Fara í efni

Vel heppnað málþing og uppskeruhátíð Markaðsstofu Suðurlands

Verðlaunahafar 2014
Verðlaunahafar 2014

Markaðsstofa Suðurlands stóð fyrir fjölsóttu málþingi í Vík í Mýrdal þann 7. nóvember sl. um framtíð ferðaþjónustunnar á Suðurlandi.  Farið var yfir helstu áskoranir sem svæðið stendur frammi fyrir ásamt hugmyndum um mögulegar leiðir til að takast á við þær.

Ásborg Arnþórsdóttir ferðamálafulltrúi Uppsveita Árnessýslu flutti erindi sem bar yfirskriftina „Staðan í dag og horft til framtíðar“ og Björg Árnadóttir frá South Iceland Adventure var með innlegg sem hét „Hver er þörf ferðaþjónustuaðila? Hvað þarf að gera?“.

Þá var rætt um mismunandi aðkomu og hlutverk hagsmunaaðila, bæði Markaðsstofunnar og annara sem koma beint og óbeint að ferðaþjónustu á Suðurlandi.  Að loknum erindum voru umræður þar sem þátttakendum gafst kostur á að vinna saman í hópum og ræða mismunandi málefni og leggja fram sitt álit.

Málþingið heppnaðist vel og mun niðurstaða þess m.a.  vera nýtt til að vinna að stefnumótun fyrir Markaðsstofuna í framhaldinu. Að loknu málþingi buðu heimamenn uppá örferð um Mýrdalinn þar sem gestir fengu m.a. að skoða nýjan veitingastað, smakka fýl, skoða glerlist og hlýða tóna frá ungum tónlistarmanni og bónda úr Mýrdalnum, sem tók lagið um borð í Skaftfelling. Vakti þetta mikla lukku og viljum við þakka heimamönnum fyrir frábærar mótttökur.

Um kvöldið var svo haldin Uppskeruhátíð ferðaþjónustufyrirtækja á Suðurlandi. Heiðursgestur kvöldsins var Ragnheiður Elín Árnadóttir, ráðherra ferðamála. Þá var sú nýbreytni þetta árið að Markaðsstofan veitti tvær viðurkenningar til „Sprota ársins“ og fyrir „Framlag til ferðaþjónustu“.

Viðurkenningu Markaðsstofu Suðurlands fyrir Sprota ársins fékk Svarta fjaran í Reynisfjöru fyrir eftirtektarverða nýjung á Suðurlandi. Svarta fjaran opnaði síðastliðið sumar og er glæsilegt framtak heimamanna sem sáu þörfina fyrir að bæta þjónustu og aðstöðu á vinsælum ferðmannastað. Við hönnun húsnæðisins var hugsað um að það myndi falla sem best að umhverfinu og tókst vel til.

Þá hlaut Ásborg Ósk Arnþórsdóttir viðurkenningu Markaðsstofunnar fyrir ötul störf í þágu ferðaþjónustu á Suðurlandi. Ásborg hefur starfað sem ferðamálafulltrúi Uppsveita Árnessýslu í fjölmörg ár og þekkja all flestir hennar góða starf. Hún hefur veitt fyrirtækjum og einstaklingum ómældan stuðning og ráðgjöf í gegnum árin. Þá er Ásborg var einn af hugmyndasmiðunum á bakvið Markaðsstofu Suðurlands og hefur verið mjög mikilvægur hlekkur í öflugu markaðsstarfi á Suðurlandi, innanlands sem og erlendis. Þá hefur hún verið ötull talsmaður allra tegunda ferðaþjónustu og meðal annars verið mjög virk í Samtökunum um sögutengda ferðaþjónustu og talað mikið fyrir mat úr héraði.

Á meðfylgjandi mynd má sjá verðlaunahafanna, Ásborgu Ósk Arnþórsdóttur og eigendur Svörtu fjörunnar í Reynisfjöru.