Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Frábær Ferðaþjónustuvika 2025 að baki

Það var mikið um dýrðir í Ferðaþjónustuvikunni dagana 14.-16. janúar sl. Boðið var upp á fjölmarga viðburði og má þar nefna Nýársmálstofu og Markaðssamtal ferðaþjónustunnar, Ferðatæknimót, Dag ábyrgrar ferðaþjónustu og málþing um slys í ferðaþjónustu auk viðbragða við þeim. Vikan endaði svo með einum af stærsta viðburði íslenskrar ferðaþjónustu, Mannamótum Markaðsstofa landshlutanna sem hefur aldrei verið fjölmennari en í ár. Að því loknu var botninn sleginn úr vikunni með glæsilegu boði á Telebar Parliament Hóteli.
Það var fjölmennt á Mannamótum landshlutanna í Kórnum í Kópavogi þann 16. janúar 2025.
Það var fjölmennt á Mannamótum landshlutanna í Kórnum í Kópavogi þann 16. janúar 2025.

Sunnlensk fyrirtæki voru áberandi í Ferðaþjónustuvikunni og má þar helst nefna að tvö sunnlensk fyrirtæki, Midgard Adventure og Local Guide of Vatnajökull, voru í topp þrjú af ellefu tilnefndum fyrirtækja til hvatningarverðlauna á Degi ábyrgrar ferðaþjónustu. Auk þess var hið rótgróna fyrirtæki Guðmundur Jónasson ehf – GJ Travel í þeim hópi, og er fyrirtækið handhafi hvatningarverðlaunanna í ár. Verðlaunin voru nú veitt í sjöunda sinn og er markmið þeirra að efla hæfni og þekkingu stjórnenda í sjálfbærri og nærandi ferðaþjónustu. Var GJ-Travel einstaklega vel að verðlaununum komið, enda hefur það í 94 ár verið leiðandi í ábyrgri ferðaþjónustu þar sem vernd íslenskrar náttúru og stuðningur við nærsamfélagið hefur verið í forgrunni. Frú Halla Tómasdóttir forseti Íslands, sem jafnframt er verndari viðburðarins, afhenti fyrirtækinu verðlaunin og fór í leiðinni með hvatningarorð til atvinnugreinarinnar.

Óskar Markaðsstofa Suðurlands Guðmundi Jónassyni ehf. innilega til hamingju með verðlaunin, og öllum þremur fyrirtækjum með tilnefninguna.

Málþing um öryggismál í ferðaþjónustu sem bar yfirskriftina "Hvað vitum við um slys í ferðaþjónustu" var haldið á Berjaya Reykjavík Natura þann 15. janúar. Dagbjartur Brynjarsson, sérfræðingur Ferðamálastofu, fjallaði um áhersluatriði er varða bætt öryggi ferðamanna í ferðamálastefnu og aðgerðaáætlun til ársins 2023 og Oddný Þóra Óladóttir, sérfræðingur á rannsóknarsviði Ferðamálastofu, fjallaði um skráningu slysa sem eiga sér stað á meðal ferðamanna í íslenskri náttúru. Athygli vakti hvað það er í reynd lítil vitneskja um slys á ferðamönnum og virkileg þörf á bættum verkferlum í skráningum þeirra, sem og atvikum þar sem verða nær slys á meðal ferðamanna á Íslandi. Húsfyllir var á málþinginu og vöktu bæði erindin miklar umræður gesta, sem sýndi að mikil þörf er á umræðum og umbótum um öryggismál í ferðaþjónustu á Íslandi.  

Hægt er að lesa nánar um viðburðinn hér: https://www.ferdamalastofa.is/is/ferdathjonustuvikan-1/hvad-vitum-vid-um-slys-i-ferdathjonustu

Mannamót Markaðsstofanna

Nú í ár voru Mannamót Markaðsstofa landshlutanna haldin í 10. sinn, og er óhætt að segja að viðburðurinn hafi farið stækkandi frá ári til árs. Markmiðið með viðburðinum er kynna starfsemi landsbyggðarfyrirtækja fyrir ferðaþjónustuaðilum á höfuðborgarsvæðinu, sem og einnig erlendum gestum sem í auknum mæli eru farnir að sækja viðburðinn. Ferðaþjónustan á Suðurlandi lét ekki sitt eftir liggja á Mannamótun og mættu um 70 fyrirtæki til leiks að þessu sinni. Alls voru fyrirtæki um 250 talsins sem kynntu sína þjónustu og er talið að gestir hafi verið um 1100 talsins. Er því áætlað að um 1600 manns hafi komið í Kórinn í Kópavogi þennan daginn til að kynna sér allt þar sem Ísland hefur upp á að bjóða allan ársins hring.

Isavia og Norlandair eru stórir styrkaraðilar Mannamóta Markaðsstofanna og færum við þeim okkar bestu þakkir fyrir. Sömuleiðis öllum sýnendum, gestum og fagaðilum sem að viðburðinum komu. Framtíðin í ferðaþjónustu er björt og við hlökkum nú þegar til að Mannamóta 2026!