Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Mýrdalshreppur

Byggðin í Vík myndaðist í kringum verslun sem hófst 1884 þegar hófst útræði, upp- og útskipun. Flestir sem fluttu til Víkur á fyrstu árum voru bændur úr nágrenninu sem héldu til hluta af bústofninu sínum, sauðfé sem fékk beitiland í Vík sem og flest heimili áttu sína kú til mjólkurframleiðslu. Voru kýrnar reknar saman í og úr þorpi kvölds og morgna. Mýrdælingar voru háðir húsdýrum sínum þar sem flest öll matvælaframleiðsla var heima fyrir. Mjólk og mjólkurafurðir voru unnar heima og sauðakjöt verkað.

Bændur fóru í verstöð að hausti, til Reykjavíkur eða jafnvel á Snæfellsnes. Hlunnindi voru af því að vera staðsett við sjó og lífsnauðsynlega björg í bú. Mýrdælingar fóru að veiða fýl uppúr 1830 enda mikið af fýl í Mýrdalnum. Fyrst var háfur notaður eða reynt að skjóta fýlinn niður af færi. Einnig var reynt að klífa björgin sem var hættulegt enda menn með frumstæðan búnað við það. Fram á fyrsta áratug síðustu aldar var sigið eftir fugli, bæði vetrarfýl og ungum í lok sumars. Bjargsig var erfitt og mannfrekt. Oft voru svartfuglsegg tínd í leiðinni. Enn þann dag í dag er sigið eftir eggjum en nú eru einungis fýlsungar veiddi í lok sumars, 1 – 2 vikur. Þá eru ungarnir eltir og rotaðir. Fýllinn er reittur, sviðinn og saltaður í tunnur.

Lundi var veiddur í háf um margra ára skeið, fyrst var hann grafinn upp úr holum sínum en seinna notaður háfur.

Allt fram á 4. tug síðustu aldar var útræði stundað í Mýrdal. Róið var frá Dyrhólaey, Reynisfjöru, Pétursey og Maríuhliði við Jökulsá á Sólheimasandi. Útræðið var mikilvægt til að veita björg í bú. Engin höfn er á svæðinu og lendingarskilyrði voru erfið svo hættulegt og veiðar stopular. Veiðar voru mannfrekar því sex og áttæringarnir voru þungir og brimlendingarnar hættulegar.