Fara í efni

Hálendi Íslands er lands og þjóðar helsti fjársjóður og þar er að finna margar ómetanlegar perlur villtrar náttúru Íslands. Landslagið, náttúruöflin og dýralífið eru fjölbreytt og á hálendi Íslands geta flestir fundið eitthvað við sitt hæfi, upplifanir og staði sem lyfta andanum og veita ógleymanlegar stundir.

Fyrir þá sem ekki hafa tök á að koma sér upp á hálendið er góður kostur að nýta sér þjónustu þeirra fjölmörgu aðila sem bjóða upp á ferðir inn á hálendið. Það er ekki á allra færi að komast inn á miðhálendi Íslands af sjálfsdáðum, hvort sem ástæðan er að hafa ekki til þess farartækjakost eða treysta sér einfaldlega ekki til, þá er upplagt að nýta sér þá góðu og fjölbreyttu þjónustu sem er í boði.

Á hálendinu eru margir gistimöguleikar í boði, allt frá tjaldsvæðum og svefnpokaplássi upp í uppábúin rúm. Veitingar og veitingasölustaðir eru þó af skornum skammti og er rétt fyrir ferðalanga að hafa það í huga og útbúa gott nesti til ferðarinnar. Þó er hægt að kaupa góðar veitingar í Hrauneyjum, en í hálendismiðstöðinni í Hrauneyjum er að finna bæði gistingu og góðan veitingastað.

Yfir vetrarmánuðina, frá september og fram í maí, er mælst til þess að enginn fari um hálendið nema að þekkja vel til aðstæðna og hafi góða reynslu af hálendisferðum. Svæðið er erfitt yfirferðar yfir vetrartímann, oft á tíðum ófært, og eðli málsins samkvæmt er enga þjónustu að fá á svæðinu nema yfir sumarmánuðina. Þó viljum við geta þess að hálendismiðstöðin í Hrauneyjum er opin allt árið.