Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Ísland er betri áfangastaður en geimurinn

Íslandsstofa hefur sett af stað nýja herferð - Mission: Iceland. Herferðin er hluti af markaðsaðgerðum Ísland – saman í sókn. Í herferðinni eru tilvonandi geimferðamenn hvattir til að spara pening og heimsækja Ísland frekar. Um er að ræða markaðs- og kynningarverkefni fyrir áfangastaðinn Ísland á völdum erlendum mörkuðum í því skyni að styrkja ímynd Íslands, auka eftirspurn og viðhalda samkeppnisstöðu íslenskrar ferðaþjónustu.
Sveinn Ólafur Gunnarsson í hlutverki geimfara sem ber saman kosti þess að ferðast til Íslands og fer…
Sveinn Ólafur Gunnarsson í hlutverki geimfara sem ber saman kosti þess að ferðast til Íslands og ferðast til geimsins

Herferðin Mission Iceland gengur út á að bera saman geiminn og Ísland þar sem samanburðurinn er iðulega Íslandi í vil. Til að mynda er mun ódýrara að ferðast til Íslands, nóg er af súrefni og maturinn er ekki frostþurrkaður. 

„Við höfum séð auknar vinsældir geimferðalaga undanfarin tvö ár, og sumir telja jafnvel að þetta sé framtíðar áfangastaður hinna ofur-ríku. Við viljum setja þessa tískubylgju í samhengi og benda á að það er hægt upplifa ójarðneska fegurð hér á Íslandi og margt annað sem er einstakt í heiminum,“ er haft eftir Sigríði Dögg Guðmundsdóttur, fagstjóra ferðaþjónustu hjá Íslandsstofu, í tilkynningu.

Ásamt myndbandi sem gert var fyrirherferðina var auglýsingaskilti sent út í geim með aðstoð veðurloftbelgs þar sem Ísland er kynnt fyrir geimferðafólki. Skila­boðin á skilt­inu eru ein­föld: Ísland er betri áfangastaður en geim­ur­inn og mögulega sé verið að sækja vatnið yfir lækinn. 

Á heimasíðu verkefnisins er hægt að notast við reiknvél þar sem hægt er að reikna út hvað hægt sé að gera á Íslandi fyrir þær upphæðir sem annars kostar að fara út í geim sem ferðamaður. Til að mynda er hægt að leigja alla bíla landsins og fara í hvalaskoðun án hvíldar í þrjú ár. 

Leikstjórn og framleiðsla myndbandsins var í höndum Allan Sigurðssonar og Hannesar Þórs Arasonar, í samstarfi við auglýsingastofuna Peel og bandarísku auglýsingastofuna SS+K sem er hluti af M&C Saatchi samsteypunni. Framkvæmd verkefnisins er í höndum Íslandsstofu.

Myndbandið má sjá hér