Fara í efni

Morgunfundur um íslenska ferðasumarið 2021

Síðasti morgunfundur Markaðsstofu Suðurlands í þessari seríu var haldinn þriðjudaginn 13. apríl. Þetta fundaform hefur gefist vel og því mun Markaðsstofan taka upp þráðinn aftur í haust og bjóða upp á rafræna morgunfundi í bland við fundi í raunheimum þegar rými gefst til þess.

Á þessum síðast fundi fóru Dagný Jóhannsdóttir ásamt Nejru Mesetovic yfir íslenska ferðasumarið sem er framundan. Þær fóru yfir helstu gögn sem birt voru í nýrri ferðahegðunarkönnun Ferðamálastofu vegna ferðalags Íslendinga 2020 og ferðaáformum 2021. Einnig fór Dagný yfir rammann fyrir herferðir sumarsins hjá Markaðsstofu Suðurlands og hvernig fyrirtæki og sveitarfélög geta stutt við þá herferð til að vekja athygli á áfangastaðnum Suðurlandi.

Góðar umræður áttu sér stað að vanda eftir erindið og ríkir bjartsýni hjá ferðaþjónustuaðilum yfir góðri eftirspurn erlendis frá. Fundurinn var tekinn upp og geta aðildarfyrirtæki og sveitarfélög nálgast upptöku af fundinum ásamt glærum með því að senda póst á netfangið info@south.is og við sendum ykkur upptökuna.