Við höfum tekið á móti gestum að skoða Geiturnar okkar núna í 3 ár og erum með mikla reynslu með hæstu einkunn inn á airbnb sem er 5, hægt er að lesa usagnir þar.
Best er að panta í gegnum airbnb undir vist icelandic goat. Ath Geitaskoðun er alla dag á sumrin kl 17.30 og eftir þörfum á veturnar.
Það sem er gert í geitaskoðun, við förum inn á tún til þeirra og inn í geitahús ef slæmt er veður fræðumst um sögu íslenskra geita hvernig þær voru fluttar til Íslands og hvernig þær voru notaðar. Einnig er gaman að klappa þeim gefa hey og hjálpa mér við vinnuna ef fólk vill. Gaman er líka að taka selfie með geit eða kiðling. Skoðun getur tekið frá 45 mín til 60 mín. Þessi upplifun er kjörin fyrir börn þar sem geiturnar eru allar góðar og hægt er að treysta þeim.
Íslenska geitin er tegund í útrýmingarhættu og við erum ein af bændunum sem vinna að því að vernda og viðhalda geitastofninum á Íslandi.
Talið er að geitfé hafi fyrst borist til Íslands með landnámsmönnum og hafi verið hér án innblöndunar í um 1100 ár. Ekki er mikið vitað um stöðu íslenska geitfjárstofnsins fyrstu árhundruð Íslandsbyggðar, enda lítið fjallað um geitfé í rituðum heimildum. Þó er minnst á geitfé í fornbókmenntum til dæmis í Snorra-Eddu, Ljósvetningasögu og Landnámu. Í Snorra-Eddu er sagt frá því að þrumuguðinn Þór átti tvo hafra þá Tanngrisnir og Tanngnjóstur sem drógu vagninn hans. Þar segir einnig frá geitinni Heiðrúnu en úr spenum hennar rann mjöður mikill sem bardagamenn Valhallar drukku af góðri lyst. Örnefni dregin af geitum eru algeng um landið eins og til dæmis Geitafell, Geitasandur, Hafursá, Kiðafell og Kiðjaberg.
Fornleifafræðilegar greiningar á dýrabeinum sýna að á 9. og 10. öld voru geitur á flestum bæjum en þeim fór fækkandi eftir það. Við upphaf 13. aldar voru geitur orðnar sjaldgæfar en á móti fjölgaði sauðfé. Í dag finnast geitur í öllum landshlutum nema á Vestfjörðum og er geitfjáreign afar dreifð. Geitastofninn telst vera í útrýmingarhættu en í árslok 2016 taldi stofninn 1188 vetrarfóðraðar geitur í 104 hjörðum (tekið af vefsíðu geit.is).