Fara í efni

Ný markaðsherferð Íslandsstofu

Íslandsstofa kynnti nýja aðgerð í markaðsverkefninu Ísland – Saman í sókn með JOYSKROLL herferðinni. Hún gengur út á að dreifa gleði og jákvæðum straumum frá Íslandi á tímum þar sem mikið framboð er á neikvæðum fréttum

Nýlegar fréttir af bóluefnum hafa skapað bjartsýni og við sjáum aukningu í leitarfyrirspurnum að Íslandi sem áfangastað en það sama á við um aðra áfangastaði, þannig að nú er góður tími til að minna á okkur.

Íslandsstofa kynnti nýja aðgerð í markaðsverkefninu Ísland – Saman í sókn með JOYSKROLL herferðinni. Hún gengur út á að dreifa gleði og jákvæðum straumum frá Íslandi á tímum þar sem mikið framboð er á neikvæðum fréttum. Umfangið er slíkt að það hefur verið búið til hugtak um það – doomscrolling. Merkingin nær yfir þá hegðun að fólk er í símum að skoða samfélagsmiðla og festist í að skruna endalaust niður skjáinn að skoða neikvæðar fréttir. Það hefur jafnvel verið áætlað að meðalmanneskjan skruni niður 22,7 metra af neikvæðum fréttum á dag. Joyscrolling herferðin snýst um að vinna gegn þessu og í stað þess að skruna niður stanslausar neikvæðar fréttir þá er hægt að skruna niður 22,7 metra af íslensku efni sem skapar hamingju og vellíðan ásamt því að sýna Ísland sem aðlaðandi áfangastað.

 

Hér eru tenglar á myndband herferðarinnar sem má endilega deila á samfélagsmiðlum og sem víðast.

Facebook tengill – best að deila beint af Facebook síðu Inspired by Iceland
Youtube tengill – einnig hægt að deila myndbandinu beint af Youtube rás Inspired by Iceland

Looks like you need Iceland herferðin tilefnd til verðlauna

Það er gaman að segja frá því að Contagious Magazine, eitt virtasta auglýsingafagtímaritið, útnefndi herferðina okkar „Looks like you need Iceland“ eina af 25 bestu herferðum ársins "Top 25 Most Contagious Campaigns of 2020" . Við erum eini áfangastaðurinn á listanum og erum í hópi stærstu vörumerkja í heiminum.

Við fengum einnig þær góðu fréttir að við erum komin í úrslit í  Best Creative and Best PR Campaign for the Digiday Awards sem er frábær árangur. Úrslit verða kunngjörð í janúar og munum við að sjálfsögðu láta ykkur vita hvernig fer.

 

Framundan hjá Ísland - Saman í sókn

Markaðsaðgerðir undanfarið hafa miðað að því að viðhalda áhuga á áfangastaðnum en núna er undirbúningur hafinn fyrir herferð sem fer í gang þegar við sjáum bókanir hefjast af krafti. Um 50 manns tóku þátt í vinnustofu á fundi markaðshóps á þriðjudaginn þar sem góðar umræður sköpuðust um áherslur inn í þá vinnu. Samantekt á niðurstöðum verður send út bráðlega.