Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Úthlutun úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða 2024

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og ferðamálaráðherra, úthlutaði nýverið tæpum 120 milljónum króna til framkvæmda á áfangastöðum á Suðurlandi, úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða 2024. Stærsta verkefnið er uppbygging gönguleiðar og áningarstaða við Múlagljúfur.
Mynd frá Icebike Adventures - icebikeadventures.com
Mynd frá Icebike Adventures - icebikeadventures.com

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og ferðamálaráðherra, úthlutaði nýverið tæpum 120 milljónum króna til framkvæmda á áfangastöðum á Suðurlandi, úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða 2024. Stærsta verkefnið er uppbygging gönguleiðar og áningarstaða við Múlagljúfur.

Um 540 milljónum úthlutað til innviða ferðaþjónustu
Styrkjum er úthlutað úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða einu sinni á ári. Um er að ræða samkeppnissjóð með umsóknarfrest að hausti en 125 umsóknir bárust í sjóðinn að þessu sinni. Þetta árið er tæpum 540 milljónum úthlutað til verkefna um land allt, þar af 120 milljónum til verkefna á Suðurlandi.

Eftirfarandi verkefni hlutu styrk á Suðurlandi:

Haukafell
Skógræktarfélag Austur Skaftafellssýslu hlýtur rúmar tíu milljónir króna til að tryggja grunnþjónustu, salernisaðstöðu og öruggt neysluvatn í Haukafelli, Hornafirði. Haukafell, sem er á áfangastaðaáætlun Suðurlands, er vinsælt útivistar- og göngusvæði með tjaldsvæði.

Múlagljúfur
Sveitarfélagið Hornafjörður hlýtur 90 milljónir króna til uppbyggingar gönguleiðar og áningarstaða við Múlagljúfur. Umferð ferðamanna við Múlagljúfur hefur vaxið gífurlega hratt á undanförnum árum og mikilvægt er að bregðast fljótt og vel við aukinni aðsókn. Staðurinn er á áfangastaðaáætlun Suðurlands og snýr verkefnið að því að tryggja öryggi ferðamanna og vernda náttúru á stílhreinan hátt í takt við umhverfið.

Dalakofi-Landmannahellir
Hestamannafélagið Geysir hlýtur 660 þúsund krónur í merkingu reiðleiðar frá Dalakofa að Landmannahelli. Þessi fallega reiðleið fer um viðkvæmt land og er framkvæmdinni ætlað að sporna við skemmdum á náttúrunni.

Heimaklettur
Vestmannaeyjabær hlýtur rúmar ellefu milljónir til endurbóta á gönguleiðinni upp á Heimaklett. Leiðin nýtur sívaxandi vinsælda og þessi framkvæmd er mikilvægur liður í því að auka öryggi, hlífa gróðri og stýra umferð göngufólks.

Ölfusdalir
Fjallahjólafyrirtækið Icebike adventures ehf. Hlýtur tæpar sjö milljónir til umbóta í Ölfusdölum. Þetta er annar áfangi framkvæmda en fyrirtækið hefur tekið að sér gerð- og breikkun stíga, kortlagningu, merkingar og upplýsingagjöf á svæðinu. Með framtakinu aukast útivistarmöguleikar í Ölfusdölum fyrir fólk á öllum aldri, í öruggu umhverfi og í sátt við náttúru.

Hægt er að skoða úthlutanir fyrri ára í stafrænni kortasjá með því að smella hér. Þar má einnig kynna sér fjármagn sem veitt hefur verið til áfangastaða úr Landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum.

Við óskum styrkþegum og Sunnlendingum til hamingju með úthlutanirnar sem munu auka öryggi ferðamanna á leið sinni um landið, vernda viðkvæma náttúru og bæta náttúruupplifun á áfangastöðum landsins.