Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Vestnorden 2022 og vinnustofur í Bandaríkjunum

Markaðsstofa Suðurlands tók þátt í ferðakaupstefnunni Vestnorden daganna 19. – 22. september s.l. Að þessu sinni fór kaupstefnan fram í Nuuk í Grænlandi en hún fer fram á Íslandi annað hvert ár og til skiptis í Færeyjum og Grænlandi þess á milli. Skráðir kaupendur voru rúmlega 150 og seljendur um 100. Sex sunnlensk fyrirtæki voru meðal sýnenda.
Nejra Mesetovic og Stefán Friðrik Friðriksson verkefnastjórar hjá Markaðsstofu Suðurlands
Nejra Mesetovic og Stefán Friðrik Friðriksson verkefnastjórar hjá Markaðsstofu Suðurlands

Markaðsstofa Suðurlands sendi tvo starfsmenn að þessu sinni sem skilaði sér í rúmlega 40 fundum við hina ýmsu aðila og fyrirtæki. Greinilegt var að mikill áhugi var á Suðurlandi og kynnti Markaðsstofan það helsta í nýjungum ásamt því að minna á önnur fyrirtæki, áfangastaði og náttúruperlur.

Markaðsstofan mun á næstu dögum fylgja fundunum eftir með því að senda kaupendunum þær upplýsingar sem óskað var eftir og koma þeim í samband við samstarfsaðila eftir atvikum. Sömuleiðis verður sendur upplýsingapóstur til samstarfsaðila þar sem stiklað verður á stóru um það sem fram fór á hverjum fundi fyrir sig og þar geta samstarfsaðilar séð möguleg sóknartækifæri í samstarfi við kaupendur.

Næst mun Vestnorden fara fram í Reykjavík daganna 17. – 19. október 2023 og að sjálfsögðu mun Markaðsstofa Suðurlands taka þátt.

Í byrjun september tók fulltrúi Markaðsstofunnar einnig þátt í vinnustofum á vegum Íslandsstofu í þremur borgum í Bandaríkjunum, Raleigh/Durham, Denver og Minneapolis. Gestir vinnustofanna voru um 70, góð blanda ferðasala sem höfðu selt Ísland lengi og þekktu svæðið því vel og aðila sem voru nýir í faginu. Allir höfðu mikinn áhuga á að fá upplýsingar um Suðurland og allt sem það hefur upp á að bjóða.