Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Þrír gististaðir á Suðurlandi hljóta Michelin lykla

Íslensk gistiþjónusta hefur fengið mikilvæga alþjóðlega viðurkenningu en fimm hótel hér á landi hafa nú hlotið hinn eftirsótta Michelin lykil, sem veittur er af Michelin Guide fyrir framúrskarandi gistiaðstöðu og einstaka upplifun gesta.

Markaðsstofa Suðurlands fagnar því innilega að þrír af þeim gististöðum sem hlutu hina eftirsóttu Michelin lykla eru staðsettir á Suðurlandi og eru í samstarfi við stofuna. Michelin lyklar eru afar eftirsóttir og þykja mikil viðurkenning á meðal veitingastaða og gististaða um allan heim. 

Þeir gististaðir sem hlutu Michelin lykilinn í október 2025 eru: 

Kerlingafjöll Higland Base

UMI Hotel

Hótel Rangá

Mikilvæg viðurkenning fyrir Suðurland

Þessi alþjóðlega viðurkenning er mikilvæg fyrir alla ferðaþjónustu á Suðurlandi, ekki síst þegar kemur að markaðssetningu og kynningu á svæðinu sem áfangastaðar í heild . Hún sýnir að gæði og upplifun á svæðinu stenst samanburð við bestu áfangastaði í heiminum.

Hvað er Michelin lykill?

Michelin lykill er nýtt viðurkenningarkerfi sem Michelin Guide hefur innleitt til að heiðra gististaði sem skara fram úr í upplifun og þjónustu með svipaðri nálgun og Michelin stjörnurnar gera fyrir veitingastaði.  Viðurkenningin byggir á ströngum og alþjóðlega samræmdum viðmiðum en faglegt teymi sérfræðinga frá Michelin heimsækir hótelin undir nafnleynd og metur þau út frá fimm lykilþáttum:

  • Framúrskarandi arkitektúr og innanhússhönnun
  • Gæði og samkvæmni þjónustu
  • Karakter og persónuleiki gististaðarins
  • Virði miðað við verð
  • Framlag til samfélags eða staðarins

Út frá þessu er hótelum svo úthlutað einum, tveimur eða þremur lyklum:

Einn lykill: „Mjög sérstök dvöl“ — gisting sem fer fram úr væntingum.

Tveir lyklar: „Framúrskarandi dvöl“ — einstakur staður með sterkan karakter og óvenjulega upplifun.

Þrír lyklar: „Óvenjuleg dvöl“ — Gististaður á heimsmælikvarða.

Aðeins lítill hluti hótela sem eru á skrá hjá Michelin fá lykil, sem undirstrikar gæði þeirra sem ná inn á þennan lista. Óskum við lyklahöfum því enn og aftur til hamingju með þennan frábæra árangur. 

Lesa má nánar um úthlutun lyklanna í frétt Michelin Guide hér