Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Viðurkenningar fyrir framlag til ferðaþjónustu og sprota ársins 2024

Markaðsstofa Suðurlands hefur veitt fyrirtækjum og einstaklingum viðurkenningar fyrir vel unnin störf í ferðaþjónustu á Suðurlandi árlega allt frá árinu 2014.
Hlynur og Ólöf veittu viðurkenningunni sprota ársins viðtöku og eru hér ásamt Ragnhildi framkvæmdast…
Hlynur og Ólöf veittu viðurkenningunni sprota ársins viðtöku og eru hér ásamt Ragnhildi framkvæmdastjóra Markaðsstofunnar.

Markaðsstofa Suðurlands hefur veitt fyrirtækjum og einstaklingum viðurkenningar fyrir vel unnin störf í ferðaþjónustu á Suðurlandi árlega allt frá árinu 2014.
Annars vegar veitir Markaðsstofan viðurkenningu fyrir Sprota ársins, sem er veitt fyrir árangursríka og lofandi nýsköpun í ferðaþjónustu, og hins vegar fyrir framlag til ferðaþjónustu sem veitt er fyrir ötult starf til margra ára í þágu ferðaþjónustu á Suðurlandi.

Sproti ársins 2024

Viðurkenninguna Sproti ársins 2024 hlaut Sviðið á Selfossi.

Sviðið hlaut viðurkenninguna fyrir að auðga menningarlíf á Suðurlandi fyrir íbúa jafnt sem gestkomandi. Sviðinu hefur á undraskömmum tíma tekist að stimpla sig inn sem vettvang fyrir samkomur, tónleika og fjölbreyttar sýningar með metnaðarfullum viðburðum allt árið um kring. Með viðburðum skapast aukin eftirspurn eftir gistingu, vöru og þjónustu í nærumhverfinu og styður Sviðið þannig við þróun Selfoss sem áfangastaðar ferðamanna. Við hlökkum til að fylgjast með starfinu áfram næstu árin og óskum þeim góðs gengis.

Framlag til ferðaþjónustu 2024

Framlag til ferðaþjónustu 2024 hlutu Elías Guðmundsson og Vilborg Smáradóttir

Viðurkenninguna Framlag til ferðaþjónustu árið 2024 hlutu Elías Guðmundsson og Vilborg Smáradóttir fyrir uppbyggingu ferðaþjónustu í Mýrdalshreppi síðustu áratugi. Þau hafa sýnt áræðni, elju og framsýni, skapað fjölbreytt störf og lagt sitt af mörkum fyrir samfélagið. Frá því að þau og fleiri hófu öfluga uppbyggingu í Mýrdalnum hefur íbúafjöldi í Mýrdalshrepp margfaldast, með þeim tækifærum og áskorunum sem því fylgja. Elías rekur í dag fjölbreytta gistingu og veitingasölu, íbúðir og fleira í Vík. Markaðsstofan þakkar Elíasi og Vilborgu kærlega fyrir sitt framlag til samfélagsins og ferðaþjónustu á Suðurlandi.

Elías og Vilborg gátu því miður ekki verið viðstödd.