Fara í efni

Landsvæði Ölfuss er stórt og fjölbreytt afþreying er í boði svo allir ættu að geta fundið sér eitthvað við hæfi.

Sundlaugin í Þorlákshöfn er ein af betri laugum landsins með flottu innisvæði fulla af leiktækjum fyrir yngstu kynslóðina. Á útisvæðinu er 25 metra sundlaug, tveir heitir pottar, vaðlaug og tvær vatnsrennibrautir með sér sundlaug.

Marga hella er að finna í Ölfusi og sá stærsti er Raufarhólshellir. Raufarhólshellir er staðsettur við Þrengslaveg og er einn af lengri hellum á Íslandi. Hann er yfir 1300 metra langur og myndaðist í Leitarhraunsgosi í Bláfjöllum fyrir um 5200 árum. Vinsælt er að nota hellinn í kvikmyndum og til að mynda var hluti úr myndinni Noah (2014) tekin upp í hellinum. Daglegar ferðir eru í boði í hellinn.

Annar áhugaverður hellir í Ölfusi er Arnarker. Hann er staðsettur í Leitarhrauni norðan við gamla veginn í Selvog. Merkt leið er frá veginum að hellinum og upplýsingaskilti er við hellinn. Búið er að setja stiga niður í hellinn en hann er um 16 metrar langur, er brattur og því skal fara um hann með aðgát. Hellirinn er um 516 metra langur og liggur í tvær áttir, 100 metra í suður og um 400 metra í norður.

Þónokkrar hestaleigur eru í Ölfusi, bæði í Þorlákshöfn og í dreifbýli Ölfuss. Hægt er að fara í hestaferðir í Reykjadal eða niður í sandfjöruna við Þorlákshöfn. Einnig er eina hestaleikhús landsins í Ölfusi þar sem hægt er að sjá íslenska hestinn leika listir sínar.

Margar skemmtilegar gönguleiðir er að finna í Ölfusi og Hengilssvæðið er það vinsælasta. Gönguferð í fjörunni er góð leið til þess að láta stressið líða úr sér og njóta þess að hlusta á sjávarniðinn. Hafnarnes er útivistarsvæði sunnan við byggðina í Þorlákshöfn þar sem stórbrotnir klettar og öldurnar heilla alla sem þangað fara. Í Þrengslunum eru nokkrar skemmtilegar gönguleiðir eins og Litli Meitill, Stóri Meitill og Eldborgir við Lambafell.

Fyrir hjólafólk eru margar hjólaleiðir í boði fyrir byrjendur jafnt sem lengra koma. Sem dæmi má nefna Jósepsdal, Hengilssvæðið og í kringum Hlíðarvatn.

Í Þorlákshöfn er einn af bestu brimbrettastöðum á Íslandi þar sem brimbrettakappar alls staðar úr heiminum koma til að prófa öldurnar. Fyrir byrjendur eru öldurnar í fjörunni tilvaldar en fyrir þá sem lengra eru komnir eru öldurnar við útsýnisskífuna hjá Hafnarnesvita meira krefjandi. Önnur skemmtileg afþreying tengd sjónum eru ferðir á svokölluðum ribsafari bát en það er hressandi og skemmtileg leið til að skoða landið frá sjó.

Í Þorlákshöfn má finna krefjandi og skemmtilegan 18 holu strandgolfvöll og motocross braut.

Upplýsingamiðstöð Ölfuss
Upplýsingamiðstöð Ölfuss er staðsett í Íþróttamiðstöð Þorlákshafnar.   Sjá nánar hér 
Sundlaugin Þorlákshöfn
Í Þorlákshöfn er 25 metra útisundlaug og vaðlaug innandyra. Við útisundlaug eru tveir heitir pottar og vatnsrennibraut. Hjá vaðlaug er fjöldi leiktækja fyrir yngstu sundlaugargestina, m.a. rennibrautir, vatnsormur, sveppur og fleira. Sundlaugin er notuð undir kennslu fyrir Grunnskólann í Þorlákshöfn, einnig er kennd sundleikfimi og haldin sundnámskeið. Sundnámskeið eru í maí og júní. Sjá opnunartíma á vefsíðu.
Raufarhólshellir
Raufarhólshellir er staðsettur við Þrengslaveg og er einn af lengri hellum á Íslandi. Hann er yfir 1300 metra langur og myndaðist í Leitarhraunsgosi í Bláfjöllum fyrir um 5200 árum. Vinsælt er að nota hellinn í kvikmyndum og til að mynda var hluti úr myndinni Noah (2014) tekin upp í hellinum. Daglegar ferðir eru í boði í hellinn.
Hafnarnesviti og útsýnisskífa
Hafnarnes er útivistarsvæði sunnan við byggðina í Þorlákshöfn þar sem stórbrotnir klettar og öldurnar heilla alla sem þangað fara. Útsýnisskífa er á svæðinu og útsýnið er einstakt þaðan. Hægt er að fylgjast með brimbrettaköppum spreyta sig á öldunum með Eyjafjallajökul í baksýn. Hafnarnesviti stendur við endann á Hafnarnesinu, hann er ekki opinn almenningi en fallegt er að mynda hann þegar öldurnar umlykja hann. Hafnarnes viti er hluti af Vitaleiðinni, en hægt er að lesa meira um hana hér 
Ströndin Ölfusi - Skötubót
Fjaran austan við byggðina í Þorlákshöfn er í daglegu tali nefnd Skötubót. Skötubótin er skemmtilegur staður fyrir útivist, ungir sem aldnir njóta þess að ganga og leika sér í þessari fallegu svörtu sandfjöru sem nær frá Þorlákshöfn að ósum Ölfusár. Margir knapar njóta þess að ríða í flæðarmálinu og einnig má sjá brimbrettakappa spreyta sig á öldunum. Skötubótin hentar vel fyrir þá sem eru að stíga sín fyrstu skref á brimbrettum en þeir sem eru lengra komnir fara á brimbretti við Hafnarnesvita þar sem öldurnar eru meira krefjandi.

Aðrir (1)

Golfklúbbur Þorlákshafnar Hafnarsandi 815 Þorlákshöfn 483-3009