Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Ferðamenn ánægðir með öryggi og ástand áfangastaða

Markaðsstofa Suðurlands hefur staðið fyrir mánaðarlegum morgunfundum samstarfsfyrirtækja í vetur. Efni síðasta fundar vetrarins var Ferðamenn á Suðurlandi 2023. Vala Hauksdóttir fór yfir talnaefni síðasta árs frá Ferðamálastofu og greindi gögn niður á Suðurland eftir því sem unnt var.

Markaðsstofa Suðurlands hefur staðið fyrir mánaðarlegum morgunfundum samstarfsfyrirtækja í vetur. Efni síðasta fundar vetrarins var Ferðamenn á Suðurlandi 2023. Vala Hauksdóttir fór yfir talnaefni síðasta árs frá Ferðamálastofu og greindi gögn niður á Suðurland eftir því sem unnt var.

Þjóðverjar dvelja lengur
Lítill munur er á meðalaldri og heimilistekjum ferðamanna eftir því hvaða landshluta þeir heimsækja. Meðalaldur ferðamanna á Suðurlandi er 39 ár, og flest hafa tekjur í eða yfir meðallagi. Tæpur þriðjungur ferðamanna á Íslandi er búsettur í Bandaríkjunum, og þar á eftir fylgir Bretland. Fjöldi ferðamanna segir þó ekki alla söguna því þegar dvalarlengd gesta er skoðuð eru það Þjóðverjar, Frakkar og Spánverjar sem koma í lengstu ferðirnar til Íslands.

 

Herbergjanýting fór upp í 92%
80% ferðamanna heimsóttu Suðurland í Íslandsferð sinni en aðeins 55% gistu innan landshlutans. Herbergjanýting á hótelum á Suðurlandi var almennt hærri en annars staðar á landinu árið 2023. Hæst fór herbergjanýtingin í 92% í ágúst. Í desember lækkaði nýtingin um 8% á milli ára og má telja líklegt að jarðhræringarnar í Grindavík hafi haft áhrif.

 

Merki um styttri bókunarfyrirvara
Yfir þriðjungur ferðamanna sögðust hafa fengið hugmyndina um Íslandsferð innan við hálfu ári fyrir komu. Svipað hlutfall bókaði ferðina 1-3 mánuðum fyrir brottför. Markaðsstofa Suðurlands hefur heyrt á ýmsum samstarfsfyrirtækjum að bókunarfyrirvari virðist vera að styttast. Það verður því forvitnilegt að skoða sömu tölfræði að ári og fylgjast með þróuninni.

Ánægja með öryggi og ástand áfangastaða
Þeir gestir sem komu á Suðurland í Íslandsferð sinni voru almennt ánægðir með öryggisþætti og ástand vinsælla ferðamannastaða. Spurt var um upplifun gesta á níu ólíkum atriðum varðandi upplifun á Íslandi en sá þáttur sem hlaut lægstu einkunn var upplifun af fjölda ferðamanna á áfangastöðum. Fólk búsett í Mið-Evrópu var líklegra til að vera óánægt með fjölda ferðamanna, en íbúar Bretlandseyja létu ferðamannafjöldann síður trufla upplifunina. Mikill meirihluti gesta á Íslandi sögðu að ferðin hefði staðist væntingar eða jafnvel farið langt fram úr væntingum.

 

Helmingurinn ætlar að koma aftur á Suðurland
Mikill meirihluti gesta á Suðurlandi var í sinni fyrstu ferð til Íslands árið 2023. Við brottför töldu þrír af hverjum fjórum ferðamönnum sem heimsótt höfðu Suðurland líklegt að þeir kæmu aftur til Íslands. Um helmingur ætlar að heimsækja Suðurland aftur, en um 60% stefna á að heimsækja Norðurland, Austurland eða Vestfirði í næstu ferð. Færri sögðust ætla að heimsækja Vestfirði og Reykjanes.

Gögnin eru að mestu unnin upp úr flugvallakönnun Ferðamálastofu. Hægt er að lesa meira um ferðamenn á Íslandi hér: https://www.ferdamalastofa.is/is/gogn/utgafur/utgefid-efni/ferdavenjur/konnun-ferdamalastofu-medal-erlendra-ferdamanna-2023

Einnig bendum við á markhópagreiningu Íslandsstofu frá árinu 2022: https://islandsstofa.cdn.prismic.io/islandsstofa/5c8bc5c6-2896-40dd-a94e-3d6bfd869d23_Target+Groups+Analysis+for+Iceland+Tourism+2022.pdf