Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Hér á svæðinu erum við virkilega stolt af fallega landslaginu. Náttúruperlur á borð við fjöruna og Urriðafoss ásamt fleiri æðislegum stöðum sem gaman er að heimsækja. 

SELFOSS / Árborg
Selfoss er stærsti þéttbýlisstaðurinn á Suðurlandi og er miðstöð verslunar, þjónustu og iðnaðar. Bærinn er 57 km frá höfuðborgarsvæðinu og þar búa 8.832 manns. Á Selfossi eru fjölmargir veitingastaðir og kaffihús auk verslana. Þar er einnig Sundhöll sem hefur inni- og útilaug, barnalaug með rennibrautum, vaðlaug, vatnsgufu, sauna og heita og kalda potta. Norðan við Selfoss er útivistarsvæðið Hellisskógur með skemmtilegum göngustígum með fram bökkum Ölfusár. Hinum megin við ánna er svo 9 holu golfvöllurinn Svarfhólsvöllur. Hægt er að afla meiri upplýsinga hjá Upplýsingamiðstöð ferðamála á Austurvegi 2. ÁRBORG Sveitarfélagið Árborg varð til við sameiningu Eyrarbakkahrepps, Sandvíkurhrepps, Selfossbæjar og Stokkseyrarhrepps árið 1998. Árborg býður upp á fjölmarga möguleika til afþreyingar og slökunar, þar á meðal mikið úrval veitingastaða, kaffihúsa, listagallería, safna og sundlauga auk 9 holu golfvallar á Selfossi. Frábær staðsetning fyrir hvern sem vill vera í nærveru við náttúruna og berja stórbrotið landslag augum, allt frá fjalla til fjöru.  Íbúar í Sveitarfélaginu Árborg telja 10.346 manns (september 2020).
EYRARBAKKI / Árborg
Á Eyrarbakka búa 585 manns í vinalegu þorpi sem áður var helsti verslunarstaður og hafnarsvæði á Suðurlandi. Fjöldi húsa er frá árunum 1890-1920 og að ganga um götur Eyrarbakka því eins og að ferðast aftur í tímann. Þar má finna Húsið sem var byggt árið 1765 og hýsir nú Byggðasafn Árnesinga og Sjóminjasafnið. Í þorpinu er einnig tjaldstæði, farfuglaheimili, gistihús og veitingastaður. Á Eyrarbakka er upplagt að ganga með fram fjörunni, horfa á fuglalífið og brimið brjóta ströndina. Norðvestan við Eyrarbakka er fallegur trjálundur að Hallskoti og Fuglafriðlandið í Flóa sem er tilvalið til fuglaskoðunar, varpstaður votlendisfugla og er á alþjóðlegum lista yfir mikilvæg votlendissvæði. ÁRBORG  Sveitarfélagið Árborg varð til við sameiningu Eyrarbakkahrepps, Sandvíkurhrepps, Selfossbæjar og Stokkseyrarhrepps árið 1998. Árborg býður upp á fjölmarga möguleika til afþreyingar og slökunar, þar á meðal mikið úrval veitingastaða, kaffihúsa, listagallería, safna og sundlauga auk 9 holu golfvallar á Selfossi. Frábær staðsetning fyrir hvern sem vill vera í nærveru við náttúruna og berja stórbrotið landslag augum, allt frá fjalla til fjöru. Íbúar í Sveitarfélaginu Árborg telja 10.346 manns (september 2020). 
STOKKSEYRI / Árborg
Á Stokkseyri búa 559 manns í heillandi þorpi sem er þekkt fyrir fuglalíf, fagra fjöru og öflugt lista- og menningarlíf. Gömul vinnslustöð fyrir sjávarafurðir hefur nú öðlast nýtt líf sem Menningarverstöðin og hýsir vinnustofur, gallerí, Draugasafnið og Álfa- og Norðurljósasafnið. Á Stokkseyri er Veiðisafnið sem er með uppstoppuð dýr til sýnis, bæði fugla og spendýr, og Þuríðarbúð sem er endurgerð sjóbúð og lýsir vel aðbúnaði verkbúðarfólks á árum áður. Í þorpinu er einnig einn rómaðasti sjávarréttarstaður landsins, útisundlaug, kajakferðir og tjaldstæði. Austan við Stokkseyri er Knarrarósviti sem var byggður 1938 og gangsettur ári seinna. Hægt er að nálgast meiri upplýsingar hjá Upplýsingamiðstöðinni staðsett í kaffihúsinu Gimli. ÁRBORGSveitarfélagið Árborg varð til við sameiningu Eyrarbakkahrepps, Sandvíkurhrepps, Selfossbæjar og Stokkseyrarhrepps árið 1998. Árborg býður upp á fjölmarga möguleika til afþreyingar og slökunar, þar á meðal mikið úrval veitingastaða, kaffihúsa, listagallería, safna og sundlauga auk 9 holu golfvallar á Selfossi. Frábær staðsetning fyrir hvern sem vill vera í nærveru við náttúruna og berja stórbrotið landslag augum, allt frá fjalla til fjöru.  Íbúar í Sveitarfélaginu Árborg telja 10.346 manns (september 2020).
FLÓAHREPPUR
Flóahreppur er falleg og friðsæl sveit á Suðurlandi sem nær yfir austanverðan Flóann og liggur á milli laxveiðiánna Þjórsár og Hvítár. Svæðið er sögulegt og skartar fjölbreyttri og fallegri náttúru sem einkennist meðal annars af fjölbreytilegu gróðurfari og miklu fuglalífi. Flóahreppur samanstendur af þremur hreppum, Hraungerðis-, Gaulverjabæjar- og Villingarholtshreppi. Sveitarfélagið er 290 km² að stærð og búa 640 manns í hreppnum.  Í Flóahreppi er að finna mestu víðsýni í byggð á landinu. Frá Þjórsárveri er fjallahringurinn líklega hvergi á Íslandi víðari og meiri. Til norðurs sést til Þórisjökuls og í suðri blasa Vestmannaeyjar við. Til vesturs má sjá allt til Fagradalsfjalls á Reykjanesi og til Mýrdalsjökuls í austri. Á milli er svo stórkostleg fjallasýn; Selvogsheiði, Skálafell, Ingólfsfjall, Búrfell, Kálfstindar, Hlöðufell, Hestfjall, Vörðufell, Hekla, Tindfjöll, Þríhyrningur, Eyjafjallajökull og Seljalandsmúli.  Urriðafoss er í Flóahreppi í hinni voldugu Þjórsá. Mesta hraunbreiða jarðar, Þjórsárhraunið mikla, liggur undir stærstum hluta Flóans en það er mesta hraun sem runnið hefur á jörðinni í einu gosi frá því að ísöld lauk. Hraunið kom upp í miklu eldgosi austan Þórisvatns fyrir um 8.700 árum. Gossprungan var 20-30 km stór en úr henni kom upp gífurlegt magn hrauns, eða allt að 30 km³. Hraunið rann yfir Skeið, Flóa og í sjó framundan Stokkseyri og Eyrarbakka, um 140 km frá eldstöðvunum. Menningarsagan í Flóanum hefur djúpar rætur og inniheldur vel kunnugt handverk og verslun, fyrri ára. Á svæðinu hefur í gegnum tíðina verið einstaklega mikið um hugvits- og hagleiksfólk og hafa komið merkar uppfinningar héðan. Má þar nefna Flóaáveituna en hún var mikið stórvirki á sínum tíma. Framkvæmdir við hana hófust vorið 1922 og mun hún hafa náð yfir 12 þúsund hektara land. Með tilkomu hennar urðu mikil umskipti í búskap og atvinnuháttum í Flóanum. Landbúnaður er helsta atvinnugreinin í sveitarfélaginu en ferðaþjónustan fer stöðugt vaxandi.  Finna má ýmsa afþreyingarmöguleika og þjónustu eins og gistingar, söfn og handverkshús, sveitabúð, ferðamannafjárhús o.fl.. Það er því óhætt að segja að Flóahreppur sé lifandi samfélag með fjölbreytt mannlíf sem býður upp á mikla afþreyingu, fjölda viðburða og samkoma, nýjar hefðir og rótgrónar. Þjóðtrúin lifir í örnefnum og sögnum. Ein af Íslendingasögunum, Flóamanna saga, varðveitir minningu svæðisins sem einnig er paradís fyrir fuglalífs- og náttúruunnendur.
Ásavegur - þjóðleið
Ásavegur er hin forna þjóðleið fólks um Suðurland. Liggur leið þessi um þveran Flóann og má finna miklar traðir á þessum slóðum sem til marks eru um þá miklu umferð sem hefur verið um þennan veg á liðnum öldum. Þarna lá leið uppsveitarmanna og þeirra sem komu austan að um ferjustaðinn hjá Króki í Holtum og hjá Egilsstöðum, niður að verslunarstaðunum Eyrabakka. Einnig lá þar leið vermanna er komu norðan Sprengisands til sjósóknar á suðurströndinni og lágsveitabænda með rekstur til og frá afrétti, svo dæmi séu nefnd. Þessa leið fóru Skeiða- og Hreppamenn, Rangæingar, sem fóru yfir Þjórsá sem og Skaftfellingar sem fóru Fjallabaksveg nyrðri. Merkt gönguleið er á milli Orrustudals og Hnauss (um 6 km ganga). Orrustudalur og Skotmannshóll er sögusvið Flóamannasögu. Í Orrustudal voru háðar tvær miklar orrustur eftir landnám. Féll m.a. Hásteinn Atlason í hinni fyrri, en Önundur bíldur í þeirri síðari. Á Skotmannshóli stóð Þormóður Þjóstarsson er hann skaut hinu fræga bogskoti sem skar úr um lögmæti vígs Arnars í Vælugerði. Á þessari leið er hæsti punktur Flóahrepps en þar má sjá stórfenglegt útsýni í allar áttir. 
Dælarétt
Dælarétt, er ævaforn fjárrétt stutt sunnan við Suðurlandsveg. Hún er talin elsta rétt landsins og var helsta skilarétt svæðisins. Réttin er í landi eyðibýlisins Heiðabæjar. Þar var síðast réttað haustið 1970 og hefur réttin nú verið friðlýst. Dælarétt er hlaðin úr grjóti úr hinu stórdílótta Þjórsárhrauni. Skammt frá eru sprungur eftir Suðurlandsskjálftann árið 2000. Sýnið VARÚÐ.
Einbúi, Oddgeirshólar
Einbúi, Oddgerishólar er tilkomumikið landslag á bökkum Hvítár. Þetta er útivistarsvæði í Oddgeirshólaklettum sem Guðmundur Sigurðsson í Austurkoti gaf Ungmennafélaginu Baldri árið 1931. Ungmennafélagar hafa unnið af kappi við að gera svæðið að fallegu íþrótta- og útivistarsvæði, m.a. með hleðslu palla og gróðursetningu skjólbelta.
Ferjunes
Bærinn Ferjunes stendur á Þjórsárbökkum og var áður fjölfarinn ferjustaður yfir Þjórsá. Sandhólaferja lagðist af við tilkomu Þjórsárbrúar. Skáldkonan Oddný Kristjánsdóttir bjó í Ferjunesi
Flóaáveitan
Flóaáveitan eru skurðir sem liggja um gjörvallan Flóa eða allt frá Ölfusá í vestri að Þjórsá í austri. Þetta stórvirki síns tíma samanstóð af 300 km löngum skurðum sem að mestu voru handgrafnir- og 900 km af flóðvarnargörðum. Flóaáveitan mun hafa náð yfir 12 þúsund hektara land og með tilkomu hennar urðu mikil umskipti í búskap og atvinnuháttum á svæðinu. Framkvæmdir við áveituna hófust 1922 og var flóðgáttin tekin í notkunn árið 1927 þegar Flóaáveitan tók til starfa. Enn þann dag í dag gegnir hún viðamiklu hlutverki í vatnsmiðlun í sveitafélaginu. Inntak áveitunnar er við Hvítá, þar er upplýsingaskilti með ítarlegum upplýsingum um Flóaáveituna. Til austurs frá inntakinu er merkt gönguleið (um 4,4  km ganga, aðra leið). 
Gaulverjabæjarkirkja
Gaulverjabær er kirkjustaður og höfuðból frá fornu fari. Gaulverjabær er Landnámsjörð Lofts hins gamla frá Gaulum í Noregi. Nafnið hefur oft verið stytt í Bæ og hreppurinn þá nefndur Bæjarhreppur. Lítill vafi er á því að Gaulverjabær sé kenndur við menn frá Gaulum í Noregi, sem er hérað í Sogn og Fjordane. Gaulverjar þessir hafa sest að í Bæ, sem svo hefur verið nefndur eftir þeim. Hér fannst merkur silfursjóður árið 1930. Þetta er safn 360 silfurpeninga frá fyrstu öld Íslandsbyggðar. Einnig fannst hér árið 1974 útskorin fjöl úr furu, líklega frá 11. öld, skreytt í svokölluðum Hringaríkisstíl, og er hún ein örfárra slíkra sem varðveist hafa.  Kirkjan sem nú stendur var byggð árið 1909. Kirkjan var friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989. 
Hraungerðiskirkja
Hraungerði er kirkjustaður, höfuðból og fyrrum þingstaður. Landnámsjörð Hróðgerðs hins spaka, ættföður Oddverja. Fyrst er getið kirkju í Hraungerði í skrá Páls biskups frá því um árið 1200 og hafa fjölmargar kirkjur verið á staðnum síðan þá. Núverandi Hraungerðiskirkja var vígð 4. sunnudag í aðventu, þann 21. desember 1902, af sr. Valdimar Briem prófasti. Eiríkur Gíslason, smiður frá Bitru í Hraungerðishreppi, var ráðinn til að teikna kirkjuna, gera byggingaráætlun og að lokum smíða hana. Kirkjunni hefur vel verið haldið við á undanförnum árum. Kirkjan var friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.
Kambur
Vestast í Hróarsholtshverfinu er bærinn Kambur. Hinn 9. febrúar 1827 gerðist þar sá atburður sem frægur hefur orðið í Íslandssögunni, er fjórir grímuklæddir menn brutust inn, lögðu hendur á heimilisfólkið og rændu töluverðu fé. Þeir bundu bóndann Hjört Jónsson og húsfólk hans og brutu upp hirslur í leit að peningum. Þeir rændu um 1000 ríkisdölum. Það var Þuríður formaður sem átti þátt í að upplýsa málið. Þuríður taldi sig þekkja handbragðið á skó sem fundist hafði, og bárust við það böndin að manni þeirrar konu sem skóinn hafði gert, Jóni Geirmundssyni á Stéttum í Hraungerðishreppi. Þuríður veitti því einnig eftirtekt að för á járnteini sem fundist hafði, pössuðu við steðja í eigu Jóns. Af vettlingi sem fannst í túninu á Kambi, bárust böndin að Jóni Kolbeinssyni, á Brú í Stokkseyrarhreppi, og lá Hafliði bróðir hans einnig undir grun. Þegar farið var að yfirheyra þessa menn játuðu þeir loks á sig ránið og bentu á forsprakkann, sem reyndist vera Sigurður Gottsvinsson á Leiðólfsstöðum. Frekari rannsókn leiddi í ljós fleiri aðila sem voru samsekir. Um ári síðar kvað sýslumaður Árnesinga upp dóm í málinu. Var Sigurður dæmdur til hýðingar, brennimerkingar og ævilangs þrældóms í Kaupmannahöfn, Jón Geirmundsson til hýðingar og þrældóms ævilangt, Jón Kolbeinsson til 12 ára þrældóms og Hafliði til 8 ára. Sigurður var drepinn í fangavistinni, en hinir fengu sakauppgjöf frá kóngi.
Kolsgarður
Kolsgarður er forn garður sem hefur verðið hlaðinn úr torfi og talinn vera frá 10. öld. Samkvæmt Þjóðsögunni þá gerði Kolur í Kolsholti sér tíðförult að Ragnheiðarstöðum og sátu þau Ragnheiður á Ragnheiðarstöðum löngum á tali saman. Langt er á milli bæjanna og yfir miklar mýrar að fara. Á Kolur því að hafa hlaðið garð mikinn sem við hann er kenndur og nefndur Kolsgarður eða Kolsstígur, því ekki þótti honum sæma að hitta Ragnheiði aurugur og blautur. Víða sér enn vel mótað fyrir Kolsgarði í mýrunu Suður af Kolsholti.
Laugardælir
Laugardælir er lítil byggð rétt utan við Selfoss. Laugardælir var einn fjölfarnasti lögferjustaður landsins þar til brúin var byggð yfir Ölfusá hjá Selfossi 1891. Árið 1957 var ný kirkja vígð á Selfossi og Laugardælasókn lögð til hennar, utan nokkurra bæja sem færðust til Hraungerðissóknar. Staðurinn var kirkjulaus í nokkur ár eða til ársins 1965 þegar nýja kirkjan var byggð. Kirkjan er úr steinsteypu, 300 m² með pípuorgeli og tekur 70 manns í sæti. Bjarni Pálsson, byggingarfulltrúi á Selfossi, teiknaði hana og Sigfús Kristinsson, byggingarmeistari á Selfossi, var kirkjusmiður. Í garði Laugardælakirkju er legstaður Bobbby Fischer (1943-2008), hins litríka og umdeilda heimsmeistara í skák.
Loftsstaðir
Loftstaðir var áður mikil verstöð. Í kringum árið 1600 bjó hér galdramaðurinn Galdra-Ögmundur sem deildi við Galdra-Geirmund á Ragnheiðarstöðum. Á Loftstaðahóli er mikil steinvarða mjög forn að uppruna.
Rútsstaða-Suðurkot
Fæðingarstaður Ásgríms Jónssonar listmálara, eins helsta brautryðjanda íslenskrar myndlistar. Hann varð fyrstur íslenskra málara til að gera myndlist að aðalstarfi. Ásgrímur fæddist þann 4. mars 1876 í Suðurkoti í Rútsstaðahverfi í Flóa. Árið 1897 hélt hann til Kaupmannahafnar þar sem hann stundaði nám við Konunglega listaháskólann árin 1900-1903.
Skógræktin í Skagaási
Skógræktin í Skagaási er gróskumikill trjálundur Skógræktarfélags Villingarholtshrepps. Skjólsæll unaðsreitur með ágætu aðgengi. Fólk er vinsamlegast beðið um að virða gönguleiðir og ganga vel um. Einungis er leyfilegt að grilla á merktum grillstað vegna eldhættu.
Hellisskógur
Hellisskógur er skógræktarsvæði rétt utan við Selfoss. Lagðir hafa verið akvegir og göngustígar um svæðið, settir bekkir og borð og Hellirinn grafinn út og útbúinn sem áningarstaður þar sem fólk getur sest niður og fundið sér skjól fyrir veðri og vindum. Hellisskógur hefur smám saman orðið eitt helsta útivistarsvæði Selfyssinga.  Stóri-Hellir í Hellisskógi myndaðist við lok jökulskeiðs á ísöld þegar brim svarf klettinn. Ummerki um hærra sjávarborð og sjávarrof sést á fjölmörgum stöðum í hellinum sem myndaðist í 0,7-3,1 milljón ára gömlu basalti. Innst í hellinum var áður geymt hey en fjárhús var staðsett við hellismunnann að framanverðu. Telja sumir að reimt sé í hellinum, af draug með bláan trefil.  Hér má sjá kort af Hellisskógi
Eyrarbakkakirkja
Séra Jón Björnsson var aðalforgöngumaðurinn fyrir nýrri kirkju á Eyrarbakka. Framan af var kirkjusókn Eyrbekkinga á Stokkseyri en vegna mikilla fjölgunar íbúa á Eyrarbakka var að lokum tekin sú ákvörðun að skipta þyrfti upp sókninni. Jóhann Friðrik Jónsson, forsmiður og helsti trésmiður á Eyrarbakka á áratugnum 1880 - 90 sá um hönnun og vann að byggingu kirkjunnar. Jóhann Friðrik lést áður en kirkjan var full byggð.   Eyrarbakkakirkja var reist á Eyrarbakka árið 1890 og vígð sama ár. Fyrsta orgelið í hina nýju kirkju gaf Jakob A. Lefolii, kaupmaður á Eyrarbakka sókninni. Hvað Séra Jón varðar þá höguðu örlögin því svo, að hann var fyrsti maðurinn sem kvaddur var frá Eyrarbakkakirkju, en það var árið 1892. Fjögur ár liðu frá vígslu Eyrarbakkakirkju uns hún öðlaðist full réttindi sem sóknar- og graftarkirkja, en nýr kirkjugarður var ekki vígður og tekinn í notkun á Eyrarbakka fyrr en árið 1894. Kirkjugarðurinn er austar í þorpinu.  Sögufrægasti gripur kirkjunnar er án efa sjálf altaristaflan sem prýðir mynd af Jesú á tali við Samversku konuna við Jakobsbrunninn (Jóh. 4, 13-14). Undir töflunni er ritað: „Hver sem drekkur af því vatni, sem ég mun gefa honum, hann mun aldrei að eilífu þyrsta." Tilurð altaristöflunar á sér sérstaka sögu, en Séra Jón Björnsson sigldi m.a. í erindum kirkjubyggingarinnar til Kaupmannahafnar til þess að útvega kirkjuviðinn. Hlaut hann þar svo góðar viðtökur þegar hann gekk á fund konungs og drottningar, að Louise, drottning Kristjáns konungs IX., gaf kirkjunni altaristöflu, sem hún hafði sjálf málað og er nafn drottningar á töflunni og ártalið 1891. Af öðrum merkum kirkjugripum má nefna kertastjaka úr Kaldaðarneskirkju, en kirkja þar var lögð niður árið 1902. Á þeim er ritað ártalið 1780 og stafirnir E.S.S. Stjakarnir eru íslensk smíð og að öllu handunnir. Einnig er úr Kaldaðarneskirkju ljósakróna í kór kirkjunnar. Árið 1918 var sett upp stundaklukka í turn kirkjunnar sem slær á heilum og hálfum tíma. Hún var gjöf frá danska kaupmanninum Jakob A. Lefolii.  Skírnarfonturinn er gjöf safnaðarins á 60 ára afmæli kirkjunnar árið 1950. Hann gerði listamaðurinn Ríkharður Jónsson. Skírnarskálin sem Leifur Kaldal gullsmiður gerði var gefin kirkjunni til minningar um Þórdísi Símonardóttur ljósmóður á 100 ára fæðingarafmæli hennar.  Ýmsar breytingar hafa verið gerðar á kirkjunni frá því hún var byggð árið 1890. Skrúðhús var byggt við norðurhlið kórs 1962 og á árunum 1977 til 1979 var turninn breikkaður, gluggum og umbúnaði þeirra breytt, kirkjan klædd nýrri vatnsklæðningu að utan og panelborðum innan og smíðaðir í hana nýir bekkir. Nýtt íslenskt 11 radda pípuorgel eftir Björgvin Tómasson var tekið í notkun í kirkjunni á jólum 1995.  Kirkjan tekur um 230 - 240 manns í sæti.  Eyrarbakkakirkja var friðuð 1. janúar 1990
Selfosskirkja
Selfosskirkja var byggð á árunum 1952 – 1956 og vígð það sama ár. Hún var teiknuð af Bjarna Pálssyni skólastjóar Iðnskólans á Selfossi. Árið 1978-1984 var bætt við kirkjuna forkirkju, turn og safnaðarheilmili með eldhúsi ásamt aðstöðu fyrir félagsstarf. Kirkja var máluð og skreytt af Jóni og Grétu Björnsdóttir listakonu sem sá um flúrið en í því er leitast við að fylgja kirkjuárinu. Gluggar kirkjunar voru unnir af glerlistafólki frá Þýskalandi og kom í kórinn árið 1987 en í kirkjuskipið árið 1993. Þó Selfosskirkja sé ung að árum er hún með sérstöðu meðal kirkna landsins á 20 öld. Sr. Sigurður Pálsson var fysti sóknarpresturinn í Selfosskirkju en áður var hann í Hraungerði í Flóa en flutist á Selfoss 1950 þegar fólksfjölgun varð hér. Lagði hann mikla áherslu á helgihald, endurreisn hins forna og sígilda messusöngva ásamt messuformi sem er þekkt sem helgisiðabókin Graduale (þrepasöngur) og var gefin út árið 1594. Grallari kallast þessi bók og inniheldur tónlög og texta að messusöng og tíðagjörð kirkjunnar. Hefur verið enn þá daginn í dag haldið í þessum anda, Grallarans íslenska og mörgum kunn að finnast að hönnun kirkjunnar minna einnig á þennann anda. Sr. Sigurður Sigurðarson tók við embætti föður sins árið 1971 en lét af störfum árið 1994 og hélt þá í vígslubiskupsembætti í Skálholti. 
Fjaran á milli Stokkseyrar og Eyrarbakka
Fjaran á Eyrum neðst í Flóa, milli Ölfusár og Loftsstaða, er stærsta hraunfjara landsins, endi hins mikla Þjórsárhrauns, sem rann fyrir 8000 árum og er mesta hraun sem runnið hefur á jörðinni eftir ísöld. Ofan fjörunnar eru ótal tjarnir og vötn, aðallega við Stokkseyri. Fjölbreytt fuglalíf er þar allt árið um kring og er svæðið sérstaklega mikilvægt fyrir farfugla, eins og rauðbrysting, lóuþræl, sanderlu, tildru, margæs, rauðhöfðaönd og fleiri endur. Stórt kríuvarp er á svæðinu og nokkur hundruð álftir fella þar flugfjaðrir síðsumars.   Svæðið er hluti af ferðaleiðinni Vitaleiðin sem nær frá Knarrarósvita í austri að Selvogsvita í vestri. Malbikaður göngu- oghjólastígur liggur á milli Stokkseyrar og Eyrarbakka.  
Þjórsárhraun
Þjórsárhraun er stærsta hraunbreyða landsins hvort sem er um að ræða að flatarmáli eða á rúmmáli. Einnig er Þjórsárhraun stæðsta hraunbreyða sem runnið hefur á jörðinni síðan lok síðustu ísaldar en það staðnaði við öldur Atlantshafsins frá 6700 f. krist. Áætlað er flatarmálið sé 974 km² og þykktin 15-20m að meðaltali en þar sem hraunið er þykkast er um 40m. Þjórsárhraun er helluhraun og úr dílabasalti ásamt ljósir feldspatdílar sem sitja í dökkum fínkorna grúnnmassa. Upphaf eldstöðvarinnar er á Veiðivatnasvæðinu og er horfið undir yngri gosmyndanir sem liggja um 70 km niður eftir Tungná og Þjórsá. Meðfram jöðrum hraunsins liggur Þjórsáin og Hvítá sem er einnig Ölfusá en á 17 öld fluttist Ölfusársós um 2-3 km í austur átt. Selfoss, Eyrarbakki og Stokkseyri eru byggð á Þjórsárhrauninu. Sést vel á sjávargörðum Stokkseyrar sjávarhluti Þjórsárhrauns og þar sést hvar aldan skellur á hraunjaðrinum úti í sjónum en á sjálfri ströndinni eru álar og rásir í hraunskerjunum.
Knarrarósviti
Árið 1938 hófst vinna við að byggja upp Knarraóssvita og var hann tekinn í gagnið ári síðar eða 31. Ágúst 1939. Þjónaði hann griðalega miklu hlutverki fyrir sjávarútveginn á þessum tíma því innsiglingarnar voru hættulegar á þessu svæði. Mörg skip hafa farist á þessum slóðum. Knarraóssviti er 22 metrar að hæð, fallegur og rammbyggður. Útsýnið úr honum er einstaklega fallegt og mikið. Var hann með 6000 kerti sem er meðal stærð á vita á þessum tíma sem hann var byggður. Hönnun vitans er áhugaverð blanda af fúnkis og art nouveau stíl. Knarrarósviti er hliti af Vitaleiðinni, en hægt er að lesa meira um hana hér.  
Timburhóll - Skógrækt
Skógræktarreitur Ungmennafélagsins Samhygðar. Grillaðstaða og gróskumikill skógur. Hér er minnisvarði um hjónin í Vorsabæ, Guðfinnu Guðmundsdóttur og Stefán Jasonarson. Þau hjónin voru bændur í Vorsabæ í hálfa öld og Stefán var frumherji í störfum fyrir samtök sunnlenskra bænda, ungmennafélagshreyfinguna, umferðaröryggi og varðveislu þjóðlegra verðmæta. Auk þess er hér minnismerki um Ásgrím Jónsson listmálara. Gestir eru beðnir um að ganga vel um.
Urriðafoss
Urriðafoss er vatnsmesti foss landsins. Hér fellur Þjórsá fram af jaðri hins mikla Þjórsárhrauns (360 m 3/sek) í fögru og friðsælu umhverfi. Fallhæð fossins er 6 metrar þar sem hann er hæstur. Þjórsárhraun, sem er eitt mesta hraun sem runnið hefur á jörðinni í einu gosi frá því að ísöld lauk, má sjá við Urriðafoss, þar sem fossinn steypist fram af austurbrún hraunsins. Lax gengur upp Þjórsá að fossinum og nokkuð upp fyrir hann. Urriðafoss er náttúrudjásn rétt utan þjóðvegs 1.
Villingaholtskirkja
Villingaholt er kirkjustaður og var löngum stórbýli. Á 17. öld var hér prestur, Jón Erlendsson en hann var afkastamesti handritaskrifari landsins. Hann á sinn mikla þátt í að varðveita ýmsar helstu perlur handritanna með því að skrifa þau upp, m.a. að beiðni Brynjólfs Sveinssonar biskups. Frægasta ritið sem séra Jón bjargaði þannig frá glötun er Íslendingabók, en mörg handrita okkar eru rituð með hendi Jóns. Síðar bjó hér þjóðhagsmiðurinn og bóndinn, Jón Gestsson (1863-1945) en frá honum er komin mikil ætt hagleiksfólks. Jón teiknaði og byggði núverandi Villingarholtskirkju á árunum 1910-1911. Kirkjan er bárujárnsklædd úr timbri og á hlöðnum grunni. Kirkjan er með turni og sönglofti og tekur 100 manns í sæti.  Ef gengið er syðst á lóð Þjórsárvers má sjá gamlan bæjarhól en þar stóð Villingaholtskirkja og bæjarhúsið áður. Í kjölfar viðverandi sandfoks og mikils tjóns í suðurlandsskjálftanum árið 1784 voru þau flutt um set að núverandi stað. Kirkjan var friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.
Þjórsá
Þjórsá er jökulá að uppruna sem á meginupptök sín í Hofsjökli. Hún er lengsta á landsins eða 230 km löng og hefur mesta vatnasviðið um 8000 km². Vatnsmagn hennar er svipað og Ölfusár, 370 m³/sek, og kemur að mestu undan Hofsjökli og Vatnajökli. Aurframburðurinn er gífurlegur, um 4,5 milljónir tonna á ári.  Á veturna getur áin safnað í sig gífurlegu magni af ís sem sest til neðan til. Stórfenglegt er að koma að gljúfrum Þjórsár neðan við Urriðafoss á vorin þegar íshrönnin er að bresta og áin að ryðja sig.  Hægt er að ganga með gljúfrum og liggur vegurinn samsíða þeim stutt frá. 
Ölfusá
Ölfusá er vatnsmesta á landsins þar sem meðalrennsli árinnar er 423 m³/sek. Upprunni Ölfusár er á milli Grímsness og Hraungerðishrepp þar sem Sogið og Hvítá falla saman og er 25 km long og fellur niður að ósum Eyrarbakka austanverðu. Ölfusá rennur með vesturjaðri Þjórsárhrauns.  Áin rennur jökulituð í gegnum Selfoss í gegnum djúpa gjá sem er 9m djúp. Þrátt fyrir að áinn sé jökullituð er þó nokkuð af lindarvatni þannig að á veturnar í kuldatíð á hún til með að vera allt að því tær. Áin myndar stórt stöðuvatn eða sjávarlón í Ölfusinu áður en hún rennur út í sjóinn austan við Óseyri. Þetta lón nefnist Ölfusárós. 
Ölfusárbrú
Ölfusárbrú er byggð yfir vatnsmesta fljót landsins sem spanner 384 rúmmetra á sekúndu að meðaltali á árs grundvelli. Á suðurenda brúarinnar við Tryggvaskála er upplýsingaskilti sem sýnir flóðahæð í þremur mestu flóðum í Ölfusá á 20. Öld. Árið 1872 var fyrst talað um að brúa yfir Ölfusá af Hannesi Stehensen presti. Fyrst var farið í að ferja fólk yfir ána. Árið 1891 hófst brúarsmíðin sjálf. Gekk það í fyrstu með áföllum þar sem þeir mistu einn mann í ána. Síðar kom í ljós að stöplarnir undir brúni voru ekki nógu hair svo að klakabelti komast undir hana. Vígsla brúarinnar var 1891 og voru settar ýmsar reglur hvað varðar notkunn brúarinnar en það varðar reiðmennsku yfir brúnna. Árið 1944 slitnaði brúarstrengur vegan þyngdar mjólkurbíls með annan bíl í togi svo að þeir féllu báðir í ánna. Var þá ný brú byggð árið 1945 og þjónar enn þá daginn í dag sínum tilgangi og er hún 84 metrar að lengd á milli stöpla.
Fuglafriðland í Flóa
Friðlandið í Flóa og Ölfusforir Á ósasvæði Ölfusár eru tvö stór votlendi, Friðland Fuglaverndar í Flóa austan og Ölfusforir vestan ár. Þetta eru miklar flæðisléttur með tjörnum og vötnum. Engjarnar hafa jafnt gildi á fartíma og sem varpstaður. Lómur er einkennisfugl Friðlandsins og lóuþræll og jaðrakan eru óvíða algengari. Á veturna er mikið fuglalíf í Ölfusforum, stórir hópar af urtöndum, stokköndum og gulöndum halda þar til, og jafnframt stærsti hópur gráhegra á landinu.