Fara í efni

Kveðja framkvæmdastjóra – Nýtt ferðalag

Kæru vinir, með smá söknuði í hjarta segi ég ykkur frá því að ég hef sagt upp starfi mínu hjá Markaðsstofu Suðurlands...

Kæru vinir, með smá söknuði í hjarta segi ég ykkur frá því að ég hef sagt upp starfi mínu hjá Markaðsstofu Suðurlands sem ég hef helgað mig af lífi og sál síðastliðin 8 ár.
Þessi tími hefur verið ótrúlegt ferðalag, í senn skemmtilegt, krefjandi, fjölbreytt og fullt af viðburðarríkum ævintýrum. Ég hef lært ótal margt, kynnst og starfað með mikið af frábæru fólki, hef ferðast, skoðað og notið þess að starfa í og með sunnlenskri ferðaþjónustu og stoðkerfi hennar. Mest af öllu á ég eftir að sakna frábæra samstarfsfólks míns á Markaðsstofunni sem hefur gert þetta ferðalag yfir höfuð kleift og að öllu leyti betra.

Á þessum árum hefur starfsemi Markaðsstofunnar mikið breyst, vaxið og dafnað líkt og ferðaþjónustan sjálf, sem er orðin ein mikilvægasta atvinnugrein landsins. Ég kem til með að sakna þessa tíma sem hefur verið vægast sagt viðburðaríkur og skemmtilegur, oft á tíðum spretthlaup og langhlaup á sama tíma og aldrei „a dull moment“. En allt tekur enda og stend ég sátt upp frá borði. Framundan hjá mér er að skipta aðeins um gír, helga mig sjálfri mér og fjölskyldunni meira en síðastliðin ár hafa gefið tækifæri til. Ég horfi af eftirvæntingu til nýs ferðalags sem mun án efa bera með sér nýja og spennandi tíma.

Bestu kveðjur,
Dagný H. Jóhannsdóttir

Stjórn Markaðsstofu Suðurlands hefur ákveðið að ráða Ragnhildi Sveinbjarnardóttur sem nýjan framkvæmdastjóra og tekur ráðningin gildi nú í nóvember. Ragnhildur hefur starfað hjá Markaðsstofu Suðurlands sem verkefnastjóri í 10 ár og er því öllum hnútum kunnug þegar kemur að starfseminni. 

Stjórn býður Ragnhildi velkomna til starfa sem framkvæmdastjóra og hlakkar til að starfa með henni í nýjum verkefni um. Um leið og stjórn og starfsfólk Markaðsstofunnar óska Dagnýju alls hins besta í næstu verkefnum sínum þá viljum við líka þakka kærlega fyrir frábæran tíma, drifkraftinn og eldmóðinn fyrir sunnlenskri ferðaþjónustu undanfarin ár.