Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Vitaleiðin - Ný ferðaleið á Suðurlandi

Vitaleiðin er verkefni sem er búið að vera í undirbúningi hjá Markaðsstofu Suðurlands í samvinnu við sveitarfélögin Árborg og Ölfus og aðra hagsmunaaðila á svæði leiðarinnar. Fjöldi aðila kom saman að mótun verkefnisins og leiðarinnar sem er nú orðin ákjósanlegur og spennandi kostur á suðurströndinni, hvort sem er fyrir innlenda eða erlenda ferðamenn. Nafngift verkefnisins kemur til vegna vitanna, Selvogsvita og Knarrarósvita sem marka upphaf og enda leiðarinnar. Þá er þriðji vitinn á leiðinni, Hafnarnesviti í Þorlákshöfn.
Vitaleiðin - verkefnastjórar og hagaðilar Vitaleiðarinnar
Vitaleiðin - verkefnastjórar og hagaðilar Vitaleiðarinnar

Síðastliðið ár hefur Markaðsstofa Suðurlands unnið í samvinnu við sveitarfélögin Árborg og Ölfus að nýrri ferðaleið við suðurströndina, Vitaleiðin. Einnig voru aðrir hagsmunaðilar á svæðinu kallaðir að borðinu við kortlagningu leiðarinnar. Fjöldi aðila kom saman að mótun verkefnisins og leiðarinnar sem er nú orðin ákjósanlegur og spennandi kostur á suðurströndinni, hvort sem er fyrir innlenda eða erlenda ferðamenn.

Hugmyndin að Vitaleiðinni kom upp fyrir um ári, en Markaðsstofa Suðurlands er að vinna að verkefnum í tengslum við ferðaleiðir og því tilvalið að horfa á vitana sem marka Vitaleiðina, Knarrarósvita og Selvogsvita, svo er Hafnarnesviti einnig á leiðinni, og vinna Vitaleiðina. Haft var samband við sveitarfélögin Árborg og Ölfus til að vinna verkefnið með markaðsstofunni sem tekið var vel í, árið síðar er Vitaleiðin orðin að veruleika.

Vitaleiðin nær frá Selvogi í Ölfusi að Knarrarósvita í Árborg og er leiðin um 45-49 km löng, eftir því hvort ekið er eftir vegi eða strandlínan sé nýtt. Vitaleiðin beinir athyglinni að þorpunum og svæðinu við sjóinn. Á Vitaleiðinni heimsækir þú þrjá bæi, hver með sína sérstöðu, Þorlákshöfn, Eyrarbakka og Stokkseyri. Vitaleiðin dregur fram þá miklu sögu og menningu sem er til staðar á svæðinu sem og fjölda ólíkra upplifunarmöguleika í afþreyingu og náttúru.

Nafngiftin kemur vegna vitanna, Selvogsvita og Knarrarósvita sem marka upphaf og enda leiðarinnar, að auki er þriðji vitinn á leiðinni Hafnarnesviti í Þorlákshöfn. Eitt það skemmtilega við Vitaleiðina er að hún bíður upp á fjölbreytta ferðamáta, hvort sem þú ert göngugarpur, hlaupari, hestamaður, hjólreiðamaður eða vilt bara heimsækja helstu staðina og aka veginn. Á Vitaleiðinni getur þú valið þér þinn uppáhalds ferðamáta og farið eins hægt eða hratt og hentar þér. Vegleiðin er um 45 km löng en ef þú velur að ferðast á umhverfisvænni hátt með því að ganga, hlaupa, hjóla eða fara ríðandi á hestum þá er leiðin um 49 km meðfram strandlengjunni.

Það er margt að skoða og upplifa á Vitaleiðinni, fyrir utan vitana þrjá þá er svæðið ríkt af sögu, náttúru og dýralífi. Gæða veitingastaði má finna í hverju þorpi, hver með sína upplifun. Söfnin eru fjölbreytt og mörg. Einnig er fjölbreytni í náttúru og dýralífi. Mikið fuglalíf er í á svæðinu sem og fjölbreytileiki í fjörum og ströndum. Ef litið er út á hafið má mögulega sjá seli vera að spóka sig.

Íslendingar og aðrir ferðamenn eru hvattir til að upplifa Vitaleiðina og allt það sem hún hefur upp á að bjóða og heimsækja svæðið í sumar njóta gæða veitingastaða, fjölbreyttrar afþreyingar, gistingu og heimsækja fjölbreytt söfn og gallerý sem eru til staðar á Vitaleiðinni. Tilvalin ferðaleið fyrir alla nánari upplýsingar um leiðina má finna á www.south.is/vitaleidin.