Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Kynningarferðir í tenglsum við VestNorden

Ferðasýningin VestNorden var haldin 17.-19. október í Reykjavík. Mikill fjöldi þátttakenda var á sýningunni þetta árið og þótti hún heppnast einstaklega vel. Í aðdraganda VestNorden stóð Markaðsstofa Suðurlands fyrir kynningarferð um Suðurland.

Markaðsstofan lagði fram kynningarferð í upphafi sumars fyrir VestNorden og var fín skráning í ferðina. Alls voru 16 ferðasalar sem tóku þátt í ferðinni og komu þeir víðsvegar að: Bretlandi, Bandaríkjunum, Noregi, Finnlandi, Svíþjóð, Mexíkó, Danmörku, Þýskalandi, Belgíu og Hollandi.

Ferðin fékk nafnið "Caves and Culinary of South Iceland", en eins og nafnið gefur til kynna snerist hún um mat og hella á Suðurlandi. Fyrsti viðkomustaður var Jarðhitasýning ON við Hellisheiðarvirkjun þar sem Laufey Guðmundsdóttir tók á móti okkur ásamt öðru starfsfólki og veitti hópnum innsýn í virkjun og nýtingu jarðvarma á Íslandi á aðgengilegan hátt með myndum og margmiðlunartækni. Næsta stopp var Raufarhólshellir þar sem frábær starfsmaður fylgdi okkur um þennan heillandi helli. Eftir þetta héldum við á Selfoss og fórum í  matarferð um Selfoss á vegum Selfoss Town Tours. Í matarferðinni fræddumst við um nýja miðbæinn og sögu Selfoss, kíktum í Skyrland og borðuðum loks ljúffengan mat á Messanum. Það var smá pása frá mat þegar hópurinn hafði innritað sig á Stracta Hótel Hellu, en þar fór virkilega vel um hópinn. Kvöldinu vörðum við svo í Hlöðueldhúsinu í Þykkvabæ þar sem hópurinn spreytti sig í flatkökugerð og bjó til forréttinn sinn sem var allur úr hráefnum sem Dana og Vilhjálmur, eigendur Hlöðueldhússins rækta sjálf. Á meðan aðalrétturinn og eftirrétturinn var snæddur, söng Dana og spilaði á allskonar hljóðfæri, hópnum til mikillar skemmtunar.

Eftir góða næturdvöl á Stracta hélt hópurinn í Hellana við Hellu (Caves of Hella), þar sem ýmsum tilgátum var varpað fram um aldur hellana og gerð þeirra á meðan gestirnir smökkuðu Flóka-Viskí frá Eimverk og bjór frá brugghúsinu Álfi í Þykkvabæ. Með drykkjunum var boðið upp á ljúffenga reykta og grafna gæs, hangikjöt og hreindýr. Eftir þetta var haldið á Hvolsvöll þar sem Eldfjalla- og jarðskjálftasýningin Lava Centre var heimsótt. Gunnar Aron kynnti sýninguna fyrir gestum með glæsibrag. Eftir þessar frábæru heimsóknir hélt hópurinn til Víkur í hamborgara, bjórsmökkun og kynningu á Smiðjunni Brugghús. Það var örlítill frjáls tími í Vík áður en hópurinn hélt í íshellaferð með KatlaTrack þar sem hópurinn fékk einstaka upplifun í Mýrdalsjökli. Eftir ferðina var boðið upp á pizzur hjá Black Crust Pizzeria áður en ferðalöngunum var ekið aftur til Reykjavíkur.

Ferðin tókst einstaklega vel til og mikil ánægja var á meðal ferðasalanna sem tóku þátt. Margir sögðu að þetta hefði verið ein besta kynningarferð sem þau höfðu farið í og klárlega upplifun sem þau munu seint gleyma. 

Hópurinn fékk góða kynningu á Suðurlandi enda var hvert tækifæri nýtt til að benda hópnum á þjónustu og aðdráttarafl á leiðinni þó ekki gæfist tími til að stoppa alls staðar. Markaðsstofa Suðurlands vill þakka fyrirtækjunum sem tóku þátt í þessu verkefni kærlega fyrir frábærar móttökur og gestrisni, án ykkar væri ekkert af þessu hægt.