Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Vestnorden ferðakaupstefnan haldin í 40. skipti!

Markaðsstofa Suðurlands tók þátt í ferðakaupstefnunni VestNorden Travel Mart sem fór fram á Akureyri dagana 30. september - 1. október sl. Átti sýningin 40 ára afmæli að þessu sinni og var þetta í sjötta skiptið sem Vestnorden var haldið á Akureyri.

Kaupstefnan er samstarfsverkefni Íslands, Færeyja og Grænlands undir merkjum NATA – North Atlantic Tourism Association. Að þessu sinni sóttu rúmlega 550 gestir kaupstefnuna, þar af kaupendur frá um 30 löndum víðsvegar að úr heiminum. Er hún því afar mikilvægur vettvangur fyrir íslenska ferðaþjónustu til að kynna sig og þá þjónustu sem hér er í boði. Einnig er hún góður vettvangur til að koma mikilvægum skilaboðum um íslenska ferðaþjónustu til kaupenda, en í ár var megináhersla lögð á ábyrga ferðahegðun og sjálfbæra þróun sem endurspeglar stefnu íslenskrar ferðaþjónustu.

Markaðsstofan átti fundi með rúmlega 70 aðilum á kaupstefnunni og var mikill áhuga á Suðurlandinu nú sem áður. Það sem vakti helst athygli okkar í ár er hversu margir vildu fá að vita um áfangastaði sem væru utan alfaraleiðar, sem og fá hugmyndir að lengri dvöl á hverju svæði. Er þetta þróun sem helst í hendur við þá vinnu sem fram hefur farið við að gestir okkar ferðist hægar og dvelji lengur, og fögnum við þessu því mjög. Líkt og í fyrra voru fundagestir einnig mjög áhugasamir um Eldfjallaleiðina og sáu tækifæri í að þróa eigin ferðaframboð út frá henni.

Akureyri tók fallega á móti okkur með dansandi norðurljósum í upphafi Vestnorden og endaði kaupstefnan á glæsilegum ferðum í boði Norðlenskra fyrirtækja sem og einstökum lokakvöldverði í íþróttahöllinni þeirra. Kaupstefnan er haldin annað hvert ár á Íslandi og annað hvert ár til skiptis í Færeyjum og á Grænlandi. Var tilkynnt að hún verður haldin Í Nuuk í Grænlandi að ári.

Meðfylgjandi eru nokkrar myndir frá VestNorden á Akureyri.