Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Markaðsstofur landshlutanna funda á Vestfjörðum

Markaðsstofur landshlutanna áttu sameiginlegan vinnufund dagana 12.-13.nóvember. Að þessu sinni var það Markaðsstofa Vestfjarða sem sá um skipulag fundarins.
Hópmynd frá fundi Markaðsstofa landshlutanna á Vestfjörðum.
Hópmynd frá fundi Markaðsstofa landshlutanna á Vestfjörðum.

Markaðsstofur landshlutanna áttu sameiginlegan vinnufund dagana 12.-13.nóvember. Staðfundir sem þessi hafa verið haldnir með reglulegu millibili síðustu ár til að efla samstarf á milli landshlutanna. Að þessu sinni var það Markaðsstofa Vestfjarða sem sá um skipulag fundarins.

Göldrótt stemning á Ströndum

Á Hólmavík fékk starfsfólk markaðsstofanna kynningu á þróun áfangastaðarins Vestfjarða með áherslu á Strandir. Staðarímynd Stranda hefur lengi verið samofin göldrum, þar hefur Galdrasýning verið starfrækt frá því um aldamótin 2000, brugghúsið á Hólmavík ber nafnið Galdur, og áform eru um hóteluppbyggingu sem nýtir einnig þennan óáþreifanlega menningararf til ímyndarsköpunar.

Hlýjar móttökur á Laugarhóli

Eftir góðar móttökur í Hólmavík hélt hópurinn á Hótel Laugarhól. Þar eiga gestir kost á að upplifa frekari galdrastemningu með heimsókn í Kotbýli Kuklarans, burstabæ í nágrenni hótelsins. Hjónin Viktoría Rán Ólafsdóttir og Hlynur Gunnarsson reka Hótel Laugarhól í dag. Þau hafa lagt heilmikla vinnu í að gera staðinn að heils-árs gististað og uppskorið árangur síns erfiðis. Mikill sómi er að staðnum en þar er sundlaug, lítill veislustaður og góð aðstaða fyrir hópa. Forstöðumenn markaðsstofanna áttu fund seinnipart dags á Laugarhóli en verkefnastjórar nýttu tímann til að kynnast betur og ræða ýmis mál.

Gagnagrunnur og gervigreind

Seinni dagurinn fór í fundarhöld. Helen Hannesdóttir, forstöðumaður þróunar- og þjónustusviðs hjá Ferðamálastofu, hóf daginn á umræðum um uppfærslu gagnagrunns Ferðamálastofu, en vefsíður markaðsstofanna byggja flestar á þeim grunni. Að því loknu tók Tryggvi Freyr Elínarson hjá Datera við með hagnýta fræðslu um gervigreindarbestun vefsíðna. Í lok fræðslunnar var ljóst að með markvissri vefþróun geta vefir markaðsstofanna orðið öflug og áreiðanleg upplýsingalind fyrir gervigreindina til framtíðar. Verkefnastjórar fóru út fullir innblásturs og með nýja þekkingu í verkfærakistunni sem nýtist beint inn í starfsemi Markaðsstofanna.

Eflir samtakamátt markaðsstofanna

Ferðamálastofa styður við þessa reglulegu vinnufundi Markaðsstofa landshlutanna, sem hafa styrkt samtakamátt þeirra til muna síðustu ár. Við þökkum samstarfsfólki okkar á Vestfjörðum fyrir vel skipulagða ferð og hlýjar mótttökur eins og Vestfirðingum sæmir.