Markaðsstofa Suðurlands er samvinnuvettvangur ríkis, sveitarfélaga og fyrirtækja í ferðaþjónustu á Suðurlandi um ímyndarsköpun, þróun og markaðssetningu áfangastaðarins í heild. Markaðsstofan markar stefnu fyrir ferðaþjónustu innan landshlutans í gegnum áfangastaðaáætlun ásamt því að sinna fjölþættu kynningarstarfi og ráðgjöf til fyrirtækja varðandi markaðssetningu. Markaðsstofan kemur fram fyrir hönd landshlutans á ferðasýningum og -kynningum innanlands og erlendis og með því eru kynningarmál samhæfð, gerð skilvirkari auk þess að minnka kostnað. Markaðsstofan sinnir hagsmunagæslu fyrir landshlutann þegar kemur að ferðamálum og á í góðu samstarfi við aðila innan svæðis, í öðrum landshlutum, ráðuneyti og opinberar stofnanir. Markaðsstofan vinnur einnig að því að skapa þekkingu, miðla upplýsingum og styðja við nýsköpun í ferðamálum í landshlutanum.