Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Hveragerði

Ylrækt

Um 1929 fór þorpið Hveragerði að myndast eftir að samvinnufélag um Mjólkurbú Ölfusinga var stofnað. Á sama tíma hófst ylrækt og eru fjölbreyttar tilraunir til nýtingar varmans einkennandi fyrir sögu bæjarins. Að hafa jarðhitasvæði í miðjum bænum er mjög einstakt á landsvísu og jafnvel þó víðar væri leitað. Dæmi um nýtingu jarðhitans má nefna Þangmjölsverksmiðju þar sem þangmjöl var framleitt og Garðyrkjuskóli ríkisins á Reykjum útskrifaði fyrstu nemendur árið 1941. Margar garðyrkjustöðvar risu á næstu árum og fóru Reykvíkingar að venja komu sínar til Hveragerðis til að kaupa afurðir garðyrkjubænda. Árið 1946 hóf Hverabakarí starfsemi sína sem heitir nú Almar bakari. Enn þann dag í dag er gufa nýtt til baksturs í Hveragerði.

Áður fyrr voru hverir litnir hornauga enda slysagildrur fyrir menn og fé. Erlendir garðyrkjumenn sáu þó möguleika í að nýta heita vatnið og upp úr 1900 voru einstaklingar og áhugafélög farin að gera ýmsar ræktunartilraunir. Stofnun Garðyrkjuskóla ríkisins hraðaði þróun garðyrkju á Íslandi, þar sem mikilvæg starfsemi er í gang, enda byggist meðal annars okkar framtíð á að nýta þær auðlindir sem landið hefur upp á að bjóða.

Garðyrkjuskóli ríkisins sem er nú undir Landbúnaðarháskóla Íslands er enn starfræktur á Reykjum. Hann er opinn almenningi sumardaginn fyrsta hvert ár og er þá hægt að skoða framandi hitabeltisgróður eins og kakóplöntur og bananaplöntur. Bananauppskeran er um tonn á ári sem má ekki selja og njóta því starfsmenn og nemendur góðs af henni.

Skyrgerðin í Hveragerði var sú fyrsta sinnar tegundar á Íslandi þegar hún var reist 1930. Var skyr aðalframleiðsluvaran en einnig var fyrsta jógúrtin á Íslandi framleidd þar, nefndist heilsumjólk. Í dag er enn verið að framleiða þar skyr upp á gamla mátann og er það nýtt í matargerð, bakstur og í blöndun á drykkjum hjá veitingastaðnum Skyrgerðin.

Auk grænmetisframleiðslu og blómaframleiðslu er eitt stærsti ísframleiðandi landsins staðsettur í Hveragerði, fjölskyldufyrirtækið Kjörís sem hóf starfsemi 1969.