Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Vinsælir staðir

Fjaðrárgljúfur
Fjaðrárgljúfur er 6 kílómetra frá þjóðvegi 1, beygt er inn á veg F206. Fært er á fólksbílum að Fjaðrárgljúfri allt árið. Fjaðrárgljúfur er stórbrotið og hrikalegt, um 100 metra djúpt og um tveir kílómetrar að lengd. Gljúfrið er veggbratt, örlítið hlykkjótt og þröngt. Berggrunnurinn í Fjaðrárgljúfri er að mestu móberg frá kuldaskeiðum ísaldar og telst um tveggja milljóna ára gamalt. Fjaðrá á upptök sín í Geirlandshrauni og fellur fram af heiðarbrúninni í þessu mikilfenglega gljúfri þar til hún skilar sér niður í Skaftá. Fjaðrá er bergvatnsá og ljóst er aðhún hefur breyst mikið í tímans rás. Fjaðrárgljúfur er á náttúruminjaskrá. Myndun FjaðrárgljúfursTalið er að Fjaðrárgljúfur hafi myndast við lok síðasta jökulskeiðs eða fyrir um níu þúsund árum. Þegar jökullinn hörfaði myndaðist lón í dalnum á bak við bergþröskuld en afrennslisvatn úr lóninu rann þar sem nú er Fjaðrárgljúfur. Jökulár frá jaðri jökulsins báru fram mikið af seti í lónið en áin sem rann frá því gróf sig niður í þröskuldinn og ofan í móbergið framan við hann. Þegar vatnsfallið var sem stærst var það öflugt við gljúfurgröftinn. Að því kom að stöðuvatnið fylltist af framburði jökulvatnanna og afl árinnar dvínaði. Þegar stöðuvatnið var orðið fullt hóf áin að grafa sig í setlögin sem hún hafði áður skilið eftir sig í dalnum. Malarhjallar beggja vegna í dalnum segja til um upphaflegu hæð og staðsetningu stöðuvatnsins og djúp rás í móberginu ber þögult vitni um afl náttúrunnar. Örnefnið Fjaðrá hefur oft vafist fyrir mönnum en telja sumir að hér hafi eitt sinn verið fjörður og hafi áin borið nafnið Fjarðará í upphafi. Á þessu eru skiptar skoðanir og kannski búa ferðalangar yfir betri útskýringu á nafninu?  Upplýsingar um fleiri staði í nágrenninu: www.katlageopark.is
Jökulsárlón
Jöklsárlón er sennilega eitt af kennileitum Suðausturlands, enda einstök náttúrusmíð. Svæðið er einnig aðgengilegt allt árið enda liggur þjóðvegur 1 um Breiðamerkursand og framhjá lónínu. Jökulsárlón hefur verið hluti af Vatnajökulsþjóðgarði frá árinu 2017. Jöklsárlón fór fyrst að koma í ljós upp úr 1930, í kjölfar hopunar Breiðamerkurjökuls. Jökulinn var í mestri útbreiðslu (frá landnámi) við lok 19. aldar. Jökulgarðar sunnan við Jökulsárlón eru eftirstandandi sönnunarmerki um hvar jökulsporðurinn lá fyrir meira en 100 árum. Lónið sjálft er afleiðing af greftri Breiðamerkurjökuls, en skriðjöklar geta grafið sig býsna djúpt niður og þegar þeir hopa safnast vatn í dældina sem þeir hafa grafið. Fyrir miðja 20. öld rann Jökulsá á Breiðamerkursandi beint undan jökli u.þ.b. 1½ km leið til sjávar. Síðan hefur jökullinn hörfað og sístækkandi lón myndast. Nú eru amk 8 km frá jökuljaðri og að fjöru. Meðalrennsli árinnar er 250-300 m³/sek. og stórir ísjakar brotna af jökuljaðrinum og eru þeir á floti á vatninu. Lónið er feikidjúpt, a.m.k. 190 m. Áin styttist stöðugt vegna brimrofs og árið 1998 var hún varla meira en 500 m. Farvegur árinnar grefst stöðugt niður, þannig að það gætir sjávarfalla í lóninu. Það þýðir einfaldlega, að hlýrra vatn streymir inn í það á flóði og ísinn bráðnar mun hraðar en fyrrum. Bæði loðna og síld ganga inn í lónið og selurinn eltir ætið. Víða má sjá æðarfugl syndandi milli jakanna. Það er ógleymanlegt að sigla með bátunum um lónið og virða fyrir sér litaskipti íssins og ótrúlegar höggmyndir náttúrunnar. Þar er rekin bátaútgerð fyrir ferðamenn og þar er lítið veitingahús. Áætlunarbifreiðar haf viðkomu við lónið á hverjum degi á sumrin,  Yfir sumarið er boðið uppá fræðslugöngur með landvörðum. Upplýsingar um göngurnar má finna á auglýsingaskilti á aðalbílastæði nálægt kaffiteríu eða á vefsíðu þjóðgarðsins. Vatnajökulsþjóðgarður 
Vatnajökull
Vatnajökull er stærsti jökull Íslands, sem og stærsti jökull í rúmmáli í allri Evrópu. Vatnajökull þekur tæp 8 prósent Íslands en hann nær yfir 7700 ferkílómetra (2021) og er meðalþykkt hans 400 metrar. Hæsti punktur jökulsins, Hvannadalshnúkur mælist 2,110 metra (6,921 ft). Frá jöklahettu Vatnajökuls liggja um 30 jökultungur sem allar bera heiti; allir jöklar og jökultungur á Íslandi bera heiti sem endar á „jökull“. Vatnajökull er í umsjá Vatnajökulsþjóðgarðs sem einnig nær yfir stórt svæði umhverfis jökulinn. Þjóðgarðurinn hefur upp á margvíslega áhugaverða staði að bjóða og er garðurinn skyldu stopp fyrir hvern þann sem hefur áhuga á jarðfræði og fögru landslagi.  
Reynisfjara, Reynisfjall og Reynisdrangar
Reynisfjall (340 m y.s.) stendur vestan Víkur í Mýrdal. Reynisfjall er móbergsfjall sem myndast hefur við eldgos undi rjökli á kuldaskeiði Ísaldar. Í Reynisfjalli má finna óregluleg lög móbergs, bólstrabergs ásamt stuðluðum innskotslögum og bergæðum. Hamrarnir eru þverhníptir en víða grónir hvönn og öðrum þroskamiklum gróðri.Upp á Reynisfjall liggur akvegur sem hernámsliðið gerði upphaflega á heimsstyrjaldarárunum en var endurbættur seinna. Hann mun vera einn brattasti fjallvegur á Íslandi. Á Reynisfjalli var starfrækt lóranstöð um skeið. Sunnan í Reynisfjalli að vestan eru sérkennilegar stuðlabergsmyndanir og hellar, Hálsanefshellir. Ekið er að þeim suður Reynishverfi. Reynisdrangar eru bergdrangar sem rísa 66 metra upp fyrir sjávarmál. Við Reynisfjöru er Hálsanefshellir ásamt mjög fögrum stuðlabergsmyndum. Gæta skal varúðar við Reynisfjöru þar sem öldurnar geta verið varasamar og auðveldlega gengið langt inn á land og hrifsað með sér fólk út á sjó. 
Vestrahorn
Eitt fyrsta landnámsbýli Íslands var Horn, byggt af Hrollaugi, syni Rögnvalds Jarls af Møre í Noregi. Sveitarfélagið Hornafjörður og ýmis önnur svæði eru nefnd eftir landnámsbýlinu. Svæðið er í um það bil 10 mínútna ökufæri frá Höfn. Horn er staðsett fyrir neðan Vestra-Horn, 454 metra háu fjalli og er það áhugaverður jarðfræðilegur staður myndaður úr ólagskiptum djúpbergsstein, aðallega gabbró en einnig granófýr. Austan við fjallið er óvanalega löguð opna sem kallast Brunnhorn sem nær út að sjó. Selir eiga það til að slaka á á strandlengjunni, þannig ef heppnin er með þér nærðu flottri mynd af sel í slökun ef þú gerir þér ferð að Horni.   Í seinni heimsstyrjöld var Horn herstöð Breskra hermanna og seinna setti NATO upp ratsjárstöð á Stokksnesi, sunnan við Horn. Á Stokksnesi má virða fyrir sér öflugt Atlantshafið þar sem öldurnar skella á grýttri ströndinni af miklu afli. 
Skaftafell
Þingstaður, býli og nú þjóðgarður í Öræfum. Við Skaftafell eru kennd Skaftafellsþing og Skaftafellssýslur en ekkert er nú kunnugt um þinghaldið og vettvang þess. Fyrst er staðarins getið í Njáls sögu. Þar býr þá Þorgeir, bróðir Flosa í Svínafelli. Kunnugt er að allt til þessa dags hefur sama ættin búið þar frá því um 1400 að minnsta kosti.Á 15. öld virðast hafa verið samgöngur milli Skaftafells og Möðrudals á Fjöllum. Heimildir verða ekki með öllu véfengdar enda hefur fundist skeifa og birkiklyfjar á leiðinni, í fjöllum með botni Morsárdals, og jafnvel hlaðinn vegarkafli. En skógarhögg átti Möðrudalur í Skaftafelli samkvæmt þessum heimildum, gegn hagbeit fyrir hross, og sendimenn áttu rúm hvor í annars skála. Jöklar eiga að hafa lokað þessari leið á 16. öld.Þrjú býli voru í Skaftafelli síðustu áratugina. Þau hétu Sel, Hæðir og Bölti. Fram eftir öldum munu Skaftafellsbæirnir hafa staðið neðan við brekkurnar, en um 1830 er farið að flytja þá upp í brekkurnar. Fyrst er byggt í Seli, síðan í Hæðum og að lokum er svo gamli bærinn fluttur, árið 1849, vestur fyrir Bæjargil og heitir þar Bölti (= hóll í brekku). Þá hafði Skeiðará tekið af allt undirlendi, hlaðið á það framburði sínum í hinum stóru hlaupum úr Grímsvötnum, svo að metrum skiptir á þykkt eða jafnvel tugum metra. Dæmi blasir við augum niðri við sand, neðst í Gömlutúnum, þar sem enn sést á rústir sem Skeiðará hefur sleikt og urið. Þetta mun vera stafn hlöðunnar við gamla bæinn sem 1814 stóð “á hæðarbrún”. Aðrar heimildir sýna að síðan um 1900 hefur sandurinn hækkað um nokkra metra. Bærinn í Seli, frá 2. áratug aldarinnar (fjósbaðstofa), var endurbyggður fyrir 1980 í umsjá Þjóðminjasafns Íslands og í þágu þjóðgarðsins en búskap lauk þar árið 1946. Svo fór, að frumkvæði dr. Sigurðar Þórarinssonar jarðfræðings og Ragnars Stefánssonar bónda og síðar þjóðgarðsvarðar, að Skaftafell varð þjóðgarður, hinn annar í landinu og næstur á eftir Þingvöllum. Hinn 13. maí 1966 var gengið frá kaupum á jörðinni, þ.e. hálendi öllu en láglendi aðeins að ákveðinni línu (Hafrafell-Lómagnúpur), með tilstyrk World Wildlife Fund, og var jörðin formlega afhent ríkinu 15. september 1967. Nú liðu nokkur ár en þegar vegurinn yfir Skeiðarársand, og þar með hringvegur um Ísland, var formlega opnaður 14. júlí 1974, má segja að þjóðgarðurinn í Skaftafelli hafi raunverulega verið opnaður almenningi. Um útsýn frá Skaftafelli segir prófessor Hans Wilhelmsson Ahlmann (sem skrifaði sig Hans W:son Ahlmann) svo í bók sinni, Í ríki Vatnajökuls: “Var fallegt þar? Þeirri spurningu er afar erfitt að svara, því að útsýnið hringinn í kringum okkur var gjörólíkt öllu sem ég hef séð í öðrum löndum og líka einsdæmi á Íslandi. Hvergi í veröldinni býst ég við að neitt sambærilegt sé til, og það var ekki unnt að bera það saman við neitt, sem menn eru orðnir vanir að kalla fallegt eða ljótt. Það var einhvern veginn öldungis einstætt án þess að gera þyrfti neina tilraun til þess að tengja það þekktum minningamyndum af því, sem menning og smekkur er búin að ætla ákveðið fegurðargildi. Náttúran ein talaði sínu sterka, einfalda máli.”
Landmannalaugar
Landmannalaugar draga nafn sitt af heitri laug sem kemur undan Laugahrauninu. Landmannalaugar hafa verið áningastaður fólks um aldir og þar hafa fjallmenn á Landmannaafrétti hafst við í leitum svo lengi sem heimildir eru til um slíkar ferðir. Frá Landmannalaugum má sjá mörg falleg fjöll; Barm, Bláhnúk, Brennisteinsöldu, Suðurnám og Norðurnám. Mikið er um líparít, hrafntinnu og líparíthraun á svæðinu og eru Landmannalaugar rómaðar fyrir litafegurð og einstaka náttúru. Upphaf einnar vinsælustu gönguleiðar landsins, Laugavegarins, eru í Landmannalaugum og liggur leiðin þaðan um Hrafntinnusker, Álftavatn, Hvanngil, Emstrur og loks í Þórsmörk. Í Landmannalaugum er aðstaða fyrir ferðamenn, sturtur og gisting rekin af Ferðafélagi Íslands, en auk þess er á svæðinu rekin hestaleiga á sumrin og lítið kaffihús. Gjöld:Umhverfisstofnun mun taka upp bókunarkerfi fyrir bílastæði í Landmannalaugum fyrir sumarið 2024. Þá verður nauðsynlegt að bóka bílastæði fyrir komu á svæðið og greiða fyrir það þjónustugjald.  Fyrirkomulagið verður í gildi frá 20. júní til 15. september, alla daga vikunnar. Nánar upplýsingar hér. 
Vatnajökulsþjóðgarður
Vatnajökulsþjóðgarður, stofnaður 7. júní 2008, nær yfir um 14 prósent af flatarmáli landsins (14.701 ferkílómetrar) og er þar með næst stærsti þjóðgarður Evrópu. Landssvæði þjóðgarðsins er einstakt á heimsvísu. Þar er að finna síkvikt samspil jökla og eldvirkni, jökulhlaupa, eldgosa og jarðhita. Jarðfræðileg fjölbreytni er óvenjulega mikil og innan væntanlegra þjóðgarðsmarka er að finna afar sjaldgæfar landslagsheildir, m.a ósnortin víðerni. Með stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs réðust Íslendingar í stærsta náttúruverndarverkefni þjóðarinnar frá upphafi. Stofnun þjóðgarðsins er einnig eitt stærsta atvinnusköpunar- og byggðaþróunarverkefni sem stjórnvöld hafa tekist á hendur í þessum hluta landsins. Vatnajökulsþjóðgarður var tilnefndur og skráður á heimsminjaskrá 2019 fyrir náttúruminjar undir áttunda viðmiði (criteria viii) sem kallar á að viðkomandi staður sé einstakt dæmi um mikilvægt stig í þróun jarðarinnar. Svæðið er því viðurkennt sem einstakt á heimsvísu vegna samspils elds og íss sem hefur leitt til stórbrotinnar náttúru og fjölbreyttra fyrirbæra. Vatnajökull er stærsti jökull Evrópu. Flatarmál hans er um 7.780 km2 og ísinn víðast 400–600 m þykkur en mest um 950 m. Undir jökulísnum leynast fjöll, dalir og hásléttur. Þar eru líka virkar megineldstöðvar. Bárðarbunga er stærst þeirra en Grímsvötn sú virkasta. Hæst nær jökulhettan rúma 2.000 m yfir sjó en jökulbotninn fer lægst 300 m niður fyrir sjávarmál. Að frátöldum Mýrdalsjökli er úrkoma hvergi meiri á Íslandi en á sunnanverðum Vatnajökli né afrennsli meira til sjávar. Svo mikill vatnsforði er bundinn í Vatnajökli að það tæki vatnsmestu á Íslands, Ölfusá, rúm 200 ár að bera hann fram. Landslag umhverfis Vatnajökul er fjölbreytilegt. Norðan hans er háslétta afmörkuð af vatnsmiklum jökulám. Yfir henni gnæfa eldstöðvarnar Askja, Kverkfjöll og Snæfell og móbergsstapinn Herðubreið, drottning íslenskra fjalla. Í fyrndinni skáru mikil hamfarahlaup Jökulsárgljúfur í norðanverða hásléttuna. Efst í gljúfrunum dunar nú hinn kraftmikli Dettifoss en utar má finna formfagra Hljóðakletta og hamraskeifuna Ásbyrgi. Víðfeðm heiðalönd og votlendi einkenna svæðið við Snæfell næst jöklinum austanverðum. Þar eru mikilvæg búsvæði hreindýra og heiðagæsa. Sunnan Vatnajökuls eru háir og tignarlegir fjallgarðar einkennandi og milli þeirra fellur fjöldi skriðjökla niður á láglendið. Syðst trónir megineldstöðin Öræfajökull og hæsti tindur landsins, Hvannadalshnjúkur. Í skjóli jökulsins er gróðurvinin Skaftafell og þar vestur af svartur Skeiðarársandur, sem tíð eldgos og jökulhlaup úr Grímsvötnum hafa skapað. Vestan Vatnajökuls einkennist landslag líka af mikilli eldvirkni. Þar urðu tvö af stærstu sprungu- og hraungosum jarðar á sögulegum tíma, Eldgjárgosið 934 og Skaftáreldar í Lakagígum 1783–1784. Norðvestan jökuls liggur Vonarskarð, litríkt háhitasvæði og vatnaskil Norður- og Suðurlands. Vatnajökulsþjóðgarður Skaftárstofa Skaftafellsstofa 
Gullfoss
Gullfoss er í raun tveir fossar, efri fossinn er 11 metrar og neðri fossinn 20 metrar. Sigríður Tómasdóttir var fædd í Brattholti 1871, bærinn var þá afskekktur en þangað komu þó gjarnan ferðamenn. Sigríður fylgdi oft ferðamönnum að fossinum og lagði ásamt systrum sínum fyrsta stíginn að fossinum. Þegar menn fóru að sækjast eftir yfirráðum fallvatna til virkjanaframkvæmda um aldamótin 1900 háði Sigríður harða baráttu gegn því að Gullfoss yrði virkjaður. Stundum eru gönguleiðirnar hjá Gullfossi lokaðar og er því gott að athuga það áður en farið er. Hægt er að sjá það á Safetravel.is hvort það sé opið eða lokað.  
Dverghamrar
Dverghamrar eru skammt austan við Foss á Síðu. Þetta eru sérkennilegir og fagurlega formaðir stuðlabergshamrar úr blágrýti. Ofan á stuðlunum er víða það sem kallast kubbaberg.  Landslagið er talið hafa fengið á sig þessa mynd við lok ísaldar. Þá var sjávarmál hærra og er talið að brimsvörfun hafi valdið þessu sérkennilega útliti hamrana. Dverghamrar eru friðlýst náttúruvætti.  Stuðlaberg myndast vegna samdráttar í kólnandi efni þegar basaltbráð kólnar smám saman eftir fullstorknun þannig að bergið dregst saman og klofnar í stuðla sem oftast eru sexstrendir. Stuðlar standa ávallt hornrétt á kólnunarflötinn.
Systrastapi
Árið 1186 var sett nunnuklaustur í Kirkjubæ á Síðu sem síðar var nefnt Kirkjubæjarklaustur og eru örnefnin Systrastapi og Systrafoss tengd þeim tíma. Systrastapi er klettastapi vestan við Klaustur.  Þjóðsaga segir að uppi á stapanum sé legstaður tveggja klaustursystra í klaustrinu sem hafi verið brenndar á báli fyrir brot á siðareglum. Önnur hafði selt sig fjandanum, gengið með vígt brauð fyrir náðhúsdyr og lagst með karlmönnum. Hin hafði talað óguðlega um páfann. Eftir siðaskiptin var seinni nunnan talin saklaus og á leiði hennar óx fagur gróður en á leiði hinnar seku var gróðurlaust.  Klifra má upp á stapann en þaðan er mikið útsýni með jöklasýn. 
Seljalandsfoss
Foss í Seljalandsá þar sem hún steypist fram af hömrum Vestur-Eyjafjalla norðan við Seljaland.Seljalandsfoss er á mörkum milli Seljalands og Hamragarða, einn af hæstu fossum landsins og horfir vel við á leið austur um Landeyjar. Gengt er á bak við fossinn. Mörgum þykir fossinn fegurstur í síðdegissól.
Kerið
Kerið var áður talið sprengigígur en núna er talið að það sé niðurfall eftir hrun gjallgígs. Kerið er um 3000 ára gamall, nyrst í hólaþyrpingu sem nefnist Tjarnarhólar. Kerið er sporbaugslaga, um 270 m langt og breiðast 170 m. Dýpt gígsins er 55 m en í botni hans er tjörn sem er breytileg að dýpt, 7-14 m. Það er gömul sögn að þegar vatnsborð hækkar í Kerinu lækki að sama skapi í tjörninni uppi á Búrfelli í Grímsnesi og öfugt. Sumarið 1987 voru haldnir útitónleikar í Kerinu. Voru listamennirnir úti á tjörninni í gúmmíbátum.
Eyjafjallajökull
Eyjafjallajökull er í röð hærri jökla landsins (1651 m y.s.). Eyjafjallajökull er eldkeila, gerð úr hraun- og gosmalarlögum á víxl og liggur norður af Eyjafjöllum. Fjalllendið eða eldkeilan, sem Eyjafjallajökull hvílir á, hefur verið að hlaðast upp frá miðri ísöld og fram á nútíma. Í toppi keilunnar er sigketill, 3-4 km í þvermál. Raðast hæstu tindar fjallsins á barma ketilsins sem opinn er til norðurs og þar flæðir Gígjökull fram úr katlinum allt niður á láglendi í dal Markarfljóts. Hæsti tindurinn er nefndur Hámundur. Goðasteinn heitir klettur á skálarbarminum sunnanverðum. Eyjafjallajökull er um 100 km² og því sjötti stærsti jökull hér á landi. Tveir skriðjöklar falla úr Eyjafjallajökli að norðanverðu, niður á jafnsléttu. Er hinn fremri (vestari) Gígjökull eða Falljökull en hinn innri nefnist Steinsholtsjökull. Lón eru við jökulsporðana og heitir Jökullón við Gígjökul en Steinsholtslón við Steinsholtsjökul. Eyjafjallajökull gaus 1821-1823. Þá braust flóð fram undan skriðjökli úr norðanverðum jöklinum. Það stóð aðeins yfir í þrjár klukkustundir en var ægilegt meðan á því stóð. Flæddi það yfir allt láglendi hlíða á milli þannig að hvergi örlaði á steini milli Eyjafjalla og Fljótshlíðar. Um miðjan janúar 1967 hrundi samfelld bergspilda úr austurhlið Innstahauss í Steinsholti niður á Steinsholtsjökul. Bergspildan var um 15 milljónir m³ og mesta hæð brotstálsi.Megineldstöðin Eyjafjallajökull hefur verið tiltölulega virk á nútíma eða síðustu 8000 ár. Síðast gaus í eldstöðinni árið 2010 en þá mynduðust u.þ.b. 0,27 km3 af gjósku og 0,023 km3 af hrauni. Eyjafjallajökull er 1651 m hár og er hann á Austurgosbeltinu og telst megineldstöðin vera sjálfstætt eldstöðvakerfi. Efst í fjallinu er 2,5 km breið, ísfyllt askja. Efri hluti megineldstöðvarinnar er að mestu hulin jökli sem er allt að 200 m þykkur.  Gosmökkurinn í gosinu 2010 var úr svo fíngerðri ösku, að hann gat haft slæm áhrif á þotuhreyfla og var flugleiðum og flugvöllum um stóran hluta Evrópu lokað í um vikutíma uppúr miðjum apríl. Þó var flogið frá Keflavík til Ameríku á þessum tíma. Þetta voru mestu takmarkanir á flugi í heiminum frá seinna stríði.   
Katla Jarðvangur
Katla JarðvangurÍ Kötlu jarðvangi eru margar merkilegar jarðminjar, sumar á heimsvísu.  Yfir 150 eldgos hafa verið skráð þar frá landnámi. Eldvirknin hefur mótað landið og haft áhrif á búsetu manna eins og öskugosin í Eyjafjallajökli 2010 og Grímsvötnum 2011 sanna. Einstaklega kvik og síbreytileg náttúra hefur mótað sögu og mannlíf jarðvangsins í aldanna rás.  Katla jarðvangur nær yfir land þriggja sveitarfélaga, Rangárþings eystra, Mýrdalshrepps og Skaftárhrepps. Flatarmál hans er 9542 km2 eða rúm 9% af heildarflatarmáli Íslands. Íbúafjöldi er um 2700 manns. Kvikfjárrækt hefur verið megin atvinnuvegur svæðisins en síðustu ár hefur kornrækt aukist. Hvolsvöllur, Vík og Kirkjubæjarklaustur eru helstu þjónustukjarnar fyrir sveitirnar. Undanfarin ár hefur mikilvægi ferðaþjónustu aukist gríðarlega í atvinnulífi svæðisins. Jarðfræði Ísland er á Mið-Atlantshafshryggnum þar sem tveir jarðskorpuflekar gliðna í sundur á svokölluðu rekbelti. Auk þess er möttulstrókur undir landinu með miðju undir Vatnajökli. Samspil rekbeltis og möttulstróks veldur flókinni og fjölbreyttri eldvirkni á Suðurlandi.  Sérstaða Kötlu jarðvangsins felst í þessari eldvirkni og víðfeðmum áhrifum hennar á landmótun og náttúrufar. Einkennandi eru megineldstöðvar, gígar og gossprungur, gervigígar, hraunbreiður, móbergsfjöll og móbergshryggir sem hafa sömu stefnu og rekbeltið. Eldstöðvakerfin Hekla, Katla, Grímsvötn og Bárðarbunga eru virkust við landmótunina. Jöklar eru einnig áberandi í landslagi þar sem þeir þekja hæstu eldfjöll. Frá þeim falla skriðjöklar og jökulár. Jökulgarðar og jökullón eru einnig áberandi. Hamfaraflóð vegna eldgosa undir jökli mynduðu sandana á láglendi.  Elsta bergið er um 2,5 milljón ára gamalt og finnst við rætur Lómagnúps sem er gamall sjávarhamar og eitt hæsta standberg landsins (671 m). Aðrar áhugaverðar myndanir í jarðvanginum eru steingervingar í hnyðlingum og gjóskulög sem hafa reynst vel við aldursákvarðanir.  Finna má frekari upplýsingar á www.katlageopark.is 
Hekla
Eldfjallið Hekla er eitt frægasta eldfjall Íslands og það sem gosið hefur einna oftast í seinni tíð. Hekla er 1.491 m.y.s. og sést víðast hvar af á Suðurlandi. Hekla hefur um langt árabil haft viðurnefnið Drottning íslenskra eldfjalla og er fjallið þekkt víða um heim. Mikil hjátrú hefur tengst Heklu og sú frægasta líklega sú að þar væri fordyri helvítis að finna og jafnvel helvíti sjálft. Fyrsta vitneskja af fjallgöngu á Heklu er frá 1750 þegar náttúrufræðingarnir Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson gengu á fjallið. Nokkuð vinsælt er að ganga á Heklu en mikilvægt er að göngumenn viti af þeirri hættu sem getur myndast ef til eldgoss kemur. Yfirleitt er gengið frá Skjólkvíum. Hekla stendur á jarðskorpu þar sem Suðurlandsbrotabeltið og Suðurlandsgosbeltið mætast og skýrir það að miklu leiti tíð eldgos í fjallinu. En frá því að land byggðist hefur Hekla gosið árin; 1104, 1158, 1206, 1222, 1300, 1341, 1389, 1501, 1597, 1636, 1693, 1766, 1845, 1947, 1970, 1980, 1981, 1991 og 2000. Jarðfræðingar hafa marg ítrekað á undanförnum árum að Hekla sé tilbúin til að gjósa og geti gosið hvenær sem er, en fjallið gefur að jafnaði um klukkutíma fyrirvara á eldgosum.
Skógafoss
Skógafoss (60m) er talinn meðal fegurstu fossa landsins. Í Skógaá, ofan Skógafoss, eru a.m.k. 20 aðrir fossar, margir fallegir, og það er auðgengt meðfram ánni og gljúfrum hennar. Þrasi Þórólfsson var landnámsmaður að Skógum. Hann nam land milli Jökulsár og Kaldaklofsár og var sagður fróður og forn í lund. Sagt er, að hann hafi fólgið gullkistu í helli bak við Skógafoss og að það glitri í gull Þrasa gegnum vatnsúðann, þegar sólin skín á fossinn. Margir hafa reynt að finna kistuna og einu sinni tókst að koma bandi á hring hennar, en aðeins hringurinn kom, þegar togað var í. Þessi hringur var notaður á kirkjuhurðina í Skógum og er nú meðal dýrgripa Skógasafns.
Geysir
Þessi frægasti goshver heims er talinn hafa myndast við mikla jarðskjálftahrinu í lok 13. aldar. Oddaverjaannáll segir um árið 1274, að í Eyrarfjalli (Laugarfjalli) hjá Haukadal komu upp hverir stórir; en sumir hurfu þeir, sem áður voru. Kísilúrfellingar hafa myndað talsverðan hól umhverfis hverinn. Skál hans er u.þ.b. 18 m í þvermál og niður úr henni gengur 18 m djúp hola, sem er 2 m í þvermál. Öldum saman gaus Geysir og laðaði til sín ferðamenn. Upp úr aldamótunum 1900 dró mjög af honum og síðan 1916 hefur hann ekki gert meira en að pusa upp vatni óreglulega, þó jókst kraftur hans að nýju eftir jarðskjálftahrinu á Suðurlandi árið 2000. Hæstu gosin voru á milli 40 og 80 m. Tugir hvera eru á svæðinu, sumir goshverir eins og Geysir. Þeirra helstir eru Strokkur, sem gýs reglulega með 3-5 mínútna millibili, og Smiður, sem lætur lítið á sér bera. Hverasvæðið er afgirt og friðlýst. 
Þingvellir Þjóðgarður
Saga Íslands og íslensku þjóðarinnar kemur hvergi betur fram á einum stað en á Þingvöllum við Öxará. Þar var Alþingi stofnað um árið 930 og kom það saman á Þingvöllum allt fram til ársins 1798. Meginviðburðir Íslandssögunnar hafa gerst þar og því skipa Þingvellir sérstakan sess í hugum allra Íslendinga. Þingvellir eru í dag friðlýstur helgistaður Íslendinga. Í lögum segir að hið friðlýsta land skuli ævinlega vera eign íslensku þjóðarinnar og undir vernd Alþingis.  Lögberg og Lögrétta Alþingi á Þingvelli fór með æðsta löggjafar- og dómsvald á Íslandi frá stofnun þess um 930 og alla þjóðveldisöldina fram til áranna 1262-64. Þá var Lögberg miðdepill þinghaldsins. Lögrétta var æðsta stofnun Alþingis á þjóðveldisöld og fór með löggjafarvald. Starfsvið Lögréttu var margþætt en hún skar úr lagaþrætum, setti ný lög og veitti undanþágur frá lögum. Á þjóðveldisöld var Lögrétta staðsett austan við Öxará.   Þinghald Um tveggja vikna skeið á hverju sumri hverju reis lítið samfélag á Þingvöllum. Þangað streymdi fólk allsstaðar að, fólk sem vildi taka þátt í samkomu sem átti engan sinn líka á Íslandi. Orðatiltækið „nú er þröng á þingi“ má líklega rekja til þingsins, þar sem fjölmennt var þegar hæst stóð. Samkvæmt talningu Gissurar biskups Ísleifssonar voru þingfararkaupsbændur um 4000 talsins við lok 11. aldar. Alþingi var lagt niður á Þingvöllum árið 1800, en endurreist í Reykjavík 1845.  Þjóðgarður og heimsminjaskrá UNESCO Þjóðgarðurinn á Þingvöllum var stofnaður með lögum á þúsund ára afmæli Alþingis árið 1930 og Þingvellir voru samþykktir á heimsminjaskrá Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, árið 2004. Með samþykktinni eru Þingvellir meðal rúmlega 1000 menningar- og náttúruminjastaða á heimsminjaskránni sem taldir eru hafa einstakt gildi fyrir alla heimsbyggðina. Stærstu hátíðir og atburðir þjóðarinnar hafa verið haldnir á þingvöllum undanfarin 150 ár.    JarðsaganÁ undanförnum áratugum hafa rannsóknir leitt í ljós að Þingvellir eru náttúruundur á heimsvísu þar sem jarðsagan og vistkerfi Þingvallavatns mynda einstaka heild. Það eru gríðarleg verðmæti og náttúruundur að geta fylgst með þróun og myndum nýrra tegunda á einum stað eins og í Þingvallavatni. Þingvallasvæðið er hluti flekaskila Atlantshafshryggjarins sem liggja um Ísland. Þar má sjá afleiðingar gliðnunar jarðskorpunnar í gjám og sprungum svæðisins.Í lögunum um Þjóðgarðinn á Þingvöllum segir, að Þingvellir við Öxará skuli vera friðlýstur helgistaður allra Íslendinga. Í þjóðgörðunum voru stór, óbyggð svæði tekin frá og friðuð og fólki hvorki leyft að nema þar land né nýta náttúruna á annan hátt en að ferðast um landið og njóta þess.
Hoffell
Hoffell, landnámsjörð innst í Nesjum og innan Vatnajökulsþjóðgarðs. Landslag umhverfis Hoffell er fjölbreytilegt og fagurt, skriðjöklar, fjallstindar, ár og aurar. Fundist hefur heitt vatn á Hoffelli og eru þar heitar laugar í náttúrulegu umhverfi. Landsvæðið einkennist af Hoffellsjökli, stórri jökultungu og gabbró grýti. Upprunalega finnst gabbró grýti djúpt neðanjarðar en það finnst á svæðinu vegna landriss og jökulrofs. Grýtið gefur umhverfinu grænan blæ meðal dökku steinanna.   Svæðið er varðveitt til útivistar, enda mikill gróður, dýralíf og ýmis jarðfræðileg undur. Það er úr mörgum gönguleiðum að velja sem leiða göngufólk um stórbrotið umhverfið.