Fara í efni

Dreymir þig um að hlaupa einn í víðáttunni þar sem er ekkert manngert, hlusta á fugla og lækjarnið í laut eða hjóla eftir gömlum kindagötum? Í Skaftárhreppi eru margar gönguleiðir þar sem ekki er von á öðru fólki, fáfarnir slóðar á jeppum og fjöldi slóða sem henta vel fyrir hjólafólk. Þeir sem eiga kajak eða bát geta fundið vötn og ár sem henta til siglinga.

Gisting:
Hótel, gistihús, smáhýsi, tjaldstæði og sumarhús. Fjölbreyttir möguleikar fyrir hópa. Hægt að leigja minni gististaði þar sem hópurinn er einn eða vera á stærri hótelum sem bjóða alla þjónustu.

Afþreying:
Í Skaftárhreppi eru ótakmarkaðir möguleikar til að ganga í nokkra daga með tjald eða gista í skálum. Þekktar gönguleiðir eru t.d. frá Sveinstindi að Hólaskjóli eða Strút, um Lakasvæðið, um Eldgjársvæðið, inn að Grænalóni í Fljótshverfi, upp með Hólmsá á Álftaversafrétti og m.fl.  Það er boðið upp á reiðhjólaferðir og gönguferðir með leiðsögn í allt sumar.  Skaftárhreppur er draumastaður fyrir hlaupara. Margir gamlir slóðar bjóða upp á langar hlaupaleiðir þar sem hlauparinn er einn með sjálfum sér tímunum saman.  Á Kirkjubæjarklaustri er gestastofa Vatnajökulsþjóðgarðs og þar er hægt að kaupa kort, bæklinga og bækur og til að finna góðar leiðir.  Á Klaustri er, sundlaug með tveimur heitum pottum, líkamsrækt og þar er líka íþróttasalur til leigu.

Áhugaverðir staðir:  
Hálendið er heillandi fyrir þá sem vilja hreyfa sig og njóta náttúrunnar á sama tíma. Náttúruperlurnar Eldgjá, Langisjór, Laki, Mælifellssandur eru á hálendinu, fjörurnar eru ævintýri og þar er gaman að skokka eða fara í strandblak. Staðir sem allir verða að þekkja eru Fjaðrárgljúfur, Dverghamrar, Eldhraunið, Laufskálavörður, Kirkjugólfið á Kirkjubæjarklaustri, Systrafoss, Stjórnarfoss, Systrastapi.

Matur:
Margir veitingastaðir bjóða upp á grænmetisrétti eða þrírétta máltíðir með öllu tilheyrandi. Nokkrir veitingastaðir bjóða upp á rétti úr heimabyggð t.d.  bleikju, lambakjöt og nautakjöt.

Ef þú ert að leita að stað til að hreyfa þig úti alla daga, sjá eitthvað nýtt á hverjum degi og njóta náttúrunnar, þá er Skaftárhreppur staðurinn.

Kirkjubæjarklaustur

AÐ VERA OG NJÓTA - EKKI FARA OG ÞJÓTA

Gestastofa og upplýsingamiðstöð Vatnajökulsþjóðgarðs á Kirkjubæjarklaustri, Skaftárstofa
Upplýsingamiðstöð ferðamanna er staðsett í Félagsheimilinu Kirkjuhvoli á Kirkjubæjarklaustri. Upplýsingamiðstöðin er rekin af  Vatnajökulsþjóðgarði í samstarfi við Skaftárhrepp, Kirkjubæjarstofu og Frið og frumkrafta. Við Skaftárstofu byrjar skemmtilegur fræðslustígur fyrir fjölskylduna sem endar við sundlaugina á Kirkjubæjarklaustri. Sýning um mosann – Mosar um Mosa frá Mosum til Mosa Stuttmyndir:Eldgosið í Grímsvötnum 2011Vestursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs Opnunartímar gestastofu Þátttakandi í VAKINN - gæða og umhverfiskerfi íslenskrar ferðaþjónustu.
Sundlaugin Kirkjubæjarklaustri
Eina sundlaugin með útsýni á foss úr heita pottinum ! Íþróttamiðstöðin á Kirkjubæjarklaustri er í miðju þorpsins þar sem einnig er Kirkjubæjarskóli á Síðu. Í Íþróttamiðstöðinni er sundlaug með heitum potti og vaðlaug, tækjasalur og íþróttasalur. Íþróttasalurinn er til útleigu. Vinsamlegast hafið samband í síma 487 4656. Opnunartímar og gjaldskrá á klaustur.is