Vitaleiðin er ferðaleið sem beinir athygli ferðafólks að þorpunum og svæðinu við sjóinn. Á Vitaleiðinni heimsækir þú þrjá bæi, hver með sína sérstöðu, Þorlákshöfn, Eyrarbakka og Stokkseyri. Vitaleiðin dregur fram þá miklu sögu og menningu sem er til staðar á svæðinu sem og alla upplifunarmöguleikana í afþreyingu og náttúru. Vitaleiðin er um 45 - 49km leið, fer eftir ferðamáta, sem nær frá Selvogi að Knarrarósvita. Hér má hlaða niður korti af Vitaleiðinni.
Nafngiftin kemur vegna vitanna, Selvogsvita og Knarrarósvita sem marka upphaf og enda leiðarinnar, að auki er þriðji vitinn á leiðinni Hafnarnesviti í Þorlákshöfn. Vitaleiðin bíður upp á þá skemmtilegu fjölbreytni að ferðalangar geta ekið hana eða nýtt sér strandlengjuna og þá göngustíga, sem búið er að gera, meðfram sjónum til að ganga leiðina, hlaupa, farið ríðandi á hestum eða jafnvel hjólað.
Vitaleiðin bíður þér upp á að vinda ofan þér með aðstoð kyrrðarinnar í náttúrunni en um leið orkuna frá Atlantshafinu. Á Vitaleið getur þú upplifað miðnætursólina og kyrrðina þar sem aðeins heyrast sjávar- og fuglahljóð. Þú getur upplifað birtuna í myrkrinu þegar stjörnubjartur himinn skín, tunglið endurspeglast í hafinu og norðurljósin dansa. Á Vitaleiðinni getur þú sogað í þig þá merku sögu verslunar, mannlífs og sjósóknar sem hefur mótað þorpin við ströndina gegnum aldirnar. Fjölbreyttir afþreyingarmöguleikar eru á Vitaleið, sundlaugar, kajakróður, hestaleigur, hesthúsaheimsóknir, söfn, gallerý, rib-bátar og fjórhjól svo að dæmi séu nefnd. Veitingastaðir eru í öllum þorpunum með möguleikum á gómsætri matarupplifun. Stígar, strandlengjan og útivistarsvæði á Vitaleið opna þér nýja veröld sem þú átt seint eftir að gleyma!
Vitaleiðin er tilvalin til að taka þegar komið er til landsins að aka sem leið liggur beint inn á Suðurlandið og njóta þess sem leiðin hefur upp á að bjóða í afþreyingu, mat og gistingu. Leiðin er steinsnar frá þjóðvegi 1 og því auðvelt að komast inn á leiðina. Alltaf er gott að kynna sér aðstæður og skilyrði áður en lagt er af stað eins og að skoða flóðatöflur og gæta fyllsta öryggis.