun látið sá grasfræi í nágrenni virkjunarinnar til að hefta sandfok og hefur dalurinn breytt mjög um svip af þeim sökum.Þjórsárdalur þykir fagur og sérstæður og er hann fjölsóttur af ferðamönnum. Tjaldstæði eru við Sandá niður undan Ásólfsstöðum.Forn megineldstöð (nálægt tveggja milljón ára gömul) er í innanverðum Þjórsárdal. Finnst súrt berg þar á nokkrum stöðum og mjög mikið ummyndað, grænt móberg, skorið af hallandi berggöngum, er við Fossá, nokkru neðan við Háafoss.Gjáin í ÞjórsárdalSérkennilegt gljúfur í Þjórsárdal innanverðum, skammt frá Stöng, og fellur Rauðá í snotrum fossi niður í það. Heitir hann Gjárfoss. Þjórsá hefur sennilega myndað Gjána í öndverðu, á löngum tíma. Síðar hljóp hún þar oft fram í vatnavöxtum, en til að varna því var gerður stíflugarður úr Sandafelli og suður til Skeljafells. Kvísl úr einu af hinum yngri Tungnaárhraunum hefur fallið fram úr Gjánni og skil
Ægissíðufoss
Ægissíðufoss í Ytri-Rangá er nokkrum kílómetrum neðar en þorpið Hella sem byggst hefur upp á árbakkanum. Fossinn er þekktur veiðistaður í ánni og í honum er laxastigi. Fossinn er tignarlegur allt árið um kring og rennsli í honum er nokkuð jafnt allt árið, enda Ytri-Rangá bergvatnsá og helst að vöxtur komi í ána í leysingum á vorin. Þegar farið var að huga að brúarstæði yfir Ytri-Rangá kannaði Jón Þorláksson, þáverandi landsverkfræðingur og síðar forsætisráðherra, með brúarstæði rétt ofan við Ægissíðufoss og leist einna best á þann stað. Af þeirri smíði varð þó ekki og brúarstæðinu á endanum valinn staður þar sem Helluþorp stendur í dag. Vinsæl gönguleið liggur frá Hellu niður að Ægissíðufossi meðfram Ytri-Rangá og er hún mikið notuð jafnt af heimamönnum og ferðamönnum.
Fossabrekkur
Efsti foss í Ytri-Rangá nefnist Fossabrekkur og er hann rétt fyrir neðan vestari upptök árinnar skömmu eftir að komið er inn fyrir afréttarmörk Landmannaafréttar. Fossabrekkur eru gróðursæl vin í vikurauðninni sem þar er að finna og þarf að keyra að staðnum til að sjá hann, enda vel falinn. Í Fossabrekkum er einstök fegurð þar sem vestari kvísl Ytri-Rangár í Rangárbotnum steypist fram af klöppum ofan í eystri kvíslina og eftir það rennur áin í einni kvísl langleiðina til sjávar.
Þjófafoss
Þjófafoss er í Þjórsá, austan við Merkurhraun. Fossinn dregur nafn sitt af því að þar hafi þjófum áður verið drekkt. Fossinn er einn af aðalfossum Þjórsár, en áin skilur að Rangárvallasýslu og Árnessýslu og er lengsta á landsins. Þjófafoss er sunnan við Búrfell, skammt frá Búrfellsvirkjun og nokkru neðan við Tröllkonuhlaup í Þjórsá. Rennsli Þjófafoss er fremur lítið yfir vetrartímann en nokkru meira yfir sumartímann og stafar það af virkjunum í ánni, en vatninu er að mestu veitt framhjá fossinum. Áin er stífluð við Sultartanga með Sultartangalóni og vatninu fyrst veitt í gegnum Sultartangavirkjun og síðan inn í Bjarnarlón og í gegnum Búrfellsvirkjun. Það er því fyrst og fremst þegar Sultartangalón er orðið fullt síðsumars sem umframvatn er látið renna um Þjófafoss. Með tilkomu Búrfellsvirkjunar 2 hefu vatnsrennsli um Þjófafoss minnka enn frekar, hvort sem er sumar eða vetur.
Skógafoss
Skógafoss (60m) er talinn meðal fegurstu fossa landsins. Í Skógaá, ofan Skógafoss, eru a.m.k. 20 aðrir fossar, margir fallegir, og það er auðgengt meðfram ánni og gljúfrum hennar. Þrasi Þórólfsson var landnámsmaður að Skógum. Hann nam land milli Jökulsár og Kaldaklofsár og var sagður fróður og forn í lund. Sagt er, að hann hafi fólgið gullkistu í helli bak við Skógafoss og að það glitri í gull Þrasa gegnum vatnsúðann, þegar sólin skín á fossinn. Margir hafa reynt að finna kistuna og einu sinni tókst að koma bandi á hring hennar, en aðeins hringurinn kom, þegar togað var í. Þessi hringur var notaður á kirkjuhurðina í Skógum og er nú meðal dýrgripa Skógasafns.
Fagrifoss
Fagrifoss í Geirlandsá er tilkomumikill foss og ber hann nafn með rentu. Hann er á leiðinni í Laka, en aka þarf yfir vöð á leiðinni sem geta verið erfið litlum bílum og árnar geta auk þess orðið skyndilega ófærar í vatnavöxtum.  Útsýni að fossinum er best austan megin við fossinn en ganga þarf lítinn spöl til að fá stórkostlega sýn að fossinum.   
Háifoss og Granni
Háifoss í Fossá í Þjórsárdal er staðsettur nálægt eldfjallinu Heklu. Hann er 122 m hár og er þriðji hæsti foss landsins. Lengi vel var fossinn nafnlaus, en árið 1912 tók Dr. Helgi Pétursson jarðfræðingur sig til og nefndi hann.  Rétt austan Háafoss er annar foss, litlu lægri, Granni. Léttasta leiðin að fossinum er frá línuveginum milli Tungufells og Sandafells. Þaðan þarf aðeins að ganga stuttan spöl niður í mót, en fara verður gætilega á brúnum gilsins. Einnig er hægt að ganga inn Fossárdalinn, þar er merkt gönguleið frá Stöng og upp að Háafossi, með fram Fossá. Gönguleiðin er vinsæl bæði sem gönguleið og hjólaleið og hægt að gera hring með því að fara svo frá Háafossi og um Gjánna líka. Frá Stöng og að Háafossi eru um 6 km. ganga.
Ófærufoss - Nyrðri Ófæra
Ófærufoss er einstaklega fallegur foss í ánni Nyrðri-Ófæru og fellur í tveimur fossum ofan í Eldgjá. Yfir neðri fossinum var steinbogi til ársins 1993 en hann hrundi þá í ána í vorleysingum en áin fellur um gjána. Af Fjallabaksleið nyrðri er hægt að aka nokkurn spöl inn í Eldgjá og ganga þaðan að Ófærufossi en vegurinn liggur upp á austurbarm Eldgjár. Til að komast þangað þarf að aka Nyrðri-Ófæru á vaði, sem getur verið varasamt. Óhætt er að mæla með göngu upp á Gjátind, þaðan sem útsýni er frábært yfir Eldgjá, til fjalla við Langasjó og Síðuafrétt með Lakagígum. Ófærufoss fellur ofan í Eldgjá á Skaftártunguafrétti. Eldgjá er u.þ.b. 40 km löng gossprunga, breidd hennar er víða um 600 m og dýptin nær allt að 200 m. Þegar hún myndaðist hefur líklega gosið í henni endilangri, sennilega í kringum árið 934.Talið er að gossprungan nái undir Mýrdalsjökul. Úr Eldgjá hafa runnið mikil hraun niður um Landbrot og Meðalland og til sjávar við Alviðruhamra í Álftaveri. Hraunin, sem runnu frá henni, eru talin þekja 700 km² sem er mesta flatarmál hrauns á sögulegum tíma á jörðinni, þ.e. eftir síðustu ísöld. Eldgjá er talin tilheyra sama eldstöðvarkerfi og Katla. Eldgjá er einstakt náttúrufyrirbæri og er á náttúrminjaskrá. Fyrirhugað er að Eldgjá og nærliggjandi svæði verði hluti af Vatnajökulsþjóðgarði. Nú hafa komið fram kenningar um að afleiðingar þessa goss hafi ekki síður gætt í Evrópu en gossins í Lakagígum. Samkvæmt nýfundnum heimildum urðu á tíma gossins uppskerubrestir, pestir og hörmungar bæði í Evrópu og Miðausturlöndum. Þá eru líkur leiddar að því að þetta gos hafi valdið meira tjóni en Lakagígagosið.
Svartifoss
Svartifoss er einn af einstöku fossunum sem suðurlandið hefur að geyma. Fossinn er staðsettur í Skaftafelli, sem er hluti af Vatnajökulsþjóðgarði. Svartifoss er 20 metra hár.  Sitthvoru megin við fossinn eru háir svartir basalt veggir sem gera fossinn að einstakri sjón og er hann sannkölluð náttúruperla.  Gangan að Svartafossi hefst við upplýsinga miðstöðina í Skaftafelli og er um 1.9 km eða 45 mínútur hvora leið.   Gestastofa og upplýsingamiðstöð Vatnajökulsþjóðgarðs í Skaftafelli, Skaftafellsstofa 
Brúarfoss
Brúarfoss er fallegur foss í Bláskógabyggð á Suðurlandi. Hann er þekktur fyrir sína einstöku tæru bláu lit sem stafar af því hvernig ljósið endurkastast af fíngerðu setbergi í vatninu. Brúarfoss er hluti af Brúará sem rennur í gegnum gróskumikið landsvæði og myndar fossinn þar sem áin þrengir sig í gegnum mjó gil. Fossinn er ekki sá hæsti né breiðasti á Íslandi, en hann er einstaklega fallegur og hefur skapað sérstakan stað í hjörtum ferðalanga og ljósmyndara víða um heim vegna sérkennilegs litasamspils vatnsins. Brúarfoss er tiltölulega ósnortinn af ferðamönnum sem gerir hann að kjörnum áfangastað fyrir þá sem leita friðsældar og náttúrufegurðar án mikilla mannmergða. Leiðin að Brúarfossi getur verið ævintýri í sjálfu sér. Þótt hann sé ekki langt frá þjóðvegi 1 þarf að ganga um stíga sem liggja í gegnum fallegt landslag. Gönguferðin býður upp á möguleika til að njóta kyrrðar í íslenskri náttúru og er vel þess virði fyrir þá sem kjósa að leggja leið sína þangað. Á svæðinu er ekki bara Brúarfoss heldur einnig nokkrir minni fossar. Ferðamenn geta notið þess að ganga meðfram ánni og upplifa mismunandi sjónarhorn af vatnsfallinu. Það sem gerir Brúarfoss sérstaklega heillandi er hvernig hreint og tært vatn árinnar blandast við grænan mosann og basalthamrana í landslaginu. Þessi náttúrufegurð, ásamt tiltölulega auðveldra aðgengi gerir Brúarfoss að must-see áfangastað fyrir alla þá sem heimsækja Ísland hvort sem þeir eru innlendir eða erlendir og vilja upplifa einstaka fegurð landsins án þess að þurfa að fara langt frá helstu ferðamannastöðum svæðisins.
Hjálparfoss
Hjálparfoss er tvöfaldur foss neðst í Fossá í Þjórsárdal, rétt áður en hún sameinast Þjórsá. Svæðið umhverfis hann heitir Hjálp og er tiltölulega gróið. Það ber þó merki um stöðugar ásóknir Heklu gömlu í gegnum aldirnar. Blágrýtismyndarnirnar umhverfis fossinn eru fallegur rammi um hvítfyssandi vatnið. Nafnið Hjálp varð til í munni þeirra, sem komu úr erfiðum ferðum yfir Sprengisand og fundu þar snapir fyrir hestana. Landsvirkjun hefur látið græða mikið land í Þjórsárdalnum og ekki sízt vestan Sámstaðamúla.