Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Fuglar og fuglaskoðun á Suðurlandi

Suðurland hefur uppá fjölmargt að bjóða fyrir fuglaskoðara árið um kring. Þar er að finna óvenju fjölbreytt búsvæði fugla: víðáttumikil votlendi, sjófuglabyggðir, hálendisvinjar og óvenjulega fjöru. Stærstu vörp heiðagæsar, skúms og lunda í heiminum eru á Suðurlandi. Stærsta sjósvöluvarp Evrópu er á Suðurlandi og sennilega verpa hvergi fleiri jaðrakanar í heiminum en þar. Sumir þessara staða eru aðeins steinsnar frá mesta þéttbýli landsins. Fuglaskoðun er vinsæl meðal ferðmanna, bæði innlendra og erlendra. Lundinn er t.d. okkar verðmætasti fugl, hingað koma tugþúsundir ferðamanna sem langar til að sjá lunda og jafnvel eru ferðir hingað til lands, eingöngu til að skoða og ljósmynda hann.

Friðlandið í Flóa og Ölfusforir
Á ósasvæði Ölfusár eru tvö stór votlendi, Friðland Fuglaverndar í Flóa austan og Ölfusforir vestan ár. Þetta eru miklar flæðisléttur með tjörnum og vötnum. Engjarnar hafa jafnt gildi á fartíma og sem varpstaður. Lómur er einkennisfugl Friðlandsins og lóuþræll og jaðrakan eru óvíða algengari. Á veturna er mikið fuglalíf í Ölfusforum, stórir hópar af urtöndum, stokköndum og gulöndum halda þar til, og jafnframt stærsti hópur gráhegra á landinu.

Fjaran á Eyrum
Fjaran á Eyrum neðst í Flóa, milli Ölfusár og Loftsstaða, er stærsta hraunfjara landsins, endi hins mikla Þjórsárhrauns, sem rann fyrir 8000 árum og er mesta hraun sem runnið hefur á jörðinni eftir ísöld. Ofan fjörunnar eru ótal tjarnir og vötn, aðallega kringum Stokkseyri. Fjölbreytt fuglalíf er þar árið um kring, sérstaklega er það mikilvægt fyrir farfugla, eins og rauðbrysting, lóuþræl, sanderlu, tildru, margæs, rauðhöfðaönd og fleiri endur. Stórt kríuvarp er á svæðinu og nokkur hundruð álftir fella þar flugfjaðrir síðsumars.

Þingvallavatn og Sogið
Þingvallavatn er stærsta stöðuvatn landsins. Það er djúpt og fuglalíf talsvert frábrugðið grunnum vötnum eins og Mývatni og Apavatni. Ýmsar fiskiætur setja sterkan svip á vatnið: himbrimi og toppönd verpa, en dílaskarfur er gestur og ekki enn farinn að verpa þar.

Sogið, afrennsli Þingvallavatns, er mesti andastaður landsins á veturna. Þar er stærsti húsandahópur utan Mývatns og helsti vetrarstaður hvinanda á Íslandi. Jafnframt er þar stærsti skúfandarhópurinn og flestar toppendur á ferskvatni. Gulendur eru og algengar. Ernir halda til á hverjum vetri og straumönd fer um á vorin.

Apavatn og Laugarvatn
Tvö vötn í Laugardal, Apavatn og Laugarvatn, ásamt aðliggjandi votlendum og ám eru meðal bestu andastaða á Suðurlandi. Við Laugarvatn eru jarðhitamýrar, sem er sjaldgæft fyrirbæri á landsvísu. Húsendur, hvinendur og gulendur hafa vetursetu. Straumönd verpur og hundruð af duggöndum, skúföndum og toppöndum hafa þar viðdvöl á fartíma, ásamt því að vera algengir varpfuglar.

Fuglasvæði við Hvítá og Brúará
Pollengi, Tunguey og Hrosshagavík eru mikilvægir viðkomustaðir gæsa, anda og vaðfugla á fartíma, auk þess er þar ríkulegt fuglalíf á varptíma. Neðar á vatnsviði Hvítar eru Brúará, Mosar, Selflóð, Skálholtstunga og Höfðaflatir, sem hafa svipað gildi fyrir votlendisfugla og Pollengissvæðið. Höfðaflatir eru ein stærsta, óraskaða hallamýri á Suðurlandi.

Landeyjar og Rangárvellir
Í Landeyjum og á Rangárvöllum er víða votlendi, vötn, tjarnir og mýrar, þó mikið hafi verið ræst þar fram. Meðal helstu staða eru Skúmsstaðavatn og nágrenni, Oddaflóð (friðlýst) og Lambhagavatn. Mikið af andfuglum og vaðfuglum verpur á þessum svæðum og hefur þar viðkomu á fartíma vor og haust. Meðal helstu tegunda eru álft, blesgæs, rauðhöfðaönd, grafönd, skúfönd og jaðrakan.

Þjórsárver
Þjórsárver sunnan Hofsjökuls er víðáttumesta gróðurvin á miðhálendinu. Þar er stórbrotið landslag, gróskumiklar og fjölskrúðugar flæðilendur með fjölskrúðugu gróðurfari inná milli hrjóstrugra sanda og jökla. Svokallaðar rústir eru sérkennilegar sífreramyndanir í jarðvegi sem geta orðið yfir metri að hæð. Mikill fjöldi heiðagæsa á þar griðastað. Verin voru til skamms tíma stærsti varpstaður þeirra í heiminum og margar fella þar flugfjaðrir. Aðrir varpfuglar eru m.a. himbrimi, álft, hávella, sendlingur, óðinshani, kría og snjótittlingur. Hluti Þjórsárvera er friðlýstur og Ramsar-svæði.

Veiðivötn
Annað hálendissvæði eru Veiðivötn. Þar er fagurt og sérkennilegt landslag mótað af eldvirkni, en vötnin eru flest í gígum. Fjölskrúðugt lífríki í um 600 m h.y.s. Hraun eru mosagróin og við vötnin er land nokkuð vel gróið en annars bersvæðisgróður og eyðisandar. Mikið fuglalíf, meðal annars eru himbrimar óvenju algengir. Aðrir algengir fuglar eru álft, heiðagæs, duggönd, hávella, straumönd, sandlóa, sendlingur, kría og sólskríkja. Húsendur hafa vetursetu og verpa orðið reglulega.

Vestmannaeyjar
Vestmannaeyjar liggja undan Landeyjum og verpa fuglar í um 15 eyjum. Um þriðjungur alls lundastofnsins verpur þar, um milljón pör og er það stærsta lundabygg í heimi. Þar er stærsta sjósvölubyggð í Evrópu, einu varpstöðvar skrofu á Íslandi og nær allar íslenskar stormsvölur verpa þar. Súluvarp eru í fjórum eyjum. Aðrir algengir fuglar eru fýll, rita, langvía, álka og teista. Heimaey er eina byggða eyjan og sú sem auðveldast er að skoða. Elliðaey er fjölbreyttasta úteyjan og næst stærst, á eftir hinni ungu Surtsey. Fuglar hafa verið að nema land í Surtsey frá því fljótlega eftir að gosi lauk þar 1967. Hún er alfriðuð og er landganga ýmsum skilyrðum háð.

Mýrdalur
Í Mýrdal er ríkulegt fuglalíf og eru Reynisfjall, Reynisdrangar og Dyrhólaey helstu fuglastaðirnir. Lundi verpur í Víkurhömrum (hvergi fjær sjó í heiminum), Reynisfjalli og Dyrhólaey; langvía og álka í Reynisdröngum og Dyrhólaey. Stórt kríuvarp er við Vík og annað minna í Dyrhólaey. Hún er friðlýst. Fýllinn er síðan í öllum klettum, giljum og björgum.

Landbrot og Meðalland
Landbrot og Meðalland fóstra ríkulegt fuglalíf. Þar er margskonar votlendi: flæðiengjar, stöðuvatn, tjarnir, lindir, lækir og hraun. Aðalvotlendið nær frá Skaftá og Grenlæk að Eldvatni og upptökum þess á lindasvæðinu í Fljótsbotnum. Meðal varpfugla eru flórgoði og ýmsar endur. Lindasvæðin fóstra ríkulegt fuglalíf á veturna, þar eru vetrastöðvar húsandar, hvinandar og gulandar. Á fartíma vor og haust sést mikið af blesgæs. Skúmur er algengur á söndunum.

Öræfi
Fuglalíf sandanna miklu við Suðurströndina er með sérstökum blæ. Þetta er ríki skúmsins, stærsta skúmabyggð í heimi. Þar sem nóg er af vatni, er sandurinn að gróa upp og þar er fjölbreytt fuglalíf. Algengir varpfuglar eru lómur, álft, grágæs, stokkönd, lóuþræll, spói, óðinshani, kjói og svartbakur. Í Skaftafelli er skóglendi með fjölbreyttu fuglalífi og þar eru rjúpa, músarrindill og auðnutittlingur algengir varpfuglar. Aðalvarpstöðvar helsingja á Íslandi eru frá Öræfum austur í Hornafjörð og má oft sjá stóra hópa síðsumars, t.d. á Breiðabólstaða- og Hestgerðislónum. Jafnframt er talsvert helsingjavarp í Skaftártungu.

Jökulsárlón
Talsvert fuglalíf er við Jökulsárlón. Smáfiskur sækir inní lónið og leita ýmsir sjófuglar, eins og kría, svartfuglar og æðarfugl, sér ætis í lóninu. Stórt kríuvarp var skammt austan við Jökulsá, en það hvarf fyrir fáeinum árum vegna ágangs ferðamanna. Fuglarnir fluttu sig að Hala, þar sem nú er stórt kríuvarp. Skúmar og kjóar sóttu mjög í kríuvarpið, kjóarnir að stela æti frá kríunum og skúmarnir að krækja sér í unga. Helsingjar eru oft á beit við lónið eða svamla á því. Ýmsir máfar, eins og ritur og á síðari árum einnig þernumáfar, sitja gjarnan á jökunum og hvíla sig. Landselir eru þar tíðir.

Hornafjörður og Skarðsfjörður
Hornafjörður og Skarðsfjörður eru grunnir firðir eða sjávarlón sitthvoru megin Hafnar. Þar er mikið fuglalíf árið um kring, farfuglar hafa viðkomu í stórum stíl, varpfuglar eru fjölmargir og þetta er helsti vetrardvalarstaður fugla í fjórðungnum. Flækingsfuglar eru hvergi tíðari. Fjöruspóar hafa reglulega vetursetu, rauðbrystingar og lóuþrælar hafa viðkomu og brandendur verpa, svo lítið eitt sé nefnt. Á Höfn starfar fuglaathugunarstöð, sem sinnir m.a. fuglamerkingum. Fjölbreytt og víðáttumikil votlendi með fjölbreyttu fuglalífi teygja sig frá Höfn um Nes, Mýrar og Suðursveit alla leið vestur að Breiðamerkursandi.

Hvalsnes- og Þvottárskriður
Sunnan Álftafjarðar eru Þvottár- og Hvalsnesskriður. Þar heldur sig hópur af hrafnsöndum árið um kring og með þeim stöku korpendur og krákendur. Síðan tekur við hið víðáttumikla og lífríka Lón, með mesta þéttbýli álfta í heimi. Lónið er grunnur fjörður með þroskamiklum og sérstæðum botngróðri. Álftir halda til þar árið um kring, stundum er meira en helmingur stofnsins þar saman kominn. Grágæsir og rauðhöfðaendur eru einnig algengar.