Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Um Markaðsstofu Suðurlands

Markaðsstofa Suðurlands vinnur að því að styrkja ímynd og samkeppnishæfni Suðurlands sem áfangastaðar. Stofan leiðir samstarf ríkis, sveitarfélaga og ferðaþjónustufyrirtækja á Suðurlandi, og sinnir markaðssetningu, upplýsingamiðlun og þróunarverkefnum sem styðja við ferðaþjónustu og atvinnuuppbyggingu á svæðinu.

Helstu hlutverk:

  • Markaðssetning áfangastaðarins Suðurlands innanlands og á erlendum mörkuðum

  • Samræming kynningarmála og ímyndarsköpun fyrir Suðurland

  • Sérhæfður stuðningur við sveitarfélög og fyrirtæki er varðar ferðaþjónustu

  • Greining og miðlun upplýsinga til hagsmunaaðila ferðaþjónustunnar

Markmið:

Að laða gesti til Suðurlands, lengja dvöl þeirra og tryggja að ávinningur ferðaþjónustunnar nýtist öllu svæðinu.

Stofnun Markaðsstofu Suðurlands

Markaðsstofa Suðurlands var stofnuð 19. nóvember 2008 af Ferðamálasamtökum Suðurlands, Atvinnuþróunarfélagi Suðurlands, Rúntinum um Rangárþing og Ferðamálafélagi Austur-Skaftafellssýslu. Tilgangurinn var að sameina krafta ríkis, sveitarfélaga og ferðaþjónustuaðila í markvissu starfi við að þróa, kynna og styrkja ímynd Suðurlands sem heildstæðs áfangastaðar.

Frá upphafi hefur Markaðsstofan verið leiðandi afl í að efla ferðaþjónustu á svæðinu, stuðla að aukinni atvinnuuppbyggingu og samræma markaðsstarf innanlands og utan. Með samstarfi lykilaðila og faglegri nálgun hefur stofan byggt upp öflugan vettvang fyrir þróunarverkefni, greiningarvinnu og kynningarstarf sem styður við verðmætasköpun á svæðinu.

Starfssvæði Markaðsstofunnar nær frá Lónsheiði í austri að Sandskeiði í vestri, auk Vestmannaeyja.

Markaðsstofur Landshlutanna

Markaðsstofur landshlutanna eru sjö talsins og starfa á Vesturlandi, Vestfjörðum, Norðurlandi, Austurlandi, Reykjanesi, Suðurlandi og Höfuðborgarsvæðinu.

Þær vinna saman að sameiginlegum hagsmunamálum og stuðla að samræmdu markaðsstarfi, skipulagi og þróun ferðaþjónustu á landsvísu. Sameiginlegt útlit er á vefsíðum þeirra og þær standa saman að stærsta ferðaþjónustuviðburði Íslands, Mannamótum, í janúar ár hvert.

 

Markaðsstofur landshlutanna eru samvinnuvettvangur ríkis, sveitarfélaga, ferðaþjónustufyrirtækja og annarra hagsmunaaðila. Þær vinna með yfir 800 fyrirtækjum og 66 sveitarfélögum um allt land. Hlutverk þeirra felst í:

  • Að safna og miðla þekkingu og yfirsýn um ferðamál landshlutans

  • Að vera fyrsti snertiflötur í ferðaþjónustu á svæðinu

  • Að stuðla að samhæfingu og efla atvinnutækifæri

  • Að leiða þróun og markaðssetningu áfangastaða

  • Að skapa farveg fyrir samstarf og framkvæmdir

  • Að vera drifkraftur þróunarferla í samræmi við stefnu hvers landshluta

  • Að vera málsvari ferðaþjónustunnar á svæðinu

Frekari upplýsingar má finna á www.markadsstofur.is.