Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Áfangastaðaáætlun Suðurlands uppfærð

Áfangastaðaáætlun Suðurlands hefur nú verið birt í nýjustu uppfærslu. Áætlunin er byggð á víðtæku samráði og endurspeglar þannig sýn fjölbreytts hóps hagaðila tengdum ferðaþjónustu á Suðurlandi.
Kerlingarfjöll - Páll Jökull Pétursson
Kerlingarfjöll - Páll Jökull Pétursson

Áfangastaðaáætlun Suðurlands hefur nú verið birt í nýjustu uppfærslu. Áætlunin er byggð á víðtæku samráði og endurspeglar þannig sýn fjölbreytts hóps hagaðila tengdum ferðaþjónustu á Suðurlandi.

Hvað er áfangastaðaáætlun?

Áfangastaðaáætlun er heildstæð áætlanagerð með ferðaþjónustuna sem útgangspunkt. Áætlunin er byggð á víðtæku samráði og endurspeglar þannig sýn fjölbreytts hóps hagaðila tengdum ferðaþjónustu. Tilgangurinn með áfangastaðaáætlun er að stuðla að ábyrgri ferðaþjónustu með sjálfbærni að leiðarljósi sem styrkir efnahag samfélaga, bætir lífsgæði íbúa, bætir upplifun ferðamanna og dregur úr mögulegum neikvæðum áhrifum frá ferðaþjónustu.

Tilgangurinn með áfangastaðaáætlun er að stuðla að ábyrgri ferðaþjónustu með sjálfbærni að leiðarljósi

Áfangastaðurinn Suðurland

Hugtakið áfangastaðaáætlun getur vafist fyrir lesendum og kunna einhverjir að halda að um sé að ræða forgangsröðun á uppbyggingu einstakra áfangastaða. Hins vegar er áfangastaður í þessu samhengi landshlutinn í heild sinni. Ætlunin með Áfangastaðaáætlun Suðurlands er að efla Suðurland sem áfangastað ferðamanna.

Samfélag, umhverfi og ferðaþjónusta

Í Áfangastaðaáætlun Suðurlands er framtíðarsýn ferðaþjónustunnar sett fram ásamt markmiðum í þremur flokkum: Samfélag, umhverfi og ferðaþjónusta. Markmiðin byggja á því að atvinnugreinin þjóni hagsmunum náttúrunnar og íbúa landshlutans í takt við sjálfbæra þróun.

Unnið í breiðu samstarfi

Ferðamálastofa og Stjórnstöð ferðamála hófu árið 2016 vinnu við gerð áfangastaðaáætlana fyrir alla landshluta í samvinnu við Markaðsstofur Landshlutanna. Í kjölfarið hafa Markaðsstofur landshlutanna farið með verkefnisstjórn áætlanagerðarinnar á sínum svæðum. Markaðsstofa Suðurlands annast Áfangastaðaáætlun Suðurlands í samstarfi við ferðaþjónustuaðila, íbúa og sveitarfélög á Suðurlandi.

Í stöðugri þróun

Áfangastaðaáætlanir eru uppfærðar reglulega. Við gerð fyrstu Áfangastaðaáætlunar Suðurlands var landshlutinn til dæmis í miklu viðbragði vegna örs vaxtar í komum erlendra ferðamanna en gjörólík staða var uppi við uppfærslu áætlunarinnar 2020 vegna Covid-19 heimsfaraldursins. Þegar horft er til baka hefur margt áunnist, mikil uppbygging átt sér stað og samstarf innan greinarinnar eflst. Þó stöndum við enn frammi fyrir áskorunum á borð við álag á grunnþjónustu og innviði. Þróun ferðaþjónustu mótast af fjölmörgum þáttum og því er mikilvægt að vakta hvernig landshlutinn stendur gagnvart markmiðum sínum og endurmeta þörf á aðgerðum reglulega.

Áfangastaðaáætlun á erindi við þig

Til þess að framtíðarsýn Áfangastaðaáætlunar Suðurlands verði að veruleika þurfa hagaðilar að leggja sitt af mörkum og vinna þær aðgerðir sem snúa að þeim. Saman geta hagaðilar ferðaþjónustunnar á Suðurlandi náð þeim markmiðum sem sett hafa verið fram og þar með framtíðarsýninni.

Sveitarfélög:

Geta nýtt sér Áfangastaðaáætlun Suðurlands þegar verið er að vinna að skipulagsmálum. Verið með ferðamálafulltrúa eða sambærilegan starfsmann og tekið þátt í samstarfi við Markaðsstofu Suðurlands um eflingu landshlutans sem áfangastaðar fyrir ferðamenn.

Stofnanir og stoðþjónusta:

Geta nýtt sér áfangastaðaáætlanir landshlutanna og gætt þess að eiga samráð við svæðin áður en farið er í ákvarðanatöku sem getur haft áhrif á ferðaþjónustu.

Ferðaþjónustufyrirtæki:

Geta nýtt sér hugmyndir og áherslur í áfangastaðaáætlun. Meðal annars hvernig huga skal að gæðum, menntun og þjálfun starfsfólks og átt gott samtal og samvinnu við önnur ferðaþjónustufyrirtæki og íbúa. Greiningar á áfangastaðnum geta einnig gagnast frumkvöðlum við að greina vannýtt tækifæri.

Íbúar:

Áfangastaðaáætlun varpar ljósi á ferðaþjónustu í landshlutanum. Það getur verið gagnlegt fyrir íbúa að kynna sér áhrif ferðaþjónustu á samfélag, efnahag og náttúru. Íbúar geta haft áhrif á þróun greinarinnar og tekið þátt í að efla landshlutann á fjölbreyttan hátt.

 

Þú getur haft áhrif á þróun ferðaþjónustu á Suðurlandi. Byrjaðu á að kynna þér Áfangastaðaáætlun Suðurlands!

Smelltu hér: Skoða vef áfangastaðaáætlunar í nýjum glugga

 

Forsíða áfangastaðaáætlunar (mynd) - Á myndinni er Almannagjá og titillinn: Áfangastaðaáætlun Suðurlands, sjálfbært Suðurland.