Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Áfangastaðaáætlun Suðurlands

Á haustmánuðum hefur Markaðsstofa Suðurlands unnið að uppfærslu á Áfangastaðaáætlun Suðurlands. Uppfærslan verður byggð á þeim góða grunni sem unninn var 2017 en með speglun á því sem hefur verið gert síðustu þrjú ár ásamt þeirri stöðu sem er í dag. Uppfærð Áfangastaðaáætlun Suðurlands mun gilda frá 2021-2023.
Styrkleikar ferðaþjónustunnar á Suðurlandi 2020
Styrkleikar ferðaþjónustunnar á Suðurlandi 2020

Á haustmánuðum hefur Markaðsstofa Suðurlands unnið að uppfærslu á Áfangastaðaáætlun Suðurlands. Uppfærslan verður byggð á þeim góða grunni sem unninn var 2017 en með speglun á því sem hefur verið gert síðustu þrjú ár ásamt þeirri stöðu sem er í dag. Uppfærð Áfangastaðaáætlun Suðurlands mun gilda frá 2021-2023.

Sú framtíðarsýn sem dregin var fram 2017 verður áfram leiðarljós fyrir ferðaþjónustuna og aðila tengda henni til að vinna að til ársins 2023:

Ferðaþjónusta á Suðurlandi er sjálfbær þar sem lögð er áhersla á heildræna þróun í sátt við nátt­úru og samfélag. Ferðaþjónustan er öflug atvinnugrein og samvinna ríkir á milli mismunandi hags­munaaðila þar sem hugað er að gæðum, upplýsingagjöf og fræðslu.

  • Verndun náttúru og menningarsögulegra minja er í forgrunni þegar kemur að ferðaþjónustu þar sem hugað er að skýru og tryggu aðgengi að helstu náttúruperlum.
  • Regluverk í ferðaþjónustu er skýrt og leiðir til jákvæðrar upplifunar heimamanna og gesta.
  • Vegakerfið og samgöngur, á sjó, landi og í lofti, eru öruggar og hugsaðar heildrænt þar sem áningarstaðir eru vel úthugsaðir, merktir með viðeigandi þjónustu og upplýsingagjöf.
  • Möguleikar til menntunar í ferðaþjónustu eru staðbundnir og fjölbreyttir.
  • Grunnþjónusta er góð á svæðinu og íbúar eru jákvæðir í garð ferðamanna og ferðaþjónustunnar.

Áfangastaðaáætlun er heildstæð áætlanagerð sem hef­ur ferðaþjónustu sem útgangspunkt. Markmið hennar er að stuðla að ábyrgri ferðaþjónustu sem styrkir efnahag samfélaga, bætir lífsgæði íbúa og dregur úr mögulegum neikvæðum áhrifum frá ferðaþjónustu. Mikilvægt er að hún að sé samþætt við aðrar staðbundnar áætlanir sem og aðrar áætlanir hins opinbera. Ákvarðanir og ábyrgð á þeim aðgerðum sem þarf að ráðast í til að framfylgja þessari áfangastaðaáætlun eftir liggur hjá mismunandi aðilum; ríki, sveitarfélögum, ferðaþjónustufyrirtækjum, hagsmunasamtökum og öðrum hagaðilum eftir eðli og umfangi aðgerða og verkefna.

Gerð áfangastaðaáætlunar felur í sér að horft sé á ferða­þjónustu út frá víðu sjónarhorni og að tekið sé tillit til margra ólíkra hagaðila sem eiga hagsmuna að gæta við þróun svæðisins. Áætlanagerðin tekur tillit til gesta, fyrir­tækja, íbúa og umhverfis, reynir að skapa jafnvægi á milli og mæta þörfum þessara fjögurra þátta. Áfangastaðaáætl­un gerir íbúum og ferðaþjónustunni kleift að sammælast um hvernig ferðaþjónustu þau vilja hafa, hvaða áhrif hún hafi á efnahag og samfélag þeirra og hvaða skref skuli taka í átt að því marki.

Grunnurinn af uppfærslunni hefur verið unninn í nánu samstarfi við fulltrúa faghóps sveitarfélaga á Suðurlandi þar sem verkefnastjórn hefur farið yfir stöðuna á Suðurlandi í dag með fyrri áfangastaðaáætlun til hliðsjónar og uppfært stöðuna með tilliti til þess. Liður í að fá fleiri aðila að borðinu var opinn rafrænn fundur sem haldinn var í gegnum Zoom miðvikudaginn 24. nóvember þar sem allir sunnlendingum var velkomið að taka þátt í. Þar fór Laufey Guðmundsdóttir verkefnastjóri Áfangastaðaáætlun gróflega yfir gildandi áætlun, hvaða verkefni hafa verið unnin síðustu þrjú ár ásamt því sem búið er að vinna í tengslum við uppfærsluna. Stutt erindi voru frá Ólafi Rafnari Ólafssyni, atvinnu- og kynningarfulltrúa Sveitarfélagsins Árborgar, um samstarf við gerð ferðaleiðarinnar Vitaleiðin í samvinnu við Markaðsstofu Suðurlands og Ölfuss. Einnig kom Árdís Erna Halldórsdóttir, atvinnu- og ferðamálafulltrúi Sveitarfélagsins Hornafjarðar, og ræddi um hvernig sveitarfélagið hefur nýtt Áfangastaðaáætlun Suðurlands sem dæmi inn í ferðamálakafla aðalskipulags sveitarfélagsins. Í lok fundarins var stutt vinnustofa þar sem lagðar voru fyrir eftir farandi spurningar til þátttakendur á fundinum:

  • Hvaða áherslur vilja ykkar svæði draga fram næstu 3 árin í tengslum við ferðaþjónustuna?
  • Hverjir eru STYRKLEIKAR ferðaþjónustunnar á Suðurlandi?
  • Hverjir eru VEIKLEIKAR ferðaþjónustunnar á Suðurlandi?
  • Hverjar eru ÓGNIR ferðaþjónustunnar á Suðurlandi?
  • Hver eru TÆKIFÆRI ferðaþjónustunnar á Suðurlandi?
  • Hvaða áskoranir sérðu liggja fyrir ferðaþjónustu á Suðurlandi næstu 3 árin?
  • Hvaða einstaka aðgerðir er mikilvægt að sé farið í á næstu 3 árum til að gera umhverfi ferðaþjónustunnar betri og viðhalda því sem gott er?

Í framhaldi af fundinum var sendar út sömu spurningar nema voru þær skilgreindar niður á svæðin þrjú, Gullna hrings svæðið (Árnessýsla, Ásahreppur og Rangárþing ytra), Katla jarðvangur & Vestmannaeyjar og Rík Vatnajökuls. Þar var sent á alla skráða þátttakendur á fundinum, aðildarfélög Markaðsstofu Suðurlands, alla sveitarstjóra ásamt fulltrúa í faghóps sveitarfélaga á Suðurlandi og stjórn Markaðsstofu Suðurlands sem dæmi.

Með því að fá þessi svör og gögn í hendurnar hjálpar okkur við að taka saman þær línur sem komu í ljós í svörum. Búið er að vinna í að greina svörin og eru þau flokkuð í eftirfarandi yfirflokka ásamt undirflokkum:

  • Sjálfbærni
  • Ferðaþjónustan
    • Uppbygging eftir COVID
    • Gæði og fagmennska
    • Samtal og samvinna
    • Öryggi og aðgengi
    • Markaðsáherslur
    • Nýsköpun og vöruþróun
  • Samfélagið
    • Fólkið
    • Samgöngur
    • Grunnþjónusta
  • Náttúran, menning og menningarminjar
    • Matarauður Suðurlands
    • Menning og saga
    • Náttúran

Auk þess að svörin gefa okkur línur til að vinna með inn í uppfærða Áfangastaðaáætlun Suðurlands þá gefa þau okkur hjá Markaðsstofunni einnig áherslupunkta til að vinna með inn í næsta ár, tækifærin eru endalaus eins og einn sagði á einni vinnustofunni.

Tækifæri ferðaþjónustunnar á Suðurlandi

Nú er verið að vinna við skrif og uppsetningar á uppfærðri Áfangastaðaáætlun Suðurlands sem mun gilda 2021-2023, þegar drögin verða tilbúin verða þau send til sveitarstjórna til umsagnar og athugasemda, auk þess verða drögin send til helstu stoðstofnanna sem starfa á Suðurlandi sem dæmi þjóðgarðanna, Kötlu jarðvangs, Umhverfisstofnunar og Skógræktarinnar. Í framhaldi, eftir að búið er að taka tillit til allra athugasemda, verður endanleg áætlun send til formlegra samþykktar hjá sveitarfélögum.

Ef óskað er eftir frekari upplýsingar um þá vinnu sem er í gangi er ykkur velkomið að hafa samband við verkefnastjóra verkefnisins, Laufeyju Guðmundsdóttur á netfangið laufey@south.is.

Sjá glærur frá fundinum hér