Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Lærðu meira um íslensku söguna og arfleifðina með því að heimsækja mismunandi söfn, menningarmiðstöðvar og sögustaði sem segja frá sögu og arfleifð Íslands frá mismunandi sjónarhornum.

Mr.Iceland
Hestaævintýri og matur með Víkingi Efri-Úlfsstaðir er staðsettur í miðri sviðsmynd Njáls Sögu og við komuna þangað ert þú þegar orðin hluti af sögunni okkar. Við ríðum á slóðum Gunnars og Njáls, drekkum sama vatnið og horfum á sömu fjöllin. Íslenski hesturinn, þessi mikili kennari er miðjan í öllum okkar ferðum en sagan okkar, maturinn og innsæi er það sem gerir okkar ferðir einstakar. Hlökkum til að sjá þig!
Öræfaferðir
Öræfaferðir- Frá fjöru til fjalla er lítið ferðaþjónustufyrirtæki sem rekið er af fjölskyldunni á Hofsnesi í Öræfum. Eigendur fyrirtækisins eru Einar Rúnar Sigurðsson (fæddur og uppalinn í Öræfum) og eiginkona hans Matthildur Unnur Þorsteinsdóttir. Eitt af einkennum Öræfaferða er að í fyrirtækinu starfar eingöngu fjölskyldan sjálf. Við erum virkilega stolt af héraðinu okkar og teljum það vera forréttindi að fá að kynna svæðið fyrir gestum okkar. Einar er eini starfandi fjallaleiðsögumaðurinn hjá Öræfaferðum frá hausti fram á vor, en á sumrin hjálpast fjölskyldan að við að sinna ferðaþjónustunni svo leiðsögumaðurinn í Ingólfshöfða er Einar, Matta konan hans, Ísak Einarsson eða Matthías Einarsson. Öræfaferðir geta því boðið þér góða og persónulega þjónustu á íslensku. Öræfaferðir bjóða uppá ýmsa afþreyingu við rætur Vatnajökuls, aðallega fyrir einstaklinga og litla hópa en við getum einnig farið með 100 manna ættarmót í Ingólfshöfðaferð ef því er að skipta. Ferðir í boði á sumrin: Ingólfshöfðaferð - Sögu og fuglaskoðun í Ingólfshöfðafriðland. Við notum heykerru sem dregin er aftan í dráttarvél til að komast að höfðanum, og svo göngum við saman 2-3 km hring um friðlandið Komdu með heimamönnum í ævintýraferð um einstaka náttúru Öræfa og heyrðu frásögur þeirra af svæðinu. Heykerruferðin er skemmtileg fyrir alla og gefur ferðinni einstakan sjarma. Gangan upp sandölduna frá heykerrunni upp á höfðann tekur á, en er á flestra færi, en við mælum ekki með að fara í ferðina nema fyrir þá sem treysta sér í 1 1/2 klukkutíma rólega göngu, í hvaða veðri sem er. Fyrir Íslendinga er best að skoða upplýsingarnar og bóka á íslensku síðunni, við erum yfirleitt með tilboð þar. Daglegar brottfarir frá Maí - ágúst LOKAÐ Á SUNNUDÖGUM Lengd: 2 og 1/2 tími í allt Verð: 10.000 kr. fullorðnir og 5000 kr. 6-12 ára (þessi ferð hentar ekki yngri börnum en 6 ára en við bjóðum einkaferð sem við köllum Coast Tour sem hægt væri að aðlaga fjölskyldu með yngri börn). Frá fyrri hluta júní fram í byrjun ágúst bjóðum við Lunda Ljósmyndaferðir í Ingólfshöfða klukkan 5:55 að morgni. Brottfarir einn til tvo daga í viku, sjá upplýsingar á www.puffintour.is Við bjóðum einnig ferð sem við köllum Coast Tour, sem einkaferð. Þá ökum við í Land Rover Defender út á fjöruna sitthvorum megin við Ingólfshöfða. Til að komast þangað þurfum við að aka yfir vatnsföll, og svarta sanda. Hofsnes Leirur geta verið einn fallegasti staðurinn á jarðríki í réttum aðstæðum. Við förum þessa ferð allt árið, svo á veturna getur þetta verið frekar ævintýralegt ef aðstæður eru erfiðar. Á haustin og veturna bjóðum við 5 tíma jöklakönnunar og íshellaferð sem við köllum Ice Tour. Þá ferð er hægt að bóka sem einkaferð, eða kaupa sér sæti í opna brottför, en hámarksfjöldinn er 6 manns í hverri ferð. Einnig erum við með einka Íshellaljósmyndaferðir fyrir 1-5 þáttakendur þar sem þyrla er notuð til að komast í íshella sem eru ekki aðgengilegir fjöldanum auk íshellanámskeiðs fyrir 1-2 þáttakendur. Á vorin er svo besti tíminn fyrir fjallaskíðaferðir. Við bjóðum Snow Tour, fjallaskíðaferð/snjóbrettaferð á lægri tinda en Hvannadalshnúk, og Mountain Tour, fjallaskíðaferð/snjóbrettaferð á Hvannadalshnúk fyrir 2-6 þátttakendur í einkaferð. Nánari upplýsingar um brottfarir og bókanir á heimasíðunni. www.FromCoastToMountains.is
Byggðasafnið í Skógum
Skógasafn er eitt elsta byggðasafn landsins en safnið var fyrst opnað almenningi árið 1949. Safnkosturinn samanstendur núna af meira en 18 þúsund munum að mestu frá Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu. Safnið er sérstaklega þekkt fyrir Þórð Tómasson, sem var safnvörður til fjölda ára og bar ábyrgð á mestri söfnuninni. Skógasafn fagnaði 70 ára afmæli árið 2019 og í tilefni þess var sett upp ný sýning um sögu safnsins. Skógasafn skiptist í raun í þrjú söfn: byggðasafn, húsasafn og samgöngusafn. Byggðasafnið er elsti hlutinn og sýningarhúsnæðið er á þremur hæðum. Þar má finna sjósóknardeild, landbúnaðardeild, náttúrugripadeild, vefnað, forn handrit og bækur, þar á meðal eintak af Guðbrandsbiblíu frá 1584, ásamt munum frá Víkingaöld. Í húsasafninu má þar finna góða fulltrúa fyrir húsagerð fyrr á öldum. Á neðri hluta sýningarsvæðisins setur torfbærinn mikinn svip á sýningarsvæðið. Þar eru saman komin fjós, skemma, baðstofa, hlóðaeldhús, búr og stofa. Á efri hluta sýningarsvæðisins er að finna skólabyggingu sem er dæmigerð fyrir sveitaskóla í upphafi 20. aldar. Einnig er þar kirkja og fjósbaðstofa ásamt skemmu. Efst er elsta íbúðarhús úr timbri á safnsvæðinu, byggt í Holti á Síðu 1878. Í Samgöngusafninu er rakin saga samgangna og tækniþróunar á Íslandi á 19. og 20. öld. Þar má meðal annars kynnast þróun samgangna frá hestum til bíla, sögu símans á Íslandi, upphaf rafmagnsnotkunar ásamt póstsamgöngum fyrr á tímum. Þar er einnig til sýnis bílar frá upphafi bílaaldar, vegminjar frá Vegagerðinni, fjarskiptasafn Sigurðar Harðarsonar og sýning Landsbjargar um björgunarsveitirnar í landinu ásamt mörgu öðru.  Samstarfsaðilar eru: Vegagerð ríkisins, Íslandspóstur, Síminn, Míla, Rarik, Landsbjörg og Þjóðminjasafnið. Í Samgöngusafninu er einnig að finna minjagripaverslun og kaffiteríu. Þið finnið okkur á Facebook hér.Þið finnið okkur á Instagram hér
Keldur á Rangárvöllum
Torfbærinn á Keldum á Rangárvöllum telst vera elsti torfbær á Íslandi og sá eini sinnar tegundar sem varðveist hefur á Suðurlandi. Auk bæjarhúsa og kirkju eru þar skemmur, smiðja,myllukofi, fjós, hesthús, fjárrétt, jarðgöng o.fl.   Bærinn á Keldum kemur við sögu í nokkrum af þekktustu bókum Íslendinga, m.a. Brennu-Njáls sögu, Sturlunga sögu og Þorláks sögu en fyrsti ábúandi Keldna var landnámsmaðurinn IngjaldurHöskuldsson sem kemur við sögu í Njálu.   Þar var jafnframt eitt af höfuðbólum Oddaverja. Síðasti ábúandinn í gamla bænum var Skúli Guðmundsson, sem bjó þar til dauðadags 1946. Allar götur síðan hefur bærinn verið hluti afhúsasafni Þjóðminjasafns Íslands.  Keldur draga nafn sitt af uppsprettulindum sem koma víða fram undan túninu. Bæjar- og útihúsin eru einstakar menjar um lífið fyrr á öldum.   Kjarni húsanna er frá 19. öld en í þeim má finna eldra timbur sem skorið hefur verið í til skrauts. Á einum stað í skálanum hefur ártalið 1641 verið rist í syllu. Í mörgum bæjarhúsanna er timburgrindin jafnframt með fornu smíðalagi, svonefndu stafverki. Þá er í bæjarhúsunum að finna búshluti úr eigu fyrri ábúenda á Keldum. Úr skálanum liggja einnig jarðgöng niður að læk og hafa þau líklega verið grafin sem undankomuleið á ófriðartímum á 11.-13. öld.   Mikil er saga Keldna og er staðurinn og fornbýlið dýrmætur hluti af þjóðararfi Íslendinga. Náttúran hefur sýnt bæjarstæðinu mildi þótt oft hafi ekki miklu mátt muna að Keldur hyrfu úr tölu byggðra býla, og eftir stæði húsalaus rúst horfin í sand.  Opið er frá klukkan 10-17 alla daga frá 1. júní til 31. ágúst.Hægt er að kaupa miða hér. 
Eldheimar
ELDHEIMAR er gosminjasýning. Sýningin miðlar fróðleik um eldgosið í Vestmannaeyjum árið 1973, sem án efa telst til stærstu náttúruhamfara Íslandssögunnar. Skyggnst er inn í mannlífið og umhverfið í Vestmannaeyjum fyrir gos og hvernig náttúruhamfarirnar 1973 gripu inn í samfélagið og líf fólksins. Nær allir íbúar Heimaeyjar urðu að yfirgefa heimili sín í skyndi og flýja eyjuna. Margir sáu húsin sín, sem og megnið af eigum sínum aldrei aftur. Gosið hófst aðfararnótt 23. janúar 1973 á Heimaey, einu byggðu eyjunni í Vestmannaeyjaklasanum. Það stóð yfir í rúmlega 5 mánuði. Hraun og aska eyðilögðu þriðjung byggðarinnar í Eyjum, eða tæplega 400 hús og byggingar. Meðan gosið stóð yfir var mikil óvissa um það hvort nokkurn tímann yrði aftur mannabyggð á eyjunni.
Skálholt
Skálholtsstaður er einn helsti sögustaður Íslands. Þar var stofnað biskupssetur árið 1056 og var staðurinn á margan hátt höfuðstaður Íslands í 750 ár. Hann var eitt helsta menntasetur þjóðarinnar um aldir, þar voru skrifaðar og þýddar bækur en einnig varðveitt handrit. Skálholt var sögusvið átaka siðaskiptana um 1550 og þar var síðasti kaþólski biskupinn Jón Arason hálshöggvinn það ár. Í fjósinu í Skálholti var einnig hafin þýðing Biblíunnar á íslensku. Skálholt er einnig sögusvið harmsögu Ragnheiðar Brynjólfsdóttur biskups og ástmanns hennar Daða Halldórssonar. Skálholtsdómkirkja var vígð 1963 og er hún tíunda kirkjan sem stendur þar á sama stað. Sú fyrsta var reist skömmu eftir árið 1000 þegar Íslendingar tóku kristni. Áður en kirkjan var reist fóru fram merkilegar fornleifarannsóknir á staðnum undir stjórn dr. Kristjáns Eldjárn seinna forseta Íslands. Fannst þá m.a. steinkista Páls biskups Jónssonar sem jarðsettur var árið 1211 og er hún talin einhver merkilegasti fornleifafundur Íslandssögunnar. Í Skálholtsdómkirkju er að finna einhver merkilegustu listaverk 20. aldar á Íslandi; steindir gluggar Gerðar Helgadóttur og altaristafla Nínu Tryggvadóttur auk muna úr þeirri kirkju sem Brynjólfur Sveinsson biskup reisti 1650. Kirkjan er opin alla daga ársins frá kl. 9 til 18 og messur eru alla sunnudagsmorgna kl. 11. Hljómburður Í Skálholtdómkirkju þykir einstakur og eru þar oftsinnis haldnir tónleikar af innlendum sem erlendum tónlistarmönnum. Í Skálholtsdómkirkju hafa verið haldnir sumartónleikar frá 1975 þar sem lögð er áhersla á barok og nútímatónlist og er hátíðin ein sú elsta sinnar tegundar á Norðurlöndum. Hótel Skálholt er með fjölbreytta gistimöguleika; á hótelinu eru 18 tvímennings herbergi og sér baðherbergi. Þar er notaleg arinstofa, sólstofa og aðstaða fyrir fundi, námskeið og ráðstefnur. Rýmið er líka frábært fyrir viðburði eins og brúðkaup, tónleika og fleira og er aðstaðan í boði fyrir hópa til útleigu. Hótel Skálholt er reglulega með uppákomur eins og uppistand, smátónleika, bókaviðburði, listasýningar og fleira. Skálholtsbúðir er með 10 tvímennings herbergjum og baðherbergi frammi á gangi. Þar er stór salur, borðstofa, setustofa og gott eldhús. Rýmið hentar sérstaklega fyrir hópa á borð við kóra, ættarmót, veislur, skólahópa og jógahópa. Við Skálholtsbúðir er tjaldstæði með aðstöðu fyrir fellihýsi. Tvö sumarhús með 2 svefnherbergjum hvor (4 rúm) og sér heitum potti. Sumarhúsin eru við Skálholtsbúðir og hentar því að leigja það saman. Selið er 3-5 herbergja einbýlishús með 2 baðherbergjum og sér heitum potti. Veitingahúsið Hvönn er tilraunaeldhús þar sem íslenskt hráefni er í fyrirrúmi. Í eldhúsinu takast íslenskar og erlendar matarhefðir á. Unnið er með kjöt, fisk og grænmeti úr héraði en einnig erlendar aðferðir við gerjun á borð við kombucha, mjólkursýru, kefir og þurr meyrnun. Þessar aðferðir veita mat og drykk okkar sérstöðu í bragði og áferð. Á daginn bjóðum við upp á bístró matseðil með ljúffengum réttum en á kvöldin breytum við um stíl og bjóðum upp á þriggja rétta matseðil sem er mismunandi á hverju kvöldi og er sannkölluð matarupplifun. Kokkurinn Bjarki Sól er einn af eigendum hótelsins. Hann er matreiðslumaður sem hefur í mörg ár unnið við að auka gæði matvælafyrirtækja á svæðinu og nýtum við alla reynslu og tengsl á veitingastaðnum. Sumar opnunartími - maí - nóvember: Alla daga frá 11:30 - 21:00. Bistró matseðillinn er í boði frá 11:30 til 17:00 en á kvöldin er borinn fram 3ja rétta matseðill. Nánari upplýsingar: www.hotelskalholt.is 
Hellarnir við Hellu
Upplifið einstakan ævintýraheim í hellaferð um Hellana við Hellu og heyrið söguna sem ekki hefur mátt segja um landnámið fyrir landnám.​ Fræðandi og heillandi afþreying sem hentar öllum aldri og í hvaða veðrum sem er. Hellarnir við Hellu eru staðsettir við þjóðveg 1 í aðeins um klukkutíma akstursfjarlægð frá Reykjavík. Tólf fornir manngerðir hellar hafa fundist í landi Ægissíðu við Hellu og fjórir þeirra hafa nú verið opnaðir. Hellarnir eru friðlýstir og þeir sýndir með leiðsögn. Fjölskyldan á Ægissíðu vinnur að því að byggja upp og varðveita umhverfi og sögu hellanna í samvinnu við nærsamfélagið og Minjastofnun Íslands. Í hellunum má t.d. finna stórmerka krossa, gamlar veggjaristur, myndir, syllur og innhöggvin sæti. Leyndardómur umlykur hellana og öldum saman hefur fólk velt fyrir sér hvort hellarnir séu gerðir af pöpum og hve gamlir þeir séu. 
Þórbergssetur
Í Þórbergssetri er veitingasala,gestamóttaka, salerni og sýningarsalir.   Sýning Þórbergsseturs er fjölbreytt upplifunarsýning er tengist ævi og verkum skáldsins, en einnig sögu íslensku þjóðarinnar. Sjá má breytingar og þjóðlifsmyndir frá frumstæðu bændaþjóðfélagi yfir í bæjarlíf og búsetu í ört vaxandi höfuðborg. Textar úr verkum Þórbergs varða leiðina á fallega hönnuðum ljósaskiltum, en einnig er hægt að fá hljóðleiðsögn með viðbótarefni. Þannig er sýningin sambland af fræðsluefni, safni og sagnaskemmtan og gengið er inn í leikmyndir þar sem reynt er að ná andblæ liðinna ára og njóta um leið stórbrotinna lýsinga meistarans sem leiðsögn um staðinn. Vakin er athygli á að sýningin höfðar einnig mjög vel til barna og unglinga. Hópar eða fjölskyldur geta bókað leiðsögn um Þórbergssetur þar sem heimamenn fræða gesti um lífið í Suðursveit  og hverning sögusvið bóka Þórbergs opnar sýn inn í horfna veröld liðins tíma. Arkitekt að húsinu er Sveinn Ívarsson og hönnuður sýningar Jón Þórisson. Opið er allt árið,  en í sumar verður opnunartími á sýninguna frá klukkan 10 á morgnana til  klukkan 6 á kvöldin. Veitingahús Þórbergsseturs er opið fyrir almenning frá klukkan 10 - 8 í sumar. Í boði eru ýmsir þjóðlegir réttir úr heimabyggð, kjötsúpa, heimabakað brauð, samlokur, bleikjuréttir og Halalamb. Kvöldmatur er framreiddur frá klukkan 6 til 8 á kvöldin 
Þingvellir
Á tjaldsvæði má finna, salerni, sturtur, þvottaaðstöðu, útivaska og kolagrill. Í þjónustumiðstöðinni er kaffi- og veitingaaðstaða. Þar er einnig seld tjald- og veiðileyfi. Sumaropnunartími (júní-ágúst):09:00 - 20:00Vetraropnunartími (september - maí):Upplýsingahlið gestastofu: 09:00-16:00Verslun og þjónustumiðstöð á Leirum: 09:00-18:00
Sögusafn Sólheima
Sögusafn Sólheima opnaði formlega haustið 2022 í elsta húsi staðarins, Sólheimarhúsi. Það hefur verið innrétt í upprunalegt horf og má þar finna aragrúa fróðleik um sögu staðarins og um Sesselju Hreindísi Sigmundsdóttur stofnenda Sólheima. Heimildarmyndin um Sesselju er þar til áhorfs, hún er um 50 mínútur að lengd. Aðgangseyrir er 1.500 kr, 700 kr fyrir 12-18 ára og frítt fyrir 12 ára og yngri. Einnig er frítt fyrir eldri borgara og fólk með fötlun. Það er enginn almennur opnunartími en hafið samband við sesseljuhus@solheimar.is eða í síma 855-6080 til að semja um opnun fyrirfram, sér í lagi hópar. Verið velkomin!
Höfn – Staðarleiðsögn
Upplifðu núið Fræðandi upplifun í anda yndisævintýramennsku og núvitundar í fiskibænum Höfn.  Komdu með í nærandi upplifun í gegnum létta hreyfingu í stórbrotinni og friðsælli náttúru svæðisins. Höfn Staðarleiðsögn býður upp á ferðir þar sem þú færð tækifæri og tíma til að tengja við það samfélag og menningu sem heimsótt er. Þetta er tækifæri til að upplifa núið í útivist og hægja á í erli hins daglega lífs.  Kynntu þér sögu og menningu þessa fallega sjávarþorps sem Höfn er með innfæddum leiðsögumanni. Boðið er upp á léttar og upplýsandi göngur þar sem þú færð tækifæri til að kynnast sögu, menningu og jarðfræði Hafnar og nágrennis. Sérsniðnar göngur um fjalllendi eða fjörur suðausturlands eru einnig í boði. Þú getur líka valið þér jóga- og núvitundargöngur eða kayakferð í Hornafirðinum. Í öllum ferðum með Höfn staðarleiðsögn kynnist þú matarmenningu svæðisins í einhverri mynd.  Ef þú hefur áhuga á meðvitaðri upplifun með náttúruna og samferðafólk þitt í forgrunni, þá er ferð með HÖFN - Staðarleiðsögn eitthvað fyrir þig.  
Kirkjubæjarstofa
Kirkubæjarstofa var stofnuð sem rannsókna- og menningarsetur á Kirkjubæjarklaustri að frumkvæði dugmikilla heimamanna með dyggum stuðningi nokkurra áhugasamra vísindamanna, sem hafa stundað hluta af rannóknum sínum á vettvangi í héraðinu. Telja þessir frumkvöðlar að náttúra og saga héraðsins sé um margt svo sérstæð að full ástæða sé til að hafa í aðstöðu til að tengja störf vísindafólks á vettvangi héraðinu enn sterkari böndum og skapa um leið betri aðstöðu til að kynna hina sérstæðu náttúru og sögu fyrir gestum héraðsins. Starfsemi Kirkjubæjarstofu hófst 1.júli 1997, þá hafði verkefnisstjórn unnið að undirbúningi starfseminnar frá 1. mars 1997. Stofnuð hefur verið sjálfseignarstofnunin Kirkjubæjarstofa, sem hefur komið upp húsnæði og aðstöðu fyrir starfsemi stofunnar á Kirkjubæjarklaustri. Einnig hefur verið tilnefnd ráðgjafanefnd fyrir starfsemina og í þeirri ráðgjafanefnd eiga eftirtaldar stofnanir fulltrúa: Háskóli Íslands og ýmsar stofnanir hans, Landgræðsla ríkisins, Náttúrufræðistofnun Ísland, Náttúrustofa Suðurlands, Náttúruvernd ríkisins, Orkustofnun, Norræna Eldfjallastöðin, Landsvirkjun, Byggðastofnun, Umhverfisráðuneytið, Verðurstofa Íslands,Ferðamálaráð, Þjóðminjasafn Íslands. Markmið starfseminnar er að efla og styðja rannsóknir og lifandi fræðslu um náttúrufar, sögu og menningu héraðsins. Lögð verður áhersla á starfsemin sé í fullu samræmi bæði við áherslur í stefnumörkun sveitarfélagsins og kröfur og aðstæður í nútíma upplýsingar– og þekkingarþjófélagi. Í því skyni hefur á árinu 2000 verið lögð megináhersla á uppbyggingu landupplýsingakerfis utan um upplýsingar um náttúrufar menningu og sögu héraðsins. Kirkjubæjarstofa hyggst einnig með starfsemi sinni stuðla að auknu streymi ferðafólks í héraðið og lengingu á viðverutíma þess með nýju og endurbættu sýningarefni. Markmiðum þessum hyggst Kirkjubæjarstofa ná á eftirfarandi hátt : 1. Söfnun, flokkun og skráning gagna um náttúru, menningu og sögu héraðsins.2. Öflun nýrrar þekkingar með þvi að stuðla að frekari rannsóknum í samstarfi við innlendar og erlendar vísindastofnanir.3. Að standa fyrir ráðstefnum og fræðslufundum um náttúru, menningu og sögu og héraðsins.4. Kynningar- og fræðslustarfsemi og rekstur sýningarsalar.5. Efling ferðaþjónustu með samvinnu við ferðamálafélag Skaftárhrepps.
Húsið á Eyrarbakka - Byggðasafn Árnesinga
Byggðasafn Árnesinga er með sýningar sínar í Húsinu á Eyrarbakka, Eggjaskúrnum og Kirkjubæ. Fjölbreytt, fjölskylduvænt og fróðlegt safn um menningu og mannlíf í Árnessýslu með áherslu á líf og aðbúnað verslunarstéttarinnar á 18. og 19. öld.  Opnunartími:Opið alla daga í sumar kl. 10 til 17.
Icelandic Lava Show
Upplifðu alvöru rennandi hraun í návígi! Ógleymanleg skemmtun! Icelandic Lava Show í Vík í Mýrdal endurskapar aðstæður eldgoss með því að hita hraun upp í 1100°C og hella því svo inn í sýningarsal fullum af fólki! Hvergi annars staðar í heiminum getur fólk upplifað rauðglóandi hraun í svo miklu návígi með öruggum hætti. Frábær sýning sem samtvinnar á einstaklega eftirminnilegan máta fræðslu, skemmtun og heimsklassa upplifun þar sem efniviðurinn er rennandi hraun! Sannkölluð veisla fyrir skynfærin og ógleymanleg upplifun fyrir unga sem aldna.  Icelandic Lava Show er hugarfóstur hjónanna Júlíusar Inga Jónssonar og Ragnhildar Ágústsdóttur en hugmyndin kviknaði þegar þau fóru upp að gosinu á Fimmvörðuhálsi árið 2010 og sáu hraunfossinn og ótrúlegt samspil hraunsins við ísinn allt um kring. Í lok árs 2015 sagði Júlíus starfi sínu lausu og hafa þau hjónin unnið að því að koma fyrirtækinu á laggirnar æ síðan. Það var svo í september 2018 sem Icelandic Lava Show opnaði dyr sínar fyrir gestum og gangandi og viðtökurnar hafa verið hreint frábærar líkt og sjá má á einkunnasíðum á borð við TripAdvisor og Google Maps. Hér er því um að ræða ungt og efnilegt fjölskyldusprotafyrirtæki sem er vel þess virði að heimsækja. Nánari upplýsingar: Lengd: ca 45-50 mínútur (fer eftir fjölda spurninga og stemmningu í salnum) Aldur: Hentar öllum aldurshópum (en börn þurfa að vera í fylgd fullorðinna) Staður: Víkurbraut 5, Vík í Mýrdal (í gamla Kaupfélagshúsinu) Stund: fastir sýningartímar þar sem það tekur marga klukkutíma að bræða hraun - sjá tímasetningar og hvað er laust á icelandiclavashow.com Mæting: það borgar sig að vera mætt/ur amk. 15 mínútum áður en sýningin hefst Fatnaður: forðist að vera of mikið klædd því það hitnar mjög snögglega þegar rauðglóandi hraunið rennur í sýningarsalinn Tungumál: oftast á ensku (nema ef allir í salnum skilja íslensku) - munum auglýsa séríslenskar sýningar í sumar Hópar: Icelandic Lava Show er frábær skemmtun fyrir hópa og tekur allt að 50 manns í sæti á hverja sýningu. Hægt er aðlaga tíma að hópum. Fyrir tilboð, sendið okkur póst á info@icelandiclavashow.com Lýsing á sýningunni sjálfri Í upphafi er stuttur inngangur þar sem sýningarstjórinn býður alla velkomna og leiðir fólk í allan sannleika um upplifunina, hvað hún felur í sér, hvernig hugmyndin kviknaði og afhverju Vík í Mýrdal varð fyrir valinu (ca 10-12 mínútur) Að innganginum loknum er sýnd stutt fræðslumynd af stað þar sem annars vegar er farið yfir það afhverju Ísland er svona virk eldfjallaeyja með áherslu á eldfjöllin í nágrenni Víkur. Hins vegar er sögð ótrúleg flóttasaga Jóns Gíslasonar, langafa sýningarstjórans og annar stofnanda Icelandic Lava Show, undan Kötlugosinu 1918 og hamfarahlaupinu sem því fylgdi (12 mínútur) Hápunktur sýningarinnar er svo þegar 1100°C heitu hrauninu er hellt inn í sýningarsalinn. Það er ólýsanleg tilfinning að sjá, heyra og finna hraunið renna inn í salinn - sannkölluð veisla fyrir skynfærin! Þegar hraunið rennur inn í rökkvaðan sýningarsalinn er eins og sýningargestir verði vitni að sólarupprás, svo skært er rauðglóandi hraunið. Þá finna gestir lyktina af bráðnu hrauninu þar sem það byrjar að storkna og heyra um leið hvernig það kraumar, bullar og snarkar. Það allra tilkomumesta er þó hitinn sem skellur á sýningargestum. Það er gífurlegur hitinn sem kemur flestum á óvart. Sýningarstjórinn gerir svo alls kyns æfingar með rauðglóandi hraunið sem er heillandi að fylgjast með en um leið ótrúlega upplýsandi (ca 20-25 mínútur) Að sýningu lokinni gefst svo öllum færi á að spyrja spurninga sem sýningarstjórinn reynir að svara eftir bestu getu. (ca 5 mínútur) Allar nánari upplýsingar á icelandiclavashow.com 
Kötlusetur
Í hjarta gamla Víkurþorps finnið þið Brydebúð, glæsilegt timburhús frá 1895. Þar er Kötlusetur til húsa, miðstöð menningar, fræða og ferðamála í Mýrdal.  Kannið náttúru Kötlu UNESCO jarðvangs á Kötlusýningunni. Handleikið mismunandi bergtegundir, skoðið eldfjallaösku allt aftur til ársins 1860 og sjáið stuttmynd um sögur af Kötlugosum í gegn um aldirnar.  Uppgvötvið sögu strandaðra skipa á svörtum söndum Suðurlands og kynnist happaskipinu Skaftfellingi á Sjóminjasafninu Hafnleysu. Setjið ykkur í spor sjómanna í baráttu sinni við hina hafnlausu strönd.  Í upplýsingamiðstöðinni lærið þið hvernig er best að upplifa Mýrdalinn. Verslið vöru úr heimabyggð og kannið Vík með því að keppa í Fjársjóðleik Kötluseturs eða ganga hinn glænýja Menningarhring. Kort af svæðinu með öllum sínum spennandi útivistartækifærum fást hér!   
Menningarmiðstöð Hornafjarðar
Menningarmiðstöð Hornafjarðar og starfssvæði hennar er Sveitarfélagið Hornafjörður. Stofnunin varð til árið 1990 með sameiningu nokkurra safna. Heiti stofnunarinnar var upphaflega Sýslusafn Austur-Skaftafellssýslu en breyttist árið 2001 í Menningarmiðstöð Hornafjarðar. Árið 2020 voru atvinnu- og ferðamál sameinuð Menningarmiðstöð Hornafjarðar og því er Menningarmiðstöðin orðin miðstöð menningar- atvinnu-, og ferðamála í sveitarfélaginu. Innan Menningarmiðstöðvarinnar eru starfrækt sex söfn ásamt atvinnu-, ferða- og rannsóknarsviði sem starfar þvert á einingarnar. Söfnin eru byggða-, sjóminja-, náttúrugripa-, lista-, bóka-, héraðsskjala-, náttúrugripa- og sjóminjasafn. Sýningar á vegum safnanna eru mikilvægur þáttur í safnastarfinu, og hér leggjum við áherslu á sérstöðu Hornafjarðar og því samfélagi sem er og var. Í dag er opnar sýningar í bókasafninu, Verbúðinni í Miklagarði og Svavarssafni og er aðgangur að sýningum Menningarmiðstöðvarinnar frír. Menningarmiðstöðin leggur mesta áherslu á miðlun og fræðslu menningararfs Hornafjarðar á sýningum sínum, skrásetningu hans og varðveislu til framtíðar. Nýsköpun og þróun til framtíðar á atvinnustarfsemi og ferðamannaiðnaðinum. Einnig er æ ríkari áhersla lögð á rannsóknarstarf og ekki síst miðlun þess starfs til almennings sem og þátttöku barna og unglinga á þeim vettvangi. Menningarmiðstöð Hornafjarðar stendur einnig fyrir barnastarfi á sumrin, þar sem boðið er upp á styttri ferðir um svæðið þar sem krakkar fá tækifæri til þess að kynnast nærumhverfi sínu á nýjan hátt. Einnig hefur verið lestrarátak á bókasafninu sem kallast sumarlestur þar sem krakkar eru hvattir til þess að lesa yfir sumarmánuðina, svo eru veitt hvatningarverðlaun að hausti. Einnig er á bókasafninu barnahorn og unglingahorn, og hvetjum við foreldra eindregið til þess að koma með börnunum á bókasafnið. Við tökum reglulega á móti skólahópum og kynnum þeim fyrir list og sögum og stuðlum að og erum þátttakendur í ýmsum viðburðum í sveitarfélaginu. Samfélagsmiðlar Menningarmiðstöðvarinnar á facebook eru: Menningarmiðstöð Hornafjarðar Svavarssafn  Opnunartímar eru:Vetraropnun1. okt-31. maíVirka daga 9:00-17:00 Sumaropnun1. júní-31. septVirka daga 9:00-17:00Helgar 13:00-17:00

Aðrir (5)

Þjóðveldisbærinn á Stöng Þjórsárdalur 801 Selfoss 847-8723
Strandarkirkja Selvogur 815 Þorlákshöfn 892-7954
Valhalla Restaurant Hlíðarvegur 14 860 Hvolsvöllur 6989007
Stafkirkjan í Vestmannaeyjum - 900 Vestmannaeyjar 488-2050
Eyjascooter tour Birkihlíð 5 900 Vestmannaeyjar 8962391