Í Þórbergssetri er veitingasala,gestamóttaka, salerni og sýningarsalir. Sýning Þórbergsseturs er fjölbreytt upplifunarsýning er tengist ævi og verkum skáldsins, en einnig sögu íslensku þjóðarinnar. Sjá má breytingar og þjóðlifsmyndir frá frumstæðu bændaþjóðfélagi yfir í bæjarlíf og búsetu í ört vaxandi höfuðborg. Textar úr verkum Þórbergs varða leiðina á fallega hönnuðum ljósaskiltum, en einnig er hægt að fá hljóðleiðsögn með viðbótarefni. Þannig er sýningin sambland af fræðsluefni, safni og sagnaskemmtan og gengið er inn í leikmyndir þar sem reynt er að ná andblæ liðinna ára og njóta um leið stórbrotinna lýsinga meistarans sem leiðsögn um staðinn. Vakin er athygli á að sýningin höfðar einnig mjög vel til barna og unglinga. Hópar eða fjölskyldur geta bókað leiðsögn um Þórbergssetur þar sem heimamenn fræða gesti um lífið í Suðursveit og hverning sögusvið bóka Þórbergs opnar sýn inn í horfna veröld liðins tíma.
Í Þórbergssetri er þægilegur veitingasalur með vínveitingaleyfi og sæti fyrir 80 - 100 manns. Hægt er að fá veitingar alla daga allt árið um kring. Yfir daginn er alltaf kaffi á könnunni og heimabakað brauð og kökur, en einnig kjötsúpa og ýmsir smáréttir m.a. úr Jöklableikju frá Hala. Á sumrin er í gildi matseðill fyrir hópa og einstaklinga á sanngjörnu verði í hádeginu, kjötsúpa, bleikjuréttir og kaffi. Nauðsynlegt er að panta í síma 478 1078 eða á netfangið hali@hali.is. Á kvöldin frá kl 18:30 – 21 er hægt að fá kvöldmat alla daga. Á matseðli er hefðbundinn íslenskur matur, bleikja og lambakjöt.