Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Finndu lista yfir afþreyingu sem hægt er að gera þegar ferðast er með börn.

Úlfljótsvatn
Úlfljótsvatn er fjölskyldutjaldsvæði sem er rekið af Bandalagi íslenskra skáta og hefur verið heimili skátastarfs síðan 1941.  Á Úlfljótsvatni fá tjaldstæðagestir tækifæri til þess að tjalda með heillandi útsýni yfir vatnið og möguleika á allskyns afþreyingu eins og klifri í klifurturni, kajak siglingum, bogfimi og fjölmörgum gönguleiðum í nágrenninu. Úlfljótsvatn er staðsett steinsnar frá þjóðgarðinum á Þingvöllum. Það er því er stutt að fara í bíltúr að helstu gullmolum Íslands eins og Þingvelli, Gullfoss og Geysi á innan við klukkustund og Kerið er í um 15 mínútna akstursfjarlægð. Úlfljótsvatn er frábær fyrsti viðkomustaður á suðurströnd Íslands með margar nátttúru perlur innan seilingar.
Hjálparfoss
Hjálparfoss er tvöfaldur foss neðst í Fossá í Þjórsárdal, rétt áður en hún sameinast Þjórsá. Svæðið umhverfis hann heitir Hjálp og er tiltölulega gróið. Það ber þó merki um stöðugar ásóknir Heklu gömlu í gegnum aldirnar. Blágrýtismyndarnirnar umhverfis fossinn eru fallegur rammi um hvítfyssandi vatnið. Nafnið Hjálp varð til í munni þeirra, sem komu úr erfiðum ferðum yfir Sprengisand og fundu þar snapir fyrir hestana. Landsvirkjun hefur látið græða mikið land í Þjórsárdalnum og ekki sízt vestan Sámstaðamúla.
Seljalandsfoss
Foss í Seljalandsá þar sem hún steypist fram af hömrum Vestur-Eyjafjalla norðan við Seljaland.Seljalandsfoss er á mörkum milli Seljalands og Hamragarða, einn af hæstu fossum landsins og horfir vel við á leið austur um Landeyjar. Gengt er á bak við fossinn. Mörgum þykir fossinn fegurstur í síðdegissól.
Haukafell
Haukafell er skógræktar verkefni stofnað 1985. Síðan hefur skógurinn vaxið og dafnað og  veitir nú gott skjól fyrir lægri gróður sem prýðir svæðið, aðallega berjarunna sem bera ávöxt í ágústmánuði.  Svæðið er staðsett austan við Fláájökul og er vinsæll útiveru staður meðal heimamanna. Umhverfið í Haukafelli er stórbrotið og eru margar gönguleiðir í boði til þess að njóta þess sem allra best.   Frá Haukafelli má finna merkta gönguleið að Fláajökli þar sem gengið er yfir nýja göngubrú yfir Kolgrafardalsá. Þar að auki er einnig vel útbúið tjaldsvæði í fallegu umhverfi í Haukafelli.  
Reynisfjara, Reynisfjall og Reynisdrangar
Reynisfjall (340 m y.s.) stendur vestan Víkur í Mýrdal. Reynisfjall er móbergsfjall sem myndast hefur við eldgos undi rjökli á kuldaskeiði Ísaldar. Í Reynisfjalli má finna óregluleg lög móbergs, bólstrabergs ásamt stuðluðum innskotslögum og bergæðum. Hamrarnir eru þverhníptir en víða grónir hvönn og öðrum þroskamiklum gróðri.Upp á Reynisfjall liggur akvegur sem hernámsliðið gerði upphaflega á heimsstyrjaldarárunum en var endurbættur seinna. Hann mun vera einn brattasti fjallvegur á Íslandi. Á Reynisfjalli var starfrækt lóranstöð um skeið. Sunnan í Reynisfjalli að vestan eru sérkennilegar stuðlabergsmyndanir og hellar, Hálsanefshellir. Ekið er að þeim suður Reynishverfi. Reynisdrangar eru bergdrangar sem rísa 66 metra upp fyrir sjávarmál. Við Reynisfjöru er Hálsanefshellir ásamt mjög fögrum stuðlabergsmyndum. Gæta skal varúðar við Reynisfjöru þar sem öldurnar geta verið varasamar og auðveldlega gengið langt inn á land og hrifsað með sér fólk út á sjó. 
Efra-Hvolshellar
Í landi Efra-Hvols eru þrír manngerðir hellar sem kallast einu nafni Efra-Hvolshellar. Hellarnir eru grafnir í fremur gróft þursaberg sem líklega er jökulberg að uppruna. Neðan til er bergið fínna, gert úr lagskiptum, víxllaga og skálaga sandsteini. Tveir hellanna eru samtengdir með göngum og nefnast þeir Efsti hellir og Miðhellir. Sá þriðji stendur stakur 20-30 metrum sunnar og nefnist Stóri hellir. Hann er um 42 metrar á lengd, og er talinn næstlengsti manngerði hellir á Íslandi. Ekki hafa fundist ummerki mannvistar í hellunum en það hefur ekki enn verið rannsakað með fornleifafræðilegum aðferðum. Síðast voru hellarnir notaðir sem fjárhús og hlaða en hafa staðið auðir og ónotaðir síðan 1943. Loftop Stóra hellis hefur að hluta til hrunið og mold fyllt göngin. Búið er að moka út úr hellunum að hluta í samráði við Minjastofnun Íslands. Ekki er talin hætta af frekara hruni en þó skyldi fólk sýna aðgát. Hellarnir hafa verið friðlýstir síðan árið 1929 sem menningarminjar. Upplýsingar um fleiri staði í nágrenninu: www.katlageopark.is
Gullfoss
Gullfoss er í raun tveir fossar, efri fossinn er 11 metrar og neðri fossinn 20 metrar. Sigríður Tómasdóttir var fædd í Brattholti 1871, bærinn var þá afskekktur en þangað komu þó gjarnan ferðamenn. Sigríður fylgdi oft ferðamönnum að fossinum og lagði ásamt systrum sínum fyrsta stíginn að fossinum. Þegar menn fóru að sækjast eftir yfirráðum fallvatna til virkjanaframkvæmda um aldamótin 1900 háði Sigríður harða baráttu gegn því að Gullfoss yrði virkjaður. Stundum eru gönguleiðirnar hjá Gullfossi lokaðar og er því gott að athuga það áður en farið er. Hægt er að sjá það á Safetravel.is hvort það sé opið eða lokað.  
Fossabrekkur
Efsti foss í Ytri-Rangá nefnist Fossabrekkur og er hann rétt fyrir neðan vestari upptök árinnar skömmu eftir að komið er inn fyrir afréttarmörk Landmannaafréttar. Fossabrekkur eru gróðursæl vin í vikurauðninni sem þar er að finna og þarf að keyra að staðnum til að sjá hann, enda vel falinn. Í Fossabrekkum er einstök fegurð þar sem vestari kvísl Ytri-Rangár í Rangárbotnum steypist fram af klöppum ofan í eystri kvíslina og eftir það rennur áin í einni kvísl langleiðina til sjávar.
Þjórsárdalsskógur
Náttúrleg umgjörð skógarins fylgir fjölbreyttu landslagi þar sem mætast miklar andstæður, allt frá blómlegum skógum að ógrónum öskuflákum úr Heklu. Skógurinn er að mestu birkikjarr, auk blandskóga af greni, furu og lerki. Kjörinn staður til útivistar, enda er í skóginum fjöldi merktra og ómerktra stíga og skógarvega.  Þjórsárdalsskógur liggur vestan við þjóðveg 32 þar sem hann sveigir til austurs í átt að Búrfellsvirkjun. Hægt er að komast í skóginn af afleggjaranum að Ásólfsstöðum og einnig um göngubrú yfir Sandá spölkorn innar í dalnum. Tjaldsvæðið í Þjórsárdal er þar á milli og er vel merkt.  Í Þjórsárdal teygir skógur sig langt upp í hlíðar, landslag er fagurt, fjölbreytt og sannkallaður ævintýrabragur er á því. Í skóginum eru fjölmargir merktir og ómerktir stígar og slóðar til umferðar fyrir ferðalanga og göngugarpa, ár til að sulla í og hraun til að skoða. Á svæðinu eru stígar færir hjólastólum, góð tjaldstæði og sundlaug er í Árnesi um 15 kílómetrum neðar í sveitinni. Heimild: skoraekt.is
Geysir
Þessi frægasti goshver heims er talinn hafa myndast við mikla jarðskjálftahrinu í lok 13. aldar. Oddaverjaannáll segir um árið 1274, að í Eyrarfjalli (Laugarfjalli) hjá Haukadal komu upp hverir stórir; en sumir hurfu þeir, sem áður voru. Kísilúrfellingar hafa myndað talsverðan hól umhverfis hverinn. Skál hans er u.þ.b. 18 m í þvermál og niður úr henni gengur 18 m djúp hola, sem er 2 m í þvermál. Öldum saman gaus Geysir og laðaði til sín ferðamenn. Upp úr aldamótunum 1900 dró mjög af honum og síðan 1916 hefur hann ekki gert meira en að pusa upp vatni óreglulega, þó jókst kraftur hans að nýju eftir jarðskjálftahrinu á Suðurlandi árið 2000. Hæstu gosin voru á milli 40 og 80 m. Tugir hvera eru á svæðinu, sumir goshverir eins og Geysir. Þeirra helstir eru Strokkur, sem gýs reglulega með 3-5 mínútna millibili, og Smiður, sem lætur lítið á sér bera. Hverasvæðið er afgirt og friðlýst. 
Knarrarósviti
Árið 1938 hófst vinna við að byggja upp Knarraóssvita og var hann tekinn í gagnið ári síðar eða 31. Ágúst 1939. Þjónaði hann griðalega miklu hlutverki fyrir sjávarútveginn á þessum tíma því innsiglingarnar voru hættulegar á þessu svæði. Mörg skip hafa farist á þessum slóðum. Knarraóssviti er 22 metrar að hæð, fallegur og rammbyggður. Útsýnið úr honum er einstaklega fallegt og mikið. Var hann með 6000 kerti sem er meðal stærð á vita á þessum tíma sem hann var byggður. Hönnun vitans er áhugaverð blanda af fúnkis og art nouveau stíl. Knarrarósviti er hliti af Vitaleiðinni, en hægt er að lesa meira um hana hér.   
Gluggafoss
Merkjárfossar eru í Fljótshlíð um 21 km frá Hvolsvelli. Í ánni Merkjá eru nokkrir fossar og þeirra þekktastur er Gluggafoss en hann er um 40 m hár. Efri hluti klettanna sem hann fellur um er móberg en neðri stallurinn er úr blágrýti. Nafn sitt dregur fossinn af því að vatnið hefur sorfið mjúkt móbergið og myndað göng, vatnið spýtist svo út um gangnaopin, „gluggana“ í fossinum neðanverðum. Efst í fossinum fellur hluti vatnsins undir steinboga. Þar sem bergið er mjúkt breytist fossinn nokkuð á einum mannsaldri. Um 1947 sást til að mynda lítið af efri hluta fossins því þar féll hann í göngum og var því að mestu hulinn bergi. Bergið var með þremur opum eða gluggum hverju upp af öðru og sást í hvítan vatnsflauminn í gegn um þessa glugga. Um neðsta gluggann bunaði svo vatnið út í fallegum boga en í vatnavöxtum fossaði vatnið út úr öllum þremur gluggunum. Miklar breytingar urðu á Gluggafossi í kjölfar Heklugossins 1947. Var það talið vera vegna þess að um 20 cm lag af vikri féll hér í gosinu, vikurinn barst í ána og hefur að líkindum sorfið klettana hraðar niður en ella. Hurfu göngin að mestu en eru nú óðum að ná fyrri reisn. Gluggafoss er friðlýstur sem náttúruvætti. Á flötinni fyrir neðan fossinn héldu Rangæingar upp á 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar árið 1974. Nálægt eru uppeldisstaðir tveggja af merkustu skáldum landsins, þeirra Bjarna Thorarensen og Þorsteins Erlingssonar. Upplýsingar um fleiri staðir í nágrenninu: www.katlageopark.is
Fjaðrárgljúfur
Fjaðrárgljúfur er 6 kílómetra frá þjóðvegi 1, beygt er inn á veg F206. Fært er á fólksbílum að Fjaðrárgljúfri allt árið. Fjaðrárgljúfur er stórbrotið og hrikalegt, um 100 metra djúpt og um tveir kílómetrar að lengd. Gljúfrið er veggbratt, örlítið hlykkjótt og þröngt. Berggrunnurinn í Fjaðrárgljúfri er að mestu móberg frá kuldaskeiðum ísaldar og telst um tveggja milljóna ára gamalt. Fjaðrá á upptök sín í Geirlandshrauni og fellur fram af heiðarbrúninni í þessu mikilfenglega gljúfri þar til hún skilar sér niður í Skaftá. Fjaðrá er bergvatnsá og ljóst er aðhún hefur breyst mikið í tímans rás. Fjaðrárgljúfur er á náttúruminjaskrá. Myndun FjaðrárgljúfursTalið er að Fjaðrárgljúfur hafi myndast við lok síðasta jökulskeiðs eða fyrir um níu þúsund árum. Þegar jökullinn hörfaði myndaðist lón í dalnum á bak við bergþröskuld en afrennslisvatn úr lóninu rann þar sem nú er Fjaðrárgljúfur. Jökulár frá jaðri jökulsins báru fram mikið af seti í lónið en áin sem rann frá því gróf sig niður í þröskuldinn og ofan í móbergið framan við hann. Þegar vatnsfallið var sem stærst var það öflugt við gljúfurgröftinn. Að því kom að stöðuvatnið fylltist af framburði jökulvatnanna og afl árinnar dvínaði. Þegar stöðuvatnið var orðið fullt hóf áin að grafa sig í setlögin sem hún hafði áður skilið eftir sig í dalnum. Malarhjallar beggja vegna í dalnum segja til um upphaflegu hæð og staðsetningu stöðuvatnsins og djúp rás í móberginu ber þögult vitni um afl náttúrunnar. Örnefnið Fjaðrá hefur oft vafist fyrir mönnum en telja sumir að hér hafi eitt sinn verið fjörður og hafi áin borið nafnið Fjarðará í upphafi. Á þessu eru skiptar skoðanir og kannski búa ferðalangar yfir betri útskýringu á nafninu?  Upplýsingar um fleiri staði í nágrenninu: www.katlageopark.is
Haukadalsskógur
Haukadalsskógur er einn stærsti þjóðskógur Suðurlands og sá sem mest hefur verið gróðursett í af þjóðskógum Íslands. Aðstaða til útivistar er góð. Meðal annars er sérhannaður stígur fyrir hjólastóla í skóginum sem unninn hefur verið í góðri samvinnu við Sjálfsbjörgu á Suðurlandi. 
Hallskot - Skógræktarfélag Eyrarbakka
Stórbrotið útivistarsvæði norðan við Eyrarbakka í átt að Fuglafriðlandinu í Flóa. Hallskot hefur verið í umsjá Skógræktarfélags Eyrarbakka frá 2015. Hallskot bíður uppá ótal möguleika og eru reglulega haldnir viðburðir, bæði úti og í bragganum. Svæðið er kjörið til að nýta sem áningarstað, skjólsælt með bekkjum og borðum.   HEIMILISFANG: 820 EYRARBAKKI / SÍMI: (+354) 660 6130, (+354) 847 5028 SKOGRAEKTARFELAGEYRARBAKKA@GMAIL.COM 
Reykjafoss
Lystigarðurinn í Hveragerði er í miðju bæjarins og markast af Breiðumörk, Skólamörk og Varmá. Ræktun garðsins hófst þar árið 1983 og er þar nú fallegur gróður með leiksvæði, bekkjum og borðum sem ferðamenn geta nýtt sér til útivistar. Í ánni Varmá rennur Reykjafoss. Á bakka Varmár neðan við Reykjafoss má sjá leifar af gömlum húsgrunni. Grunnurinn markar upphaf byggðar í Hveragerði því þar var ullarverksmiðja sem reist var árið 1902 og nýtti fallorku fossins.  Innar í Varmárgilinu eru uppistandandi veggir rafstöðvar sem gerð var árið 1929. Þaðan má rekja undirstöður fallstokksins að heillegri stíflunni neðan Hverahvamms.  
Hellisskógur
Hellisskógur er skógræktarsvæði rétt utan við Selfoss. Lagðir hafa verið akvegir og göngustígar um svæðið, settir bekkir og borð og Hellirinn grafinn út og útbúinn sem áningarstaður þar sem fólk getur sest niður og fundið sér skjól fyrir veðri og vindum. Hellisskógur hefur smám saman orðið eitt helsta útivistarsvæði Selfyssinga.  Stóri-Hellir í Hellisskógi myndaðist við lok jökulskeiðs á ísöld þegar brim svarf klettinn. Ummerki um hærra sjávarborð og sjávarrof sést á fjölmörgum stöðum í hellinum sem myndaðist í 0,7-3,1 milljón ára gömlu basalti. Innst í hellinum var áður geymt hey en fjárhús var staðsett við hellismunnann að framanverðu. Telja sumir að reimt sé í hellinum, af draug með bláan trefil.  Hér má sjá kort af Hellisskógi
Einbúi, Oddgeirshólar
Einbúi, Oddgerishólar er tilkomumikið landslag á bökkum Hvítár. Þetta er útivistarsvæði í Oddgeirshólaklettum sem Guðmundur Sigurðsson í Austurkoti gaf Ungmennafélaginu Baldri árið 1931. Ungmennafélagar hafa unnið af kappi við að gera svæðið að fallegu íþrótta- og útivistarsvæði, m.a. með hleðslu palla og gróðursetningu skjólbelta.
Dverghamrar
Dverghamrar eru skammt austan við Foss á Síðu. Þetta eru sérkennilegir og fagurlega formaðir stuðlabergshamrar úr blágrýti. Ofan á stuðlunum er víða það sem kallast kubbaberg.  Landslagið er talið hafa fengið á sig þessa mynd við lok ísaldar. Þá var sjávarmál hærra og er talið að brimsvörfun hafi valdið þessu sérkennilega útliti hamrana. Dverghamrar eru friðlýst náttúruvætti.  Stuðlaberg myndast vegna samdráttar í kólnandi efni þegar basaltbráð kólnar smám saman eftir fullstorknun þannig að bergið dregst saman og klofnar í stuðla sem oftast eru sexstrendir. Stuðlar standa ávallt hornrétt á kólnunarflötinn.
Veiði á Landmannaafrétti
Fyrir utan Veiðivötn er að finna fjölmörg önnur stöðuvötn sunnan Tungnaár, en í 12 þeirra eru leigð veiðileyfi sem hægt er að kaupa hjá skálavörðum í Landmannahelli. Um er að ræða vötnin: Blautuver, Dómadalsvatn, Eskihlíðarvatn, Frostastaðavatn, Herbjarnarfellsvatn, Hnausapollur (Bláhylur), Hrafnabjargavatn, Kílingavötn, Lifrafjallavatn, Ljótipollur, Löðmundarvatn og Sauðleysuvatn. Af þessum vötnum eru Ljótipollur og Hnausapollur yngst, það fyrrnefnda frá 1477 og það síðarnefnda frá 871. Flest vatnanna eru afrennslislaus, en þó rennur Helliskvísl úr Löðmundarvatni og Blautuver og Kílingavötn hafa samgang við Tungnaá. Urriði veiðist alfarið í Ljótapolli, Herbjarnarfellsvatni, Lifrarfjallavatni og Dómadalsvatni. Urriði og bleikja veiðast í Blautuverum, Frostastaðavatni og Kílingavötnum en einungis bleikja í öðrum vötnum.
Fuglafriðland í Flóa
Friðlandið í Flóa og Ölfusforir Á ósasvæði Ölfusár eru tvö stór votlendi, Friðland Fuglaverndar í Flóa austan og Ölfusforir vestan ár. Þetta eru miklar flæðisléttur með tjörnum og vötnum. Engjarnar hafa jafnt gildi á fartíma og sem varpstaður. Lómur er einkennisfugl Friðlandsins og lóuþræll og jaðrakan eru óvíða algengari. Á veturna er mikið fuglalíf í Ölfusforum, stórir hópar af urtöndum, stokköndum og gulöndum halda þar til, og jafnframt stærsti hópur gráhegra á landinu.  
Þórsmörk
Þórsmörk er einstök náttúruperla norðan Eyjafjallajökuls og vestan Mýrdalsjökuls. Þórsmörk afmarkast af Mýrdalsjökli í austri, Krossá í suðri og Markarfljóti og Þröngá í norðri. Þórsmerkursvæðið er mjög giljótt, kjarri vaxið upp í brekkur og er gróðurfar og landslag mjög fjölbreytilegt. Áður fyrr ráku bændur úr Fljótshlíð og undan Eyjafjöllum fé sitt í Þórsmörk til beitar bæði sumar og vetur og stunduðu þeir einnig skógarhögg á svæðinu.  Í kjölfar Kötlugossins 1918 var Þórsmörk beitarfriðuð og falin Skógrækt ríkisins til umsjónar. Ótalmargir áhugaverðir staðir eru á þessu svæði s.s. Snorraríki, Sóttarhellir, Álfakirkja, Stakkholtsgjá og steinbogi í Stóra-Enda. Ekki er fært í Þórsmörk nema á stórum jeppum eða rútum og hafa skal í huga að litlar sakleysislegar ár, geta breyst í stórfljót á nokkrum klukkutímum. 
Gljúfrabúi
Gljúfrabúi, sem er um 40 metra hár, er í landi eyðijarðarinnar Hamragarða sem Skógræktarfélag Rangæinga fékk að gjöf árið 1962 og er nú í eigu Rangárþings eystra. Ákveðin dulúð er yfir fossinum þar sem hann fellur ofan í djúpa gjá en framan við fossinn er mikill hamraveggur úr móbergi sem lokar fossinn af svo aðeins sést rétt efst í hann. Kletturinn sem lokar fossinn af kallast Franskanef. Áður fyrr töldu menn að hann og hamrarnir í kring væru bústaðir huldufólks. Hægt að fara úr skónum og vaða ána inn gilið og er það mögnuð upplifun. Hafa skal varann á þegar farið er inn gilið því hætta er á grjóthruni. Fyrir neðan Franskanef er gömul baðþró og inn af þrónni er lítill hellir sem heitir Ömpuhellir eftir einsetukonu sem þar á að hafa búið. Fyrir ofan Ömpuhelli eru tvær hvilftir inn í bergið sem nefnast Efra og Neðra ból. Í Neðra bóli var fyrr á tímum þurrkaður þvottur en í Efra bóli voru þurrkuð reipi og má enn sjá snaga í berginu í báðum þessum bólum. Gljúfrabúi er friðlýstur sem náttúruvætti. Töluvert sunnan við Gljúfrabúa er lítið gil í hamraveggnum þar sem hægt er að fara upp á heiðina fyrir ofan og virða fyrir sér útsýnið yfir héraðið. Talað var um að fara upp Stíginn og lækurinn í gilinu nefndur Stígslækur. Stígurinn er enn nokkuð skýr, hálfgerðar tröppur eru upp þar sem er brattast. Rétt fyrir ofan brúnina eru leifar gamalla fjárhúsa frá Hamragörðum. Gljúfrabúi, gamli foss! gilið mitt í klettaþröngum! góða skarð með grasahnoss! gljúfrabúi, hvítur foss! verið hefur vel með oss, verða mun það enn þá löngum; gljúfrabúi, gamli foss! gilið mitt í klettaþröngum! Úr „Dalvísu“ eftir Jónas Hallgrímsson 
Skaftafell
Þingstaður, býli og nú þjóðgarður í Öræfum. Við Skaftafell eru kennd Skaftafellsþing og Skaftafellssýslur en ekkert er nú kunnugt um þinghaldið og vettvang þess. Fyrst er staðarins getið í Njáls sögu. Þar býr þá Þorgeir, bróðir Flosa í Svínafelli. Kunnugt er að allt til þessa dags hefur sama ættin búið þar frá því um 1400 að minnsta kosti.Á 15. öld virðast hafa verið samgöngur milli Skaftafells og Möðrudals á Fjöllum. Heimildir verða ekki með öllu véfengdar enda hefur fundist skeifa og birkiklyfjar á leiðinni, í fjöllum með botni Morsárdals, og jafnvel hlaðinn vegarkafli. En skógarhögg átti Möðrudalur í Skaftafelli samkvæmt þessum heimildum, gegn hagbeit fyrir hross, og sendimenn áttu rúm hvor í annars skála. Jöklar eiga að hafa lokað þessari leið á 16. öld.Þrjú býli voru í Skaftafelli síðustu áratugina. Þau hétu Sel, Hæðir og Bölti. Fram eftir öldum munu Skaftafellsbæirnir hafa staðið neðan við brekkurnar, en um 1830 er farið að flytja þá upp í brekkurnar. Fyrst er byggt í Seli, síðan í Hæðum og að lokum er svo gamli bærinn fluttur, árið 1849, vestur fyrir Bæjargil og heitir þar Bölti (= hóll í brekku). Þá hafði Skeiðará tekið af allt undirlendi, hlaðið á það framburði sínum í hinum stóru hlaupum úr Grímsvötnum, svo að metrum skiptir á þykkt eða jafnvel tugum metra. Dæmi blasir við augum niðri við sand, neðst í Gömlutúnum, þar sem enn sést á rústir sem Skeiðará hefur sleikt og urið. Þetta mun vera stafn hlöðunnar við gamla bæinn sem 1814 stóð “á hæðarbrún”. Aðrar heimildir sýna að síðan um 1900 hefur sandurinn hækkað um nokkra metra. Bærinn í Seli, frá 2. áratug aldarinnar (fjósbaðstofa), var endurbyggður fyrir 1980 í umsjá Þjóðminjasafns Íslands og í þágu þjóðgarðsins en búskap lauk þar árið 1946. Svo fór, að frumkvæði dr. Sigurðar Þórarinssonar jarðfræðings og Ragnars Stefánssonar bónda og síðar þjóðgarðsvarðar, að Skaftafell varð þjóðgarður, hinn annar í landinu og næstur á eftir Þingvöllum. Hinn 13. maí 1966 var gengið frá kaupum á jörðinni, þ.e. hálendi öllu en láglendi aðeins að ákveðinni línu (Hafrafell-Lómagnúpur), með tilstyrk World Wildlife Fund, og var jörðin formlega afhent ríkinu 15. september 1967. Nú liðu nokkur ár en þegar vegurinn yfir Skeiðarársand, og þar með hringvegur um Ísland, var formlega opnaður 14. júlí 1974, má segja að þjóðgarðurinn í Skaftafelli hafi raunverulega verið opnaður almenningi. Um útsýn frá Skaftafelli segir prófessor Hans Wilhelmsson Ahlmann (sem skrifaði sig Hans W:son Ahlmann) svo í bók sinni, Í ríki Vatnajökuls: “Var fallegt þar? Þeirri spurningu er afar erfitt að svara, því að útsýnið hringinn í kringum okkur var gjörólíkt öllu sem ég hef séð í öðrum löndum og líka einsdæmi á Íslandi. Hvergi í veröldinni býst ég við að neitt sambærilegt sé til, og það var ekki unnt að bera það saman við neitt, sem menn eru orðnir vanir að kalla fallegt eða ljótt. Það var einhvern veginn öldungis einstætt án þess að gera þyrfti neina tilraun til þess að tengja það þekktum minningamyndum af því, sem menning og smekkur er búin að ætla ákveðið fegurðargildi. Náttúran ein talaði sínu sterka, einfalda máli.”
Gjáin í Þjórsárdal
Austasti dalur Árnessýslu. Liggur hann norðan Gaukshöfða, milli Hagafjalls og Búrfells. Fyrir innan Hagafjall eru Skriðufell og Dímon og innar Heljarkinn og Fossalda fyrir botni dalsins. Inn af Búrfelli er lágur fjallarani og eru á honum Sámsstaðamúli og Skeljafell og Stangarfjall innst. Þjórsárdalur var að mestu leyti samfelld sandauðn. Skógur er við Ásólfsstaði og Skriðufell (Vatnsás, Selhöfðar) og í Búrfellshálsi. Skógrækt ríkisins friðaði land Skriðufells árið 1938 og hefur verið gróðursettur þar víðlendur nýskógur. Í dalnum eru tveir bæir, Ásólfsstaðir og Skriðufell.Í dalnum er hraun og á það upptök sín á Tungnaáröræfum. Sérkennandi fyrir hraunið eru hólarnir (gervigígarnir) í dalbotninum innanverðum. Hefur hraunið komið þar niður farveg Rauðár og runnið yfir mýrlendi eða grunnt vatn.Fjórar ár falla um Þjórsárdal, Fossá, Rauðá, Sandá og Grjótá, en Þjórsá fellur fyrir dalsmynnið, fyrir framan Búrfell og upp að Hagafjalli. Í dalnum eru fossarnir Háifoss (122 m) og Hjálparfoss í Fossá og Gjárfoss í Rauðá.Blómleg byggð var í Þjórsárdal á þjóðveldisöld og var dalurinn þá algróinn. Árið 1939 grófu norrænir fornleifafræðingar upp nokkra af bæjunum í dalnum, þar á meðal á Stöng. Gjóskurannsóknir dr. Sigurðar Þórarinssonar leiddu í ljós að byggðin hafði eyðst í Heklugosinu árið 1104.Á síðari árum hefur dalurinn tekið miklum stakkaskiptum. Árið 1970 tók Búrfellsvirkjun til starfa. Stöðvarhúsið stendur í dalnum suðaustanverðum, undir Sámsstaðamúla. Milli Hjálparfoss og Sámsstaðamúla hefur risið dálítið þorp í tengslum við virkjunina og Landsvirkjun hefur byggt sundlaug við heitar uppsprettur hjá Reykholti. Einnig hefur Landsvirkjun látið sá grasfræi í nágrenni virkjunarinnar til að hefta sandfok og hefur dalurinn breytt mjög um svip af þeim sökum.Þjórsárdalur þykir fagur og sérstæður og er hann fjölsóttur af ferðamönnum. Tjaldstæði eru við Sandá niður undan Ásólfsstöðum.Forn megineldstöð (nálægt tveggja milljón ára gömul) er í innanverðum Þjórsárdal. Finnst súrt berg þar á nokkrum stöðum og mjög mikið ummyndað, grænt móberg, skorið af hallandi berggöngum, er við Fossá, nokkru neðan við Háafoss.Gjáin í ÞjórsárdalSérkennilegt gljúfur í Þjórsárdal innanverðum, skammt frá Stöng, og fellur Rauðá í snotrum fossi niður í það. Heitir hann Gjárfoss. Þjórsá hefur sennilega myndað Gjána í öndverðu, á löngum tíma. Síðar hljóp hún þar oft fram í vatnavöxtum, en til að varna því var gerður stíflugarður úr Sandafelli og suður til Skeljafells. Kvísl úr einu af hinum yngri Tungnaárhraunum hefur fallið fram úr Gjánni og skil
Skógræktin í Skagaási
Skógræktin í Skagaási er gróskumikill trjálundur Skógræktarfélags Villingarholtshrepps. Skjólsæll unaðsreitur með ágætu aðgengi. Fólk er vinsamlegast beðið um að virða gönguleiðir og ganga vel um. Einungis er leyfilegt að grilla á merktum grillstað vegna eldhættu.
Hella
Hella er stærsti byggðarkjarni sveitarfélagsins með tæplega 1000 íbúa. Á Hellu byggist atvinnulífið að miklu leyti upp á þjónustu við landbúnað, en þar má finna stórgripasláturhús, kjötvinnslu, kjúklingasláturhús og samliggjandi kjötvinnslu, útungunarstöð, bifreiðaverkstæði, rafverkstæði, trésmiðjur og ýmsa aðra smærri þjónustuaðila við landbúnað. Á Hellu eru einnig matvöruverslun, veitingastaðir, hótel og gistiheimili, hjúkrunar- og dvalarheimili, sundlaug, þvottahús, heilsugæsla, glerverksmiðja, fiskvinnsla og fiskbúð, handverks- og gjafavöruverslun, blómabúð, hársnyrtistofa, snyrti- og fótaaðgerðastofa, sjúkraþjálfarastofa, sundlaug, banki, pósthús, tjaldstæði, apótek, hjólbarðaverkstæði, bensínstöð, íþróttahús, grunn- og leikskólar auk fleiri stofnana og þjónustu. Þá eru ráðhús og þjónustumiðstöð sveitarfélagsins á Hellu. Saga þéttbýlisins nær aftur til ársins 1927 þegar þar var rekin verslun sem óx jafnt og þétt með uppbyggingu Kaupfélagsins Þórs og varð staðurinn helsti kaupstaður vesturhluta Rangárvallasýslu. Þorpið er byggt út úr jörðunum Gaddstöðum, Helluvaði og Nesi á Rangárvöllum. Mikill vöxtur varð í þorpinu á sjöunda áratugnum þegar fjölmargir þeirra sem störfuðu við uppbyggingu virkjana á svæðinu byggðu sér hús á svæðinu og settust að. Eftir það var vöxturinn hægari fram yfir aldamótin en eftir það hefur verið nokkuð stöðugur vöxtur í þorpinu með byggingu nýrra íbúða á hverju ári. Á Hellu er eitt þekktasta hestaíþróttasvæði á landinu, Gaddstaðaflatir eða öðru nafni Rangárbakkar. Á svæðinu eru keppnisvellir fyrir hestaíþróttir og þar er einnig reiðhöll. Þar hafa verið haldin sex landsmót hestamanna árin 1986, 1994, 2004, 2008 og 2014 og 2021.
Timburhóll - Skógrækt
Skógræktarreitur Ungmennafélagsins Samhygðar. Grillaðstaða og gróskumikill skógur. Hér er minnisvarði um hjónin í Vorsabæ, Guðfinnu Guðmundsdóttur og Stefán Jasonarson. Þau hjónin voru bændur í Vorsabæ í hálfa öld og Stefán var frumherji í störfum fyrir samtök sunnlenskra bænda, ungmennafélagshreyfinguna, umferðaröryggi og varðveislu þjóðlegra verðmæta. Auk þess er hér minnismerki um Ásgrím Jónsson listmálara. Gestir eru beðnir um að ganga vel um.
Reykjadalur
Reykjadalur er án efa vinsælasta útivistarsvæðið í Ölfusi. Þar er að finna margar merktar gönguleiðir um stórbrotið háhitasvæðið og hægt er að baða sig í heitri á í dalnum. Orkuveita Reykjavíkur hefur merkt gönguleiðir í dalnum sem og á Hengilssvæðinu öllu. Hægt er að finna göngukort á vef þeirra. Stundum eru gönguleiðirnar í Reykjadal lokaðar og er því gott að athuga það áður en farið er. Hægt er að sjá það á Safetravel.is hvort það sé opið eða loka. Þeir sem hyggjast heimsækja dalinn það er afar mikilvægt að reglur svæðisins séu virtar og að ekki sé gengið utan stíga.
Þingvallavatn
Stærsta stöðuvatn á Íslandi, talið um 12000 ára gamalt, 83,7 km² að meðtöldum eyjunum, sem eru 0,5 km² að stærð. Þær eru þrjár og heita Sandey, Nesjaey og Heiðarbæjarhólmi. Þar sem vatnið er notað sem miðlunarlón fyrir raforkustöðvar er vatnsborðshæð örlítið mismunandi, en um 101 m y.s. að meðaltali. Mesta dýpi er um 114 m. Meðaldýpt er um 34 m. Þingvallavatn hefur myndast við landsig og hraunstíflu. Það er á Atlantshafshryggnum, einmitt þar sem gliðnun hans fer fram. Út í vatnið liggja sprungur og gjár. Víða neðan vatns eru hrikalegir hamraveggir, einkum utan Hestvíkur í Hnúkadjúpi norðvestur af Nesjaey og í Sandeyjardjúpi, norð-norðvestur af Sandey. Þar er vatnið dýpst. Sog fellur úr Þingvallavatni. Á yfirborði rennur í vatnið rösklega 1/10 hluti af vatnsmagninu í Soginu, en það er Öxará að norðan og nokkrar smáár og lækir sunnan frá Grafningsfjöllunum. En innrennslið er að öðrum hluta neðanjarðar. Undan Þingvallahrauni streymir mikið lindavatn (kaldavermsl) á Vellankötlusvæðinu og úr gjánum á Þingvöllum. Einnig kemur mikið vatn neðanjarðar af Hengilssvæðinu, einkum undir Nesjahrauni. Nú þykir fullsannað að vatnasvið Þingvallavatns nái allt til Langjökuls. Í venjulegu árferði leggur Þingvallavatn þegar líða tekur á vetur og er jafnan ísilagt í febrúar og mars. Áður fyrr var ísinn mikil samgöngubót og óspart notaður til skautaferða og flutninga á vörum úr kaupstað eða milli bæja. Nærri Nesjaey, að vestanverðu, er svæði sem nefnt er Nesjaeyjaropna. Þar leggur vatnið síðast og ísa leysir fyrst. Annars leynast víða vakir á ísnum, einkum þar sem kaldavermsl eru. Ættu ókunnugir sem þar eru á ferð að gæta fyllstu varúðar. Mikil veiði er í Þingvallavatni. Gefur það af sér árlega allt að 10 kg af fiski á hektara. Þar þekkjast einar 8 fisktegundir og afbrigði þeirra. Mikill gróður er í vatninu og hafa rannsóknir sýnt að 1/3 hluti botnsins er þakinn gróðri. Þingvallavatn er þekkt fyrir snögg veðrabrigði. Á örskömmum tíma getur spegilsléttur vatnsflöturinn breyst í úfið, ólgandi haf með hvítfyssandi, kröppum öldum. Þá er smábátum hætt. Saga Þingvallavatns nær aftur á ísöld og hefur vatnið mátt þola miklar sviptingar. Í lok ísaldar var það jökullón sem jökull, er lá að Dráttarhlíð og Grafningshálsum, stíflaði. Jöklarnir hörfuðu og vatnsborðið stóð fáeinum metrum neðar en nú. Hægt en stöðugt seig landið í sigdalnum norður frá Hengli og vatnið dýpkaði. Jökulár runnu líklega frá Langjökli um dal suður til Þingvallavatns og gerðu vatnið jökulgruggugt. Stórgos varð í dalnum norðan við vatnið fyrir tæplega 10.000 árum. Skjaldbreiður myndaðist og sendi hraun suður í vatnið er þrengdu að því. Annað stórgos varð tiltölulega skömmu síðar, eða fyrir um 9.000 árum norðaustur af Hrafnabjörgum. Hraun frá þessu gosi runnu yfir Skjaldbreiðarhraunið neðan vatnsins og út í vatnið svo að það minnkaði til muna. Þetta hraun rann einnig suður með austurjaðri vatnsins og stíflaði það við Sog. Við þetta hækkaði í vatninu um 12-13 m en Sogið gróf sig síðan niður og lækkaði vatnið á ný um 7-8 m. Síðan hefur vatnið sífellt verið að stækka til norðurs í sigdældinni austur frá Þingvöllum. Fyrir 2000-3000 árum gaus í vatninu og þá myndaðist Sandey, sem er stærsta eyja í stöðuvatni hér á landi. Árið 1959 var útfall Sogsins stíflað. Frá þeim tíma hefur rennsli vatns og vatnshæð verið stjórnað af mönnum. Landnámabók nefnir vatnið Ölfusvatn. Heimild: Íslandshandbókin útgáfa 1.0. Námsgagnastofnun 1995.