Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Matarauður Suðurlands

Matarauður Suðurlands er matartengt verkefni hjá Markaðsstofu Suðurlands unnið í samvinnu við Matarauð Íslands.

Suðurland er auðugt að fjölbreyttu hráefni, hvort sem er af sjó eða landi og styrkir verkefnið ekki aðeins stoðir undir ferðaþjónustuna heldur einnig landbúnaðinn og sjávarútveginn. Með því að draga enn betur fram þær matarhefðir sem eru og hafa verið á Suðurlandi, ásamt því að kortleggja þá matvælaframleiðslu sem á sér stað á Suðurlandi, er komin heildræn mynd yfir þann fjölbreytileika matarauð sem landshlutinn hefur upp á að bjóða. Með kortlagningu á þessu er hægt að vinna meira og markvissara í vöruþróun og nýsköpun í matvælaframleiðslu sem og ímyndaruppbyggingu svæðisins.

Á síðustu öld hefur íslensk matvælaframleiðsla og neysla breyst mikið, margir hefðbundnir réttir dottið út og nýjir komið inn. Framboð er orðið allt annað og fjölbreyttara áður fyrr, samgöngur og varðveisla matvæla betri og breytingar á búsetu gerir það að verkum að erfitt er að tengja margar hefðir við eitt ákveðið svæði.

Fjölmarga veitingastaði má finna á Suðurlandi sem margir hverjir sérhæfa sig í staðbundnu hráefni, allt frá hverabökuðu rúgbrauði til girnilegra tómatarétta og drykkja. Hungraðir ferðalangar geta átt von á því að finna áhugaverða veitingastaði í húsakynnum sem hafa fengið nýtt hlutverk. Veitingastaðir í gróðurhúsi, gömlu fjósi eða hlöðu eru dæmi um slíkt.

Hér er búið að kortleggja veitingastaði sem hægt er að finna á Suðurlandi: 

Matarhefðir

Landfræðileg lega landsins mótar að mestu leiti matvælaframleiðslu Íslands. Hér er temprað rakt sjávarloftslag og mikill munur á birtu eftir árstíðum. Landkostir eru misjafnir eftir svæðum, til dæmis vegna veðurfars, fjarlægð frá sjó og aðgengi að undirlendi og skapar því hverju svæði sérstöðu bæði í matarræði og framleiðslu. Einnig hafa hlunnindi, hefðir og saga þar mikið að segja. Margir tengja ákveðin matvæli við sérstaka staði, til dæmi humar og Höfn eða lundi og Vestmannaeyjar. Nú til dags er reynt að ýta enn meira undir slíkar hefðir með matarhátíðum. Þannig er hægt að efla ákveðnar hefðir og draga fram þá matvælaframleiðslu sem er á hverjum stað og mikilvægi hennar.