Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Margar spennandi jarðminjar eru innan Kötlu jarðvangs og bjóða þær upp á margvíslega jarðfræði og oft glæsilegt útsýni. Staðirnir á þessum lista eiga það sameiginlegt að vera nálægt þjóðveginum og aðgengilegar flestum. Það eru einnig fjölmörg önnur jarðvætti sem bjóða upp á mikilfenglega jarðfræði innan jarðvangsins og er hægt að finna þær á heimasíðu jarðvangsins. Jarðfræðileiðin er skipt upp í tvær leiðir, eystri og vestri. Vestri leiðin liggur á milli Hvolsvallar og Víkur og er ferðatíminn á milli staðanna um tvær klukkustundir. Eystri leiðin liggur frá Vík austur fyrir Kirkjubæjarklaustur og tekur einnig um tvær klukkustundir að fara þessa leið. Hvor leið er því frábær sem dagsleið, en við mælum með að gista einhversstaðar ef báðar leiðirnar eru teknar í einu.

 

 

Markarfljót og Landeyjarsandur
Aurar Markarfljóts eru mikið sjónarspil, en á leiðinni að Landeyjarhöfn er viðkomustaður þar sem hægt er að virða fyrir sér aurana. Fjaran við Landeyjarhöfn er einnig glæsileg, oft með stórum öldum og fallegum sandöldum. Þá er útsýnið yfir Vestmannaeyjar ekki af verri endanum, þegar skyggnið er gott.

 

 

 

 

Steinahellir
Er lítill móbergshellir með mikla sögu. Þá er umhverfið í kringum hellinn ekki verra, en þar má sjá fjöldann allan af stórum björgum sem hafa hrunið úr Eyjafjöllum á síðustu árþúsundum. Holtsós er einnig nálægt hellinum og getur verið gaman að virða hann og nærsvæði hans fyrir sér.

 

 

 

 

Eyjafjallajökull
Upplagt er að kíkja á Eyjafjallajökul á meðan jökullinn er enn í vetrarham. Nýtt bílastæði er komið hægra megin við þjóðveginn, rétt áður en komið er að Þorvaldseyri, og gott útsýni þaðan yfir jökullinn sem og svæðið í kring. Þaðan er útsýnið yfir Steinafjall einnig mjög gott, en lagskiptingin á milli móbergs- og hraunlaga er vel greinileg þar.

 

 

 

Sólheimajökull
Hægt er að ganga nokkuð langt að jöklinum án þess að þurfa útbúnað og er svæðið fyrir framan jökulsporðinn gullfallegt. Jökullón með ísjökum hefur myndast fyrir framan jökullinn og þá er áhugavert að skoða hversu mikið jökullinn hefur hopað undanfarin ár. Jökullandslag svæðisins er einnig glæsilegt og má sjá þónokkuð af jökulminjum þar.

 






 

Pétursey
Pétursey er einn af þó nokkrum stöpum sem má finna innan jarðvangsins. Fallegar móbergsmyndanir eru víða í stapanum og þá er lítill hellir, Eyjahellir, norðan megin í honum. Óstikuð gönguleið liggur upp á stapann frá litlu bílastæði vestan við hann.

 




 

Dyrhólaey
Stórbrotið útsýni og fallegar jarðmyndanir einkenna Dyrhólaey og með miklu fuglalífi. Ófært er upp á efri eyjuna, en það er stórt og gott bílastæði á Lágey og göngustígar sem liggja þaðan upp á Háey. Móbergsmyndanir, stuðlaberg og strandeyðing er meðal þess sem hægt er að virða fyrir sér á eynni, og þá er mikið af jarðmyndunum á leiðinni að eynni.









Reynisfjara

Er ein frægasta fjara á landinu enda stórbrotin strönd með fallegu útsýni yfir Reynisdranga og Dyrhólaey. Einnig er að finna glæsilegar jarðmyndanir í Reynisfjalli sem liggur að ströndinni. Munið að fara ekki of nálægt flæðarmálinu og þá getur grjót hrunið úr litla hellinum við ströndina.

 

 




 

Reynisfjall
Er glæsilegur móbergshryggur við Vík. Gönguleið liggur upp á fjallið úr gamla bænum í Vík og er útsýnið þaðan yfir Reynisdranga og Dyrhólaey með því betra sem gerist. Það er mikið um móbergsmyndanir og stuðlaberg í fjallinu, og þá má finna bólstraberg við fjallið í Víkurfjöru.

 




 

Hjörleifshöfði
Hjörleifshöfði er einn fegursti móbergsstapi á Íslandi og með merka sögu. Lítið bílastæði er vestan megin við höfðann og byrjar gönguleið upp á höfðann þaðan. Þá er einnig þess virði að ganga eða keyra suður fyrir höfðann, en þar er stór móbergshellir og fallegt útsýni yfir Kötlutanga

 








Álftaversgígar
Eru gervigígaþyrping sem myndaðist í gosinu úr Eldgjá í kringum árið 939. Landbrotshólarnir urðu til þegar hraun rann yfir mýrlendi, en þá myndast mikill gufuþrýstingur undir hrauninu sem á endanum brýst í gegnum hraunið og myndar gervigíga. Þá er útsýnið yfir Mýrdalsjökul, Hafursey og Mýrdalssand með eindæmum gott þaðan.




 

 


Laufskálavarða
Er hraunhryggur með vörðuþyrpingum allt í kring, en sagan segir að hver sá sem fór í fyrsta sinn um Mýrdalssand skyldi hlaða þar vörðu sér til fararheilla. Hryggurinn er á milli Hólmsár og Skálmar, við þjóðveginn norðan byggðar í Álftaveri, og er glæsilegt útsýni þaðan yfir fjöllin í kring.

 





 

Skaftáreldahraun
Er næst stærsta hraungos á Íslandi frá landnámi, aðeins gosið í Eldgjá var stærra, og myndaðist í gosinu í Lakagígum á árunum 1783-84. Hraunið er nú að miklu leyti þakið mosa og gefur því mjög fallegt útlit. Rétt áður en komið er að Kirkjubæjarklaustri er áfangastaður með útsýnispalli, þar sem gott útsýni er yfir Fjaðrárgljúfur, Landbrotshóla og Lómagnúp.

 



 


Fjaðrárgljúfur
Er stórt og mikið gljúfur með fallegum móbergsmyndunum og rennur áin Fjaðrá þar nú í gegn. Móbergið sjálft er um 2 milljón ára gamalt, en gljúfrið var grafið af jökulá við lok síðasta jökulskeiðs. Gönguleið er meðfram gljúfrinu og er útsýnið stórkostlegt.





 


Landbrotshólar
Eru líka gervigígaþyrping sem myndaðist í gosinu úr Eldgjá.. Landbrotshólarnir eru mikið grónir en þó má sjá opnur í nokkrum þeirra og jafnvel niður í gegnum gíginn. Svæðið sjálft er fallegt, enda Skaftá ekki langt í burtu og þá má sjá þversnið af Bjarnargarði við Hótel Laka, en í garðinum er fjöldann allan af gjóskulögum að finna.



 

 


Systravatn
er lítið stöðuvatn sem er ofan á fjallsbrúninni við Klaustur. Úr vatninu rennur áin Fossá og í henni er fossinn Systrafoss sem fellur fram af fjallsbrúninni og sést vel úr þorpinu. Við vatnið má sjá breytingar í vatnshæð stöðuvatnsins og þá er útsýnið af fjallinu glæsilegt, t.d. yfir Skaftá og svörtu sandana sem henni fylgja.

 





 

Dverghamrar
Dverghamrar eru skammt austan við Foss á Síðu. Þetta eru sérkennilegir og fagurlega formaðir stuðlabergshamrar úr blágrýti. Landslagið er talið hafa fengið á sig þessa mynd við lok ísaldar. Þá var sjávarmál hærra og er talið að brimsvörfun hafi valdið þessu sérkennilega útliti hamranna. Orustuhóll er nokkuð austan við Dverghamra og er það þess virði að kíkja þangað líka, og þá eru alveg magnaðar móbergsmyndanir í fjöllunum í kring.

 

Nóg er af hótelum og tjaldstæðum innan Kötlu jarðvangs og fyrir frekari upplýsingar um fossa, jarðvættin, gönguleiðakort, og gistingu er hægt að kíkja inn á www.Katlageopark.is.

Hér getur þú fengið prentvæna útgáfu af leiðinni.