Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Í umhverfisskipulagi fyrir Hveragerði og nágrenni er lögð áhersla á verndun sérstakra náttúrufyrirbæra og uppbyggingu á samfelldu kerfi aðgengilegra og innihaldsríkra útivistarsvæða. Hamarinn skiptir bæjarlandinu í tvo hluta. Sunnan hans er byggðin, en að norðan er Ölfusdalur, óbyggður að mestu. Lengra í norður er Hengilssvæðið en þar hefur opnast samfellt útivistarland með skipulögðum og merktum gönguleiðum sem ná frá Mosfellsheiði í vestri, Þingvallavatni í norðri og að Úlfljótsvatni í austri. Orkuveita Reykjavíkur hefur gefið út gönguleiðakort af svæðinu sem nálgast má á upplýsingamiðstöðvum fyrir ferðamenn.

Dalirnir uppaf Ölfusdal heita Reykjadalur og Grænsdalur (Grændalur). Gufudalur er nafn á býli austast í Ölfusdalnum en uppaf því eru dalverpi með skemmtilegum gönguleiðum. Volgar laugar og litrík hverasvæði gera landsvæðið að einstakri náttúruperlu sem enginn útivistarmaður ætti að láta fram hjá sér fara. Um dalina má fara styttri og lengri vegalengdir sem byrja og enda í Hveragerði. Gott aðgengi er að flatlendinu (Árhólmum) innst inni í Ölfusdal og nægt pláss fyrir bíla. Þar er gönguleiðakort sem sýnir gönguleiðir um Hengilssvæðið.

Göngustígakerfi Hveragerðis gegnir mikilvægu hlutverki við að tengja öll svæðin saman. Upp úr Ölfusdal liggur merkt gönguleið um Reykjadal inn á gönguleiðakerfi Hengilssvæðisins. Ölfusdalur er því hlekkur sem tengir saman byggð og ósnortna náttúru.

Í bænum liggja göngustígar um miðbæjartorgið, skrúðgarðinn á Fossflötinni, Sandskeiðið, sunnan undir Hamrinum, Fagrahvammstúnið, Heilsustofnun NLFÍ og meðfram Varmá inn í Ölfusdal. Þessi svæði tengjast jafnframt neti göngustíga í landi Garðyrkjuskóla ríkisins, undir Reykjafjalli og í Ölfusborgum. Þá er tilvalið að labba upp á Hamar en þaðan sést yfir Hveragerði, Suðurlandsundirlendið og Ölfusdalinn í norðri. Vel má merkja jökulrákir frá síðasta jökulskeiði í Hamrinum. Velja má lengri og skemmri gönguleiðir allt eftir þörfum hvers og eins. Allir ættu því að finna gönguleiðir við hæfi.

Reykjadalur
Reykjadalur er án efa vinsælasta útivistarsvæðið í Ölfusi. Þar er að finna margar merktar gönguleiðir um stórbrotið háhitasvæðið og hægt er að baða sig í heitri á í dalnum. Orkuveita Reykjavíkur hefur merkt gönguleiðir í dalnum sem og á Hengilssvæðinu öllu. Hægt er að finna göngukort á vef þeirra. Stundum eru gönguleiðirnar í Reykjadal lokaðar og er því gott að athuga það áður en farið er. Hægt er að sjá það á Safetravel.is hvort það sé opið eða loka. Þeir sem hyggjast heimsækja dalinn það er afar mikilvægt að reglur svæðisins séu virtar og að ekki sé gengið utan stíga.