Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Þjórsárdalur – falin perla á Suðurlandi

Þjórsárdalur er gróðursæll og fallegur dalur í nágrenni við Gullna hringinn. Þar sameinast náttúrufegurð, menningarminjar og kyrrð sem gerir dalinn að áhugaverðum áfangastað fyrir bæði Íslendinga og erlenda gesti, sér í lagi þau sem kjósa að fara ótroðnari slóðir.

Þjórsárdalur býr yfir jarðfræðilegri sérstöðu, fágætu, sérstöku og fögru landslagi ásamt sérstökum náttúrufyrirbærum sem þar er að finna, þ.e. Gjánni, Háafossi, Granna og Hjálparfossi, ásamt þykkum gjóskulögum og þyrpingum gervigíga. 

Saga og minjar

Í Þjórsárdal má finna sögulegar minjar sem tengjast fyrstu búsetu á Íslandi. Þekktastar eru rústirnar af bænum Stöng sem fóru undir ösku í miklu eldgosi í Heklu árið 1104. Heklugosið færði byggðina í Þjórsárdal, þar á meðal Stöng, í eyði, ásamt u.þ.b. 20 öðrum bæjum. Árið 1939 fóru nokkrir norrænir fornleifafræðingar á stúfana og grófu nokkra þeirra upp, m.a. bæinn að Stöng, sem var mjög vel varðveittur undir þykku lagi af vikri. Árið 1974 var ákveðið að reisa Þjóðveldisbæinn, eftirlíkingu að miðaldabæ til að minnast 1100 ára búsetu í landinu. 

Þjóðveldisbærinn

Þjóðveldisbærinn í Þjórsárdal er því lifandi sýning á heimi löngu horfins samfélags. Bærinn er í alfaraleið og frá Þjórsárdalsvegi tekur aðeins um mínútu að ferðast 900 ár aftur í tímann.

 

Gjáin

Þjórsárdalur

Hjálparfoss

Náttúruperlur

Dalurinn er ríkur af fjölbreyttri náttúru. Þar eru margir fossar, meðal annars:

  • Háifoss, einn hæsti foss landsins, sem fellur niður í djúpt gljúfur.
  • Granni, liggur rétt austan við Háafoss
  • Hjálparfoss, tvískiptur foss í fallegu hraunumhverfi þar sem tveir straumar sameinast í kyrrlátri tjörn.

Gjáin er einnig vel þekktur áfangastaður í dalnum. Hún er gróskumikil gjá þar sem fossar, lindir, hraun og græn gróðurþekja mynda einstakt landslag. Stutt gönguleið liggur frá Stöng að Gjánni og er hún bæði aðgengileg og fjölskylduvæn.

Skógar og gróður

Þjórsárdalur er óvenjulegur fyrir það að þar má finna skóglendi sem gefur svæðinu sérstakan svip. Í Þjórsárdalsskógi hefur verið gróðursett birki, fura og greni og er þar gott að ganga eða njóta útivistar. Skógurinn myndar fallega andstæðu við hraun og öskusand sem einnig einkenna dalinn.

 

Gönguleiðir

Í dalnum eru fjölbreyttar gönguleiðir sem henta bæði þeim sem vilja stuttar og léttar göngur og þeim sem leita lengri ferða:

  • Gjáin – stutt og greið leið frá Stöng, hentug fyrir fjölskyldur. Auðveld ganga sem tekur um 30 mínútur að ganga (2 km fram og til baka)
  • Stöng að Háafossi – lengri ganga sem tekur 5–6 klukkustundir fram og til baka (u.þ.b. 10 km fram og til baka)
  • Hringleið um dalinn – miðlungslöng ganga sem tekur um 3 klukkustundir (um 8,5 km). Leiðin sameinar helstu náttúruperlur og býður upp á gott útsýni yfir landslagið 

Aðgengi og aðstaða

Þjórsárdalur er í um það bil eins og hálfs klukkustundar akstursfjarlægð frá Reykjavík. Farið er um þjóðveg 30 og þaðan inn á veg 32 sem liggur inn dalinn. Vegir að fossum og Gjánni eru að hluta grófir malarvegir og því er gott að vera á bíl sem hentar slíkum leiðum.

Í nágrenni við dalinn eru ýmsir gistimöguleikar, þar á meðal hótel, gistiheimili, sumarhús og tjaldsvæði.

Þjórsárdalur sameinar sögu, náttúru og kyrrð á einum stað. Þar má ganga að fornum rústum, upplifa skóga og hraun í bland og njóta útsýnis yfir fossa og gjár. Dalurinn er tilvalinn fyrir þau sem vilja upplifa fjölbreytta náttúru Suðurlands í rólegu umhverfi, fjarri fjölfarnari ferðamannastöðum.