Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Samstarf um markaðssetningu á Íslandi

Íslandsstofa og markaðsstofur landshlutanna hafa skrifað undir samninga um samvinnu við erlenda markaðssetningu á Íslandi sem áfangastað. Íslandsstofa og markaðsstofurnar hafa unnið náið saman um árabil en núna hefur samstarfið verið formgert í samræmi við skilgreint hlutverk nýrra áfangastaðastofa sem markaðsstofurnar sinna í sínum landshlutum. Samningurinn er til þriggja ára frá 2021 til og með 2023.

Íslandsstofa og markaðsstofur landshlutanna hafa skrifað undir samninga um samvinnu við erlenda markaðssetningu á Íslandi sem áfangastað. Íslandsstofa og markaðsstofurnar hafa unnið náið saman um árabil en núna hefur samstarfið verið formgert í samræmi við skilgreint hlutverk nýrra áfangastaðastofa sem markaðsstofurnar sinna í sínum landshlutum. Samningurinn er til þriggja ára frá 2021 til og með 2023.

„Markaðssetning á áfangastaðnum Íslandi er samvinnuverkefni,“ segir Pétur Óskarsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu. „Ísland hefur undanfarin ár markað sér stöðu sem þekktur áfangastaður en það hefur ekki gerst af sjálfu sér og við erum í stöðugri samkeppni við aðra áfangastaði. Árið um kring vinnur fjöldi fólks að því að vekja athygli á Íslandi til að skapa viðskiptatækifæri fyrir íslensk fyrirtæki í ferðaþjónustu og tengdum greinum í öllum landshlutum. Við erum lítil í stóra samhenginu en með því að leggja saman krafta okkar náum við slagkrafti og þessir samningar eru liður í að efla gott samstarf.“

Unnið er eftir stefnumótun stjórnvalda um að tryggja sjálfbæran vöxt ferðaþjónustu um allt land í krafti gæða og fagmennsku og að Ísland verði leiðandi í sjálfbærri þróun árið 2030. Meðal verkefna eru upplýsingamiðlun, samskipti við fjölmiðla og áhrifavalda, ráðgjöf um efni á vef og markaðsverkefni, uppbygging á sameiginlegum myndabanka og fleira.

„Markaðsstofur landshlutanna og Íslandsstofa hafa verið í miklu og góðu samstarfi síðastliðin ár þar sem áherslan hefur verið á erlenda markaðssetningu,“ segir Dagný H Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Suðurlands. Þessi samningur gerir okkur kleift að formgera samstarfið og þegar fjármagn fylgir verkefnum verður slagkrafturinn meiri. Það er mikið fagnaðarefni að stíga þetta skref og hlökkum við á Markaðsstofunum til að vinna sameiginlega að markaðssókn fyrir landið allt.

Í tengslum við samningana heimsóttu fulltrúar Íslandsstofu alla landshlutana til að hitta hagsmunaaðila og kynna sér starfsemi og stöðu ferðaþjónustunnar. Markaðsstofurnar stilltu upp dagskrá og sáu um leiðsögn um sína landshluta.

Íslandsstofa er samstarfsvettvangur atvinnulífs, hagsmunasamtaka, stofnana og stjórnvalda um stefnu og aðgerðir til þess að auka útflutningstekjur og hagvöxt. Meðal hlutverka Íslandsstofu er að leiða og hafa yfirsýn yfir ímyndar-, kynningar- og markaðsstarf fyrir Ísland sem áfangastað; sinna greiningarvinnu og miðlun gagna; efla og viðhalda viðskiptatengslum á erlendum mörkuðum; og vera gátt að Íslandi sem áfangastað. Markaðsstofur landshlutanna sinna álíka hlutverki hver fyrir sinn landshluta. Þar er skilgreind sérstaða og áherslur í innviðauppbyggingu og markaðsmálum fyrir hvert svæði og sett fram í áfangastaðaáætlun. Markaðsstofurnar gegna því mikilvægu hlutverki við að miðla upplýsingum og markaðsefni frá sínu svæði til Íslandsstofu og veita ráðgjöf ásamt því að taka þátt í ýmsum markaðsverkefnum á grundvelli þessa samnings.