STOKKSEYRI / Árborg
Á Stokkseyri búa 559 manns í heillandi þorpi sem er þekkt fyrir fuglalíf, fagra fjöru og öflugt lista- og menningarlíf. Gömul vinnslustöð fyrir sjávarafurðir hefur nú öðlast nýtt líf sem Menningarverstöðin og hýsir vinnustofur, gallerí, Draugasafnið og Álfa- og Norðurljósasafnið. Á Stokkseyri er Veiðisafnið sem er með uppstoppuð dýr til sýnis, bæði fugla og spendýr, og Þuríðarbúð sem er endurgerð sjóbúð og lýsir vel aðbúnaði verkbúðarfólks á árum áður. Í þorpinu er einnig einn rómaðasti sjávarréttarstaður landsins, útisundlaug, kajakferðir og tjaldstæði. Austan við Stokkseyri er Knarrarósviti sem var byggður 1938 og gangsettur ári seinna. Hægt er að nálgast meiri upplýsingar hjá Upplýsingamiðstöðinni staðsett í kaffihúsinu Gimli.
ÁRBORG
Sveitarfélagið Árborg varð til við sameiningu Eyrarbakkahrepps, Sandvíkurhrepps, Selfossbæjar og Stokkseyrarhrepps árið 1998. Árborg býður upp á fjölmarga möguleika til afþreyingar og slökunar, þar á meðal mikið úrval veitingastaða, kaffihúsa, listagallería, safna og sundlauga auk 9 holu golfvallar á Selfossi. Frábær staðsetning fyrir hvern sem vill vera í nærveru við náttúruna og berja stórbrotið landslag augum, allt frá fjalla til fjöru.
Íbúar í Sveitarfélaginu Árborg telja 10.346 manns (september 2020).