Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Menningarævintýri um páskana

Á Suðurlandi er úrval spennandi safna og sýninga þar sem hægt er að glöggva sig á sögu fólksins í landshlutanum, fræðast um eldvirknina á svæðinu, njóta menningar og listar. Er ekki tilvalið að drekka í sig sunnlenska menningu í páskafríinu?
Að stíga inn í Húsið á Eyrarbakka er eins og að fara um 150 ár aftur í tímann. Ljósmynd: Bjarki Guðm…
Að stíga inn í Húsið á Eyrarbakka er eins og að fara um 150 ár aftur í tímann. Ljósmynd: Bjarki Guðmundsson.

Þegar ferðast er um Suðurlandið grípur falleg og fjölbreytt náttúran augað, stútfull af fjörum, fjöllum og víðáttu. En margir átta sig ekki á að landshlutinn er moldríkur af einstökum menningarperlum sem áhugavert er að skoða.

Hér verða talin upp söfn og sýningar á Suðurlandi sem hægt er að heimsækja í dymbilviku páska.

Yfirlitið hefst vestast á Suðurlandi og færist smám saman austur fyrir:

 

Jarðhitasýning ON - Kraftur úr iðrum jarðar

 

Jarðhitasýning ON í Hellisheiðarvirkjun býður gestum tækifæri til að kynnast jarðvarma og sjálfbærri orku á Íslandi. Sýningin er staðsett í einni stærstu jarðhitavirkjun heims, umkringd stórbrotinni íslenskri náttúru með mosa og hrauni.

Gestir fá innsýn í hvernig jarðvarmi er nýttur til framleiðslu á rafmagni fyrir landið og heitu vatni fyrir höfuðborgarsvæðið. Sýningin er gagnvirk og fræðandi og kynnir meðal annars samstarf við Carbfix, sem þróar leiðir til að breyta CO₂ í stein til að sporna við loftslagsbreytingum.

Hægt er að glöggva sig á hvernig jarðhiti hefur stuðlað að sjálfbærri þróun á Íslandi og hvaða tækifæri felast í nýsköpun, grænni orku og vistvænum lausnum.

Fyrir framan sýninguna er 50 kW hleðslustöð fyrir rafbíla og í versluninni er fjölbreytt úrval vistvænna minjagripa, þar á meðal vörur framleiddar á Hengilssvæðinu.

Jarðhitasýningin er opin klukkan 9-17 alla daga í páskavikunni.

Listasafn Árnesinga - Skapandi og forvitnilegt

Listasafn Árnesinga er sannkölluð menningarperla í Hveragerði. Þar eru settar upp metnaðarfullar sýningar innlendra og erlendra listamanna, og hefur safnið verið í samstarfi við önnur söfn um árabil. Sýningarstefnan er margbreytileg en oft með skírskotun í Suðurlandið.

Verkin sem eru sýnd hverju sinni koma jafnt úr smiðjum þekktra listamanna og nýliða í greininni og það er ævintýri líkast að ganga um húsið. Listaunnendur og þeir sem eru einfaldlega forvitnir geta notið sín á þessum einstaka stað þar sem hver krókur og kimi er nýttur á skapandi hátt. Ekki spillir fyrir að það er frítt inn á safnið og þannig geta allir notið listarinnar, sama hver fjárhagurinn er.

Eftir að hafa skoðað sýningarnar geta gestir sest niður á kaffihús safnsins, íhugað listaverkin og notið stundar í afslöppuðu umhverfi. Á safninu er einnig safnbúð þar sem ýmsir fallegir gripir og listaverk eru til sölu.

Listasafnið er opið klukkan 12-17 alla daga í páskavikunni, nema á mánudögum.

Gestastofan á Þingvöllum – Merkileg saga á flekaskilum

 

Þjóðgarðurinn á Þingvöllum er einn merkasti sögustaður Íslands, þar sem Alþingi var stofnað árið 930 og starfaði í nærri 900 ár. Svæðið er einnig þekkt fyrir einstaka jarðfræði, þar sem Norður Ameríku- og Evrasíuflekarnir mætast og mynda stórbrotið landslag.​

Til að dýpka skilning gesta á sögunni og náttúrunni hefur þjóðgarðurinn komið á fót Gestastofu á Haki. Gestastofan hýsir gagnvirka sýningu sem kallast Hjarta lands og þjóðar þar sem gestir geta fræðst um sögu Alþingis, stjórnarhætti og náttúruundur Þingvalla á fjölbreyttan og lifandi hátt. Til dæmis er hægt að taka þátt í að grafa eftir fornleifum eða skoða flekaskil Íslands. ​

Auk þess eru reglulega settar upp tímabundnar sýningar í Gestastofunni. Nýleg dæmi eru ljósmyndasýningarnar Þingvellir 1944, sem unnin var í samstarfi við Þjóðminjasafn Íslands og sýnir myndir frá stofnun lýðveldisins, og Velkomin til Þingvalla, sem fylgir ferli ljósmyndarans Gunnars Geirs Vigfússonar yfir 50 ára tímabil. ​

Gestastofan er opin klukkan 9-18 alla daga í páskavikunni.

Skálholt - Þúsund ára arfleifð

Skálholt er einn merkasti sögustaður Íslands með djúpa tengingu við þjóðina. Þar var eitt af tveimur biskupssetrum landsins og þar var miðstöð kristni, menntunar, menningar og stjórnsýslu frá 11. öld til ársins 1796. Í Skálholti störfuðu margir af fyrstu biskupum Íslands.

Núverandi Skálholtsdómkirkja var reist á 20. öld og stendur á hæð með fallegu útsýni yfir nærliggjandi sveitir. Innandyra má finna stórbrotin listaverk, þar á meðal litrík gluggalistaverk eftir listakonuna Gerði Helgadóttur og áhrifamikið altari. Neðanjarðar geta gestir skoðað fornleifar kirkjunnar sem eru stórmerkilegar.

Skálholt býður upp á leiðsagnir allan ársins hring undir stjórn kirkjuvarða, sem veita gestum áhugaverða fræðslu. Í ferðinni skoða gestir kirkjuna og listaverk hennar, heimsækja safnið á staðnum, ganga í gegnum göngin undir dómkirkjunni og njóta útsýnisins yfir svæðið. Ferðin tekur um 30–40 mínútur. Leiðsagnir fyrir hópa þarf að bóka fyrirfram með tölvupósti á skalholt@skalholt.is.

Skálholt er opið klukkan 9-18 alla daga í páskavikunni.

 

Slakki - Dýragarður í sveitasælu

 

Dýragarðurinn Slakki er notalegur húsdýragarður staðsettur í Laugarási í Biskupstungum. Hann er vinsæll áfangastaður fyrir fjölskyldur sem vilja njóta samveru með dýrum í fallegu sveitaumhverfi.​

Í Slakka er fjölbreytt úrval dýra, þar á meðal kálfar, grísir, geitur, kanínur, kettlingar, hvolpar og jafnvel heimskautarefur, sem er eina landdýrið sem er upprunalega frá Íslandi. Gestir fá tækifæri til að kynnast dýrunum nánar og læra um líf þeirra í sveitinni.​

Auk dýragarðsins býður Slakki upp á ýmsa afþreyingu fyrir alla fjölskylduna. Þar er leikvöllur fyrir börnin, minigolfvöllur, spilasalur og billjardborð. Einnig er þar kaffihús sem býður upp á léttar veitingar og ís, þar sem gestir geta notið matar og drykkja í notalegu umhverfi.

Slakki opnar á Skírdag eftir vetrarlokun og verður opinn klukkan 11-18 alla daga eftir það í páskavikunni.

 

Sólheimar - Vistvænir lífshættir í gróðursæld

Sólheimar eru einstakt sjálfbært samfélag í Grímsnesi, stofnað árið 1930 af Sesselju Hreindísi Sigmundsdóttur. Í Sólheimum búa og starfa einstaklingar með og án fötlunar í anda jafnréttis, virðingar og náttúruverndar.

Sólheimar eru þekktir fyrir umhverfisstefnu og sjálfbærni. Samfélagið leggur áherslu á vistvæna framleiðslu og hringrásarhagkerfi og gestir fá tækifæri til að kynnast þessari einstöku sýn.

Fjölbreytt starfsemi fer fram á Sólheimum svo sem rekstur skógræktar- og garðyrkjustöðva sem báðar stunda lífræna ræktun. Einnig eru á staðnum bakarí, matvinnsla, verslun, listhús, kaffihús og gistiheimili. Fjöldi listvinnustofa er á Sólheimum sem leggja meðal annars stund á kertagerð, listasmiðju og keramik.

Íbúar Sólheima leggja metnað sinn í að taka vel á móti gestum.

Leikfélag Sólheima hefur verið öflugt og setur upp sýninguna Fúsi: aldur og fyrri störf þann 24.-27. apríl. Miðasala fer fram á tix.is.

Opið er í Sólheimum klukkan 11-16 alla daga í páskavikunni, nema á páskadag.

 

Byggðasafn Árnesinga - Saga verslunar og sjómennsku

Heimsókn á Byggðasafn Árnesinga er eins og að stíga um 150 ár aftur í tímann í fallega sjávarþorpinu á Eyrarbakka. Þar bjuggu mikilsmetnir kaupmenn og settu svip sinn á bæinn, ásamt fjölskyldum sínum, og sjómennskan litaði líf íbúanna. Safnið hefur það mikilvæga hlutverk að varðveita sögulegar minjar um atvinnuhætti, menningu og daglegt líf í Árnessýslu.

Húsið, aðalbygging safnsins, er kaupmannshús byggt árið 1765 og eitt elsta íbúðarhús landsins. Þar er sýnt hvernig verslunarstaðurinn Eyrarbakki gegndi lykilhlutverki í viðskiptum og menningu á landsvísu með áherslu á búnað, listmuni og innflutningsvörur frá liðinni tíð.

Sjóminjasafnið segir sögu sjósóknar á Suðurlandi, með áherslu á áraskipið Farsæl, búnað sjómanna og þróun fiskveiða í gegnum aldirnar. Sýningin gefur innsýn í harðan veruleika sjómennsku á árum áður.

Kirkjubær, íbúðarhús frá 1920, dregur upp mynd af heimilishaldi og lífi fjölskyldu á Eyrarbakka snemma á 20. öld. Þar má sjá upprunalegan húsbúnað, fatnað og hluti úr daglegu lífi sem hjálpa gestum að stíga inn í gamla tíma.

Eggjaskúrinn, sem hýsir náttúrusýningu, geymir fjölbreytt safn fuglaeggja og uppstoppaðra fugla sem Peter Nielsen faktor safnaði kringum aldamótin 1900. Sýningin vekur athygli á náttúrufræði og áhuga liðinna kynslóða á lífríki Íslands.

Byggðasafnið eru opið klukkan 13-17 alla daga í páskavikunni.

Bakkastofa - Frásagnir og tónlist sem snerta við taug

Við sjávarþorpið Eyrarbakka stendur hið tígulega hús Bakkastofa. Þar bjóða hjónin Ásta Kristrún Ragnarsdóttir og Valgeir Guðjónsson gestum í frásagna- og tónlistarveislu.

Valgeir er þjóðþekktur tónlistarmaður og hefur samið margar íslenskar lagaperlur. Hann var meðal stofnenda Stuðmanna og Spilverks þjóðanna og er einn af ástsælustu tónlistarmönnum landsins. Ásta Kristrún er brautryðjandi í námsráðgjöf og allt frá bernsku hafa hinar stóru listir verið henni hjartfólgnar; bækur, myndlist og tónlist.

Hjónin leiða saman hesta sína á Bakkastofu með sögu Íslendinga og þorpið Eyrarbakka í forgrunni. Gestarýmið á Bakkastofu er einstaklega hlýlegt, búið glæsilegum húsbúnaði í gömlum stíl. Ásta og Valgeir bjóða gestum ýmist á Bakkastofu, í Húsið eða á veitingastaðinn Rauða húsið. Sýningin er mótuð fyrir hvern hóp fyrir sig og er í senn fróðleg og falleg. Frásagnir Ástu og tónar Valgeirs hitta beint í hjartastað.

Valgeir heldur tónleika í Dómkirkjunni þann 17. apríl og Eyrarbakkakirkju þann 19. apríl ásamt Joel Durksen gítarleikara og Kristrúnu Steingrímsdóttur söngkonu. Hægt er að nálgast miða á tix.is.

 

Brimrót - Hjarta listar og menningar

Í gamla þorpinu á Stokkseyri er menningarhúsið Brimrót. Þar er notalegt rými þar sem rithöfundar, listamenn og gestir koma saman.

Brimrót hýsir blómlega menningarviðburði, svo sem bókaupplestra, listsýningar, tónleika og vinnustofur.

Sá stærsti af þeim er Haustgildi sem er haldinn árlega við góðar undirtektir. Haustgildi hafa vaxið frá ári til árs þar sem listamenn af svæðinu beita kröftum sínum til að gera hátíðina sem fjölbreyttasta. Samfélagið á Stokkseyri tekur ríkan þátt.

Í Brimrót verður borðspilastund fyrir alla fjölskylduna á sumardaginn fyrsta 24. apríl klukkan 13-17.

Veiðisafnið - Dýralíf í nærmynd

Á Veiðisafninu á Stokkseyri geta gestir kynnst veiðimenningu og dýrategundum frá Íslandi, Grænlandi og Afríku. Safnið var stofnað árið 2004 af Páli Reynissyni og markmiðið að miðla veiðiþekkingu og gefa áhugasömum kost á að skoða ýmsar dýrategundir í návígi.

Í safninu má finna fjölbreytt úrval íslenskra spendýra og fugla, sem og dýr frá Afríku og Grænlandi. Meðal annars eru þar uppstoppaður gíraffi, ísbjörn, ljón og moskusuxi. Auk þess eru sýningar á veiðiriffum, skammbyssum og öðrum veiðitengdum munum. Safnið leggur áherslu á að kynna veiði og veiðirétt með aðaláherslu á náttúruvernd og skynsemisveiðar.

Veiðisafnið er opið klukkan 11-18 alla daga í páskavikunni.

 

Hespuhúsið - Þar sem náttúran litar ullina

 

Hespuhúsið er heillandi handverkssetur staðsett í sveitum Ölfuss, rétt utan við Selfoss. Þar geta gestir skyggnst inn í heim jurtalitunar, þar sem íslensk ull er lituð með náttúrulegum litarefnum sem eru unnin úr plöntum, mosa, berjablöðum og jafnvel sveppum, allt úr íslenskri náttúru.

Hespuhúsið var stofnað af Guðrúnu Bjarnadóttur sem hefur í áratugi unnið að varðveislu og miðlun íslensks handverks og hefða. Á vinnustofunni er lögð áhersla á sjálfbærni, náttúruleg hráefni og visku eldri kynslóða. Það skín í gegn í öllu ferlinu, frá uppskeru plantnanna til lokaafurðarinnar; mjúkrar, jurtalitaðrar hespu af ull sem endurspeglar liti náttúrunnar.

Gestir fá að skoða sjálfa vinnsluna, kíkja í litunarpottana, fræðast um hvernig litirnir verður til og sjá hvernig þeir breytast eftir sýrustigi vatnsins, tímasetningu söfnunar og náttúrulegum efnahvörfum. Þar má einnig skoða gamalt handverk, rýna í uppskriftir og fá innblástur í notalegri setustofu sem minnir á eldhús ömmu.

Í verslun Hespuhússins má kaupa jurtalitað garn, verkfærakits, uppskriftir og gjafavöru sem er unnin af ást og virðingu fyrir efninu. Þar má einnig finna fræðsluefni um litun, náttúru Íslands og tengsl manns og efnis í gegnum aldirnar.

Hespuhúsið er opið klukkan 10-17 alla daga í páskavikunni, nema á páskadag.

Hægt er að heimsækja Hespuhúsið utan opnunartíma eftir samkomulagi með því að hafa samband í síma: 865-2910.

Sviðið - Tónleikar, partý og menningarviðburðir

Sviðið á Selfossi er glæsilegur tónleika- og samkomusalur staðsettur á neðstu hæð Friðriksgáfu, reisulegs samkomuhúss við Brúartorg í nýja miðbæ Selfoss. Þessi fjölnota vettvangur hefur fljótt orðið að miðpunkti menningarlífsins í bænum og býður upp á fjölbreytta dagskrá fyrir alla aldurshópa.

Á Sviðinu fara fram spennandi viðburðir, þar á meðal tónleikar, leiksýningar, partý og aðrir menningarviðburðir. Á miðhæð Friðriksgáfu er skemmtistaðurinn Miðbar, sem býður upp á skemmtilegt andrúmsloft og fjölbreytta afþreyingu. Þetta gerir Friðriksgáfu að kjörnum stað fyrir þá sem vilja njóta menningar og skemmtunar á sama stað.​

Þann 16. og 17. apríl verður Mamma Mia partý á Sviðinu og þann 19. apríl verða fjölskyldutónleikar að deginum og partýtónleikar um kvöldið með Herra Hnetusmjöri.

Fjölmargir spennandi viðburðir eru einnig á dagskrá í framhaldinu. Miðasala fer fram í gegnum heimasíðu Sviðsins.

 

Fischersetrið - Líf skákmeistarans Bobby Fischers

 

Fischersetrið á Selfossi, er einstakt safn tileinkað einum frægasta skákmanni allra tíma Bobby Fischer, heimsmeistara í skák. Safnið er staðsett í nálægð við kirkjugarðinn þar sem Fischer hvílir og býður gestum að kynnast ótrúlegu lífi hans í heimi skáklistarinnar.

Safnið inniheldur fjölbreyttar sýningar sem segja frá ævi og ferli Fischers með áherslu á tímamótaviðureign hans við Boris Spassky árið 1972, viðureign sem breytti ekki aðeins skáksögunni heldur hafði einnig pólitísk áhrif á tímum kalda stríðs. Á safninu má finna persónulega muni Fischers, skákborð og rit, ljósmyndir og fjölmiðlaefni tengt ævi hans.

Fischersetrið er ekki aðeins minnisvarði um einstakan mann heldur líka menningar- og sögustaður sem sameinar áhuga á skák, sögu og persónum sem skildu eftir sig djúp spor.

Hægt er að heimsækja Fischersetrið með því að hafa samband í síma: 894 -1275.

Skyrland - Saga íslenska skyrsins

Skyrland er upplifunarsýning í Mjólkurbúinu á Selfossi. Þar eru gestir leiddir í gegnum þúsund ára sögu íslenska skyrsins á gagnvirkan hátt. Skyrið hefur fylgt þjóðinni frá fyrstu landnámsárum og gegnt mikilvægu hlutverki í daglegu lífi Íslendinga, bæði sem næringarríkur matur og hluti af menningararfi þjóðarinnar.

Gestir hefja ferð sína með því að kynnast fornum sögum tengdum uppruna mjólkur og skyrs og ganga svo inn í torfbæ þar sem skyrið var mikilvægur hluti af lífi íbúa öldum saman. Á leiðinni má upplifa ilminn af íslensku sumri, sjá hvernig skyr var unnið áður fyrr og fræðast um þróunina frá heimatilbúnum mjólkurafurðum til nútíma ofurfæðis sem nýtur vinsælda um allan heim.

Skyrland leggur áherslu á að segja sögu skyrsins á lifandi hátt, þar sem hver gestur getur tengt sig við arfleifðina í gegnum sjón, lykt, hljóð og bragð. Eftir sýninguna er tilvalið að gera sér glaðan dag á Ísey Skyr Bar.

Skyrland er opið klukkan 10-18 alla daga í páskavikunni, nema á páskadag.

 

Myndlistarfélag Árnessýslu og Bókasafn Árborgar - Ljóð og list í heitu pottunum

 

Undanfarin ár hafa Bókasafn Árborgar og Myndlistarfélag Árnessýslu staðið fyrir Ljóð í lauginni og List í lauginni. Að þessu sinni var ákveðið að fara í samstarf og skapa myndverk við valin ljóð.

Afraksturinn má sjá í heitu pottunum í Sundlaug Selfoss og Sundlaug Stokkseyrar. Það er notalegt að láta líða úr sér í heitu pottunum og upplifunin verður enn hugljúfari þegar hægt er að njóta mynd- og ljóðlistar í leiðinni. 

Myndlistarfélag Árnessýslu er öflugur vettvangur fyrir myndlist og skapandi starf á Suðurlandi. Félagið var stofnað með það að markmiði að efla myndlistarlíf í Árnessýslu, styðja við listamenn á svæðinu og auka aðgengi almennings að myndlist.

Með reglulegum sýningum, vinnustofum, fræðsluerindum og fjölbreyttum viðburðum vinnur félagið að því að skapa líflegt og aðlaðandi listalíf í héraðinu. Myndlistarfélagið heldur úti sýningarrými þar sem verk bæði rótgróinna og upprennandi listamanna fá að njóta sín, auk þess sem félagið stuðlar að samstarfi við önnur menningar- og listafélög innanlands og utan.

Sýningin Ljóð og list í pottunum er opin í sundlaugum Árborgar 14.-21. apríl.

 

Gallerý Flói - Glerperlur að fornum sið

Í sveitasælu Flóahrepps leynist Gallery Flói þar sem listakonan Fanndís vinnur með gler sem hún bræðir og formar yfir opnum eldi í glerperlur og aðra listmuni.

Fanndís vinnur einnig með keramik, teikningar, málverk, silfur og önnur hráefni í listsköpun sinni. Fanndís sérhæfir sig í að búa til sögulegar eftirmyndir af glerperlum sem fundist hafa frá tíð Víkinga á Íslandi ásamt hennar eigin nútíma hönnun. Allt í Gallery Flóa er handunnið, einstakt og unnið á staðnum úr úrvals hráefnum.

Gallery Flói er ekki einungis verslun og vinnustofa heldur lifandi rými þar sem gestir fá að skyggnast inn í sköpunarferlið sjálft og tengjast listinni beint. Hver hlutur er einstakur, með sína eigin sögu, og engin heimsókn er eins.

Gallerýið verður opið á skírdag og föstudaginn langa klukkan 10-16:30 og laugardaginn fyrir páska klukkan 10-16.

Þingborg - Heimili ullar, handverks og hefða

 

Þingborg Ullarverslun er einstakur staður fyrir þau sem hafa áhuga á íslenskri ull, handverki og menningararfi. Verslunin hefur verið staðsett í gamla samkomuhúsinu Þingborg og rekin af heimafólki síðan 1991.

Í Þingborg má finna úrval af lopapeysum, prjónavörum, teppum, gærum og lopa úr sérvalinni lambsull. Verslunin leggur áherslu á gæði og hefðir, þar sem ullin er bæði náttúrulega lituð og handlituð, og prjónapakkningar og uppskriftir eru hannaðar af Þingborgarkonum.

Þingborg Ullarverslun hefur þróast frá því að vera sumarverslun yfir í að vera opin allt árið um kring, með áherslu á að skapa atvinnu fyrir konur á svæðinu. Þingborgarkonur velja ullina sjálfar í Þvottastöð Ístex á Blönduósi, sem síðan er þvegin og kembd hjá Ístex í Mosfellsbæ.

Þingborg er opin klukkan 10-17 alla daga í páskavikunni, nema á föstudaginn langa og páskadag.

 

Uppspuni - Íslenskt garn beint frá býli

Uppspuni er fyrsta smáspunaverksmiðja landsins og sannkölluð perla fyrir alla sem unna íslenskri ull, sjálfbærni og handverki. Verksmiðjan er staðsett í blómlegri sveit rétt austan við Þjórsárbrú. Þar hafa hjónin Hulda Brynjólfsdóttir og Tyrfingur Sveinsson byggt upp fjölskyldufyrirtæki sem sameinar hefðbundinn búskap og nýsköpun í ullariðnaði.

Í Uppspuna er garn spunnið úr ull beint frá býli. Garnið fæst í náttúrulegum sauðalitum og er einnig litað með jurtum eða litadufti. Allt vinnuferlið byggir á sjálfbærum og umhverfisvænum aðferðum, þar sem ekkert hráefni fer til spillis. Verksmiðjan nýtir tólf ólíkar vélar sem fullvinna ullina af nákvæmni.

Fyrir ofan verksmiðjuna er hlýleg og notaleg garnbúð, þar sem einstakt garn Uppspuna fæst ásamt fjölbreyttu úrvali handverks og listmuna úr ull. Þar má finna prjónaðar peysur og húfur, þæfða gripi á borð við kindur, geitur og álfa, og jafnvel fá peysu prjónaða eftir máli. 

Uppspuni býður einnig upp á leiðsögn fyrir gesti, þar sem hægt er að fylgjast með vinnsluferlinu, fræðast um sögu íslensku sauðkindarinnar og eiginleika ullarinnar, auk þess að kynnast íslenskum prjónahefðum.

Uppspuni er opinn alla virka daga klukkan 9:30-15 og á laugardaginn fyrir páska klukkan 10-13, lokað á föstudaginn langa og páskadag.

 

Hellarnir við Hellu - Manngerður leyndardómur

Hellarnir við Hellu eru ævafornir, manngerðir hellar og má með sanni segja að fundur þeirra hafi ögrað fyrri hugmyndum um landnám Íslands.

Tólf fornir hellar hafa fundist í landi Ægissíðu við Hellu og er hægt að skoða nokkra þeirra í fylgd leiðsögumanns. Hellarnir eru friðlýstir og innihalda stórmerka krossa, gamlar veggjaristur, myndir, syllur og innhöggvin sæti.

Leyndardómur umlykur hellana og öldum saman hefur fólk velt fyrir sér hvort þeir séu gerðir af pöpum og hve gamlir þeir séu. Fjölskyldan á Ægissíðu vinnur að því að byggja upp og varðveita umhverfi og sögu hellanna í samvinnu við nærsamfélagið og Minjastofnun Íslands.

Hægt er að snæða veglega víkingamáltíð í einum hellanna, framreidda af meistarakokkum Hótel Rangár.

Hellarnir eru opnir alla daga í páskavikunni og ferðir eru klukkan 10-12-14, leiðsögn fer fram á ensku.

 

Midgard - Tónlistarveisla og afmælisgleði

Midgard Base Camp á Hvolsvelli er ekki aðeins gisti- og ævintýrasetur, heldur lifandi vettvangur fyrir menningu og mannlíf þar sem viðburðir skipa stóran sess. Á Midgard skapast einstakt andrúmsloft þar sem tónlist, list, samvera og sköpun fá að blómstra í hlýlegu umhverfi. Allt árið um kring eru þar haldnir fjölbreyttir viðburðir sem höfða jafnt til heimamanna og gesta.

Með reglulegum tónleikum, DJ-kvöldum, dansleikjum, jógaviðburðum, listasýningum og kvikmyndakvöldum stimplar Midgard sig rækilega inn í viðburðarsenuna á Suðurlandi. 

Og nú er komið að sérstaklega hátíðlegu tilefni: Midgard Adventure verður 15 ára þann 16. apríl. Áfanganum verður fagnað með fjölbreyttum viðburðum allt árið, en fyrsta afmælisdagskráin fer fram einmitt á afmælisdaginn. Hátíðin hefst kl. 16:00 með opnu húsi og afmælisköku þar sem gestir geta kíkt við, hitt starfsfólkið og fengið sér sætt og gott. Þá tekur við létt og skemmtilegt pub quiz, og að því loknu byrjar tónlistaveisla með Vinum Midgard. Frítt inn.

Lava Centre - Þar sem eldfjöll og jarðskjálftar lifna við

 

Lava Centre, eldfjalla- og jarðskjálftamiðstöð Íslands, er fjölbreytt afþreyingar- og upplifunarmiðstöð helguð þeim gríðarlegu náttúruöflum sem hófu að skapa Ísland fyrir nærri 20 milljón árum síðan og eru enn að.

Þar lifna eldgos, jarðskjálftar og möttulstrókar við í áhrifaríkri og gagnvirkri sýningu. LAVA Centre býður upp á upplifun sem höfðar til allra aldurshópa og leitast við að skýra hvernig náttúran hefur mótað eldfjallalandið Ísland á mörkum tveggja jarðskorpufleka.

Á sýningunni skynjarðu kraftana sem leynast undir yfirborði jarðar. Þú getur upplifað jarðskjálfta, fylgst með lifandi rauntímagögnum um skjálftahreyfingar og eldgos frá Veðurstofu Íslands og horft á kvikmynd í 4K gæðum sem dregur upp áhrifamikla mynd af eldvirkni Íslands í gegnum aldirnar. Þar er einnig 12 metra há eftirgerð af möttulstróknum sem lyftir landinu og heldur áfram að skapa, eyða og umbreyta.

Lava Centre er opið klukkan 9-17 alla daga í páskavikunni.

 

Eldheimar - Eldgosið sem breytti öllu

Eldheimar er gosminjasýning. Sýningin miðlar fróðleik um eldgosið í Vestmannaeyjum árið 1973, sem án efa telst til stærstu náttúruhamfara Íslandssögunnar.

Skyggnst er inn í mannlífið og umhverfið í Vestmannaeyjum fyrir gos og hvernig náttúruhamfarirnar 1973 gripu inn í samfélagið og líf fólksins. Nær allir íbúar Heimaeyjar urðu að yfirgefa heimili sín í skyndi og flýja eyjuna. Margir sáu húsin sín, sem og megnið af eigum sínum aldrei aftur.

Nú 40 árum síðar er risin gosminjasýningin Eldheimar, sem lýsir þessari atburðarrás á áhrifamikinn hátt. Miðpunktur sýningarinnar er húsið, sem stóð við Gerðisbraut 10. Húsið, sem grófst undir ösku í gosinu, hefur nú verið grafið upp. Hægt er að sjá á áhrifamikinn hátt dæmi um hvernig náttúruhamfarirnar fóru með heimili fólks.

Safnið er opið klukkan 13-16:30 alla daga í páskavikunni.

Sea Life Trust - Öruggt skjól dýra

 

 

SEA LIFE Trust Beluga Whale Sanctuary er fyrsta dýraathvarfið í heiminum sem veitir hvölum sem áður voru notaðir í sjávardýrasýningar upp á öruggt og náttúrulegt heimili. 

Skjólið er staðsett í Klettsvík í Vestmannaeyjum og er rekið af góðgerðarsamtökunum SEA LIFE Trust með stuðningi frá Merlin Entertainments og Whale and Dolphin Conservation.

Skjólið hýsir nú tvo mjaldra, Litlu Hvít og Litlu Grá, sem voru áður í haldi í Kína. Þeir voru fluttir yfir 6.000 mílur til Íslands árið 2019 og búa nú í 32.000 fermetra sjókví sem veitir þeim meira frelsi og náttúrulegra umhverfi en áður. Markmiðið er að bæta velferð hvalanna, stuðla að rannsóknum og fræðslu og vernda mjaldra í náttúrunni.

Í gestamiðstöð Sea Life Trust geta gestir fræðst um ferðalag mjaldranna frá Kína til Íslands, skoðað staðbundið sjávarlíf og heimsótt lundabjörgunarstöð sem sinnir veikum og slösuðum lundum. Allur ágóði af miðasölu rennur til stuðnings við dýrin í skjólinu og starfsemi þess.

Sea Life Trust er opið klukkan 11-15 alla daga í páskavikunni.

 

Skógasafn - Frá torfbæjum til tækni

Skógasafn er eitt stærsta minjasafn Íslands. Það varðveitir ríkulegan menningararf Rangæinga og Vestur-Skaftfellinga, allt frá landnámi til samtímans, og býður gestum upp á einstaka sýn inn í íslenskt samfélag.

Byggðasafnið: Þar má finna yfir 18.000 muni sem tengjast daglegu lífi, atvinnuháttum og menningu fyrri kynslóða. Þar eru meðal annars gripir sem tengjast landbúnaði, sjósókn, handverki, vefnaði, tónlist og trúarbrögðum sem veita dýrmætan skilning á lífsháttum Íslendinga í gegnum tíðina. Einnig eru þar einstakar bækur og handrit, þar á meðal Guðbrandsbiblía frá 1584 og fjölmargir munir frá víkingaöld.
 

Húsasafnið: Á útisvæði safnsins eru endurgerðir á hefðbundnum húsum fyrri tíma. Torfbæir, timburhús, kirkja og gamall skóli mynda heillandi sýningu sem sýnir á einstakan hátt hvernig fólk bjó, vann og lifði í harðbýlu landi. Húsin eru flest frá 19. og 20. öld og voru flutt frá ýmsum stöðum á landinu til varðveislu og sýningar.

Samgöngusafnið: Þar er sögu íslenskra samgangna gerð góð skil. Þar má finna fornbíla, mótorhjól, dráttarvélar, gömul vegagerðartæki, sleða, fjarskiptabúnað og margt fleira sem sýnir þróun tækni og samgangna frá 19. öld til dagsins í dag. 

Skógasafn er opið klukkan 10-17 alla daga í páskavikunni, nema á páskadag.

 

Kötlusetur - Mótun lands og lífs

 

Kötlusetur er menningar- og fræðslusetur í hjarta Víkur. Þar má fræðast um kraftmikil náttúruöfl og sögu fólksins á svæðinu. Setrið er staðsett í hinu sögufræga húsi Brydebúð og gegnir einnig hlutverki upplýsingamiðstöðvar Kötlu jarðvangs.

Á Kötlusetri eru sýningar um jarðfræði svæðisins, sérstaklega eldfjallið Kötlu sem kraumar undir Mýrdalsjökli. Gestir geta skoðað hraun og ösku, fengið að snerta jarðefni og fræðst um hvernig eldgos hafa haft áhrif á náttúru og samfélag í gegnum aldirnar.

Ein deild safnsins, Hafnleysa, er tileinkuð sjóminjasögu svæðisins. Þar eru sagðar sögur af skipsbrotum og áskorunum sem sjómenn á Suðurströnd Íslands stóðu frammi fyrir á árum áður. Hápunktur sjóminjasafnsins er saga skipsins Skaftfellings, sem hafði mikilvægu hlutverki að gegna í þróun samfélagsins í Vík.

Í Sigrúnarstofu eru sýnd verk eftir Sigrúnu Jónsdóttur, kirkjulistakonu, sem hafði mikil áhrif á samfélagið. Sigrún var ein helsta baráttukona þess að bjarga skipinu Skaftfellingi frá skemmdum og koma honum til varðveislu í Vík.

Kötlusetur er opið klukkan 12-17 alla daga í páskavikunni, nema á föstudaginn langa, páskadag og annan í páskum.

 

Lava Show - Hraunrennsli í beinni

Lava Show er einstök og verðlaunuð sýning sem býður gestum að upplifa raunverulega hraunrennsli í öruggu umhverfi innandyra.

Í sýningunni er hraun hitað upp í allt að 1100°C (2000°F) og látið renna yfir sérstakt yfirborð, sem gerir gestum kleift að sjá, heyra og finna fyrir hita hraunsins. Þessi sýning er ekki aðeins sjónræn upplifun heldur einnig fræðandi, þar sem gestir fá innsýn í jarðfræði og áhrif eldgosa á landslag Íslands.

Lava Show hefur hlotið viðurkenningar fyrir nýsköpun og menntagildi og veitir gestum einstakt tækifæri til að sjá hraunflæði í návígi.

Sýningin er haldin á tveimur stöðum á Íslandi: í Reykjavík og í Vík í Mýrdal. Á báðum stöðum er boðið upp á fræðandi kynningar og einstaka upplifun sem höfðar til allra aldurshópa.

Sýningar hjá Lava Show í Vík verða klukkan 11-13-15-17-19 alla daga í páskavikunni.

 

Skaftárstofa - Nútímaleg gestastofa fyrir forvitna ferðalanga

 

Skaftárstofa er gestastofa Vatnajökulsþjóðgarðs fyrir vestursvæði hans og staðsett rétt við Kirkjubæjarklaustur. Hún er mikilvægur upplýsingavettvangur fyrir ferðalanga sem vilja kynnast náttúru og sögu svæðisins, og veitir innsýn í eitt áhrifamesta eldfjalla- og jökulsvæði Íslands.

Gestir Skaftárstofu fá þar upplýsingar um náttúrufyrirbæri á borð við Lakagíga, Eldgjá og Langasjó, sem öll eru þekkt fyrir jarðfræðileg sérkenni og stórbrotið landslag. Þar er einnig hægt að fá leiðsögn um gönguleiðir, veðurfarsaðstæður, aðgengi og öryggismál, allt sem skiptir máli þegar lagt er upp í ferð í íslenska náttúru.

Gestastofan sjálf er nútímaleg og aðlaðandi bygging, með fallegum sýningarrýmum og aðstöðu fyrir gesti. Hún er opin daglega og þjónar bæði ferðamönnum og vísindafólki, auk þess að vera vettvangur fyrir viðburði og fræðsluviðtöl. Þar er einnig veitt ráðgjöf um gönguleiðir í þjóðgarðinum og ástand slóða og vegakerfis í nærliggjandi svæðum.

Skaftárstofa hýsir sýninguna „Vorferð“ sem unnin er af Jöklarannsóknafélagi Íslands. Hún dregur upp mynd af merku starfi félagsins sem hefur um áratugaskeið rannsakað jökla, eldgos og umhverfisbreytingar. 

Skaftárstofa er opin klukkan 9-16:30 alla daga í páskavikunni.

 

Skaftafellsstofa - Fræðslumiðstöð við þjóðgarðinn

Skaftafellsstofa er opin allan ársins hring og veitir gestum fræðslu og upplýsingar um svæðið við Vatnajökul.

Vatnajökull er stærsti jökull Íslands og sá næststærsti í Evrópu. Hann þekur um 8% af flatarmáli landsins og nær yfir mörg eldfjöll, dali og ótrúlega fjölbreytt landslag.

Á svæðinu í kringum Vatnajökul er margt að upplifa – hvort sem fara á í gönguferð að jökultungum eins og Skaftafellsjökli, skoða Jökulsárlón og íshella á veturna, eða einfaldlega dást að víðáttunni úr fjarska.

Í Skaftafellsstofu eru upplýsingar um jarðfræði og náttúru í Skaftafelli. Sýnd er mynd um suðursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs og einnig er hægt að skoða muni úr örlagaríkum leiðangri breskra háskólastúdenta árið 1952.

Í Skaftafellstofu er minjagripaverslun með bækur, póstkort og handverk. Lögð er áhersla á íslenskar vörur og muni sem tengjast byggðarlaginu. Þar er einnig hægt að kaupa fræðslumynd um flóð Skeiðarárjökuls árið 1996.

Skaftafellsstofa er opin klukkan 9-17 alla daga í páskavikunni.

 

Þórbergssetur - Heimur skáldsins á Hala

 

Þórbergssetur í Suðursveit er safn tileinkað rithöfundinum Þórbergi Þórðarsyni (1888-1974). Þetta magnaða safn er staðsett við fæðingarstað Þórbergs á Hala og fer ekki framhjá vegfarendum þar sem hlið hússins sem snýr að hringveginum er þakin bókatitlum skáldsins.

Þórbergur hafði sinn eigin sérstæða stíl í íslenskum bókmenntum. Hann var kunnur fyrir beittan húmor, kaldhæðni og sterka tengingu við sveitalífið. Hann blandaði saman frásögnum af lífi sínu, þjóðsögum og samfélaginu á einstakan hátt. Verk hans, eins og Ofvitinn og Bréf til Láru, ögruðu hefðbundnum gildum og fönguðu andrúmsloft breytinga á Íslandi. Áhrif Þórbergs á bókmenntir og menningu landsins eru ómæld.

Á safninu má kynnast lífi og skrifum Þórbergs ásamt sögu og menningu Suðursveitar. Sagan vaknar til lífsins á safninu með handritsbrotum, minningum Þórbergs og gagnvirkum sýningum. Að auki er Þórbergssetur menningarmiðstöð þar sem fjölbreyttir viðburðir og fyrirlestrar eru haldnir. Þar er veitingahús með frábærum mat og stórbrotnu útsýni um Suðursveit.

Þórbergssetur er opið klukkan 7:30-20 alla daga í páskavikunni.

 

Bókasöfn á Suðurlandi

Bókasöfn eru ekki einungis staður til að leigja bækur, þau eru samfélagsstaðir. Mörg þeirra halda fjölbreytta dagskrá bókaupplestra og menningarviðburða. Opnunartími safnanna er misjafn í dymbilviku og best að setja sig í samband við söfnin áður en þau eru heimsótt.

 

Hjartstláttur samfélagsins

Menning er meira en saga, listir og hefðir, hún er hjartsláttur samfélagsins. Hún heldur utan um sögur fólksins sem byggði landið, speglar gildi og venjur samtímans og leggur grunn að því sem koma skal. Hún skapar samhengi og samhug, kennir okkur að meta fjölbreytileika, eflir sköpunargleði og stuðlar að lýðræðislegri þátttöku. 

Leyfum menningarhjartanu að slá um páskana!