Fjaðrárgljúfur
Fjaðrárgljúfur er 6 kílómetra frá þjóðvegi 1, beygt er inn á veg F206. Fært er á fólksbílum að Fjaðrárgljúfri allt árið. Fjaðrárgljúfur er stórbrotið og hrikalegt, um 100 metra djúpt og um tveir kílómetrar að lengd. Gljúfrið er veggbratt, örlítið hlykkjótt og þröngt. Berggrunnurinn í Fjaðrárgljúfri er að mestu móberg frá kuldaskeiðum ísaldar og telst um tveggja milljóna ára gamalt. Fjaðrá á upptök sín í Geirlandshrauni og fellur fram af heiðarbrúninni í þessu mikilfenglega gljúfri þar til hún skilar sér niður í Skaftá. Fjaðrá er bergvatnsá og ljóst er aðhún hefur breyst mikið í tímans rás. Fjaðrárgljúfur er á náttúruminjaskrá.
Myndun FjaðrárgljúfursTalið er að Fjaðrárgljúfur hafi myndast við lok síðasta jökulskeiðs eða fyrir um níu þúsund árum. Þegar jökullinn hörfaði myndaðist lón í dalnum á bak við bergþröskuld en afrennslisvatn úr lóninu rann þar sem nú er Fjaðrárgljúfur. Jökulár frá jaðri jökulsins báru fram mikið af seti í lónið en áin sem rann frá því gróf sig niður í þröskuldinn og ofan í móbergið framan við hann. Þegar vatnsfallið var sem stærst var það öflugt við gljúfurgröftinn. Að því kom að stöðuvatnið fylltist af framburði jökulvatnanna og afl árinnar dvínaði. Þegar stöðuvatnið var orðið fullt hóf áin að grafa sig í setlögin sem hún hafði áður skilið eftir sig í dalnum. Malarhjallar beggja vegna í dalnum segja til um upphaflegu hæð og staðsetningu stöðuvatnsins og djúp rás í móberginu ber þögult vitni um afl náttúrunnar.
Örnefnið Fjaðrá hefur oft vafist fyrir mönnum en telja sumir að hér hafi eitt sinn verið fjörður og hafi áin borið nafnið Fjarðará í upphafi. Á þessu eru skiptar skoðanir og kannski búa ferðalangar yfir betri útskýringu á nafninu?
Upplýsingar um fleiri staði í nágrenninu: www.katlageopark.is
View