Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Fjölmargir áhugaverðir staðir eru á svæðinu og ber hæst að nefna Vestmannaeyjarnar sjálfar, Seljalandsfoss, Skógafoss, Dyrhólaey, Reynisfjöru og Fjaðrárgljúfur. Auk náttúrustaðanna má einnig finna staði sem sögu og menningu svæðisins.

Lakagígar og Laki
Gígaröð á Síðumannaafrétti, um 25 km á lengd. Liggur hún frá móbergsfjallinu Hnútu til norðausturs og endar uppi í Vatnajökli. Gígaröðin dregur nafn af móbergsfjallinu Laka sem slítur hana sundur nálægt miðju. Svæðið er innan Vatnajökulsþjóðgarðs og opið ferðamönnum allan ársins hring en það ræðst af snjóalögum og veðurfari hversu lengi vegir eru opnir. Venjulega eru þeir opnir upp úr miðjum júní og eitthvað fram eftir hausti. Aðeins má aka þá vegi sem merktir eru á kortum þjóðgarðsins, aðrir vegir og slóðar á svæðinu eru lokaðir fyrir almennum akstri. Hér sem annars staðar er stranglega bannað að aka utan vega. Yfir sumarið bjóða landverðir upp á fræðslugöngur á svæðinu. Upplýsingar um göngurnar má finna á vefsíðu þjóðgarðsins, á samfélagsmiðlum og í gestastofum. Lakagígar gusu árið 1783 hinu mesta hraungosi er sögur fara af á jörðinni. Kallaðist það Síðueldur eða Skaftáreldar. Gosið hófst hinn 8. júní. Gaus fyrst úr suðurhluta sprungunnar, sunnan Laka, þar sem hét Varmárdalur. Var hann þá algróinn. Varmárdalur er nú fullur af hrauni. Hraunflóðið féll niður gljúfur Skaftár og fyllti það en rann síðan austur með Síðuheiðum og breiddist svo út á láglendinu. Annar hraunstraumur féll austur í farveg Hverfisfljóts og rann niður í Fljótshverfi. Gígaröðin við Hnútu er í um 500 m hæð y.s. en um 650 m hæð y.s. nyrst. Alls eru gígaopin talin vera um 100. Gígarnir eru af margvíslegri gerð og lögun. Sumir eru þeir kringlóttir, aðrir aflangir, stundum meira eða minna brotnir. Í barmi flestra þeirra er skarð sem hraunið hefur runnið út úr. Víða standa gígarnir svo þétt að hver grípur í annan en annars staðar verður alllangur spölur milli þeirra. Lakagígar eru það sem kallað er gjallgígaröð. Efni gíganna er svart og rautt gjall eða þeir eru úr hraunkleprum eða jafnvel eldborgir úr samfelldri hraunsteypu. Stærð þeirra er einnig misjöfn. Hinir hæstu eru um 100 m háir en langflestir milli 20 og 50 m en nokkrir þó enn lægri. Nú eru flestir þeirra að meira eða minna leyti þaktir þykkri breiðu af grámosa og hinir fegurstu tilsýndar. Ganga ber um þá með gætni því að mosinn er afar viðkvæmur. Lakagígar eru, hvernig sem á þá er litið, ein stórfelldasta furðusmíð í náttúru landsins. Þeir voru friðlýstir árið 1971. Margir vísindamenn hafa kannað Lakagíga. Fyrstur á þessar slóðir varð Magnús Stephensen konferensráð, árið 1784. Samdi hann hina fyrstu ritgerð um gosið og ferð sína til eldstöðvanna. Næstur var Sveinn Pálsson læknir árið 1794 og gerði hann fyrstu nákvæmu lýsinguna af hluta eldstöðvanna og umhverfi þeirra. LakiKollóttur móbergshnjúkur (818 m y.s.) á Síðumannaafrétti. Laki liggur í gígaröðinni miklu sem við hann er kennd. Eldsprungan gengur gegnum fjallið og sér hennar greinileg merki. Auk aðalsprungunnar eru þar smásprungur er lítils háttar hraunspýjur hafa fallið frá. Af Laka er gott að glöggva sig á allri gígaröðinni bæði norður og suður svo og á landslagi afréttarins. 
Langisjór, Fögrufjöll, Grænifjallgarður
Stöðuvatn innan Vatnajökulsþjóðgarðs suðvestan undir Vatnajökli, rúmlega 20 km langt og 2 km á breidd þar sem breiðast er. Hæð yfir sjó er 670 m, mesta dýpi 73,5 m og flatarmál 25,7 km². Langisjór liggur frá norðaustri til suðvesturs, aðkrepptur af háum fjöllum, Tungnaárfjöllum að norðvestan en Fögrufjöllum að suðaustan. Ganga fjöllin víða með þverhníptum klettahöfðum fram í vatnið sem er allvogskorið. Norðaustan að Langasjó er Vatnajökull en Sveinstindur fyrir suðvesturenda vatnsins. Svo má kalla að allt í kringum Langasjó séu gróðurlaus öræfi og var hann því öllum ókunnur fram á seinni hluta 19. aldar. Þorvaldur Thoroddsen lýsti fyrstur manna Langasjó til hlítar en hann kom þangað fyrst 1889 og aftur 1893 og gaf honum nafnið sem við hann hefur fest. Þá gekk skriðjökull niður í efri enda vatnsins en nú er drjúgur spölur frá jökulröndinni að vatnsendanum. Í Langasjó eru margar eyjar. Landslag er þar allt stórbrotið og fagurt í formum. Afrennsli Langasjávar er um Útfall, rúma 3 km frá innri vatnsenda og fellur það úr vatninu í fossi og síðan fram í Skaftá. Hvergi sér til Langasjávar fyrr en komið er að honum. Útfallið er einnig torfundið. Fannst það fyrst árið 1894 er Fögrufjöll voru smöluð fyrsta sinni. Fært er fjallabílum að Langasjó á sumrin og er þá farið af Fjallabaksvegi nyrðri við Herðubreið. Fagurt útsýni gefst yfir Langasjó frá Sveinstindi.
Eldgjá
Eldgjá er u.þ.b. 70 km löng gossprunga, breidd hennar er víða um 600 m og dýptin allt að 200 m. Síðast gaus á henni skömmu eftir landnám, í kringum árið 934. Talið að gossprungan nái innundir Mýrdalsjökul og austur á móts við Lambavatn skammt vestan við Laka. Úr Eldgjá hafa runnið mikil hraun niður um Landbrot og Meðalland og til sjávar við Alviðruhamra í Álftaveri. Hraunin eru talin þekja 800 km² og er það mesta flatarmál hrauns á sögulegum tíma á jörðinni, þ.e. eftir síðustu ísöld.  Ófærufoss er einstaklega fallegur foss í ánni Nyrðri-Ófæru og fellur í tveimur fossum ofan í Eldgjá. Yfir neðri fossinum var steinbogi til ársins 1993 en hann hrundi þá í ána í vorleysingum en áin fellur um gjána. Eldgjá er innan Vatnajökulsþjóðgarðs. Yfir sumarið bjóða landverðir upp á fræðslugöngur á svæðinu. Upplýsingar um göngurnar má finna á vefsíðu þjóðgarðsins, á samfélagsmiðlum og í gestastofum. Vegir að Eldgjá eru fjallvegir sem aðeins eru færir fjórhjóladrifnum bílum og sumir aðeins breyttum jeppum. Víða er lausamöl og grýttir eða holóttir kaflar og sums staðar þarf að fara yfir dragár eða jafnvel jökulár sem geta vaxið fyrirvaralítið og orðið varhugaverðar eða ófærar. Svæðið er opið ferðamönnum allan ársins hring en það ræðst af snjóalögum og veðurfari hversu lengi vegir eru opnir. Venjulega eru þeir opnir upp úr miðjum júní og eitthvað fram eftir hausti. Aðeins má aka þá vegi sem merktir eru á kortum þjóðgarðsins, aðrir vegir og slóðar á svæðinu eru lokaðir fyrir almennum akstri. Hér sem annars staðar er stranglega bannað að aka utan vega.
Fjaðrárgljúfur
Fjaðrárgljúfur er 6 kílómetra frá þjóðvegi 1, beygt er inn á veg F206. Fært er á fólksbílum að Fjaðrárgljúfri allt árið. Fjaðrárgljúfur er stórbrotið og hrikalegt, um 100 metra djúpt og um tveir kílómetrar að lengd. Gljúfrið er veggbratt, örlítið hlykkjótt og þröngt. Berggrunnurinn í Fjaðrárgljúfri er að mestu móberg frá kuldaskeiðum ísaldar og telst um tveggja milljóna ára gamalt. Fjaðrá á upptök sín í Geirlandshrauni og fellur fram af heiðarbrúninni í þessu mikilfenglega gljúfri þar til hún skilar sér niður í Skaftá. Fjaðrá er bergvatnsá og ljóst er aðhún hefur breyst mikið í tímans rás. Fjaðrárgljúfur er á náttúruminjaskrá. Myndun FjaðrárgljúfursTalið er að Fjaðrárgljúfur hafi myndast við lok síðasta jökulskeiðs eða fyrir um níu þúsund árum. Þegar jökullinn hörfaði myndaðist lón í dalnum á bak við bergþröskuld en afrennslisvatn úr lóninu rann þar sem nú er Fjaðrárgljúfur. Jökulár frá jaðri jökulsins báru fram mikið af seti í lónið en áin sem rann frá því gróf sig niður í þröskuldinn og ofan í móbergið framan við hann. Þegar vatnsfallið var sem stærst var það öflugt við gljúfurgröftinn. Að því kom að stöðuvatnið fylltist af framburði jökulvatnanna og afl árinnar dvínaði. Þegar stöðuvatnið var orðið fullt hóf áin að grafa sig í setlögin sem hún hafði áður skilið eftir sig í dalnum. Malarhjallar beggja vegna í dalnum segja til um upphaflegu hæð og staðsetningu stöðuvatnsins og djúp rás í móberginu ber þögult vitni um afl náttúrunnar. Örnefnið Fjaðrá hefur oft vafist fyrir mönnum en telja sumir að hér hafi eitt sinn verið fjörður og hafi áin borið nafnið Fjarðará í upphafi. Á þessu eru skiptar skoðanir og kannski búa ferðalangar yfir betri útskýringu á nafninu?  Upplýsingar um fleiri staði í nágrenninu: www.katlageopark.is
Skaftáreldahraun
Hraunflóð það hið mikla sem rann úr Lakagígum á Síðumannaafrétti er Síðueldur brann árið 1783, oft nefnt Eldhraun af heimamönnum. Skaftáreldahraun er talið 565 km² en rúmtak þess er um 12 km³. Lengd fram í Meðalland er um 60 km. Gígaröðin, Lakagígar, er um 25 km á lengd. Gefa þessar tölur þó fremur óljósa mynd af því hversu feikilegt hraunflóð þetta var. Er það talið hið mesta sem runnið hefur á jörðinni í einu gosi síðan sögur hófust. En auk hraunflóðsins kom upp allmikil gjóska. Barst askan um mikinn hluta landsins en öskulag varð hvergi þykkt, jafnvel ekki í nærsveitum. Öskuryk barst yfir til meginlands Evrópu og mistur sást í lofti austur til Altaifjalla í Asíu. Hér á landi fylgdi eitur og ólyfjan öskufallinu svo að gróður sölnaði og varð eitraður. Brennisteinsfýlu svo mikla lagði af gosmekkinum að illvært varð úti.  Skaftáreldahraun breiddist út um mikið svæði uppi á Síðumannaafrétti, umhverfis eldstöðvarnar, en féll síðan í tveimur meginstraumum til byggða. Vestari kvíslin, Ytra-Eldhraunið, kom úr gígum sunnan Laka og féll niður farveg Skaftár. Fyllti hraunflóðið djúpt gljúfur er Skaftá rann í milli Síðu og Skaftártungu. Talið hefur verið að gljúfrið væri 37 km langt og 150-200 m djúpt. Síðan rann hraunið hlíða á milli í dal þeim er verður milli Skálarfjalls og Skaftártunguhálsa og breiddi úr sér á láglendinu til suðurs og austurs. Alls tók hraunflóðið af nær 20 býli í Skaftártungu, á Út-Síðu, í Landbroti og Meðallandi. Flest þeirra byggðust aftur en stórlega skert. Mjög góður staður til að horfa yfir Skaftáreldahraunið er stuttu áður en komið er austur að Kirkjubæjarklaustri. Þar eru bílastæði og upplýsingaskilti. 
Systrafoss
Systrafoss heitir fossinn þar sem Fossá fellur úr Systravatni fram af fjallsbrúninni fyrir ofan Kirkjubæjarklaustur. Neðarlega í gilinu er gríðarstór steinn, Fossasteinn, sem hrapaði úr fjallinu í miklu þrumuveðri um 1830. Falleg gönguleið er upp á brúnina og þar er hægt að ganga 5 km hringleið, Ástarbrautina. Gengið er uppi á fjallsbrúninni til austurs, niður af heiðinni og að Kirkjugólfinu. Uppi á fjallinu er er stórbrotið útsýni. Þar er líka listaverkið Gullmolinn sem minnir okkur á litlu heimarafstöðvarnar sem gáfu fólki ljós og yl á tuttugustu öldinni.  Skógurinn við Systrafoss er frá því 1945. Skógarstígurinn er hringleið í skóginum þar sem einn viðkomustaðurinn er Sönghellir. Við skógarstíginn er merkt hæsta tré á Íslandi, sitkagreni sem er nærri því að verða 30 metra hátt. 
Laufskálavarða
Laufskálavarða er hraunhryggur með vörðuþyrpingum umhverfis, milli Hólmsár og Skálmar, við þjóðveginn norðan byggðar í Álftaveri. Hver sá sem fór í fyrsta sinn um Mýrdalssand skyldi hlaða vörðu sér til fararheilla. Við Laufskálavörðu er útsýnispallur uppi á þaki lítils þjónustuhúss þar sem sést vel til Mýrdalsjökuls og eldstöðvarinnar Kötlu. 
Dyrhólaey
Dyrhólaey er friðland. Á friðlýstum svæðum þarf að gæta að verndun samhliða því að tryggja almannarétt. Sum svæði eru lokuð hluta úr ári til verndunar dýralífi, önnur eru lokuð allt árið vegna viðkvæmra náttúruminja, umferð um sum svæði er takmörkuð þannig að fólk þarf að tilkynna sig inn á svæði og enn önnur opin allt árið um kring. Ítarlegri upplýsingar um DyrhólaeyHöfði (um 110 m y.s.) með þverhníptu standbergi í sjó fram, en aflíðandi brekka er landmegin. Suður úr Dyrhólaey gengur mjór klettatangi, Tóin. Gegnum hana er gat og geta bátar siglt gegnum það þegar sjór er ládauður. Lítilli flugvél hefur verið flogið í gegnum gatið.  Af Dyrhólaey er mikil útsýn. Vesturhluti hennar, Háey, er úr móbergi en austurhlutinn úr grágrýti. Talið er að Dyrhólaey hafi myndast á hlýskeiði seint á ísöld við gos í sjó og hafi gosið hagað sér líkt og Surtseyjargosið. Viti var reistur á höfðanum 1910 en endurbyggður 1927. Dyrhólaey var friðlýst 1978.  Útræði var áður frá Dyrhólaey en er löngu aflagt. Komið hefur til orða að gera höfn við Dyrhólaey og hafa verið gerðar þar frumrannsóknir. Norðan og austan við eyna er allstórt lón, Dyrhólaós, útfall gegnum Eiði er austan við eyjarhornið. Þegar útfallið teppist, sem stundum verður í stórbrimum, flæðir vatn yfir engjar og þarf þá stundum að moka ósinn út.  Í sjónum úti fyrir Dyrhólaey eru nokkrir klettadrangar, Dyrhóladrangar. Bæði þar og í Dyrhólaeyjarbjargi er mikið af fugli og mikið varp. Hæstur þessara dranga er Háidrangur (56 m y.s.). Hjalti Jónsson kleif hann árið 1893 og þótti sýna við það mikla dirfsku og fræknleik. Dyrhólaey er gjarnan nefnd Portland af sjómönnum og breskir togarasjómenn nefndu hana Blow Hole. Byggðin norðvestur af Dyrhólaey nefnist Dyrhólahverfi.
Reynisfjara, Reynisfjall og Reynisdrangar
Reynisfjall (340 m y.s.) stendur vestan Víkur í Mýrdal. Reynisfjall er móbergsfjall sem myndast hefur við eldgos undi rjökli á kuldaskeiði Ísaldar. Í Reynisfjalli má finna óregluleg lög móbergs, bólstrabergs ásamt stuðluðum innskotslögum og bergæðum. Hamrarnir eru þverhníptir en víða grónir hvönn og öðrum þroskamiklum gróðri.Upp á Reynisfjall liggur akvegur sem hernámsliðið gerði upphaflega á heimsstyrjaldarárunum en var endurbættur seinna. Hann mun vera einn brattasti fjallvegur á Íslandi. Á Reynisfjalli var starfrækt lóranstöð um skeið. Sunnan í Reynisfjalli að vestan eru sérkennilegar stuðlabergsmyndanir og hellar, Hálsanefshellir. Ekið er að þeim suður Reynishverfi. Reynisdrangar eru bergdrangar sem rísa 66 metra upp fyrir sjávarmál. Við Reynisfjöru er Hálsanefshellir ásamt mjög fögrum stuðlabergsmyndum. Gæta skal varúðar við Reynisfjöru þar sem öldurnar geta verið varasamar og auðveldlega gengið langt inn á land og hrifsað með sér fólk út á sjó. 
Hjörleifshöfði
Hjörleifshöfði er 221 metra hár móbergsstapi á suðvestanverðum Mýrdalssandi. Talið er að stapinn hafi myndast hefur í síðasta kuldaskeiði ísaldar þegar gosið hefur undir ísaldarjöklinum. Líklega hefur hann verið eyja í sjó á fyrri tíðum en orðin landfastur á landnámsöld með fjörð er nefndist Kerlingarfjörður sem fór inn með höfðanum. Í dag er hann hringaður af svörtum söndum sem borist hafa með endurteknum Kötluhlaupum.  Sunnan við Hjörleifshöfða er tangi kenndur við Kötlu og nefnist Kötlutangi. Sá myndaðist úr stóru gosi árið 1918 þar sem gífurlegt magn setefnis barst með stóru jökulhlaupi frá Kötlu. Tanginn er syðsti punktur meginlandsins Íslands þar sem fyrir gos átti Dyrhólaey þann heiður. Hjörleifshöfði fær nafn sitt frá landnámsmanninum Hjörleifi Hróðmarssyni, fóstbróður Ingólfs Arnarsonar. Fóru þeir tvískipa á leið sinni til Íslands en urðu viðskila þar sem Ingólfur hafði vetursetu við Ingólfshöfða en fóstbróðirinn á Hjörleifshöfða. Lífið elti Hjörleif ekki á dvöl sinni, en hann var drepinn ásamt mönnum sínum af írskum þrælum sem fylgdu þeim til landsins. Flúðu þeir til Vestmannaeyja með konurnar þar sem Ingólfur fann þá og drap. Á höfðanum er haugur einn og hleðsla þar sem Hjörleifur er talinn grafinn.  Búið var á Hjörleifshöfða fram að árinu 1936 á bæ staðsettum upp á syðri hluta höfðans, en sá var fluttur þangað eftir gosið í Kötlu 1721 sem eyddi gamla bænum. Gamla bæjarstæðið er staðsett við áfangastað Kötlu Jarðvangs þegar komið er að Hjörleifshöfða vestan megin.  
Mýrdalsjökull og Katla
Jökulhvel (1493 m y.s.) norður af austasta hluta Rangárvallasýslu og vestasta hluta Vestur-Skaftafellssýslu. Mýrdalsjökull er um 595 km². Frá honum teygjast ýmsir skriðjöklar og sá sem gengur lengst niður og liggur syðst er Sólheimajökull en til austurs er Kötlujökull mestur. (Oft ranglega nefndur Höfðabrekkujökull). Undan Mýrdalsjökli falla ýmis meiri háttar jökulvötn, þar á meðal ýmsar þverár Markarfljóts, ennfremur Jökulsá á Sólheimasandi, Múlakvísl og Hólmsá (Leirá). Í Mýrdalsjökli suðaustanverðum eru eldstöðvar Kötlu. Nýjustu rannsóknir þykja benda til að undir jöklinum hafi verið eldkeila sem fallið hefur í sjálfa sig og þá myndast geysimikið ketilsig, um 10 km í þvermál, líkt og Askja í Dyngjufjöllum. Talið er að Katla sé ekki ein gosstöð heldur séu fleiri gosstöðvar, jafnvel sprungur í sigkatlinum og að Kötlugjá sé dýpsta skarðið út úr katlinum.
Skógafoss
Skógafoss (60m) er talinn meðal fegurstu fossa landsins. Í Skógaá, ofan Skógafoss, eru a.m.k. 20 aðrir fossar, margir fallegir, og það er auðgengt meðfram ánni og gljúfrum hennar. Þrasi Þórólfsson var landnámsmaður að Skógum. Hann nam land milli Jökulsár og Kaldaklofsár og var sagður fróður og forn í lund. Sagt er, að hann hafi fólgið gullkistu í helli bak við Skógafoss og að það glitri í gull Þrasa gegnum vatnsúðann, þegar sólin skín á fossinn. Margir hafa reynt að finna kistuna og einu sinni tókst að koma bandi á hring hennar, en aðeins hringurinn kom, þegar togað var í. Þessi hringur var notaður á kirkjuhurðina í Skógum og er nú meðal dýrgripa Skógasafns.
Seljalandsfoss
Foss í Seljalandsá þar sem hún steypist fram af hömrum Vestur-Eyjafjalla norðan við Seljaland.Seljalandsfoss er á mörkum milli Seljalands og Hamragarða, einn af hæstu fossum landsins og horfir vel við á leið austur um Landeyjar. Gengt er á bak við fossinn. Mörgum þykir fossinn fegurstur í síðdegissól.
Fimmvörðuháls
Fimmvörðuháls nefnist svæðið milli Eyjafjallajökuls og Mýrdalsjökuls. Leiðin yfir hálsinn frá Skógum yfir í Þórsmörk er ein allra vinsælasta gönguleið landsins, en hún er um 22km löng og hækkun um 1000m. Á hálsinum er skáli ferðafélagsins Útivistar sem er glæsilegur og vandaður. Rétt sunnan við hálsinn er Baldvinsskáli, en hann er í mun verra ásigkomulagi en mikið notaður af göngufólki sem áningarstaður. Leiðin er sérstaklega fögur ef gengið er frá suðri til norðurs enda óvanalega mikið af vatnsföllum í Skógá og útsýn falleg niður í Þórsmörk þegar komið er yfir hálsinn. Jöklarnir ná saman á hálsinum svo gengið er að nokkru leyti í snjó. Ásamt kjarrlendi Þórsmerkur og grösugum heiðunum sunnan til gerir það að verkum að leiðin er mjög fjölbreytt, en getur þó einnig verið varasöm því skjótt skipast veður í lofti í nálægð við jökla. Eldgosið á Fimmvörðuhálsi hófst aðfaranótt 21. mars 2010 og stóð til 12. apríl 2010. Þá bárust fregnir af upphafi eldgoss með tilheyrandi öskufalli í eða við Eyjafjallajökul og komu upplýsingarnar frá Lögreglunni á Hvolsvelli. Gosið var norðarlega í Fimmvörðuhálsi, rétt austan við Eyjafjallajökul. Gos þetta flokkast sem hraungos. Hraunrennslið úr gossprungunni myndaði hæsta hraunfoss í heimi sem rennur niður í gil í grennd við gossprunguna. Hraunfossinn var um 200 metra hár.
Gluggafoss
Merkjárfossar eru í Fljótshlíð um 21 km frá Hvolsvelli. Í ánni Merkjá eru nokkrir fossar og þeirra þekktastur er Gluggafoss en hann er um 40 m hár. Efri hluti klettanna sem hann fellur um er móberg en neðri stallurinn er úr blágrýti. Nafn sitt dregur fossinn af því að vatnið hefur sorfið mjúkt móbergið og myndað göng, vatnið spýtist svo út um gangnaopin, „gluggana“ í fossinum neðanverðum. Efst í fossinum fellur hluti vatnsins undir steinboga. Þar sem bergið er mjúkt breytist fossinn nokkuð á einum mannsaldri. Um 1947 sást til að mynda lítið af efri hluta fossins því þar féll hann í göngum og var því að mestu hulinn bergi. Bergið var með þremur opum eða gluggum hverju upp af öðru og sást í hvítan vatnsflauminn í gegn um þessa glugga. Um neðsta gluggann bunaði svo vatnið út í fallegum boga en í vatnavöxtum fossaði vatnið út úr öllum þremur gluggunum. Miklar breytingar urðu á Gluggafossi í kjölfar Heklugossins 1947. Var það talið vera vegna þess að um 20 cm lag af vikri féll hér í gosinu, vikurinn barst í ána og hefur að líkindum sorfið klettana hraðar niður en ella. Hurfu göngin að mestu en eru nú óðum að ná fyrri reisn. Gluggafoss er friðlýstur sem náttúruvætti. Á flötinni fyrir neðan fossinn héldu Rangæingar upp á 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar árið 1974. Nálægt eru uppeldisstaðir tveggja af merkustu skáldum landsins, þeirra Bjarna Thorarensen og Þorsteins Erlingssonar. Upplýsingar um fleiri staðir í nágrenninu: www.katlageopark.is
Eyjafjallajökull
Eyjafjallajökull er í röð hærri jökla landsins (1651 m y.s.). Eyjafjallajökull er eldkeila, gerð úr hraun- og gosmalarlögum á víxl og liggur norður af Eyjafjöllum. Fjalllendið eða eldkeilan, sem Eyjafjallajökull hvílir á, hefur verið að hlaðast upp frá miðri ísöld og fram á nútíma. Í toppi keilunnar er sigketill, 3-4 km í þvermál. Raðast hæstu tindar fjallsins á barma ketilsins sem opinn er til norðurs og þar flæðir Gígjökull fram úr katlinum allt niður á láglendi í dal Markarfljóts. Hæsti tindurinn er nefndur Hámundur. Goðasteinn heitir klettur á skálarbarminum sunnanverðum. Eyjafjallajökull er um 100 km² og því sjötti stærsti jökull hér á landi. Tveir skriðjöklar falla úr Eyjafjallajökli að norðanverðu, niður á jafnsléttu. Er hinn fremri (vestari) Gígjökull eða Falljökull en hinn innri nefnist Steinsholtsjökull. Lón eru við jökulsporðana og heitir Jökullón við Gígjökul en Steinsholtslón við Steinsholtsjökul. Eyjafjallajökull gaus 1821-1823. Þá braust flóð fram undan skriðjökli úr norðanverðum jöklinum. Það stóð aðeins yfir í þrjár klukkustundir en var ægilegt meðan á því stóð. Flæddi það yfir allt láglendi hlíða á milli þannig að hvergi örlaði á steini milli Eyjafjalla og Fljótshlíðar. Um miðjan janúar 1967 hrundi samfelld bergspilda úr austurhlið Innstahauss í Steinsholti niður á Steinsholtsjökul. Bergspildan var um 15 milljónir m³ og mesta hæð brotstálsi.Megineldstöðin Eyjafjallajökull hefur verið tiltölulega virk á nútíma eða síðustu 8000 ár. Síðast gaus í eldstöðinni árið 2010 en þá mynduðust u.þ.b. 0,27 km3 af gjósku og 0,023 km3 af hrauni. Eyjafjallajökull er 1651 m hár og er hann á Austurgosbeltinu og telst megineldstöðin vera sjálfstætt eldstöðvakerfi. Efst í fjallinu er 2,5 km breið, ísfyllt askja. Efri hluti megineldstöðvarinnar er að mestu hulin jökli sem er allt að 200 m þykkur.  Gosmökkurinn í gosinu 2010 var úr svo fíngerðri ösku, að hann gat haft slæm áhrif á þotuhreyfla og var flugleiðum og flugvöllum um stóran hluta Evrópu lokað í um vikutíma uppúr miðjum apríl. Þó var flogið frá Keflavík til Ameríku á þessum tíma. Þetta voru mestu takmarkanir á flugi í heiminum frá seinna stríði.   
Surtsey
Surtsey, á heimsminjaskrá UNESCO frá júlí 2008Yngsta eyja við Ísland, syðst Vestmannaeyja og önnur að stærð, um 1,9 km². Að morgni 15. nóvember 1963 örlaði fyrir eyju þar sem Surtsey er nú, en árla morguns daginn áður urðu menn varir við stórkostleg eldsumbrot úr hafinu þar sem áður hafði verið um 130 m dýpi. Sprengigosin úr gígnum fyrstu mánuðina voru stórkostleg á að líta og í kröftugustu sprengingunum náði grjótflugið úr gígnum allt að 2500 m hæð en gosmökkurinn komst mest í 9 km hæð. Í aprílbyrjun 1964 hættu sprengigosin en hraungos hófst og stóð óslitið til vors 1965. Mestri hæð náði Surtsey 174 m y.s. Surtseyjargosið er mest allra sjávargosa sem orðið hafa við Íslandsstrendur frá því er sögur hófust en sagnir eða heimildir eru til um 10-20 slík gos. Í maí 1965 hófst síðan gos í sjó 600 m austar og hlóðst þar smám saman upp eyja, Syrtlingur. Hún var í september 1965 um 70 m há og 650 m á lengd en brotnaði niður í brimi í október og er þar nú neðansjávarhryggur sem eyjan var áður. Á jólunum 1965 tók síðan að gjósa um 900 m suðvestan Surtseyjar og hlóðst þar upp eyja sem kölluð var Jólnir. Gos hætti í Jólni í ágúst 1966 og í lok október 1966 var eyjan horfin. Hinn 19. ágúst 1966 opnaðist gossprunga á Surtsey og flæddi hraun úr henni í sjó. Þessu gosi lauk í júní 1967 og var Surtseyjargosinu þar með lokið.  Jafnskjótt og gosið hófst tóku vísindamenn að kanna það, hegðun þess og áhrif. Síðan gosinu lauk hefur rannsóknum verið haldið áfram í eyjunni, bæði til að kanna hversu fer um jarðlög eyjarinnar sjálfrar en ekki síður á landnámi lífvera, dýra og plantna, og hvernig þær hafast við. Bann við ferðum manna, annarra en vísindamanna, var sett til að hægt væri að fylgjast með því hvernig náttúran sjálf annast landnám lífveranna og hversu þær dafna á nýju og lífvana landi. Hafa vísindamenn dvalið þar tíma og tíma og var hús reist á eyjunni í því skyni árið 1965. Stofnað var Surtseyjarfélag til að hafa stjórn á og annast rannsóknir í Surtsey. Hefur það gefið út skýrslur um rannsóknirnar auk þess sem einstakir fræðimenn hafa skrifað fjölda ritgerða um þær.