Handbók til sveitarfélaga um uppbyggingu ferðamannastaða
Hvert er hlutverk sveitarfélaga í uppbyggingu ferðamannastaða?
Markaðsstofa Suðurlands og Faghópur sveitarfélaga á Suðurlandi um ferðamál hefur ítrekað velt upp spurningunni hvert hlutverk sveitarfélaga er í uppbyggingu ferðamannastaða. Sveitarfélög koma oft að þróun, leyfisveitingum og framkvæmdum við ferðamannastaði en stundum leikur vafi á atriðum varðandi ábyrgð, rekstur og framtíðarsýn um staðina. Þá hefur þótt vanta forsendur og verkferla við ákvarðanatöku. Í samstarfi við Ferðamálastofu hefur Markaðsstofa Suðurlands nú útbúið handbók sem á að auðvelda sveitarfélögum í stefnumótun, ákvörðunum og aðgerðum við uppbyggingu ferðamannastaða. Í handbókinni er leitast við að aðstoða sveitarfélög í að meta hlutverk sitt og hag af uppbyggingu ferðamannastaða.
Byggir á reynslusögum um allt land
Handbókin byggir á samtölum við sveitarfélög og stofnanir um allt land þar sem skoðaðar voru helstu orsakir vandamála og hvaða aðgerðir leiddu til jákvæðrar reynslu. Á milli kafla má finna dæmisögur af stöðum þar sem uppbygging þykir hafa gengið vel. Hér má fletta handbókinni en einnig er hægt að hlaða henni niður.
Gagnlegt efni um uppbyggingu áfangastaða
Vert er að taka fram að ýmis góð rit hafa verið gefin út um ólíka þætti sem lúta að uppbyggingu ferðamannastaða. Í 10.kafla handbókarinnar má finna tengla á helstu gögn sem nýtast á ólíkum stigum verkefna. Handbókin er eingöngu gefin út á stafrænu formi. Hún verður endurskoðuð og uppfærð þegar reynsla er komin á hana og ábendingar má senda til Markaðsstofu Suðurlands. Smelltu hér til að skoða síðu Markaðsstofunnar um Uppbyggingu áfangastaða.